Þriðjudagur 02.11.2010 - 13:21 - 9 ummæli

Fjaðrafok hjá Marie Claire

http://3.bp.blogspot.com/_B1h_gYw51EA/SbQHmabDnVI/AAAAAAAAAD8/K_fGiZd8-DI/s400/uk-marie-claire-april-2009-blake-lively.jpg

Fyrir viku birtist pistill á vefsíðu tímaritsins Marie Claire þar sem höfundurinn, ung stúlka með sögu um átröskun, viðurkennir að finnast feitt fólk viðbjóðslegt. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta sinn sem neikvæð viðhorf í garð feitra koma fram í fjölmiðlum og væntanlega ekki það síðasta þar sem yfirleitt er ekki fjallað um feitt fólk á opinberum vettvangi öðruvísi en á neikvæðan eða niðrandi hátt. Engu að síður vakti þessi pistill hörð viðbrögð sem ég verð að viðurkenna að kom pínulítið á óvart. Þetta er nefnilega í fyrsta sinn sem ég man eftir að ummæli af þessum toga veki almenna hneykslun og reiði. Þessu hef ég lengi beðið eftir.

Þegar okkur finnst ekki lengur í lagi að láta niðrandi orð falla um þjóðfélagshóp, sem litinn hefur verið hornauga, þá hefur stórt skref verið stigið í baráttu hans fyrir virðingu og mannréttindum. Eigum við að leyfa okkur að vona að slík stund sé runnin upp í baráttunni gegn fitufordómum?

Hér má lesa hina umdeildu bloggfærslu, vandræðalega afsökunarbeiðnina sem fylgdi í kjölfarið og þær þúsundir mótmælabréfa sem bárust eftir að pistillinn fór í loftið. Einnig hvet ég ykkur til að kíkja á frábært svar bloggarans Plumcake við umræddum pistli.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (9)

  • Vá þessi pistill er alveg fáránlegur! og afsökunarbeiðnin rímar mjög illa við það sem hún lætur út úr sér í pistlinum.

  • Þetta er alveg rosaleg grein hjá henni. Og ég varð, eins og þú Sigrún, hissa (ánægð hissa) á neikvæðu viðbrögðunum. Ég hafði eiginlega búist við „gott hjá þér, feitt fólk er ógeðslegt“ viðbrögðunum.

    Kannski eru hlutirnir aðeins að snúast til hins betra. Fólk farið að átta sig á því að „baráttan gegn offitu“ veldur fólki skaða. Að það sem hefur komið út úr „baráttunni“ er hatur á feitum og fordómar gegn þeim.

  • Þakka þér! Þú ert superfantastic!

  • Járngerður

    Já mér fannst dapurlegt að lesa þessa grein.
    En ég skellti Plumkake í favorites hjá mér. Greinilega frábær bloggari þar á ferð.

    Ábm: Freydís.

  • Danton-María (María Jónsdóttir)

    Ég las greinina og bjóst við að hún væri mjög særandi, en lesturinn kom mér á óvart. Konan var að segja það sem flestir hugsa og athugasemdirnar voru með ólíkindum. „Ég vona að þú deyir. Feita barnið mitt er meira virði en þú.“

    Sjálf myndi ég aldrei nota orðið „Fatty“ eða lýsa viðbjóði á þessum tveimur persónum sem um ræðir, en þar sem fólkið er klárlega mjög feitt, finnst mér rétt að taka fram að ég var henni sammála.

    Það er hreinlega ekki góð hugmynd að reyna að telja fólki trú um að offita sé góð og við sem erum í kjörþyngd ættum að skammast okkar. Það er eins og að innprenta í fólk að 2 og 2 séu 5.

    Fyrir flesta er ógerlegt að vera í fatastærð 34, en offita er óheilbrigð, hættuleg og það er hægt að afstýra henni með hreyfingu og réttu mataræði.

    Ef fólk er of feitt, er það í minnihlutahópi, rétt eins og reykingafólk. Það getur valið um að léttast og verða heilbrigðara. Ég fæ ekki fimm út úr tveimur og tveimur.

