Fimmtudagur 22.04.2010 - 10:30 - 26 ummæli

Feit börn í grimmum heimi

sadness1Þessi grein er fyrir ykkur sem eruð sannfærð um að barátta gegn offitu sé góð hugmynd. Fyrir ykkur sem teljið að feitt fólk sé alltaf afbrigðilegt og óheilbrigt—og það sé brýn nauðsyn að koma þeim í skilning um það. Það er alltaf gott að kynna sér málin frá öðrum hliðum. Það er til feitt fólk sem á ekki við nein önnur vandamál að stríða en að hafa fæðst í líkama sem okkar menningarheimi líkar ekki við. Feit börn sem hafa ekkert til saka unnið, ekki gert neitt rangt, en fá að heyra það aftur og aftur í okkar samfélagi að þau séu ekki í lagi. Og við sjáum ekkert athugavert við það.

Það þarf að efla vitund fólks um mikilvægi þess að hugsa vel um líkama sinn. Það er alveg rétt. En það á við um alla. Grannt fólk lifir líka óheilbigðu lífi. Ef það er óhollustan sem við höfum mestar áhyggjur af þá liggur beinast við að sjónum okkar sé beint þangað. Að skilaboðin séu send til allra en ekki bara til þeirra sem eru í betri holdum. Hvað þá að baráttan fyrir heilsusamlegu lífi sé sett fram sem útrýmingarherferð gegn feitum líkömum. Við þurfum að fara að átta okkur á því að inni í þessum feitu líkömum býr fólk, sem á sama tilverurétt og allir aðrir, og að fjandsamleiki okkar í garð líkama þeirra hefur aðeins bakað þeim óþarfa sorg, sjálfsfyrirlitningu og skömm.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (26)

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  Ég hef áður aðeins tjáð mig á þessu bloggi, enda geri ég ráð fyrir að möguleikinn sé opinn til að hvetja til umræðu. Ég vona því að gagnrýni sé í lagi.

  Mér finnst þetta svolítið undarlegt blogg. Ég skil stundum ekki alveg hvert þessi umræða stefnir.

  ,,Það er til feitt fólk sem á ekki við nein önnur vandamál að stríða en að hafa fæðst í líkama sem okkar menningarheimi líkar ekki við. Feit börn sem hafa ekkert til saka unnið, ekki gert neitt rangt, en fá að heyra það aftur og aftur í okkar samfélagi að þau séu ekki í lagi“.

  OK. Í fyrsta lagi, þá fæðist maður nú sjaldnast feitur (nema móðir manns sé með sykursýki, eða sjálf verulega of feit). Hins vegar er sá fjöldi barna sem þróar með sér offitu að verða skelfilega mikill. Að setja umræðu og baráttu gegn þessu upp sem einhvers konar ,,menningarheims“ árekstur, er í meira lagi undarlegur málflutningur. Það er alveg rétt að útlitsdýrkun og normalisering samfélagsins er skelfileg og nær ekki síst hæðum í áherslum á staðlaða líkamsímynd, en það þýðir ekki að okkur beri að loka augunum fyrir því skelfilega vandamáli sem offitufaraldurinn er!!! Í öðru lagi er þetta að sjálfsögðu ekki börnunum að kenna, en þetta er foreldrum þeirra að kenna! Barn fitnar ekki að sjálfu sér, það þarf að gefa því of mikið að borða og ýta undir/styðja við kyrrsetulífstíl.

  Það er mjög stutt síðan að feit börn voru undantekning. Ég veit ekki hvort/hversu mikið þeim var strítt þá, en ég gæti alveg trúað því að það sé jafnvel meiri stríðni í gangi nú. Það er mótsagnakennt, þar sem miklu fleiri feit börn ættu frekar að draga úr en auka stríðni. Þetta eru getgátur hjá mér, en ég held að margt sé til í þeim vinkli sem hér er fram settur um upplifun þess feita. Ég sé hins vegar ekki að það þýði að það eigi að taka offitu í sátt! Það á að leggja áherslu á umburðarlyndi og að kenna börnum að það sé ljótt að stríða, en það má ekki kenna þeim að ofát og offita sé í lagi. Það er óhollt að borða of mikið og hreyfa sig lítið. Það eykur líkurnar á lífshættulegum sjúkdómum að vera of feitur og er ekki ósvipað því og að reykja. Formerkin eru bara öfug–það þótti kúl að reykja, en það þykir ekki töff að vera feitur.

  Og í guðanna bænum, ekki koma með röð af kommentum um að það sé sumum náttúrulegt að vera feitur eða að sumir hafi ,,hæga brennslu“. Það er ekki rétt og við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að offita breiðist nú út um allan heim með ógnarhraða sem á engan hátt er hægt að skýla á bak við einstaklingsbundna breytileika. Stór hluti fólks hefur hæfileikann til að fitna, við viljum helst ekki að það nýti sér hann!

 • Hvers konar vísindi eru Heilbrigðisvísindi? Er þetta grein í Háskólanum eða hvað? Ég man ekki eftir þessu þegar ég var þarna. Eða er þetta einhvers konar ‘alternative medicine’ eins og grasalækningar, hnykklæknigar, nálastungur og þess háttar (i.e. kenna fólki heilbrigði í gegnum heilbrigt mataræði). Spyr sá sem ekki veit.

  Annars þá vil ég hrósa greinarhöfundi fyrir góða grein. Það er alveg hárrétt að það þarf að hafa áhersluna á heilbrigt líferni, ekki hvort fólk sé grannt eða feitt. Það er eitthvað að þegar fólk er að detta í sundur og það þykir flott en þegar það er í góðum holdum (eins og þú segir svo skemmtilega) þá er eins og það sé búið að veita leyfi til að brjóta einstaklinginn algjörlega niður. Við verðum að læra að elska hvert annað óháð hvernig við lítum út, við erum öll manneskjur.

