Föstudagur 12.03.2010 - 14:59 - 23 ummæli

Um líkamsvöxt og líkamsmynd

barn_malbandSkelfilega grunnhyggin umfjöllun um holdafar og líkamsmynd birtist í DV í dag sem undirstrikar vel þá meinloku sem ríkir um þessi mál. Rætt er við Dr. Ársæl Arnarsson, dósent í sálfræði við Háskólann á Akureyri, sem greinir frá niðurstöðum rannsóknar sem sýnir að líkamsmynd íslenskra unglinga er ekki upp á marga fiska. Um 40% stúlkna í svokallaðri kjörþyngd eru í megrun eða finnst að þær ættu að vera í megrun og það sama má segja um 10% stúlkna sem eru „of léttar“ samkvæmt stöðlum.  Tvöfalt fleiri stelpur en strákar eru óánægðar með sig og því léttari sem þær eru, þeim mun ánægðari eru þær. Ársæll tekur fram að pressan um ákveðna líkamsþyngd skili sér ekki í neinu nema vanlíðan meðal ungmenna og þær aðferðir sem við erum að beita til að laga þetta séu ekki að virka. Þar hittir hann naglann á höfuðið.

Í beinu framhaldi af viðtalinu við Dr. Ársæl birtir DV ráð til foreldra feitra unglinga, þar sem fram koma á einu bretti allir helstu fordómar og neikvæðar staðalmyndir sem ríkja um feitt fólk. Svo velta menn fyrir sér hvers vegna unglingar eru uppteknir af því að verða ekki feitir og fyrirlíta líkama sinn ef þar birtast hin minnstu merki um fitu. Hmm…

Fyrsta ráðið sem foreldrum feitra unglinga er gefið er að líta á líkama þeirra sem vandamál. Brýnt er fyrir foreldrum að vera ekki í neinni afneitun með þetta, ef börn eru feit þá er alltaf eitthvað að. Sú hugmynd að sumir geti verið feitir frá náttúrunnar hendi er víðs fjarri. Þvert á móti er undirstrikað að vandamálið (þ.e. líkami barnsins) muni ekki hverfa af sjálfu sér en lausnin sé til ef foreldrar bara bera sig eftir björginni. Ekki er minnst á að þrátt fyrir þrotlausar rannsóknir í meira en 50 ár hefur okkur ekki tekist að finna farsæla leið til þess að breyta feitri manneskju í granna. Hvernig það á að gagnast feitum ungmennum og foreldrum þeirra að líta á líkama barnsins sem mistök sem þurfi að leiðrétta veit ég ekki.

Í annarri ráðleggingunni er gert ráð fyrir því að feit manneskja hljóti að eiga við einhver „dýpri“ vandamál að stríða og því þurfi að finna hvað „raunverulega býr að baki“ fitunni. Ég hef ekki rekist á þetta viðhorf lengi en það var algeng skoðun fyrir nokkrum áratugum að feitur líkami væri einskonar felustaður frá erfiðum samböndum eða lífsreynslu. Þess vegna væri það gefið að ef manneskja væri feit þá ætti hún við andleg vandamál að stríða og til þess að grennast þyrfti hún fyrst að leysa þessi vandamál. Þessi hugmynd hefur ekki reynst eiga við nein rök að styðjast og ekkert bendir til þess að feitt fólk glími frekar við geðræn vandamál en aðrir.

Þriðja ráðleggingin hefst á því að fíkn snúist um að deyfa tilfinningar. Þarna er gengið lengra með hugmyndina um fitu sem merki um undirliggjandi vandamál og gert ráð fyrir að allt feitt fólk sé matarfíklar. Þetta er algeng ranghugmynd en rannsóknir hafa þó sýnt að það er langt frá því að allir sem eru feitir stundi ofát. Margt feitt fólk lifir ósköp venjulegu lífi, borðar eðlilega og stundar hreyfingu en er samt sem áður feitt. Neikvæð umræða um offitu í fjölmiðlum, þar sem hverri einustu umfjöllun fylgir mynd af feitri manneskju að borða, hefur hins vegar skapað djúpstæða ímynd í hugum okkar um feitt fólk sem hefur enga sjálfsstjórn gagnvart mat.

