Þriðjudagur 05.10.2010 - 10:31 - 1 ummæli

Heilsa óháð holdafari hjá landlækni Bandaríkjanna

Hver man ekki eftir fjaðrafokinu þegar Dr. Regina Benjamin tók við embætti landlæknis Bandaríkjanna? Hún fékk á sig alls kyns ákúrur og aðfinnslur og þótti ekki hæf til þess að gegna þessu embætti af því hún er feit.

Nú hefur hún sent frá sér skilaboð til bandarísku þjóðarinnar sem eru mjög í áttina að Heilsu óháð holdafari (Health at Every Size). Ég segi í áttina af því enn er harmað hve margir eru feitir og ranglega staðhæft að afleiðingar þess séu há tíðni sykursýki og annarra alvarlegra sjúkdóma. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að fita gegni orsakahlutverki við tilurð sjúkdóma heldur aðeins að ákveðnir sjúkdómar komi frekar fram hjá feitu fólki en grönnu. Orsakirnar geta auðvitað verið margar, þar sem hugsanlegt er að þættir á borð við mataræði, hreyfingu, endurtekna megrunarkúra, þyngdarsveiflur og álagið sem fylgir því að lifa við fordóma og mismunun, leiki veigamikið hlutverk í sambandi þyngdar og heilsu.

En hvað sem því líður hlýtur það að teljast skref fram á við þegar jafn valdamikil stofnun og landlæknisembætti Bandaríkjanna skiptir um gír og segir: „Allir geta verið heilbrigðir.  Við getum öll bætt okkar lífsvenjur og uppskorið betri heilsu og ánægjulegra líf, hvort sem við erum feit eða grönn. Borðum næringarríkan mat, hreyfum okkur reglulega og höfum gaman að því!“

Smellið hér til að sjá myndbandið á vefsíðu Landlæknisembættisins.

Hér má lesa grundvallaratriði Heilsu óháð holdafari:

 • Að bæta heilsu—áhersla á tilfinningalega, líkamlega og andlega velferð án áherslu á þyngdartap eða „kjörþyngd“.
 • Að bæta sjálfs- og líkamsmynd—að bera virðingu fyrir dásamlegum fjölbreytileika líkamsvaxtar í stað þess að keppa að hinni „réttu“ þyngd eða líkamslögun.
 • Að njóta þess að borða—að borða samkvæmt innri merkjum hungurs og saðningar, matarlystar og næringarþarfar hvers og eins í stað þess að fylgja utanaðkomandi matarplönum, reglum, boðum og bönnum.
 • Að njóta þess að hreyfa líkamann—að stunda reglulega og ánægjulega hreyfingu sem eykur lífsþrótt, hreysti og vellíðan í stað þess að hreyfa sig fyrst og fremst í þeim tilgangi að grennast eða halda „kjörþyngd“.
 • Að sporna gegn fitufordómum—að gera sér grein fyrir því að líkamsstærð og þyngd segja ekkert til um matarvenjur, hreyfingu, persónuleika eða mannkosti. Fegurð og manngildi koma fyrir í öllum stærðum og gerðum.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari

«
»

Ummæli (1)

 • Takk fyrir þetta innlegg – Smá reynslusaga

  Ég fór nýverið til læknis til að reyna að fá hjálp því á sl. tveimur árum þyngist ég stöðugt (eftir tíðarhvörf) án þess að borða meira. Þessi læknir hélt þrátt fyrir það sem ég sagði, því hann hlustaði ekki, að ég væri komin til að fá FIX í einhverju wonderlyfi sem hann nefndi.

  Af stakri fyrirlitningu sagði hann mér að ég myndi lifa vel hungursneið af og drattaðist til að leyfa mér að fara í blóðprufu sem hann sagðist aðeins hafa samband ef eitthvað væri að! Sem hann gerði ekki ! Niðurstöður blóðprufunnar fékk ég senda eftir beiðni mína til ritara.

  Þetta er bara saga um fordóma – en mikið vildi ég að landlæknir tæki þetta upp að við sem erum ofar kjörþyngd eða stuðla – fáum þá þjónustu sem að við þurfum hjá heilbrigðiskerfinu. Vegna þessa fordóma forðast ég að fara til lækna!

  Ég hef verið að vinna í 12 spora prógrammi til bata frá ofáti og fyrst gekk þetta mjög vel – en síðan stoppaði allt – og svo fór að fara uppávið 🙂 En vegna andlega og tilfinningalega batans taldi ég að NÚ gæti ég notað lækni – nú væri ég tilfiningalega tilbúin. Sem ég og var — því áður hefði ég farið út grátandi og farið í næstu búllu og stöffað mig — en nú var ég bara hneyksluð á hroka þessa læknis! En ég var líka GRÖM sem ég hef orðið að vinna með innan 12 sporanna.

  Ég fann aðra leið og aðra ráðgjafa og er nú farin að skila einhverjum kílóum.

  Takk fyrir að berjast gegn fordómum um feitt fólk

  kveðja
  hömlulaus ofæta í bata með hjálp 12 spora OA samtakanna

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com