Þriðjudagur 13.04.2010 - 11:58 - 3 ummæli

Fleiri furðulegar skýringar

barn ad borda

Þetta er enn ein furðan. Hér er náungi sem heldur því fram að orsakir offitu liggi í því að fólk hlusti of mikið á líkama sinn, sem er ófær um að gefa rétt skilaboð í offituvænu umhverfi. Hann, eins og svo margir sem aðhyllast offitubaráttuna, telur að mannslíkaminn sé stöðugt svangur (gráðugur) og þess vegna gefi hann stanslaus skilaboð um að borða þegar það er hægt. Eina leiðin til að hemja þetta átskrímsli er að höfða til göfugasta líffærisins, heilans, og ná sigri andans yfir efninu.

Það er hins vegar fátt sem bendir til þess að fólk sé mikið að hlusta á líkama sinn. Þrátt fyrir að við fæðumst með sterkt samband við innri merki um hungur og saðningu, og fylgjum þeim mjög náið fyrst um sinn, þá bendir flest til þess að við glötum tengslum við þessi merki fljótlega í því umhverfi sem við lifum. Fáir foreldrar eru meðvitaðir um mikilvægi þessara tengsla og gera þar af leiðandi lítið til að styrkja þau og viðhalda þeim, heldur þvert á móti vinna gegn þeim með uppeldisaðferðum sem einkennast m.a. af ofurstjórn á mataræði barnanna. Mörgum foreldrum finnst sjálfsagt að ráðskast með mataræði barna sinna frá A til Ö, en slík ytri stýring hlýtur þó einnig að vinna gegn innri stýringu matarlystar hjá barninu sjálfu. Barn sem fær ekki að hlusta á líkama sinn þegar það finnur að það er orðið mett, heldur er hvatt til að halda áfram að borða þar til maturinn er búinn á disknum, missir smám saman tilfinninguna fyrir því hvað það er að vera þægilega mettur. Að sama skapi mun barn, sem ekki fær að borða nægju sína á matmálstímum, heldur er stoppað af vegna þess að foreldrum finnst nóg komið, ekki kynnast því hvernig tilfinning það er að hafa fengið nóg. Það upplifir skort og pirring yfir því að fá ekki að fullnægja matarlyst sinni og mun reyna að grípa gæsina þegar foreldrarnir eru ekki að fylgjast með, t.d. í afmælum, þegar barnið borðar hjá öðrum eða þegar það er eitt heima. Þarna er komin uppskrift að óheilbrigum matarvenjum og mögulega „óseðjandi matarlöngun“. Þegar manni finnst maður aldrei fá nóg þá reynir maður að hamstra.

Höfundur greinarinnar virðist skilja þetta upp að vissu marki. Hann talar um að foreldrar verði að láta af ofurstjórn mataræðis og gefa börnunum tækifæri til þess að stýra sér sjálf. En hann vill ekki að þau hlusti á líkama sinn, heldur fylgi hugrænum reglum sem foreldrarnir og önnur umhverfisáreiti (t.d. tölvur) eiga að innræta þeim. Hér erum við strax komin á hálan ís. Hugræn stjórn er ytri stýring, rétt eins og boð og bönn foreldranna. Hún er vandasöm og ófullkomin af því matarlystin er misjöfn og þarfirnar ólíkar frá degi til dags. Stundum erum við sérlega svöng og aðra daga frekar lystarlaus en með því að hlusta á líkamann ættum við að fá nóg. Líkami okkar getur látið okkur vita hvenær hann þarfnast hvíldar og hvenær hann þarf að fara á klósettið.  Hvers vegna skyldi hann ekki geta látið vita um hversu mikinn mat hann þarfnast?

Þvert á það sem talað er um í greininni, að líkamar okkar séu ófærir um að gefa rétt skilaboð, og þess vegna ættum við ekkert að vera að hlusta á hann, held ég að líkaminn sé fullfær um að gefa okkur nákvæm og rétt skilaboð um það sem við þörfnumst. Vandinn er fólginn í því að okkur hefur verið kennt að hunsa þessi skilaboð. Það væri þess vegna afar slæmur leikur að ganga enn lengra í átt að ytri stýringu mataræðis (láta reglur, boð og bönn ráða því hvenær og hversu mikið við eigum að borða) í stað þess að leita meira inn á við. Manneskja sem hefur misst tengslin við matarlystina er algjörlega upp á náð og miskunn hins margumtalaða offituvæna umhverfis komin. Hún er ansi varnarlaus gagnvart auglýsingum og öðrum utanaðkomandi áreitum sem sannfæra hana um að nú sé góður tími til að fá sér að borða. Hún á mjög erfitt með að átta sig á því hvað hún þarf að borða mikið til þess að fullnægja þörfum líkama síns.