Líkamsmynd unglinga verður ekki slitin úr samhengi við þau viðhorf sem ríkja varðandi líkamsvöxt í okkar samfélagi. Það er útilokað að börnum og unglingum geti liðið vel í eigin skinni ef okkur þykir sjálfsagt að mismuna fólki á grundvelli líkamsvaxtar. Börn og unglingar eru mismunandi vaxin frá náttúrunnar hendi og til þess að sem flestum geti liðið vel í sínum líkama þá verðum við að búa til umhverfi þar sem fjölbreytileiki holdafars er virtur og neikvæð umræða um ákveðnar tegundir líkama er ekki liðin. Við þurfum að hætta baráttu gegn offitu og berjast í staðinn fyrir heilbrigðum lífsvenjum fyrir alla. Það er ekkert sem bendir til þess að neikvæð umræða um fitu og feitt fólk bæti neinu uppbyggilegu við það eina sem þarf að segja: Elskaðu líkama þinn og hugsaðu vel um hann.

Flokkar: Fitufordómar · Heilsa óháð holdafari · Líkamsmynd · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (23)

  • Sigursteinn Másson

    Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi Sigrún. Offita er klárlega, ásamt með alvarlegum geðröskunum, ein alvarlegasta plága hins vestræna heims á þessari öld og mikilvægt að fjalla um þetta út frá því. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og margir aðrir aðilar hafa marg bent á þetta. Bæði í þessari grein þinni og í greininni um átak forsetafrúar Bandaríkjanna sýnist mér að þú skjótir vel yfir markið. Offita er vandamál en ekki náttúrulegt ástand. Það er líka vel þekkt og rannsakað að offituástand tengist andlegri vanlíðan. Það eru ekki aðeins nokkurra áratuga kreddur eins og þú heldur fram. Það er mjög mikilvægt að fólk borði hollan mat, hreyfi sig reglulega og sofi vel. Þetta er undirstaða, ekki aðeins líkamlegrar heilsu heldur andlegrar einnig. Með slíkri reglusemi á fólk alls ekki við offituvandmál að stríða svo einfalt er það.

  • Sigríður Ólafsdóttir

    Sæll Sigursteinn. Ég er nokkuð langt yfir það sem kallast kjörþyngd og myndi teljast feit í augum flestra. Ég stunda líkamsrækt á hverjum degi og hef gert lengi, ég borða hollan mat á venjulegum matmálstímum og er við hestaheilsu, hef alltaf verið það. Ég á yndislega fjölskyldu, er ekki þunglynd eða neitt slíkt. Hvert er mitt vandamál? Þú hlýtur að geta sagt mér það.

  • Sigursteinn Másson

    Sæl Sigríður,
    Það er eitt að vera eitthvað yfir kjörþyngd en stunda engu að síður hollt líferni og annað að eiga við offitu að stríða eins og ég er að segja að sé ekki náttúrulegt ástand heldur vandamál. Það að gera lítið úr því vandamáli er að mínu mati beinlínis hættulegt heilsu fólks hvort sem er líkamlegri eða andlegri.

  • Svala Lína

    Ég hef greinilega ekki útskýrt þetta nógu vel. Samkvæmt öllum stöðlum á ég við offitu að stríða, þrátt fyrir heilsusamlegt líferni. Sigrún er ekki að gera lítið úr vandamáli hér, heldur er hún að benda á að það lifir ekki allt feitt fólk óheilsusamlegu lífi. Þú opinberar einfaldlega vanþekkingu hér og fordómar spretta af vanþekkingu. Það ættir þú að vita betur en margur.

