Sunnudagur 10.10.2010 - 18:13 - 10 ummæli

Flabulous!

Þessi frábæra kona er á leið til landsins til að halda fyrirlestur á málþingi um fitufordóma sem haldið verður við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands þann 21. október næstkomandi.

Hún er höfundur bókarinnar Fat!So? og ein fjöldamargra feitra einstaklinga um heim allan sem berjast fyrir tilverurétti sínum. Þetta kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir, en  full þörf er á slíkri baráttu. Feitt fólk mætir fordómum nánast á öllum stigum mannlífsins, hvort sem það er í vinnu, skóla, verslun og þjónustu, heilsugæslu eða jafnvel heima hjá sér. Þetta hafa rannsóknir ítrekað staðfest. Sú lausn sem iðulega er bent á―að feitt fólk eigi bara að grenna sig―er engin lausn þar sem a) þær megrunaraðferðir sem þekktar eru leiða yfirleitt ekki til viðvarandi þyngdartaps og b) það er ekki á ábyrgð þeirra sem verða fyrir illri meðferð að breyta sér til að þóknast kvölurum sínum. Ábyrgðin er gerendanna.

Þess vegna er kallað eftir samfélagsbreytingum. Við þurfum að gera samfélagið þannig úr garði að öllum geti liðið þar vel, hvort sem þeir eru feitir eða mjóir, stórir eða litlir, ungir eða gamlir eða hvernig sem er. Veröldin er fyrir alla.

Það má heldur ekki gleyma því að þegar hópur fólks er litinn hornauga innan samfélagsins þá er það ekki bara hann sem þjáist. Öll finnum við fyrir átakanlega þeim skorti á umburðalyndi og virðingu sem almennt ríkir. Mannfyrirlitningin meiðir alla því við verðum öll hrædd um að verða fyrir henni. Þegar fyrirlitning á samkynhneigðu fólki var alsiða þá liðu allir fyrir það. Þú þurftir ekkert að vera samkynhneigður til þess að eiga á hættu hæðni, baktal eða fyrirlitningu; það var nóg að „líta út“ fyrir að vera samkynhneigður eða gera eitthvað sem mögulega gæti talist „hommalegt“. Þegar enginn má stíga á strik eru allir taugaveiklaðir.

Það sama er uppi á teningnum þegar við hötum fitu. Það er ekki bara feitt fólk sem þjáist heldur líka allir sem halda að þeir séu feitir eða eru hræddir við að verða feitir. Fitan í höfðinu á okkur getur verið jafn ógnvekjandi og sú sem er utan á líkamanum. Þegar við finnum að við megum ekki fara út fyrir rammann öðruvísi en að eiga á hættu að verða útskúfað af samferðafólki okkar þá líður öllum illa. Þess vegna græða allir á því að útrýma fordómum. Ef það tíðkast að horfa niður á ákveðna tegund af fólki, þá gætir þú verið næstur.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (10)

 • Mæti! Án efa!

 • Það hefðu án efa margir gott af því að mæta á þetta málþing. Svelgdist á þegar ég skoðaði heilsuviðauka Fréttablaðsins í dag – „Megrun í tvo daga gegn brjóstakrabba“. Þar er vísað í rannsókn sem sýni fram á að konur geti minnkað líkur á brjóstakrabbameini með því að fara í megrun tvo daga vikunnar… svona fyrir þær sem hafa ekki nógu mikla sjálfsstjórn til að vera í megrun alla daga vikunnar. „Í rannsókninni var einn hópur kvenna settur á 650 hitaeininga mataræði tvo daga í viku í hálft ár, og annar hópur á 1500 hitaeiningar“. Með öðrum orðum – annar hópurinn var í svelti 7 daga vikunnar og hinn í MEGA-svelti 2 daga í viku. Ég á bara ekki til orð að það sé verið að prenta svona vitleysu og ráðleggja konum að borða langt undir sveltis-mörkum tvisvar í viku. Það er m.a. þér að þakka Sigrún að maður er farinn að taka betur eftir ruglinu sem er í gangi, takk fyrir mjög þarfa umræðu.