 • Undir heilbrigðisvísindaSVIÐ falla eftirfarandi greinar í Háskóla Íslands; sálfræði, læknisfræði, hjúkrunarfræði, lyfjafræði, matvæla- og næringafræði og tannlæknadeild.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  @ Sonja

  „Við verðum að læra að elska hvert annað óháð hvernig við lítum út, við erum öll manneskjur“.

  Ég er ekki að mótmæla þessu, það gera fáir. En hver er boðskapurinn með því að vera alltaf að fjalla um umburðarlyndi í einu orðinu og svo skammast út í fyrirbæri eins og baráttu gegn offitu barna í hinu? Er þetta sama fyrirbærið?

  Barátta gegn/umfjöllun um skaðsemi þess að vera feitur = persónuleg árás á alla sem eru feitir?

  Við hljótum að geta gert bæði; fjallað um ógnir offitu og unnið gegn henni, um leið og við reynum að efla umburðarlyndi. Það að berjast gegn offitu er ekki það sama og að halda úti fegurðarímyndum à la Cosmopolitan!

  [Innan heilbrigðisvísindasviðs HÍ er hjúkrunarfræði, læknisfræði, lyfjafræði, sálfræði, tannlækna- og matvæla- og næringarfræðideild. Hver sem nemur innan þessara deilda er þannig nemi í „heilbrigðisvísindum“. Þá er fjöldi nema við þessar deildir í framhaldsnámi með grunngráðu úr líffræði, eða öðrum fögum sem tekin eru gild til æðri gráðu innan deildanna.]

 • Nemi í heilbrigðisvísindum. Auðvitað er fólk misjafnlega vaxið að eðlisfari. Það þýðir ekki að láta eins og það sé ekki þannig. Alveg eins og fólk er misjafnlega hávaxið, þá er fólk misjafnt að þyngd. Það er samt eins og fólk vilji ekki viðurkenna það. Vilji ekki viðurkenna að barn hafi þannig líkamsvöxt að því sé eðlislægt að vera þykkvaxið. Nei það barn hlýtur bara að vera eitthvað óeðlilegt.

  Veistu, ég held að kennarar í heilbrigðisvísindunum þurfi að fara að kenna nemendum sínum um fjölbreytileika mannlífsins.

 • Ég er sammála nemanum í heilbrigðisvísindunum að þvi leyti að offita barna er orðin skelfileg, hverjum er það að kenna? Í flestum tilfellum er það foreldranna. Það geta einnig verið mjög djúplægar og hræðilegar ástæður barnanna fyrir því að borða yfir sig af sætindum ofl,.sb. í sumum tilfellum misnotkun, einelti osfr. Oft þarf einnig að vinna mjög djúpt og vel með þau börn og komast þannig að rótum vandans en ekki byrja bara að skammast út í bláinn. En samt sem áður er það staðreynd ef við aðeins horfum vel í kringum okkur , hvernig eru venjur barna okkar og unglinga og hvernig tekur t.d. skólaumhverfið á vandanum og menntakerfið? Hvernig er fæðið skólanum þeirra, oft er það ekki upp á marga fiska, svo farið er í næstu sjoppu og keyptur matur( gos og sætindi) í frímínútum ofl. Einnig fá flestir krakkar í dag ógrynni af sælgæti og ekkert eftirlit foreldra oft með því og hef ég ósjaldan horft upp á foreldra fylla sælgætispokana kúffulla af sætindum til handa barna sinna á nammibarnum á laugardögum ( um að gera nýta 50% afsláttinn), manni verður hreinlega óglatt. Aldrei gaf ég mínum börnum sælgæti og er það yngsta enn í grunnskóla og þjáust þau ekki vegna þess.. Þetta er svo mikill vani allt saman, hvernig við temjum okkar matarvenjur osfr. Börnin læra einfaldlega það sem fyrir þeim er haft yfirleitt en auðvitað eru alltaf undantekningar sem eðlilegt er en það þýðir samt ekki að við hrópum á eftir feitu börnunum og úthúðum þeim. Það er bara alls ekki forsvaranlegt að samþykkja offituna á neinn hátt. Það eru afar fá tilfelli af börnum og fullorðnum sem eru of feit vegna sjúkdóma sem ekki eru tengdir lífsháttarmynstri fólks í dag. Hvað kostar svona lífsháttarsjúkdómar heilbrigðiskerfið í dag? Fullorðið fólk um og yfir tvítugt er farið að þjást af sykursýki týpu 2 sem fylgir oft offitu, það þjáist af allt of mikilli blóðfitu sem aftur leiðir til hjarta og æðasjúkdóma ofl. ofl mætti telja. Ef maður fer í ísbúð til dæmis , sér maður glöggt og mjög áberandi að þeir sem eru í mikilli ofþyngd eru ekki að panta sér minnsta ísinn og jafnvel ekki þann næsta heldur eins og þegar ég horfði á um daginn að ung stúlka 10-11.ára var að versla með ættingjum og var keyptur mjög stór ís fyrir hana og meira að segja á fullorðins mælikvarða. Þessi stúlka var í mikilli ofþyngd og finnst mér þetta dæmi sýna og segja allt sem segja þarf. Sumir foreldrar eru oft ekki meðvitaðir um þetta eða einfaldlega loka augunum fyrir því. Þeir foreldrar eru sjálfir oft í yfirþyngd og eru þ.a.l ekki eins meðvitaðir vegna þeirra eigin vandamála. Varðandi hreyfingu þessarra barna , þá er bæði leikfimikennsla skólanna oft ekki upp á marga fiska en virðist samt sumstaðar vera aðeins að vakna og svo inn á heimilunum þar sem sjónvarpsgláp og internetið hefur tekið yfir brenniboltann, hjólatúrarna, skautana osfr.sem margir foreldrar muna í fersku minni. Annars finnst mér einnig oft miklu meiri fordómar gagnvart þvi fólki sem er of grannt, ekki vegna anorexíu heldur af náttúrunnar hendi, þekki ég nokkur dæmi þess og veit að þvi fólki líður heldur ekki vel t.d. að heyra: borðaðu nú meira, fáðu þér nú vel af rjóma osfr. Það fólk fær oft þessar ábendingar og af hverju ertu svona grannur bla bla bla… Myndum við segja eitthvað í þessa áttina að fólki sem er of feitt : hva af hverju borðar þú svona mikið og af hverju ertu svona feitur?
  Að lokum: þetta eru bara hugleiðingar mínar og vel meintar og er settar með fullri virðingu fyrir ykkur hinum sem hafa komið með ykkar góðu hugrenningar , en þetta er gott mál að ræða og ætti að hafa meira í umræðunni en á því plani að allir njóti vafans og ekki síst virðingar án tillits til þyngdarhlutfalls ofl. Vonandi verður meira hægt að gera fyrir þessi börn í framtíðinni sem eru of feit með breyttu hugarfari okkar allra sem umgöngumst þau og aðra sem glíma við þessi vandamál.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  @ Guðrún