  • Sigursteinn Másson

    Sæl Svala,
    Það er skrýtin vanþekking að segja að offituástand sé heilbrigðisvandi því það blasir auðvitað við. Vera kann að skjaldkyrtillinn sé í ólagi og þá þarf að leyta til læknis en það er heldur ekki náttúrulegt ástand. Af hverju er offituvandi jafn bundinn við iðnríki og raun ber vitni? Auðvitað hefur það oftast að gera með lífstíl og þegar fólk sem stríðir við offitu segist borða hollt og hreyfa sig reglulega er ástæða til að skoða það nánar, hvað það borðar og ekki síður hvenær. Nú er ég ekki næringarfræðingur en ég veit að það skiptir höfuðmáli að matarþríhyrningurinn sé réttur, þ.e.a.s. að við borðum mikinn og próteinríkan morgunmat og svo á þriggja tíma fresti það sem eftir lifir dags og þá helst mikið af grænmeti og ávöxtum. Ég hef engan áhuga á að standa hér í ritdeilu um augljósa hluti við fólk sem vill verja offituástand en bendi því á að kynna sér allar hliðar málsins. Það ber að mína mati vott um brenglað ástand þegar offitufólk í Bandaríkjunum stofnar með sér þrýstihópa og samtök í baráttunni fyrir viðurkenningu á offitu sem eðlilegu eða náttúrulegu ástandi. Hér á Íslandi er offita mjög vaxandi vandamál og ber að taka á því sem slíku. Það breytir auðvitað ekki því að öfgar í hina áttina eru stórhættulegir líka. Lifið heil!

  • „Við þurfum að hætta baráttu gegn offitu og berjast í staðinn fyrir heilbrigðum lífsvenjum fyrir alla.“

    Þesssu er ég sammála!

    Mér fannst reyndar frekar gott sem hún Erla Sveinsdóttir læknir, sagði í viðtali í vikunni í Kastljósi

    Hún sagði þetta: „Ég hitti mikið af fólki sem eru sérfræðingar í megrunarkúrum og búnir að prófa í rauninni allt, eins og þeir segja, og nema þá kannski að láta fullreyna á heilbrigðan lífstíl, en það er kannski það eina sem er eftir. En það er kannski líka það sem tekur lengstan tíma og fólk hefur ekki þolinmæði í það. En það er samt það sem að virkar.“

    Ég held að fólk (vil samt ekki alhæfa) er búið að missa yfirsýnina á heilbrigt líferni. Hvað það er í rauninni ?.

    Við erum plötuð á hverjum degi með auglýsingum um hollustu (fæðubótefni, pillur, megrunarmatur), við erum allaf að keppast við að vera einhvernvegin öðruvísi en við erum, margir halda að hreyfing er ekki hreyfing nema hún sé gerð á líkamsræktarstöð og þess vegna fer það ekki út að labba, leika sér í snjónum, hlaupa, fara í sund og fl. því það er ekki alvöru hreyfing…. (ég vona að þið skiljið hvað ég á við) og margir eiga bara í erfiðleikum að vita hvað mikið er mikið þegar það situr og borðar matinn sinn.

    Allt er gott í hófi og ætli megi ekki segja að kg séu það líka 🙂

    Við þurfum ekki að vera öll steypt í sama mótið, við megum ekki dæma lífstíl fólks á útlitinu, það er til fullt af fólki sem lifir heilbrigðu líferni en hefur aukakíló á sér, svo er líka til fullt af grönnu fólki sem lifir margfalt verri lífstíl en feita fólkið.

    Ég er til dæmis of þung en skv. blóðprufu sem ég fór í fyrir þremur vikum voru engin frávik í prufunni og það var nánast ALLT skoðað! Ég þekki einn sem er í kjörþyngd, stundar mikla hreyfingu og lítur vel út, en hann er í reglulegu tékki hjá lækni út af of háu kólesteróli.. þessi maður hefur aldrei verið í ofþyngd! Þannig að kg og holdafar segja ekki alla söguna.

    Lífið er ekki debet og kredit, svart og hvítt, lífið er fjölbreytilegt… og þess vegna set ég stórt spurningamerki(?) við BMI stuðulunn sem að mínu mati gerir meira slæmt en gott þar sem hann hentar ekki stórum hluta manna.

  • Akkúrat Sigrún Þöll. Við notum BMI og í raun okkar hugmyndir um „heilbrigði“ til að dæma um það sem er að gerast inni í manneskju (hjarta, æðakerfi) út frá holdafari hennar.