    Hér á landi er offita að verða virkilegt heilbrigðisvandamál. Mér finnst ekki rétt að segja að það sé allt í lagi að vera of feitur.

  • Danton María, fyrir það fyrsta er enginn að reyna að fá fólk í „kjörþyngd“ (meðalþyngd öllu heldur) til að skammast sín fyrir líkama sinn, enginn ætti að skammast sín fyrir líkama sinn.

    Í öðru lagi er enginn að reyna að telja fólki trú um að 2+2 séu 5. Félagsleg mál af þessum toga (hér fordómar gangvart feitum) eru nær aldrei jafn svört og hvít og þú villt með þessum ummælum meina. Og að halda það að þetta sé jafn einhliða og einfalt stærðfræðidæmi lýsir einungis trega fólks til þess að opna hugann og sjá hlutina í stærra og víðsýnna ljósi. Fordómar einkennast yfirleitt af þröngsýni og fáfræði.

    Í þriðja lagi þá finnst mér leiðinlegt að heyra að þú deilir þessum fordómum hennar, aðallega leiðinlegast fyrir þig. Það fer hreinlega svo ótrúleg orka í það að vera á móti fólki og ala með sér reiði og fordóma. Ég fæ bara ekki á nokkurn hátt skilið hvernig slíkt viðhorf bætir líf þitt eða annarra???? Hvernig er það annað er illkvikindislegt ef þú vísvitandi skerðir eigin lífsgæði og/eða annarra?? Þarna er reikningsdæmi sem ég myndi vilja fá svarað.

  • Danton-María (María Jónsdóttir)

    Dagný,

    Ég veit ekki hvort þetta eru fordómar, held að þetta sé heilbrigð skynsemi. Það er öfugsnúið að vera sakaður um fordóma verandi í kjörþyngd og með þá skoðun að fólkið sem um ræðir sé of feitt.

    Ég hef einfaldlega áhyggjur af eigin börnum og ættingjum vegna offitunnar sem er orðið mikið heilbrigðisvandamál. Pistlar Sigrúnar, sem eru reyndar athyglisverðir í sjálfu sér, reyna að sýna fram á að það sé allt í lagi að vera of feitur. Mjög feitur.

    Mér þykir það leitt, en mér finnst offita ekki geðsleg. Hins vegar hefði höfundur greinarinnar mátt sleppa því að taka þannig til orða og það er ljóst að hún særði marga. Hún hefði átt að lýsa viðhorfi sínu á miklu nærgætnari hátt.

    Eitt skil ég ekki og það er: Finnst þér allt í lagi að fólk sé of feitt? Finnst þér ekki nær lagi að hvetja það til að losa sig við umfram kílóin? Bara til að hjálpa því svo að það deyi ekki fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem tengjast offitu?

  • Harpa Kristjánsdóttir

    Danton maría
    Umfram hvað kílóin? þá kjörþyngd? það sem augað sér? BMI ?
    Gott að ég þekki þig ekki(vonandi ekki) því að mér þætti óþægilegt að vera í návist einhvers sem þætti ég ekki geðsleg, ég er nefnilega ekki í kjörþyng og samkvæmt BMI er ég í 31 sem er offita, sé mig ekki svoleiðs samt, finnst ég svona bara frekar venjuleg, þarf kannski að fara að endurskoða það

  • Danton-María (María Jónsdóttir)

    Þetta er ósköp einfalt. Umfram kílóin sem safnast á fólk og veldur sjúkdómum ef viðkomandi reynir ekki að léttast. Fólk sem á erfitt með að hreyfa sig vegna offitu, er kannski mæðið með slæm hné.

    Ég hef áður sagt á þessari síðu að ég er algerlega sammála því viðhorfi að við erum öll með mismunandi líkama og það ber að virða. En ég er algerlega á móti því viðhorfi að það sé allt í lagi að vera of feitur, vegna þess að með því er verið að verja óhollustuna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com