  Mér sýnist við í flestum atriðum sammála. Og ég trúi ekki að neinn sé að predika sátt við offitufaraldurinn. Ég skil umræðuna hér á þessu bloggi þannig, að hún snúist um virðingu fyrir einstaklingnum og kröfu um að við hugsum um og gagnrýnum þær líkamsímyndir sem haldið er að okkur.

  Þetta er gott og blessað, en verður stundum svolítið undarlegt í framkvæmd. Maður fær stundum á tilfinninguna að verið sé að tala um veruleika sem maður kannast ekki alveg við; þ.e. mér finnst sjónarhorn höfundar stundum skrýtið. Það er eins og það hafi orðið menningarleg afstöðubreyting gagnvart feitum sem elur á fordómum og grefur undan sjálfsmynd þeirra, án nokkurs hvetjandi þáttar. En, hérna, það geisar offitufaraldur! Það þýðir ekkert að neita því. Það er ekkert verið að ráðast á gaurinn úr „þykku“ fjölskyldunni! Stór hluti mannkyns stefnir í að éta á sig gat með tilheyrandi heilsufarsvandamálum.

  Hér er líklega um eina helstu ógn við heilsu okkar á 21. öldinni að etja. Mig langar aftur að bera þetta saman við reykingar á 20. öld, þetta er um margt líkt. Því þurfum við að berjast gegn þessum vanda með öllum tiltækum ráðum. Ég hef ekki gefið mér tíma til að kafa ofan í áætlanir Michelle Obama, en markmiðið er gott.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum. Það að fólk hafi fitnað þýðir ekki að allir séu orðnir eins og þeir allra feitustu í USA. Það þýðir bara að fólk hefur bætt á sig.

  Ég legg til að þú skoðir myndbandið sem fylgdi með færslunni hennar Sigrúnar fyrir stuttu um BMI skalann (sem er notaður sem grunnur í umfjöllun um offitu). Þar kemur fram hvernig fólk sem enginn myndi telja vera nálægt offitu (heldur bara með aðeins utan á sér) er allt í einu komið í offitu samkvæmt BMI.

  Þessi skali er einfaldlega algjörlega allt of strangur. Sem veldur því að allar tölur um hina hrikalegu offitu sem er að taka yfir heiminn verða mjög skrítnar líka.

 • Guðrún 🙂
  kæra nafna, ég held að við fæst séum að velta einhverju BMI skala fyrir sér , ég held að við þurfum einfaldlega að skoða blákaldar staðreyndir lífsins eins og þær koma fyrir og ekkert öðruvísi. Það eru til ótal myndbönd um hitt og þetta gagnvart offitu og ýmsum staðalmyndum og ótal mýtur til þar að lútandi. Sem foreldri ungrar stúlku sér maður að umræðan milli stúlkna 8-9 ára er þegar byrjuð að einhverju leyti um fitu og ekki fitu og sumar byrjaðar að vigta sig í sundi og pæla þarf maður að hugsa hvað maður t.d. lætur út úr sér heimafyrir, þekki það með sjálfa mig á tímabili ,þegar maður hafði bókstaflega á heilanum allt sem við kom þessum blessuðu 10 + e-hvað kílóum sem maður bar utan á sér og ekki var talað um annað í næsta saumaklúbb eða þegar maður hitti vinkonur sínar hittast hvað þessi og hin liti út og hvort hún hefði grennst og bla bla…

  Ég sem nemi í heilbrigðisvísinum, móðir, neytandi osfr. verð ásamt öðru fólki að notast við heilbrigða skynsemi í þessum málum sem öðrum eins og best verður á kosið. Við þurfum ekki annað eins og ég hef bent á að fara nema í næstu búð eða aðra staði þar sem fólk kemur saman í daglega lífinu að sjá hvað hrikaleg ofneysla fólks er á Mat og þá meina ég OF NEYSLA á mat, gosi , sætindum ofl. Þetta hreinlega dettur í fangið á manni við kassa búðanna og er meira framboð á þessum vörum nokkurn tíma en heilbrigðu fæði eins og fersku grænmeti og öðru þ.a.l.
  Auðvitað er þetta meira en lítið freistandi og ekki skrýtið að við flest dettum í það endrum og eins en sumir svo meira en aðrir og vita svo ekki fyrr en að allt í einu er maður orðinn mörgum kílóum of þungur.

  Það er engin ein skyndilausn til, en þetta kallar alltaf á breytt hugarfar og það er út af kortinu að halda að ekki megi segja hlutina eins og þeir eru: FÓLK er orðið alltof FEITT í dag! Sorglegast í þessu öllu er að framtíðin okkar , börnin og unglingarnir eru þar að nálgast meirhlutann í offituhlutfallinu. Dæmi: fór út að ganga í dag og mætti þar stórum hóp af frísklegum og flottum unglingum í göngu með íþróttakennara, ca 30% þeirra voru í greinilegri ofþyngd og þá er ég ekki að tala um 5-10% yfir kjörþyngd því það kalla ég ekki ofþyngd, það er það sem maður kallar sjáanlega ofþyngd eins og kannski 15-30 kg. sem er mjög há tala fyrir 15-16 ára ungling. Eins er mjög sorglegt að sjá eins og þarna að þarna voru kannski um 10-15% í göngu með sígarettu sér i hönd eins og ekkert væri sjálfsagðara. Maður predikar ekki svo glatt yfir unglingum, þau verða kannski oft á tíðum að finna þetta sjálf en þá kemur kannski jafningjarfræðsla ásamt kröftugum forvörnum ýmisskonar en það śem fólk kallar Hræðsluáróður! er oft betri en ENGINN áróður!