    Auðvitað getum við ekki vitað í hvaða ástandi hjarta og æðakerfi manneskju er bara með því að horfa á hana. Hún getur hreyft sig á hverjum degi og verið í fínu formi en svo getur grönn manneskja lifað á kaffi og sígarettum og því verið í miklu verra ástandi. Við vitum jú líka öll af megrunarkúrunum, detoxinu og öllum pillunum, duftinu etc. sem fólk tekur tiil að grenna sig. Halda menn að það sé eitthvað heilbrigt? Og núna virðist lyf sem er ætlað hestum í andnauð vera notað af fólki til að grennast. Og fólk virðist vera alveg sama um aukaverkanirnar (sem eru lífshættulegar) því það verður jú svo grannt af lyfinu.

    Maður spyr sig: af hverju er fólk tilbúið til þess að fórna lífi sínu til þess að vera grannt? Af hverju er það tilbúið til þess að skjálfa svo mikið að það getur ekki einu sinni skrifað nafnið sitt, svima þegar það stendur upp etc. Why? Getur það verið vegna þess hvernig við tölum um og förum með fólk sem uppfyllir ekki þá staðla sem við setjum um „heilbrigt útlit“? Hvernig við tölum um feitt fólk? Hvernig okkur finnst fullkomlega eðlilegt að setja út á feitt fólk. Við erum jú að gera þetta „þeirra vegna“. Við erum jú að hugsa um þeirra hag með því að láta þau vita að þau séu ekki „í lagi“.

    Held þess vegna að við ættum að hætta að dæma fólk út frá útlitinu og hætta með þessi „feitt fólk er óhamingjusamt“, „feitt fólk eru ofátsfíklar“ og í staðinn fara að fókusera á heilsuna. Hreyfa okkur og borða heilsunnar vegna. Ekki vera endalaust með þessa útlits og fituáráttu.

  • Kristján B.

    Skemmtilegar spurningar sem hér eru lagðar á borð.

    Sigríður: „Hvert er mitt vandamál? Þú hlýtur að geta sagt mér það.“
    Ef ég mætti, þá virðist þú skv. því sem þú segir um þitt líkamsástand ekki eiga við vandamál að stríða, a.m.k. ekki offituvandamál.

    Svala: „Samkvæmt öllum stöðlum á ég við offitu að stríða, þrátt fyrir heilsusamlegt líferni. “
    Ég efast um að þú eigir við offitu að stríða skv. stöðlum. Ef ‘umfram’kílóin valda þér ekki heilsubresti eða setja þig í áhættuhóp varðandi heilsufarsleg vandamál (bakveiki, þunglyndi, hjarta- og æðasjúkdómar, m.a.), þá ert þú ekki offeit.

    Sigrún: „Ég er til dæmis of þung en skv. blóðprufu sem ég fór í fyrir þremur vikum voru engin frávik í prufunni og það var nánast ALLT skoðað!“
    Þú virðist ekki vera of þung skv. því sem þú skrifar og ættir ekki að taka umræðu um offituvandamál vestrænna ríkja til þín.

    Feitt fólk þjáist ekki af offitu frekar en grannt fólk þjáist af lystarstoli. Átak gegn offitu er ekki átak gegn fólki sem er frjálslega vaxið (undir eða yfir BMI t.d.).
    Það er óþarfi að blanda barátunni gegn óheilsusamlegu (takið eftir orðinu) líferni við staðalímyndir og yfirborðsmennsku fjölmiðla og kvikmynda. Fordómar gegn feitu fólki eru ekki réttlæting fyrir því að ekki skuli reynt að berjast gegn offitu. En vissulega má margt betur fara í þeirri baráttu og margir óprúttnir sem sjá sér leik á borði til þess t.d. að selja alls kyns kúra og lyf og illa ígrunduð ráð, undir yfirskyni ‘heilbrigsðs lífernis’.

    BMI stuðullinn er eitt tækið sem gefið getur vísbendingu um hvort manneskja er offeit, en líkamlegt ástand það skilgreiningaratriði sem mestu máli skiptir. Þ

  • kristján. En vandamálið er auðvitað að menn eru ekki að berjast gegn óheilbrigðu líferni með því að setja fókusinn á lífernið, heldur berjast menn við fituna, „offitufaraldurinn“ og setja allan fókusinn á fituna, útlit og þyngd.