 • Hvernig væri að hjálpa feitu fólki að grennast staðinn fyrir að vera meðvirk og styðja offituvanda þeirra?!
  Hér er alla vega einn ábyrgur aðili sem vill hjálpa feitu fólku:
  http://eyjan.is/2010/10/13/jamie-oliver-gret-thad-skilur-mig-enginn-ekki-einu-sinni-konan-min/

 • Býð nú ekki í það hvernig næsta eða þarnæsta kynslóð verða útlítandi og þenkjandi – ef við verðum svona hrikalega meðvirk.
  Þetta er nú orðið fáránlegt. Flestum líður betur í heilbrigðum líkama, þrekinn eða mjór, skiptir minna máli en líðanin skiptir þig sjálfa/sjálfan öllu máli. Um leið og maður er kominn doldið vel upp fyrir sína kjörþyngd þá fer manni að líða illa í eigin skrokk, að halda öðru fram tala nú ekki um að berjast fyrir því að fólk lifi óheilbrigt …er doldið fáránlegt…

 • Þetta snýst ekki um það að vera meðvirkur þetta eða meðvirkur hitt. Þetta snýst um það að virða fólk hvernig sem það er, feitt eða ekki.

 • Guðrún II

  Femme. Hvernig á einhver að geta ákveðið að feitri manneskju hljóti nú að líða illa? Að það geti bara ekki verið að henni líði vel?

  Kannski myndi þér líða illa ef þú værir feit, en þú getur ekki yfirfært þá tilfinningu yfir á annað fólk.

 • Femme og Alli, mæli med ad tid mætid á máltingid og kynnid ykkur málstadinn ádur en tid byrjid ad rakka hann nidur. Mjog audvelt ad dæma á grunni nafnleysis og fáfrædi.

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Ég horfði á myndbandið og fékk áfall.

  Úrkynjun, er það fyrsta sem kemur upp í hugann.

  Eg hef áður nefnt það hér, en á meðan nær helmingur jarðarbúa sveltur, myndar of feitt fólk þrýstihópa til að boða óhollustu. Það vorkennir sér af því bent er á að það sé of feitt.

  Afneitun og meðvirkni kemur líka upp í hugann. Ætla að láta þetta duga, það hefur aldrei verið til gagns að rífast við fólk sem vill endilega halda í óhollustu, sama hvað tautar og raular – og finna henni „menningarlegan“ farveg.

 • Rosalega er fólk grunnhyggið samanber athugasemd Maríu Jónsdóttur!

  Flest fólk sem er feitt í hinum vestræna heimi er akkúrat fólkið sem á engan pening og „sveltur“. Þetta fólk stendur frammi fyrir því að það er ódýrara að kaupa hamborgara, unnar kjötvörur og sælgæti til að fæða sig og börnin fyrir sem minnstan pening!

  Það eina sem gildir hérna er fræðasla og aftur fræðsla!

  Ef ég skil blogg Sigrúnar rétt – þá er hún einungis að tala fyrir því að allir séu jafnir sama hvernig við lítum út – mjó -feit – alltof feit – brún – hvít o.s.frv.

  Þetta málþyng er ekki um að það sé í lagi að vera of feitur – heldur feitt fólk er líka fólk – það er nú líka þannig að ef við komum vel fram við fólk þá líður öllum betur 🙂

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Valdís.

  Þetta er undarlegasti málflutningur sem ég hef heyrt.

  Sumu er hægt að breyta, öðru ekki. Því sem ekki er hægt að breyta er hæð, litarháttur og kynhneigð. Það er því fullkomlega eðlilegt að berjast fyrir réttindum minnihlutahópa úr þessu úrtaki.

  Það er hægt að breyta þyngd. Það geta allir grennst og losað sig við óhollustu. Ég legg offitu og óhollustu að jöfnu. Mér finnst einfaldlega fáránlegt að mynda þrýstihóp til að halda óhollustu á lofti.

  Það er víst hægt að borða hollari fæðu fyrir minni pening. Ætli sælgæti eða hamborgari væri ekki vel þeginn í löndum þar sem fólk hefur ekki borðað sæmilega máltíð á ævinni?

  Það er líka allt í lagi að fá sér hamborgara endrum og eins. Sama máli gegnir um sælgæti. En óhóflegt át leiðir til offitu. Sé ekki hvernig hægt er að komast hjá því. Ef fólk vill ekki neita sér um sælgæti og óhollan mat, þá situr það uppi með aukakílóin.

  Ég myndi aldrei sýna feitu fólki þann dónaskap og óvirðingu að gagnrýna það fyrir útlitið. Margir af samstarfsfólki mínu eru of feitir og er yndislegt fólk. Ég á líka vini og kunningja sem eru of feitir. Ég myndi aldrei segja eitt orð við þá um útlit þeirra, því ég kann mannasiði. En ég er ekki sammála lífsmynstri þeirra þótt ég láti það ekki uppskátt við þá.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com