  Að tala um OFÞYNGD undir rós svo enginn móðgist er fáránlegt, við verðum að þola svona umræður án þess að allt sé skrifað upp á endalausa FORDÓMA!
  Hef sjálf unnið lengi í heilbrigðiskerfinu með öllum aldurshópum og séð að það er enginn allsherjarlausn á einu eða neinu, en aðalatriðið er það sem við flest myndum vera sammála um að ef einstaklingurinn er ekki motiveraður sjálfur i það ganga hlutirnir hægar en ella, en allt sem hjálpar er gott , sama hvaðan það kemur og berum við þá samfélagslegu ábyrgð gagnvart börnum okkar og unglingum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma i veg fyrir að þau þjáist áfram af offitu fram á fullorðins ár með tilheyrandi sjúkdómum og erfiði.

 • Guðrún. En ef ekki á að fara eftir mælikvörðum (sem hafa jú verið notaðir til að láta eins og offitan sé að taka yfir heiminn) heldur einfaldlega það sem við sjáum í kringum okkur þá fer það auðvitað allt eftir persónulegum mælikvörðum. Ég sé auðvitað að það er til mikið af sælgæti og snakki og gosi. En það er líka til mjög mikið af heilusamlegu fæði, fæði sem var ekki til fyrir 15-20 árum. Núna eru alls konar ávextir og grænmeti, sykursnauðar og fitulitlar mjólkurvörur og alls konar lífrænt fæði út um allt. Fyrir 25 árum síðan var fólk ekkert að steikja upp úr ólífuolíu heldur notaði bara smjörlíkið. Börn drukku nýmjólk. Og skúffukaka, pönnukökur eða snúðar í „drekkótíma“. Og það var mjög óvenjulegt ef salat með matnum.

  Held nefnilega að í öllu talinu um óhollustuna gleymist líka hvað margt gott hefur gerst líka. Hvernig fólk er farið að drekka meira vatn (bæði venjulegt og sódavatn). Farið að steykja upp úr olíu en ekki smjörlíki. Borða ávexti og grænmeti og borða alls konar lífrænar vörur.

  Þannig að það er alls ekki þannig að hér sé allt af fara til helvítis í matarmálum. Það er einfaldlega bara meira úrval af öllu, bæði hollu og óhollu.

  En annað, varðandi þennan hóp unglinga sem þú mættir, ertu að segja að næstum helmingur þeirra hafi verið með offitu? Eða hvaða viðmið ertu með þegar þú talar um kjörþyngd?

 • Guðrún,
  :)Þetta eru mjög góðir punktar hjá þér og er ég þér hjartanlega sammála þér í flestöllu , en varðandi þessa unglinga sem ég minntist á tók ég nú bara lítið dæmi um það sem blasti við mér og mínu huglæga mati.

  Ég er ekki góð í tölfræði-útreikningum og ætla ekki að fara að koma mér á hála braut i þeim efnum. Fyrir mér blasti þarna flottur og glaður hópur unglinga að ég held um 50.manns ca á að giska og sýndist mér að minnsta kosti 30% þeirra vera yfir kjörþyngd. Auðvitað byggjum við ekki almennar rannsóknir á huglægu mati! það er heldur ekki það sem ég átti við, heldur eins og áður sagði mitt huglæga og sjónræna mat á þessum málum en ekki ANNARRA. Né heldur finnst mér matarvenjur Íslendinga að fara til helv…

  Varðandi hollustuvörur matvörubúðanna er það alveg rétt að það hefur mikið aukist í samanburði við það sem áður var en mætti vera á mun betra verði en það sem okkur býðst í dag.

 • Harpa Kristjánsdóttir

  Þegar ég las fyrstu kommentin kom í huga mér setning sem ég fékk einu sinni framan í mig þegar ég var sem þyngst: að þetta feita fólk væri bara svo heimskt að það fattaði ekki að það væri að drepa sig.
  Ég held að við ættum að skoða meira það sem er að gera það að verkum að börnin okkar verða allt of feit, ég er ekki að tala um 5-10 kíló, það finnst mér nú bara vera eðlilegt.
  Það er reyndar alveg á hreinu að við sem foreldrar höfum allt með það að gera hvað börnin okkar láta ofaní sig, um leið og ég breytti mínu matarmunstri breyttist það sömuleiðis hjá börnunum mínum, en svo sé ég mikinn mun á neyslumynstri hjá mínum 3.
  Það er afturámóti á ábyrgð okkar foreldra hvernig við tölum við börnin okkar um útlit annara, ég hef t.d fylgst með börnum allt niður í 5 ára stríða leikfélögum sínum og kalla þá fitubollur og ýmislegt miðurgott. Hver kennir 5 ára krökkum að það sé ljótt að vera svona og hinsegin? jú, við foreldrar.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  @ Harpa

  Þú kemst að hjarta málsins að mínu mati. Þetta er tvennt aðskilið, að berjast gegn offitu og að hvetja til umburðarlyndis.

  Það þótti á tímabili sniðugt í baráttunni gegn reykingum að draga upp þá mynd að reykingafólk væri heimskt/illa innrætt (þetta sást betur í baráttunni á Norðurlöndunum í kringum 1980 en hér). Í dag eru allir sem stunda rannsóknir á lýðheilsuvanda sammála um að slík nálgun skilar litlu sem engu; það er að gera lítið úr þeim sem eiga við vanda að etja. Það sama gildir að sjálfsögðu um baráttuna gegn offitu.