    Það er búið að setja samasemmerki á milli fitu=óheilbrigðis og grannur vöxtur=heilbrigði sem er auðvitað algjör firra. Grönn manneskja getur lifað mjög óheilbrigðu lífi og feit manneskja heilbrigðu lífi. Það er ekkert sem segir að ef þú myndir blóðfitumæla eða kólestrólmæla random fólk af götunni að þeir sem væru feitir myndu mælast neitt verr.

  • Kristján B: „Þú virðist ekki vera of þung skv. því sem þú skrifar og ættir ekki að taka umræðu um offituvandamál vestrænna ríkja til þín.“

    Fyrigefðu en ha ? Hvaða forsendur hefur þú fyrir því að áætla að ég er ekki of þung ? Hefur þú staðið með mér fyrir framan viktina og séð töluna sem er fyrir framan mig ? Nú veit ég ekki hversu mikið þú hefur kynnt þér mín mál, en trúðu mér ég hef FULLAN rétt til að taka umræðu um offituvandamál vestrænna ríkja til mín….

  • Kristján B.

    Ég er sammála þér með vandamálið, ‘menn’ hafa einblýnt á útlit og þyngd. Það er bæði óæskileg og skemmandi.

    En sömuleiðis finnst mér margir setja áráttu samfélagsins fyrir staðalþyngd og -útliti í sama flokk og baráttuna við offitu. Setja samasemmerki milli orðsins offitu og fitu. Það er hættulegt.

    Þetta er eins og að gagnrýna baráttuna við ofnotkun áfengis með því að segja að fók megi alveg fá sér í aðra tánna og jafnvel detta í það endrum og sinnum.

    Eðlileg notkun áfengis / ofnotkun áfengis. Eðlileg líkamsfita og offita. Það verður að greina þarna á milli í umræðunni. Hvorki fita né áfengi eru sjálfkrafa böl.

    Sigrún á það til að rakka niður í heild sinni baráttuna við offitu, með því að gera því skóna að um sé að ræða baráttu gegn fjölbreytni og verið sé að reyna að steypa alla í sama mót. Þetta er óheppileg afvegleiðing.

  • Kristján.. Ertu að tala um mig Sigrúnu Þöll eða Sigrúnu Daníelsdóttur.. ég er alveg orðin rugluð hérna.. því ég segi bara ha ? ef þú ert að tala um mig :/

  • Kristján. nei það er einmitt verið að reyna að steypa alla í sama mót. Það er til dæmis ekki tilviljun að fókusinn er ekki á lífstílinn og hreyfingu heldur á fitu. Það er miklu auðveldara að ákveða hvort þú fallir inn í mótið ef það er hægt að sjá það utan á þér.

    Það er t.d engin tilviljun að það eru aðallega konur sem hafa áhyggjur af þyngdinni, það er vegna pressunar frá umhverfinu um að konur eigi að líta út á ákveðinn hátt. Bíómyndir, sjónvarpsþættir, tónlistarmyndbönd, tímarit eru öll í því að segja konum og sýna þeim hvernir „fullkomnar“ konur líta út og í raun hversu langt meðalkonan sé frá því að vera fullkomin.

    Þetta snýst allt um útlit, ekki heilsu.

    Enda eins og ég segi, ef þetta snerist um heilsu þá væri fókusinn þar, ekki á fitunni.

  • Danton-María

    Ég held að flestum sé ljóst að offita er alvarlegt vandamál og full ástæða er að taka á því máli.

    Ég hef verið í Bandaríkjunum og sá fólk sem var afmyndað af offitu. Leitt þykir mér að sjá að vandinn er kominn hingað og hér eru ung börn illa haldin af offitu.

    Ég get ekki séð að það séu fordómar að bregðast við þeim vanda sem offitan er. Hér er ég ekki að tala um nokkur kíló yfir kjörþyngd ef hreyfing er stunduð og lífsstíllinn almennt heilbrigður. Ég held að fólk megi ekki vera of viðkvæmt og tala um fordóma þegar verið er að bregðast við alvarlegum heilsuvanda.

    Mér finnst að þú þyrftir að skýra betur út hvernig ætti að taka á offitu unglinga, Sigrún, ef ekki má nálgast þetta sem vandamál.

