Föstudagur 10.12.2010 - 23:14 - 2 ummæli

Útskýringar og útúrsnúningar

Það er nauðsynlegt að birta reglulega útskýringar og leiðréttingar á bloggsíðu sem þessari, þar sem misskilningar og útúrsnúningar spretta upp eins og gorkúlur. Ég er með reglulegu millibili sökuð um að hvetja til offitu, styðja óhollar lífsvenjur, réttlæta offitu sem heilbrigðan lífsstíl og ég veit ekki hvað og hvað. Ekkert af þessu er rétt og þeir sem halda þessu fram skilja ekki – viljandi eða óviljandi – það sem ég er að segja.

Í fyrsta lagi hef ég aldrei nokkurn tíman sagt að ég styðji óheilbrigðar lífsvenjur. Ég hef þvert á móti margsinnis bent á mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi á þessari síðu, að borða næringarríkan mat, hreyfa sig reglulega, sofa nóg, vinna gegn streitu o.s.frv. Það að vera ánægður með sjálfa(n) sig og vinna gegn fitufordómum er liður í því líka, enda engin heilsa án geðheilsu eða félagslegrar velferðar.

Í öðru lagi hef ég aldrei hvatt til offitu. Ég vil ekkert sérstaklega að allir séu feitir frekar en að allir séu grannir. Ég vil bara að fólk hafi frelsi til að vera eins og það er og lifa uppbyggilegu og ánægjulegu lífi í þeim líkama sem því var gefinn. Ég trúi því að við höfum öll okkar náttúrulegu kjörþyngd sem er einstaklingsbundin og því mismunandi fyrir hvern og einn. Ég hef fulla trú á því að fólki geti verið eðlislægt að vera bæði undir og yfir þessum mörkum sem við köllum kjörþyngd. Eru þá allir í sinni náttúrulegu kjörþyngd? Nei, alls ekki. Margir eru ýmist þyngri eða léttari en þeim er eðlislægt að vera af því þeir hafa tileinkað sér óheppilegar lífsvenjur. Það er einmitt málið og það er það sem við eigum að beina sjónum að.

Það er vissulega sorglegt að sjá hversu margir eru tilbúnir að fórna heilsu sinni fyrir skammtíma ávinning, hvort sem hann felst í að borða of mikið eða lítið, hreyfa sig of mikið eða lítið eða hvað sem það er. Hins vegar finnst mér bæði gáfulegra og mannúðlegra að benda á þær lífsvenjur sem þykja óæskilegar (t.d. öfgar í mat, drykk og hreyfingu) heldur en það holdafar sem þykir óæskilegt. Það er til fullt af fólki sem fellur utan kjörþyngdar án þess að lifa óheilbrigðu lífi. Hvers vegna skyldum við draga þann hóp inn í umvandanir okkar? Og af hverju skyldum við horfa fram hjá þeim sem eru í „réttri“ þyngd en fara illa með líkama sinn?

Að tala um rétt og rangt holdafar er að tala í kringum það sem raunverulega þarf að huga að: Hegðun. Það bætir engu uppbyggilegu við að hamra á því að offita sé slæm. Það er alveg nóg að segja að það sé slæmt að lifa á skyndibita, sælgæti og gosi, reykja, hreyfa sig lítið, sofa lítið, þamba kaffi og lifa lífinu í stressi og ólund. Óhollar lífsvenjur er alveg jafn óheilbrigðar hvort sem grönn eða feit manneskja á í hlut. Með því að leggja áherslu á hollar lífsvenjur beinum við máli okkar að síétandi sófakartöflunni – staðalmynd hinnar feitu mannveru – en líka að granna unglingnum sem þambar orkudrykki og borðar pizzu í öll mál. Hann má líka fá að heyra að hann sé ekki í góðum málum. Þegar holdafarið er í brennidepli getur fólk talið sér trú um að allt sé í stakasta lagi svo lengi sem það er ekki feitt. Ég veit ekki hve marga ég hef heyrt gorta sig af því að hafa aldrei „þurft“ að stíga fæti inn á líkamsræktarstöð af því þeir hafi aldrei átt í vandræðum með vigtina. Þetta er óheppilegt viðhorf þar sem ekki er hægt að ganga út frá því að grannur vöxtur veitir vernd frá vanheilsu ef lífsvenjurnar eru slæmar.

Að sama skapi – ef við beinum sjónum að lífsvenjunum en ekki líkamsvexti  – þá erum við ekki að jagast í fólki að óþörfu sem er þegar að gera það sem í þeirra valdi stendur til þess að viðhalda heilbrigði og vellíðan. Ef manneskja sem er yfir kjörþyngd er þegar að hreyfa sig og borða hollan mat í eðlilegum skömmtum, hvað annað á hún að gera? Eigum við að hvetja hana til þess að borða minna en eðlilegt gæti talist svo hún geti þvingað þyngd sína niður umfram það sem líkama hennar er eðlislægt? Að sjálfsögðu ekki. Það er ekki raunhæfur kostur til lengdar og þjónar ekki langtíma markmiðum um heilsu og velferð. Við eigum að taka mið af því sem rannsóknir hafa kennt okkur um árangur megrunar og setja markið á eðlilegar, heilbrigðar lífsvenjur sem hægt er að halda út ævina. Síðan eigum að skapa umhverfi sem gerir þessari manneskju – og öllum öðrum – kleift að þykja vænt um líkama sinn og finnast þess virði að hugsa um hann af virðingu og alúð.

Það er markmið þessarar síðu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

  • Frábær pistill og að mér sýnist, nákvæmlega það sem þurfti. Nú vona ég að „þögn sé sama og samþykki“ og þeir sem kommenta sífellt hér inn með athugasemdir á borð við „þú villt að allir séu feitir“ „ef þú fengir að ráða dræpumst við öll úr offitu“ „veistu ekki að offita er hættuleg?“ pakki þessum óþarfa leiðindakommentum niður og hætti að eyða sínum tíma og annara með þessari vitleysu. Þetta var orðið frekar þreytt.

  • Takk fyrir þetta, þetta er alveg samkvæmt því sem ég hef skilið pistlana þína.
    Það er ekki verið að hvetja til „offitu“ heldur bera virðingu fyrir margbreytileika. Takk fyrir frábæra pistla.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com