  Vandamálið með baráttuna gegn offitu er að hún er ekki jafn svart/hvít og reykingar. Þess vegna er ákveðin hætta á ferðum þegar við stöndum í slíkri baráttu, að baráttan renni að einhverju leyti saman við þann þátt í útlitsmenningu okkar sem klárlega er sjúkur. Það er hins vegar langt frá því að þessi „sjúkleiki“ sé skýrt skilgreindur og við getum auðveldlega áttað okkur á því hvenær umræða um hollustu er farin út í „öfgar,“ samanber umræðu um Latabæ.

  Gagnrýni mín á umræðu hér á þessum bæ snýr að því að mér finnst hvatningin til umburðarlyndis og gagnrýni á sjúkar staðalmyndir, ganga of langt. Einhvern veginn verður niðurstaðan stundum–að mínu mati–sú að offita sé vart til nema sem menningarlegur skilgreiningarvandi.

  Varðandi BMI. Þessi kvarði er hausverkur og fer mjög í taugarnar á læknum og öðrum sem þessum málum sinna. Hann er hins vegar gríðarlega einfaldur í notkun og það eru skýr, tölfræðileg tengsl milli þess að vera í ákveðnum flokkum og ákveðinna heilsufarslegra vandamála sem almenn sátt ríkir um að tengist of mikilli þyngd. En að halda því fram að fólk sem er í offituflokki (BMI: >30) sé þar að ófyrirsynju er fáránlegt. Fólk sem er í slíkri þyngd er í sannanlegri áhættu varðandi fjölda sjúkdóma og þyngd þess er ógn við heilsu þess. Þetta myndband sem vísað er í sýnir fólk í öllum stærðum og gerðum, þar með talið nokkra sem eru allt, allt of feitir.

  Helsti vandinn með BMI snýr að fólki sem er 20–30, þar er kvarðinn ekki góður, því hann getur van- og ofmetið. Þannig getur kraftalegur karlmaður sem er 26 verið með lága fituprósentu, á meðan þybbin kona nær ekki yfir 25. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir snýst frekar um kviðfitu (fituna sem sest í kringum kviðarholslíffæri og er því fyrir innan kviðvegginn) en þyngd sem slíka. Því er ef til vill betra að nota málband og miða við mittismál og er það iðulega gert í rannsóknum á ofþyng/offitu, ásamt BMI og fituprósentumælingum. Þá er miðað við að konur eigi að vera undir 80cm en karlmenn 94cm, að mittismáli. Ég treysti mér til að fullyrða að vandfundin sé sá karl eða kona sem fer yfir 30 á BMI og er undir þessum viðmiðum!

  Það er fáránlegt að neita að horfast í augu við þann vanda sem offita er og hlaupa í einhvers konar vörn. Sé þróun þyngdaraukningar skoðuð ber hún öll merki sjúkdómsfaraldurs, meðal annars í ójafnari dreifingu á þjóðfélagshópa. Þannig eru börn foreldra í lægri tekju- og menntunarhópum mun hættara við að fitna, en börnum tekjuhárra. Þetta tengist aukinni misskiptingu hin síðari ár og ýtir undir áhyggjur manna af aukinni heilsufarslegri misskiptingu (sem er raunar aldalöng staðreynd, því miður).

  Læt hér staðar numið og bið ykkur að afsaka orðavaðalinn. Mér finnst þetta mjög mikilvægt málefni og fagna umræðunni hérna. Undirstrika að lokum að mér finnst lofsvert að halda á lofti gagnrýni á þá útlitsstaðla sem haldið er að okkur og finnst raunar að blogg með titilinn „líkamsvirðing“ mætti víkka þennan sjóndeildarhring út enn frekar; t.d. viðhorf okkar til fatlaðra líkama o.s.frv.

 • Danton-María

  Ég hef áður tjáð mig á þessu bloggi og skoðun mín er sú sama. Ég vil þakka greinarhöfundi fyrir að varpa þessari umræðu fram því að með henni skapast fyrirtaks umræður.

  Ég er alveg sammála Nema í heilbrigðisvísindum og ítreka þær skoðanir mínar að mér finnst óeðlilegt að of feitur. Ég efast um að nokkurt barn fæðist feitt og sé áskapað að vera of feitt. Ég tel að offituvandinn sé mjög alvarlegt heilsufarsvandamál og að berjast fyrir réttindum of feitra (þá á ég við fólk sem er haldið offitu) er að vissu leyti úrkynjun.

  Það má líka að skoða hlutina í öðru samhengi.Það skýtur skökku við að fólk í þróunarlöndum hefur kannski aldrei borðað sæmilega máltíð, en fólk sem er haldið offitu í Bandaríkjunum berst fyrir því að halda í offituvandamálið.

 • Frábær og mjog torf grein hjá henni. Tví midur er hún lagt frá sú eina semhefur slíka sogu ad segja. En til allrar hamingju er fólk farid ad gera seér grein fyrir hversu rangt og skadlegt tetta vidhorf er. Vona innilega ad tessi tróun haldi áfram og takk fyrir Sigrún,bloggid titt er án efa mikilvægur táttur í ad tad gerist.