    Þakkir fyrir að gera þetta að umfjöllunarefni.

  • Danton-María: Til að svara þér í stuttu máli, þá er ein lausn við offituvandamálum barna og unglina er að fjölskyldan í heild sinni þarf að breyta um áherslur í matarmálum og lífstíl ekki taka unglinginn út úr menginu og segja að það er það eina sem er með vandamál.

    Ég vil alls ekki fullyrða, né alhæfa en ef ég lít í mitt nánasta umhverfi má rekja offitu barna og unglinga í kringum mig til þess að foreldrarnir eru ekki að lifa hollum lífstíl. Þ.e.a.s það er lítið um hreyfingu, mikið um sælgætisát, ,kex át, skyndibiti borðaður óhóflega mikið og maturinn sem keyptur er inn er unninn matur. Það er lítið sem ekkert uppeldi í hollum lífstíl, foreldrarnir eru ekki fyrirmynd barnanna með því að hreyfa sig eða borða hollt.

    Ég var á þessum stað einu sinni og það er ekki langt síðan, þ.e.a.s að ég var slæm fyrirmynd, eldaði óhollan mat, borðaði of mikið af sælgæti, hreyfði mig ekkert og ég sá heimilisfólkið blása út (og ég líka :))

    Þess vegna held ég að það er eins og Sigrún sagði í pistlinum sínum besta leiðin að takast á við að börn, fullorðnir og unglingar eru að fitna er að berjast fyrir heilbrigði í stað þess að horfa eingöngu á vaxtalagið og kg tölu á vikt.

    Latibær er gott dæmi, þar sem öll börn eru hvött til hreyfingar og að lifa hollu lífi óháð því hvort það eigi við offituvanda að stríða.

    Mér þykir aftur á móti leiðinlegt að fólk upplifi orð mín þannig að ég er að rakka eitthvað niður, það er alls ekki meiningin og biðst ég afsökunar ef það hefur komið þannig út.

    Ég veit bara hvernig er að vera of feit og ég veit hvaða fordómar fólk fær oft á tíðum framan í sig í samskiptum við annað fólk. Það er alls ekki ætlun mín að rakka hluti niður, ég hef alltaf talið mig vera að rökræða og diskútera hluti.. ekki rakka niður umræður, en það er kannski fín lína þarna á milli 🙂

    Svo má ekki gleyma að öll umræða er yfirleitt af hinu góða 🙂

  • Kristján Birgisson

    Sigrún Þöll, þú spyrð „Fyrigefðu en ha ? Hvaða forsendur hefur þú …“, en svarið er í setningunni sem þú vitnar til, ég sagði „skv. því sem þú skrifar“, enda skrifaðirðu á að blóðprufa sem þú hefðir farið í hefði komið vel út. Það bendir til þess að þú sért ekki ‘of’ þung.

    Þegar ég skrifaði um að rakka niður baráttuna gegn offitu eins og hún leggur sig, átti ég við Sigrúnu eiganda þessarar bloggsíðu.

    Annars er þetta skemmtileg umræða, þar sem allir hafa rétt fyrir sér en eru að tala um sitthvorn hlutinn.

    Guðrún: já, það er verið að reyna að steypa alla í sama mót, alveg rétt hjá þér, bingó bingó bingó. Sífellt dynur á okkur áróður um að losa sig við ‘aukakílóin’, fita sé slæm. Þetta er leiðindaástand.

    En það sama verður ekki sagt um umræðu um offitu. Offita er ekki það sama og fita, feitt fólk er ekki offeitt (og ekki of þungt) nema þyngdin valdi hættu á heilsuskaða.

    Baráttan gegn offitu snýst ekki um útlit og þyngd, heldur heilsu og vellíðan. Þar er einblýnt á heilbrigða lífshætti, þ.e. hugarfar, hreyfingu og mataræði.

    Auglýsingamennskan og áróðurinn snýst um útlit og fitu, þú hefur 100% rétt fyrir þér með það. Mikil gróðavon virðist vera í því að herja á þessa fordóma og hræðslu við eðlileg aukakíló. Það er ljótt og mikilvægt er að spyrna gegn þessu. En hugsum okkur tvisvar um áður en við beinum mótspyrnunni gegn sjúkdómavörnum á borð baráttuna við offitufaraldurinn.

