Fimmtudagur 31.12.2009 - 13:32 - 8 ummæli

Skammarverðlaunin 2009

Nú þegar árið er að renna sitt skeið er við hæfi að líta yfir farinn veg og skoða hverjir hafa haldið uppi merkjum megrunardýrkunar og líkamsþráhyggju í samfélaginu. Hverjir eru það sem helst halda að okkur þeim boðskap að til þess að vera falleg eða heilbrigð þurfum við að vera grönn og stælt? Hverjir eru það sem helst halda því að okkur að gildi okkar sem manneskja felist í því hvernig við lítum út? Að til þess að hafa sjálfsvirðinguna í lagi þurfum við að uppfylla þrönga útlitsstaðla? Auðvitað koma margir til greina og þessi listi verður aldrei tæmandi. Á honum ættu að vera flest, ef ekki öll, líkamsræktarfyrirtæki, margir matsölustaðir, fataverslanir o.fl. Engu að síður eru það þessi vörumerki og fyrirtæki sem standa upp úr í mínum huga:

Kellogg’s Special K

Auglýsingar þessarar vöru gera sérstaklega út á útlitsdýrkun og megrunarhyggju undir formerkjum heilsu. Sem er algeng brella. Special K er sífellt sett í samhengi við betri lífsstíl og heilbrigði og þannig er búið að heilaþvo fólk til að trúa því að þetta sé hollustuvara. Sykurmagn Special K er þó mun meira og trefjamagn mun minna en margra annarra morgunkorna, sem gera þó minna af því að tengja sig við heilbrigði.

Egils Kristall

„Það sést hverjir drekka kristal“ segir allt sem segja þarf. Þeim tókst samt að toppa sig í nýlegum auglýsingum sem sýndu unga konu með beran, rennisléttan og eflaust fótósjoppaðan maga undir orðunum: „Kristall plús… ræktin kl. 6:30.“ Veit fólkið hjá Agli Skallagrímssyni ekki hve margar unglingsstúlkur þróa með sér átröskun við að reyna að ná fram einmitt þessu útliti eða er þeim alveg sama?

Fitness Sport

Fyrirtæki sem selur nær eingöngu vörur til að næra líkamsþráhyggju, þar á meðal stórhættuleg fitubrennsluefni. Þarf að segja meira?

Extra tyggigúmmí

Hver hefur ekki séð auglýsingarnar „Tyggðu burt lystina“? Það að svala nagandi matarlöngun með því að tyggja tyggigúmmí er dæmigerð hegðun meðal þeirra sem þjást af átröskun. Sjokkerandi að söluaðilar skuli í alvöru hafa notfært sér það sem auglýsingaslagorð.

Detox Jónínu Ben.

Þetta fyrirtæki sérhæfir sig í öfgamegrun á okurverði. Það er ótrúlegt, með tilliti til þess sem sagan hefur kennt okkur um langtímaáhrif skyndikúra, að enn skuli finnast risamarkaður fyrir svona húmbúkk, en með tilliti til þeirrar örvæntingar sem ríkir varðandi mat og þyngd, er þetta auðvitað mjög borðliggjandi. Fólk sem fer í skyndimegrun missir mikið magn af vökva og massa úr vöðvum, beinum og líffærum. Svo þyngist fólk yfirleitt hratt aftur en situr eftir tugum þúsunda króna fátækari. Skamm, skamm, skamm.

Flokkar: Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (8)

  • Gunnhildur Ólafsdóttir

    Gleðilegt ár og takk fyrir þessi frábæru skif þín um þetta málefni. Held að allir ofangreindu ættu að fá sinn skerf af skammarverðlaununum og margir fleiri til viðbótar.

  • Þakka fyrir fróðleg og djörf skrif (um málefni sem fáir aðrir þora að snerta á) árið 2009 og vonast til að þú haldir uppteknum hætti á nýju ári 🙂

    Áramótakveðja, Kolbrún

  • Gagarýnir

    Tek eftir að markaðslausnir á heilsufarsósiðum eru ekki til. Leiðin til betri heilsu er einmitt að sniðganga þann áróður. Það þurfa að kaupa eitthvað og éta til að léttast er vond sálarfræði. Að fara í ræktina og massa sig upp? Er ekki betra að labba í vinnuna á hverjum degi, eða hjóla.

  • Dagný Daníelsdóttir

    Trúi ekki mínum eigin augum…ad extra hafi notad tetta í auglýsingarherferd og ekkert fjadrafok hlotist tar af??? Basicly verid ad framhejfa eitt ad „trickum“ teirra sem tjást af átroskun! ótrúlegt!

  • Já .. er það ekki hin gullna regla „ef það er of gott til að vera satt … þá er það líklegast einmitt þannig?“ 😉

    Hef annað slagið rambað inn á bloggið þitt og haft gaman af að lesa 🙂 Langar svo í bækurnar sem þú bendir á – byrja á heimasíðunum og svo reyna að velja úr bók … sjáum til hvernig það gengur.
    En það er á hreinu að þú verður einn af bloggurunum sem ég kíki á reglulega =)

  • Svo sammála með Special K. Fæ grænar bólur þegar ég sé auglýsingarnar frá þeim. Sérstaklega þessa um konuna sem fær sér eitt lítið súkkulaði stykki frá þeim um miðmorgun til að slá á lystina (og halda sér grannri að sjálfsögðu) þegar svona matur gerir lítið fyrir mann annað en að dæla í mann sykri.

  • Sammála ! Þessir aðilar/fyrirtæki ásamt mörgum fleiri hafa hyllt átröskunarhegðun og í rauninni kynnt ýmis átröskunartix sem t.d ég sjálf hef notað óspart þegar ég var mikið veik af átröskun. Þetta er til háborinnar skammar!

  • Hér ætti auðvitað Bjattrófubloggið að vera en ekki í færslunni fyrir ofan.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com