 • Já já.. margir segja líka sínar skoðanir sem hafa EKKI átt í þessu (vandamáli).
  Ég var alltaf feitlaginn krakki og í grunnskóla var ég alltaf kölluð fitu nöfnum… það varð ekkert af sjálfsáliti auðvitað eftir þetta og svo einu sinni spyr ég vinkonu mína hvað hún væri þung í 2 bekk í fjölbraut og hún segir 65 kg, nákvæmlega það sama og ég.. EN ÉG VAR FEIT ekki hún????Kannski af því að hún faldi það betur kannski.. var með feitari rass eða eitthvað og ég var alltaf með smá maga… En aldrei var talað um annað nema eg væri feit og þyrfti að fara í megrun.. Meira að segja foreldrar mínir… En þegar það er búið að brjóta mann svona niður þá er búið að segja þér að þú sert feitur og getir aldrei gert neitt í því og svo að ég gafst upp um leið og ég byrjaði og varð bara þunglind og þá át ég bara…
  Þetta gerir engum gott að leyfa svona hugsunarhátt að þú sem ert feitur sért lítils virði… En það er nákvæmlega það sem fólk segir við þig…
  og UM ÞIG…
  Ég átti mömmu sem dó úr krabbameini og var a fullt af lyfjum og var orðin lömuð og fékk svo stera sem létu hana blása út.. OG hvað segir amma mín…
  Jú.. hún sagði við hana að hún þyrfti að passa sig að borða ekkert óholt því hún væri orðin svo feit…
  HALLO…..
  how low can you go….
  Hvað kemur öðrum við hvernig þú lítur út.. ÞAÐ ER MÁLIÐ…
  OG ég borða OF LÍTIÐ… svo að ég hef óvenju hæga brennslu takk.. en er að læra að la´ta klukkuna hringja til þess að minna mig á að borða…
  Ég er ekki að borða RISA ÍS eða eitthvað álíka.. þetta eru líka fordómar!! Þeir sem borða mikið eru feitir.. jeminn…
  Held að málið sé líka að vita eitthvað um mat.. ekki fékk ég neina fræðslu um hvað kaloríur eru eða neitt þannig og hvernig á að lesa utan á mat..
  Hvernig væri að kenna það í skólanum..

 • http://www.visir.is/article/20100429/FRETTIR01/218019952

  “ Í upphafi snérist eineltið um líkamlegt ásigkomulag piltsins sem var þykkur að sögn frænku hans.“

  Ég er ein af þeim manneskjum sem lenti í svæsnu einelti sem krakki vegna offitu. Í dag er ég á miðjum fertugsaldri og er enn að glíma við tilfinningarlegar, félagslegar og andlegar afleiðingar þess. Aukakílóin hafa aldrei ógnað heilsu minni eins mikið og viðhorf samnemenda minna (og sumra kennara) gerðu. Ég fagna því þessu bloggi.

 • Mikilvægt er að gera greinarmun á því að vera þybbinn og lífshættulega feitur. Ungur vinnufélagi minn (24 ára) borðar kleinuhringi í hádegismat og virðist vart lifa á öðru en harðvirkum kolvetnum. Hann er tággrannur en varla getur þetta verið hollt. Sjálfur er ég þéttvaxinn, stunda íþróttir, borða nánast aldrei sætindi, hef lágan púls og lágan blóðþrýstings og er bara í fínum málum – væri heilsufarslega engu betur settur í kjörþyngd – sama hvað hver segir. Að sama skapi hljóta mörg þéttvaxin börn að vera ágætlega sett heilsufarslega. – Það þarf að beina athyglinni að lífsvenjum og frá sjálfu holdafarinu.

 • hraðvirkum – ekki harðvirkum

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  Bara til að árétta. Gagnrýni á áherslur hér er af minni hálfu ekki tilkomin vegna þess að mér finnist rétt að sigta út feitlagið fólk og hamra á því að það léttist allt niður í kjörþyngd! Þetta blogg er áhugavert, þakkarvert og kemur mjög mikilvægu sjónarhorni á framfæri; að það sé fleira en þyngd sem skiptir máli þegar heilsan er annars vegar, að ofuráhersla á þyngd sem slíka sé villandi og síðast en ekki síst, að slík áhersla geti leitt til þess að ráðist sé á feita sem hóp.

  Að öllu þessu sögðu verður ekki framhjá því litið:
  * að offita vex um allan heim
  * þetta gerist hratt, í beinum tengslum við breytingar á mattaræði og lífsháttum
  * því hefur þetta ekkert með líffræðilegar breytingar á tegundinni að gera, amk ekki stórkostlegar erfðabreytingar
  * afleiðingarnar fyrir einstaklingana sem eru of feitir er SKERT HEILSA, auknar líkur á íþyngjandi, langvinnum sjúkdómum og ótímabærum dauða! Að tiltaka einhverjar sögur af fólki sem er aðeins yfir hinni strangt tilteknu kjörþyngd en er samt við góða heilsu hefur EKKERT að gera með umræðuna um offitufaraldurinn!!!
  * afleiðingarnar fyrir samfélagið er aukin byrði vegna verri heilsu sem ógnar þeim framförum sem baráttan gegn reykingum hefur náð.

  Góðu fréttirnar í ofansögðu, er hraði faraldursins, ef svo má segja. Af hverju er það gott? Jú, það hjálpar okkur að sjá hversu háð þetta er ytri þáttum! Vissulega er ógeðslega erfitt að létta sig, sé maður kominn í mikla yfirþyngd. Það er líka alveg ofboðslega erfitt fyrir fólk að hætta að reykja (með bestu meðferð er árangurinn <20%). Baráttan við offitufaraldurinn verður því, líkt í baráttunni gegn reykingum, helst unnin með FORVÖRNUM. Þar bera foreldrar mjög mikla ábyrgð og feitir foreldrar ekki síst, enda líklegra að þeir eignist feit börn.

  Varðandi áhersluna á offitu barna, þá er það einfaldlega svo að það er mun auðveldara fyrir barn og ungling að létta sig en fullorðna manneskju! Ef gripið er inn í slíka þróun á unga aldri má nýta þann vöxt sem barnið á inni til að láta aukakílóin "dreifast" ef svo má að orði komast. Þá er stefnt að inngripi í mataræði og lífshætti sem stuðla að því að hægja á þyngdaraukningu þannig að með aukinni hæð kemst barnið í "eðlilega" þyngd.

  Sú áhersla sem hér er lögð á að alls ekki megi tala um offitu barna og að það þurfi að auka skilning á mismunandi "stærðum", hljómar stundum eins og uppgjöf–eða í versta falli upphafning–á grafalvarlegum, lífshótandi faraldri!

  Góðar stundir.

 • Elva Björk

  Til nema í heilbrigðisvísindum
  Sjálf er ég líka framhaldsnemi í heilbrigðisvísindum og sé strax að við erum greinilega ekki á sömu brautinni 😉

  mér fannst áhugavert að þú nefnir forvarnir og því skyni að stöðva greinilega þyngdaraukningu barna

  Af öllum þeim rannsóknum sem ég hef lesið er auðvelt að sjá að besta forvörnin er einmitt að börn og unglingar sættist við eigin vöxt og lifi heilbrigðu lífi í þeim líkama sem þeim er gefinn.