  • Danton-María

    Þakka svar þitt, Sigrún Þöll.

    Víst er það að gott er að ræða um þessi mál.

    Ef eitt af börnunum mínum væri of feitt, myndi ég taka á því máli á eins nærfærinn hátt og hægt er og fá það til að hreyfa sig eins mikið og hægt er, en ef hún yrði þrátt fyrir það of feit, myndi ég setja hana á heilsusamlegt fæði og vera ekki með fitandi fæði nema á nammidögum. Ég myndi taka á því máli eins og um vanda væri að ræða.

    Vissulega þarf aðgát í nærveru sálar. Ég var búttuð sem unglingur á tímabili, tók mjög nærri mér þegar mér var sagt að ég væri of feit en það varð til þess að ég fór að borða heilsusamlegan mat og geri það enn til að vera í kjörþyngd. Það þurfti dálítið spark til, því ég var í afneitun með þetta.

    Það er stórskaðlegt að nokkrir tískukóngar í heiminum, sem kjósa horaðar konur, skuli ráða tískunni, en sem betur fer er þetta að lagast.

    Hollur matur, góð hreyfing og andlegt jafnvægi er málið. Það þarf enga kúra eða töfralausnir, hvað þá dýrar pillur til að laga holdarfarið. Besta ráðið er að lesa greinar á doktor.is.

    Og ef fólk vill vera búttað, þá á því auðvitað að vera frjálst að vera það. 🙂

  • Kristján Birgisson:… hehe jú jú ég er alveg 12 kg of þung og skv BMI þá mega alveg fara 20 kg :)…

    Getur kíkt á bloggsíðuna mína ef þú hefur áhuga til að sjá hvaða baráttu maður er búinn að fara í gegnum 🙂

    http://www.barbietec.com

  • kristján. En málið er að það er búið að setja saman í eina kássu útlitshugmyndum okkar (sem eru mjög strangar og að eitt útlit sé „rétt“) og svo offituumræðuna.

    Megrunariðnaðurinn gengur út á að segja okkur að aukakílóin okkar séu hættuleg og slæm og að við munum öll fá hjartaáfall á endanum. Að við þurfum að mæta á líkamsræktarstöðvarnar til að við munum nú ekki verða offeit og fá hjartaáfall. það sama með öll duftin og kúrana, þetta gengur allt út á „heilsu“.

    Menn þykjast vera að selja okkur „heilsu“ í duftformi eða pilluformi en auðvitað er bara verið að selja okkur útlitshugmyndir.

    Þess vegna verða allar hugmyndir um baráttu við offitu svo brenglaðar. Því samkvæmt áróðrinum eru allir þeir sem eru með aukakíló annað hvort „offeitir“ eða nálægt því. Samkvæmt þeim hugmyndum erum við öll í hættu af því að verða offeit og þurfum sífellt að vera að berjast gegn því. Annað hvort með því að fara á líkamsræktarstöðvar eða með megrunarkúrum, pillum, dufti o.fl.

    Auðvitað er stórmunur á feitri manneskju og offeitri. En línurnar hafa mikið brenglast í hugum okkar.

    Man einhver t.d eftir því þegar tekin var mynd af Jessicu Simpson þar sem svo virtist sem hún hefði bætt aðeins á sig (held nú reyndar að myndin hafi verið tekin úr vondu sjónarhorni). En bottomlænið er að hún fékk þvílíkar skammir og sett út á hana fyrir að vera orðin „feit“. Þetta gekk jafnvel svo langt að Obama forseti talaði um Jessicu í viðtali við Tonight Show og sagði að hún ætti í vandræðum með þyngd sína.

    Þegar söngkonur eins og Jessica Simpson eru orðnar dæmi um fólk sem á í vandræðum með þyngd sína þá finnst mér baráttan við „offitu“ vera komin út í skurð.

