Föstudagur 18.12.2009 - 12:54 - 2 ummæli

Þyngdartakmörk í háskólanámi

Í síðasta mánuði sögðu bandarískir fjölmiðlar frá því að háskóli þar í landi væri farinn að krefja nýnema, sem eru yfir ákveðnum þyngdarmörkum (BMI ≥30), um að léttast ellegar  standast sérstakt íþróttanámskeið, að öðrum kosti fái þeir ekki að útskrifast. Hafa þessar fregnir vakið heitar umræður um þær kröfur sem eðlilegt er að gera í tengslum við heilsu og þyngd. Hingað til hefur ekki tíðkast að íþróttir séu hluti af skyldunámi í háskóla, nema um sé að ræða námsbrautir sem sérstaklega beinast að íþróttum og hreyfingu.

Svo það má spyrja sig: Er eðlilegt að gerðar séu kröfur um líkamlega hreysti í háskólanámi, frekar en kröfur um reykleysi, hófdrykkju eða ábyrgt kynlíf? Hversu langt geta menntastofnanir teygt sig í því að heimta gott heilsufar af nemendum sínum? Og ef gera á slíkar kröfur, er réttlætanlegt að beina spjótum aðeins að afmörkuðum hópi með þyngdina sem viðmið? Hvað með þá sem lifa kyrrsetulífi á kóki og sígarettum? Hvað með þá sem eru í þyngri kantinum en eru í fínu formi? Ef fólk efast um að það sé hægt, þá má benda á að erfitt er að finna karlmann sem hefur einhvern vöðvamassa en er engu að síður í „kjörþyngd“. Kjörþyngdarbilið er varla nógu sveigjanlegt til þess að rúma stælta einstaklinga – sér í lagi karlmenn – sem verður til þess að margir lenda innan „ofþyngdarmarka“ og jafnvel innan „offitu“. Vigtin er lélegur mælikvarði á holdafar og enn lélegri mælikvarði á heilsufar. Svo af hverju skyldi vigtin vera notuð sem mælikvarði á það hverjir þurfa að taka heilsuna fastari tökum?

Þessi umræða hefur orðið til þess að átröskunarsamtök í Bandaríkjunum hafa tekið sig saman og sent út yfirlýsingu þar sem hvatt er til þess að horft verði til lífsvenja fremur en líkamsþyngdar við eflingu heilbrigðis. Bent er á að áhersla á holdafar ýti undir slæma líkamsmynd, fitufordóma og geti leitt til átraskana, þar sem fólk beiti ýmsum brögðum við að ná fram hinum „rétta“ líkamsvexti, sem mörg hver eiga ekkert skylt við heilsu eða vellíðan. Þá er bent á að barátta gegn offitu hafi því miður oft leitt til vanhugsaðra og varasamra aðgerða, sem gera lítið til þess að efla heilsu almennings, en valda hins vegar skaða á sjálfsmynd og virðingu þeirra sem eru yfir kjörþyngd. Þessu þurfi að bregðast við, því ekki er hægt að slíta líkamlega heilsu úr samhengi við andlegt og félagslegt heilbrigði.

Flokkar: Fitufordómar · Heilsa óháð holdafari · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (2)

  • Þetta er nú bara eitt það vitlausasta sem ég hef á ævinni heyrt, fólk fái ekki að útskrifast af því að það er ekki í nógu góðu formi. Ég hef heyrt mímörg dæmi um það að svokallaðir „jocks“ fái ekki að útskrifast einmitt af því að þeir eru í „ofgóðu“ formi eða þar að segja hafa eytt mun meiri tíma í íþrótta iðkun frekar heldur en lærdóminn. Mergkilegt að þeir þarna í bandaríkjunum séu bara núna farnir að snúa þessu við. Greinilega að sjá það eftir síðasta forseta þeirra að gáfnafar landands er ekki að skána þannig að það er alveg eins hægt að setja kröfurnar bara frekar á vigtina 😉

  • Jon Gretar

    Thad ma nu kannski lita a haskola i USA meira eins og menntaskola heima a Islandi, allavega grunnnamid. Og heima er folki meinad studentsprof ef thad spriklar ekki a gotum borgarinnar, thannig thetta er nu ekki mikid skarra heima.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com