  Öll þessi neikvæða umræða um skaðsemi aukakílóa hefur þveröfug áhrif á sátt barna og unglinga við eigin líkama. Það er mjög erfitt fyrir barn í ofþyngd að sættast við líkama sinn og hugsa vel um hann með skemmtilegri hreyfingu og fjölbreyttu mataræði ef hann fær endalaust þau skilaboð frá samfélaginu að líkami hans sé ekki í lagi og nauðsynlegt sé fyrir hann að breyta sér.

  Sálræni þátturinn í þessu öllu saman virðist nefnilega oft gleymast í hræðsluáróðrum um offitu, sálræni þátturinn er svo mikilvægur og mikilvægast er að þykja vænt um eigin líkama og sættast við hann í stað þess að hata hann.

 • Danton-María

  Elva,

  Af hverju má ekki hafa forvarnir?

  Offita er alvarlegt heilbrigðismál og þeir sem eru of feitir þurfa að vera meðvitaðir um vandamálið til að geta valið sér heilbrigðari lífsstíl og grennt sig. Mjög margir sem eru of feitir, eru oft í afneitun.

  Ég er vitaskuld ekki að tala um að leggja feitt fólk, hvað þá börn, í einelti út af þessu, heldur benda á hættuna sem fylgir þessu. Hvað er eiginlega rangt við það?

  Ekki er reynt að láta reykingafólk þykja vænt um sig og sættast við sjálft sig til að það hætti að reykja?

  Það er líka hættulegt að borða feitan og óhollan mat. Fólk sem þarf tvö sæti í almenningsfaratækjum er afmyndað af fitu, með fullri virðingu fyrir því sem manneskjum. Mér þykir nær að benda því á hættuna sem fylgir þessu svo að það fari í megrun í stað þess að sættast við fitulagið á líkamanum.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  @ Elva Björk

  Sæl! Þetta er skemmtileg umræða, en ég skil samt ekki alveg hvert er verið að fara stundum og reyndi að útskýra það hér að ofan og í fleiri innleggjum hér.

  „Af öllum þeim rannsóknum sem ég hef lesið er auðvelt að sjá að besta forvörnin er einmitt að börn og unglingar sættist við eigin vöxt og lifi heilbrigðu lífi í þeim líkama sem þeim er gefinn“

  Þetta finnst mér ansi loðið! Hvað er átt við með þessu? Auðvitað ætti vinna með börnum ekki að ganga út á áherslu á hvað þau séu feit, heldur einmitt hvað felist í heilbrigðu líferni. Til þess þurfa hinir fullorðnu, foreldrar, kennarar, heilbrigðisstarfsfólk, fóstrur o.s.frv. að horfast í augu við vandann og það er bara ekki í lagi að stór hluti barna og unglinga séu allt of feit! Það er skelfilegt! Og mér er fyrirmunað að skilja þessa svarthvítu sýn sem stundum virðist birtast hér (og á þeim síðum sem vísað er á héðan, margar ef ekki allar bandarískar). Boðskapurinn virðist á stundum vera að offitufaraldurinn sé byggður á misskilningi—ef ekki hreinlega illgirni—og vandamálið verði leyst með viðhorfsbreytingu gagnvart of feitu fólki?! Ööööö… Nei! Eftir situr vandinn: offita sem verður sífellt alvarlegri (fólk er að verða feitara) og útbreiddari (sífellt fleiri eru feitir).

  Við þurfum að sjálfsögðu að sýna fólki virðingu og það sem snýr að fagfólki þarf að einkennast af fagmennsku. Forvarnir þurfa meðal annars að vera á samfélagslegu plani; við þurfum ef til vill að fara að grípa inn í. Það er verið að selja mat allan sólarhringinn sem er nánast eitur. Börn hreyfa sig sum hver ekki neitt. Við höfum aldrei áður í sögu mannsins séð jafn feit börn og við erum að sjá núna. Foreldrar þessara barna eru að marka þeim stefnu í lífinu sem jafna má við að kenna ungu barni að reykja. Það er hræðilegt og við þurfum að upplýsa fólk um hvað það er að gera barninu sínu!

  Þetta er ekki alltaf auðvelt og það er margt í umhverfinu sem hjálpar ekki. Þar þarf samfélagið að hjálpast að og lyfta grettistaki, en ekkert leysir foreldra undan þeirri skyldu að hlú að barni sýnu og reyna að tryggja því góða heilsu. Unglingur sem er akfeitur, að því gefnu að hann sé ekki með einhvern sjúkdóm sem veldur, skrifast á (vanhæfa) foreldra.

  [Og til að koma í veg fyrir óþarfa reiðilestur: ég er EKKI að tala um „þybbna“ unglinga!!! Það er stórkostlegur munur á því að vera feitlaginn og þeirri offitu sem við höfum farið að sjá undanfarin 10 til 15 ár. Þetta er bara ekki sami hluturinn!]

  Sama gildir í grófum dráttum í nálgun að feitum fullorðnum, en þar horfir maður til dæmis til baráttunnar gegn reykingum. Þar hafa rannsóknir einnig sýnt að „kriminalisering“ reykingamannsins er ekki líkleg til að ýta við fólki og hvetja til reykbindindis. Sektarkennd er ekki góður hvati. En það myndi heldur ekki gagnast að hvetja til umburðarlyndis og skilnings á reykingum!

 • Danton-María

  Ég er alveg sammála nema í heilbrigðisvísindum. Ég átta mig ekki alveg á þessari nálgun sem margir hallast að: Sætta sig við líkama sinn og þykja vænt um hann. Það hljómar vel, en er það vænlegt til árangurs? Er ekki best að lyfta hulunni af þessu rósamáli og segja hlutina eins og þeir eru (án yfirgangs og vonsku, auðvitað).