  • Magnea Marinósdóttir

    Skilaboðin í grein Sigrúnar eru: Við þurfum að hætta baráttu gegn offitu og berjast í staðinn fyrir heilbrigðum lífsvenjum fyrir alla. Það er EKKERT sem bendir til þess að neikvæð umræða um fitu og feitt fólk bæti neinu UPPBYGGILEGU við það eina sem þarf að segja: Elskaðu líkama þinn og hugsaðu vel um hann.

    Sigursteinn Másson bendir réttilega á að það geta verið ýmsar ástæður fyrir offitu. Það getur verið andleg vanlíðan, aukaáhrif af t.d. inntöku geðlyfja, o.fl. Málið er að umræðan um offitu bætir vanalega gráu ofan á svart vegna þess hversu NIÐURBRJÓTANDI hún er og ekki síst af hálfu þeirra sem eru „heilbrigðir“ og mega enga fitu sjá án þess að það beri vott um skort á sjálfsvirðingu eða sjúkleika svo dæmi sé tekið. Það getur einfaldlega verið uppbyggilegt að láta „feitt fólk“ í friði og sýna þar með tilhlýðilega virðingu.

  • Kristján Birgisson

    Já, ég get alveg fallist á að breyta megi baráttunni þannig að hún hætti að vera ‘gegn’ offitu og verði í staðinn gegn hreyfingarleysi og óhóflegri neyslu á óhollum mat, nú eða bara ‘með’ heilbrigðri ræktun líkamans og hollum mat.
    Taka fókusinn af vigtinni og málbandinu og ‘tala í lausnum’ svo maður grípi í klisjurnar.

    Sigrúnu Daníelsdóttur og öðrum sem tala stundum gegn offitubaráttunni gengur auðvitað gott eitt til, að lagfæra umræðuna í samfélaginu sem einblínir á aukakíló og hið eina rétta útlit.
    Oft finnst mér reyndar umræðan um offitu fá of harða og ósanngjarna gagnrýni, t.d. á þessari síðu, það mætti kannski stundum taka undir þá þætti í þeirri umræðu sem eru þó jákvæðir (hreyfingin t.a.m.). En það er bara mín skoðun.

    Fjölmiðlar geta verið sérstaklega skemmandi þegar kemur að þessari endalausu umræðu um líkamsvöxt (aðallega kvenna), Vísir, DV og Pressan eru góð dæmi. Þessi niðrandi fréttamennska virðist selja, eða e.t.v. eru þessar fréttir svona ódýrar í innkaupum.
    Kelly Osborne sagði fyrir stuttu að hún hefði orðið fyrir meira aðkasti fjölmiðla fyrir að hafa fitnað heldur en fyrir að nota fíkniefni. Það finnst mér fín dæmisaga.

  • Sigríður Ólafsdóttir

    Danton-María: Ég hefði líklegast talist of feitt barn en hinsvegar hafði ég önnur áhugamál en útileiki, ég efast um að foreldrar mínir hefðu haft mikið upp úr því að „fá mig til að hreyfa mig“. Þau reyndu heldur ekki að stýra mataræði mínu. En það gerði ég hinsvegar sjálf þegar ég varð unglingur sem endaði ekki í heilbrigðri kjörþyngd, heldur í lystarstolseinkennum. Ég er líka á þeirri skoðun að nammidagar séu til þess fallnir að skapa óeðlileg tengsl við sælgæti. Allt sem er forboðið er eftirsóknarvert, ekki satt?

  • Danton-María

    Sigríður.

    Skil hvað þú meinar. Við vorum með þrjár stúlkur í fjölskyldunni sem þjáðust af lystarstoli og sendum þær í meðferð hjá sálfræðingi. Það var reynt að útskýra fyrir þeim á eins nærgætinn hátt og hægt var hversu hættulegt þetta var.

    Þarna voru um geðræn vandamál að ræða sem tekið var á og vonandi endurtaka þau sig ekki.

    Ég bendi á góða grein á doktor.is is heitir „Að léttast á heilbrigðan hátt“. Hún segir allt sem segja þarf.

    Offita hlýtur að vera óheilbrigt ástand, eins og að vera of horaður. Varla er hægt að líta framhjá því. Geðræn vandamál eru oft tengd mat og þá finnst mér rétt að leita til sérfræðinga þegar við á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com