Föstudagur 12.11.2010 - 17:16 - 7 ummæli

Fordómakennsla

Þeir sem bara borða kjöt og bjúgu alla daga,
þeir feitir verða og flón af því…

Svona hljómar laglína úr sívinsælu barnaleikriti sem sungin hefur verið á  íslenskum heimilum og leikskólum í áraraðir og er eitt af ótalmörgum dæmum um hvernig fitufordómar birtast í lífi barna. Í  barnabókum, teiknimyndum og barnaleikritum er mjög algengt að rekast á fitubrandara og niðrandi orð um þéttvaxið fólk. Á þann hátt er börnum á áhrifamikinn máta kennt að skipta fólki í tvo hópa eftir holdafari og hæðast að þeim sem bera meira utan á sér.  Þeim er ekki aðeins kennt að hlæja að feitu fólki og tengja þéttholda vöxt við heimsku, leti og matgræðgi heldur einnig að slík viðhorf mæti velþóknun annarra. Það ætti því ekki að koma á óvart að feit börn verði fljótlega álitin sjálfsögð skotmörk fyrir stríðni og allskyns félagslegar árásir.

Komið hefur í ljós að lítil börn á aldrinum þriggja til fimm ára eru þegar farin að tileinka sér fordóma samfélagsins. Í einni rannsókn voru leikskólabörnum sýndar teikningar af feitum og grönnum börnum til að kanna viðhorf þeirra til holdafars. Niðurstöðurnar  sýndu að börnin höfðu sterka andúð á feita barninu, sem lýsti sér m.a. í því að þau tengdu fleiri neikvæð lýsingarorð og færri jákvæð við teikningar af því og vildu síður eignast það sem leikfélaga.  Auk þess vildu þau allra síst líkjast feita barninu í útliti.  Andúð þeirra fór vaxandi eftir aldri og var jafn áberandi meðal feitra og grannra barna. Börn á þessum aldri eru sem sagt þegar búin að tileinka sér fitufordóma áður en þau átta sig á því að þau eru sjálf feit. Ímyndið ykkur áhrifin á sjálfsmynd barnsins þegar það áttar sig á því að það á heima í þeim flokki sem það er búið að ala með sér fordóma gagnvart. Það verður erfitt fyrir slíkt barn að halda sjálfsvirðingunni í lagi.

Þegar komið er fram í grunnskóla sýna rannsóknir að feit börn eru síður kosin sem leikfélagar og verða oftar fyrir aðkasti en grennri jafnaldrar. Kennarar hafa neikvæð viðhorf til feitra nemenda sinna og álíta þá sóðalega, tilfinningasama og ólíklegri til að ná árangri en aðra nemendur. Bent hefur verið á að þessi höfnun skólafélaganna sé líklega fyrsta reynsla feitra barna af fordómum vegna þyngdar sinnar. Hún mun þó ekki taka enda við lok grunnskóla heldur aðeins vaxa og hafa víðtækari áhrif. Þegar feit börn vaxa úr grasi geta þau átt von á því að eiga erfiðara með að komast inn í háskóla, erfiðara með að fá vinnu, fá lægri laun og hljóta sjaldnar stöðuhækkun en þeir sem eru grennri – og þetta á auðvitað mun frekar við um konur en karlmenn. Líkur eru fyrir því að þeim verði mismunað af afgreiðslufólki, vinnuveitendum, heilbrigðisstarfsfólki, fólki úti á götu og jafnvel mökum og fjölskyldu.

Fitufordómar eru alvarlegt samfélagsmein sem snertir stóran hluta þjóðfélagsins og hefur slæm félagsleg, tilfinningaleg, efnahagsleg og heilsufarsleg áhrif. Það er kominn tími til þess að við lærum að þekkja þessa fordóma og mótmæla þeim. Sættum okkur ekki við barnaefni, kennsluefni eða skemmtiefni sem fjallar á nokkurn hátt neikvætt um holdafar fólks og kennir mismunun og niðurlægingu. Það er vel hægt að vera fyndinn eða fjalla um heilsu og góðar lífsvenjur án þess að blanda við neikvæðri umræðu um holdafar. Það er kannski aðeins flóknara en að apa gagnrýnislaust upp fordómana í samfélaginu, en er ekki bara ágætt að við látum aðeins reyna á huga okkar og hjarta? Gagnrýnin hugsun ætti ekki að skaða neinn.

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Ummæli (7)

  • Flott hjá þér.

  • „Fitufordómar eru alvarlegt samfélagsmein“
    Offita er líka alvarlegt samfélagsmein. Það er ekkert að því að móta börnin þannig að þau falli í þá gryfju að verða of feit, það er best og hollast fyrir þau.
    Hins vegar er alveg rétt að það er slæmt að það séu fordómar og stríðni fyrir feitu fólki, enda getur það alveg gert það sama og allir hinir (ef við tökum ekki eitthvað líkamlegt erfiði)

  • falli í þá gryfju??

  • Kristján Birgisson

    Lendi í offitu.

  • Kristján Birgisson

    Lausnin á offituvandamálinu (hinn hefðbundni fyrirvari: því vandamáli sem hættuleg offita er – ruglist ekki saman við hættulausa vengjulega líkamsfitu sem margir eru sáttir með, bannað er að gera grín að o.s.frv.):

    http://edition.cnn.com/2010/HEALTH/11/11/weight.loss.race/
    (fyrir-og-eftir myndin er alveg mögnuð)

    The bottom-line diet: Eat less

    At 400 pounds, Posnanski learned he might never be healthy enough to have children with his wife, Rebecca. His doctor said he needed bariatric surgery. In February 2008, he vowed to change.

    „I changed the way I ate,“ said Posnanski, 34, who went from consuming 10,000 calories a day to 2,400.

  • Fitufordómar eru staðreynd – það er líka staðreynd að oft af ótta við fitu, er börnum ekki gefin matur sem inniheldur einmitt þá fitu sem að þau þurfa.

    Ég vil benda þeim hér að ofan sem halda að þetta sé eitthvað sem lent er í eða fallið í að erfðir eru mjög sterkur þáttur.

    Og Kristján „borða minna“ já gott og gilt en einmitt þessir eilífu megrunarkúrar eru OFT sökudólgar þess að fólk verður feitara eftir hvern kúr.

    Það sem ALLIR þurfa að gera er að borða hollan og næringarríkan mat eins og líkaminn þeirra þarf til að viðhalda heilbriðri þyngd og heilbrigð þyngd er ekki sú sama fyrir alla!

    Það er algengur misskilningur að feitir borði endilega svo mikið! Þeir eru oft að undirborða og því heldur vélin / líkaminn í hvert gramm því hann heldur að hér sé á ferðinni hungursnið 🙂

    Já það er erfitt að rata í þessu samfélagi sem er uppfullt af fitufordómum! En kennum börnum okkar líkamsvirðingu og margbreytileika og þá kannski hættir fólk að verða FEITT af megrunarkúrum.

  • Danton-María (María Jónsdóttir)

    Hér vill oft gleymast að offita er orðið mjög alvarlegt heilbrigðisvandamál sem þarf að taka föstum tökum.

    Ég er ekki að tala um smávegis yfir kjörþyngd, en þegar fólk er orðið svo feitt að það leiðir til sjúkdóma, þarf að taka á því.

    Megrunarkúrar eru gagnslausir, en það eru til góðar leiðir til að grennast, trappa sig niður smám saman og stunda líkamsrækt. Það er fín grein á doktor.is með gagnlegum leiðbeiningum. Ég veit um fólk sem fór í átak eftir að hafa þyngst og náði niður 20 kílóum á einu og hálfu ári.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com