  Á Íslandi sjáum við nú kornungt fólk afmyndað af fitu. Hér er líka borðað alltof mikið feitmeti. Ég bý að hluta í annarri borg þar sem það er ekki í matarmenningunni að bjóða upp á svona óhóflegt magn af feitmeti og sælgæti. Í mörgum stórmörkuðum stendur utan á matnum hvað það eru margar kaloríur í honum. Það væri kannski til bóta að hvetja til þess hér á landi.

  Ég var mikið í matarboðum í síðustu viku og bætti á mig tveimur kílóum þrátt fyrir daglega líkamsrækt, í fyrsta lagi vegna þess að hér er lenska að troða í mann mat og í öðru lagi vegna þess að það er alltof mikil fita í veislumat og 100% rjómi í öllum kökunum. Ef ég borðaði svona mat dags daglega ætti ég mjög erfitt með að halda mér grannri.

  Vonandi er þetta eitthvað sem vert er að athuga. Kaloríumerkingar á allan mat gæti verið góð hugmynd.

 • Kolbrún

  Eitt af því erfiðasta að eiga við varðandi fitufordómana er einmitt svokallað fagfólk í heilbrigðisgeiranum. Þetta fólk telur sig nefnilega ekki bara hafa rétt á, heldur jafnvel að því sé beinlínis skylt að halda á lofti þessum tengslum á milli offitu og óheilbrigðis, ásamt því að halda fram alls kyns staðreyndum um of feitt fólk byggðum á holdafari einu saman.

  Ég var mjög feit sem ung kona og fagmaður í heilbrigði (kvensjúkdómalæknir) greindi ófrjósemi hjá mér sem „fitu og móðursýki“. Hann sagði að manneskja sem lifði svona óheilbrigðu lífi bara gæti ekki orðið ófrísk og í mörg ár hélt ég að hann hefði rétt fyrir sér (hann var fagmaðurinn eftir allt saman).

  Þegar ég svo loksins lagði af og komst í „kjörþyngd“ (skv umdeildu BMI) varð ég samt ekki ófrísk. Ég fór til annars kvensjúkdómasérfræðings sem fann strax raunverulegu orsök ófrjóseminnar (stíflur í eggjaleiðurum) og sagði að þetta væri það fyrsta sem væri kannað hjá konum. Feitar (óheilbrigðar) konur fá s.s. ekki sömu þjónustu frá fagaðlium í heilbrigðisgeiranum og afleiðingin var sú að ég með þá grillu í kollinum í 7 ár að ég gæti ekki orðið ófrísk af því að ég væri svo óheilbrigð.

  Mín saga er langt í frá einstök og þegar verið er að lista upp hættur vegna offitu er ein af þeim ófullnægjandi eða rangar sjúkdómsgreiningar frá fagmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki, þ.e. offitunni er kennt um allt.

  Ég hef líka lent í næringafræðingi (fagmenntuðum að sjálfsögðu) sem sagði mér sjálfsánægður að matarfíkn væri ekki til. Hann hélt því líka staðfastlega fram að misjöfn brennsla væri mýta og sakaði mig um svindl þegar matarplanið sem hann útbjó handa mér skilaði ekki því þyngdartapi sem hann áætlaði. Seinna fór ég í grunnbrennslumælingu hjá lækni og kom þá í ljós að ég var að brenna rúmlega helmingi minna í raun en samkvæmt þessum hefðbundnu útreikningum.

  Það sem ég vil bara benda á er að þó að fólk læri eitthvert fag, þá má það ekki fyllast yfirlæti og hroka og telja sig geta slengt fram fullyrðingum og alhæfingum í skjóli eigin menntunar. Á bak við kenningarnar er fólk og það er misjafnt. Mín leið til bata og heilbrigðis var í gegnum sálræna þáttinn. Mín aukakíló voru einkenni óhamingju og lágs sjálfsmats. Þeim held ég í skefjun með því að sættast við sjálfa mig og vita að ég á skilið betra en þá framkomu sem sumt fagfólk í heilbrigðisgeiranum hefur sýnt mér.

  Ég vona að neminn sem hefur kommentað hér muni aldrei sýna neinum slíka framkomu.

 • Nemi í heilbrigðisvísindum

  @ Kolbrún

  Sæl og takk fyrir áminninguna. Ég vona að slík afstaða hafi ekki skinið í gegnum mín skrif. Tek það fram að umræða hér um offitufaraldurinn og ákveðnar hliðar á þeirri umræðu eru ekki það sama og samskipti við ákveðna einstaklinga eða allur sannleikurinn um vandamál þeirra. Hér hef ég verið að viðra áhyggjur af ákveðinni orðræðu sem er í gangi og er mjög sterk í Bandaríkjunum og sem mér persónulega finnst einkennast af ákveðinni sátt, eða jafnvel uppgjöf, við raunverulegt heilsufarslegt vandamál.

  Að öllu því sögðu sem hér kemur frá mér að ofan, legg ég áherslu á að þegar kemur að samskiptum fagfólks við hvern og einn þarf að nálgast alla sem einstaklinga og það að einhver sé ekki í kjörþyngd er ekki aðalatriði í þeim samskiptum!!! Hafi einhver leitað til fagfólks vegna vanda þarf að skoða hann í mjög víðu samhengi þar til greint hefur verið af hverju hann stafar og hvernig er hægt að hjálpa viðkomandi. Það er mjög sorglegt að heyra að þú hafir verið afgreidd án lágmarksuppvinnslu og það hafi jafnvel tengst „fitufordómum“ viðkomandi.

  Þegar kemur hins vegar að opinberri umræðu um almennan vanda sem nú steðjar að vegna aukinnar þyngdar fólks með tilheyrandi heilsufarsvandamálum, megum við ekki kinoka okkur við að horfast í augu við vandann og berjast gegn honum. Það er óhjákvæmilegt að einhverjum sem er of þungur finnist stundum að sér vegið í þannig umfjöllun, sér í lagi ef hann neitar að horfast í augu við vandann.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com