En til allrar hamingju er um meðfædda færni að ræða. Það eina sem við þurfum að gera til að efla þessi tengsl aftur er að byrja að hlusta. Finna hvernig okkur líður og taka eftir þeim breytingum sem verða í líkamanum þegar við förum að verða svöng eða södd. Fyrst um sinn eru þetta veikburða merki, en smám saman verða þau sterkari, þangað til þau verða beinlínis óþægileg. Margir hafa vanið sig á að svara ekki kalli líkamans fyrr en það er orðið að öskri. Fá sér ekki að borða fyrr en þeir eru orðnir banhungraðir og hætta ekki fyrr en þeir eru að springa. Aðrir spá bara alls ekkert í merki líkamans og borða þótt  líkaminn sé ekki að gefa nein merki um hungur – eða hætta að borða þótt þeir séu ekki orðnir mettir.  Í báðum tilfellum er fólk ekki að leyfa líkamanum að stjórna ferðinni. En það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að verið sé að fullnægja þörf líkamans ef líkaminn er aldrei spurður. Þá er þvert á móti afar líklegt að verið sé að borða meira – eða minna – en líkaminn þarf á að halda.

Flokkar: Heilbrigt samband við mat · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (3)

  • Ég held að ég sé alveg sammála þér kæra systir, en ég fór samt að velta einu fyrir mér (hef reyndar ekki lesið þessa grein sem þú ert að vitna í) hvort að það geti ekki verið að við náum ekki að „hlusta“ á líkama okkar sökum þess áreitis sem er í kringum okkur. Bara á leið í vinnuna keyrum við framhjá ótal skyndibitastöðum og hvert sem við lítum sjáum við matarauglýsingar, er ekki líklegt að þetta stuðli að því að við náum ekki að „hlusta“ á líkama okkar og séum því að borða of mikið eða of lítið (væntanlega frekar ofmikið í þessu tilfelli). Ég veit bara fyrir mitt leiti að þá verð ég oft svangur þegar ég sé auglýsingar frá einhverjum skyndibitstað eða jafnvel að ég sé fólk vera að borða í þáttum í sjónvarpinu þá er líkami minn að gefa mér skilaboð um að ég sé svangur, en eru það ekki röng skilaboð og ætti ég ekki að hunsa þau? eða ætti ég að láta eftir mér að borða í hvert skipti sem ég fæ einhver skilaboð frá líkama mínum? Ég held nefnilega að það sé voðalega erfitt að eiga í svona góðu samskiptasambandi við líka sinn miðað við það samfélag sem við búum við í dag. Þá hugsar maður einmitt hvort ekki sé jafnvel bara betra að hafa einhver svona boð og bönn eins og talað er um í þessari grein, borða bara ákveðinn skammt á ákveðnum tíma og hlusta ekkert á líkama sinn þegar hann er að heimta mat af því að ég sá auglýsingu frá American Style

  • Flestir hljóta að gera sér grein fyrir því að það er einmitt heilinn/hugurinn sem lætur okkur borða yfir okkur og helsta orsök ofáts er sú að við kunnum ekki að hlusta á líkamann.

  • Ég renndi bara fljótlega yfir þetta, en það er nokkuð ljóst að orsök þess að líkaminn er sífellt að biðja um meiri mat er sú að hann er hreint og beint í svelti. Ekki svelti eftir orku úr matnum heldur næringarefnum. Mótsögnin er sú að þegar offita fer úr böndunum er það einmitt út af því að líkaminn er í svelti og framleiðir fitu í gríð og erg og forðast að nota fituna (þetta er kallað insulin resistance). Það er ekki fyrren hormónakerfið er komið í jafnvægi og næg næringarefni eru til staðar að þessi hringrás er stöðvuð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com