Miðvikudagur 23.12.2009 - 12:01 - 3 ummæli

Jólabækurnar í ár

Fyrir þau ykkar sem viljið glöggva ykkur betur á hugmyndaheimi og fræðum líkamsvirðingar, þá fer hér á eftir listi yfir nokkrar frábærar bækur, sem hægt er að panta sér á netinu á aðeins örfáum mínútum… Gleðileg jól!

Wake Up – I’m Fat! er alveg stórkostlega skemmtileg ævisaga leikkonunnar Camryn Manheim, sem margir ættu að kannast við úr þáttunum The Practice. Hún er töff, fyndin og frábær og ætti að snarbreyta þeirri neikvæðu ímynd sem margir hafa af þéttvöxnum konum. Klárlega ein af mínum uppáhaldsbókum.

Hér útskýrir Dr. Linda Bacon hugmyndafræðina á bak við Heilsu óháð holdafari (Health At Every Size) og greinir frá rannsóknum sínum á þessu sviði. Mjög góð lesning fyrir þá sem eru að kynnast þessari hugmyndafræði og vilja vita meira. Það eina sem ég set spurningamerki við er hve mikil áhersla er lögð á „rétt“ mataræði í bókinni, en margar ábendingarnar eiga þó vissulega rétt á sér.

Þessi bók er ekki fræðileg en hún er mjög skemmtileg. Hér er á ferðinni kona sem stendur framarlega í mannréttindabaráttu feitra í Bandaríkjunum með kímni og kaldhæðni að vopni. Glaðleg, litrík og ögrandi bók sem prýða ætti hvert heimili og höfðar jafnt til ungra sem aldinna – dóttir mín hafði til dæmis mjög gaman af Venus af Willendorf dúkkulísunni, sem er að finna í bókinni…

Shadow on a tightrope er sannkallað manifesto baráttunnar gegn holdafarsmisrétti og áhugavert barn síns tíma. Skrifuð af róttækum femínistum, oft og tíðum lesbíum, undir lok áttunda áratugarins. Frábær söguleg heimild, ekki aðeins um upphaf andspyrnuhreyfingar feitra, heldur einnig um stemmingu og baráttuþrek þessa tíma. Algjör yndislestur.

Rethinking Thin. Gina Kolata er fastur penni hjá New York Times og fer á kostum í skrifum um megrun og þyngdarstjórnun. Kolata fylgist með þátttakendum í viðamikilli megrunarrannsókn og blandar við frásögnina einstaklega fróðlegum pistlum um eðli þyngdarstjórnunar sem ættu að útskýra af hverju það er svona erfitt að breyta líkama sínum til langframa. Lipurlega skrifuð og skemmtileg.

Losing It. Laura Fraser er ung blaðakona sem hefur verið föst í vítahring megrunar og líkamsangistar frá því hún var unglingur. Hún er löngu búin að reyna það á eigin skinni að megrun virkar ekki en ákveður að kafa ofan í myrkviði megrunariðnaðarins til þess að finna svar við því af hverju bisness sem selur ónýta vöru er einn sá arðbærasti í heimi. Einkar áhugaverð lesning.

Margar aðrar spennandi bækur eru auðvitað til eins og sjá má hér til hægri á síðunni…

Flokkar: Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (3)

  • Margar eigulegar og áhugaverðar bækur sem þú nefnir. Þegar gengið lagast fer ég kannski að panta bækur á ný að utan.
    Gleðileg jól Sigrún og takk fyrir frábæra pistla.

  • Dagný Daníelsdóttir

    Wake up- Im fat! er ædisleg!! ótrúlega fyndin og einlæg bók. Frábærlega skemmtileg lesning fyrir hvern sem er!!

  • Mér finnst ógeðslega fyndið að konan heiti Dr Linda Bacon 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com