Þriðjudagur 11.01.2011 - 13:21 - 1 ummæli

Barnatíska

Hér gefur að líta heldur óhugnanlegan „tískuþátt“ í franska Vogue þar sem litlar stelpur eru einu fyrirsæturnar. Sú gagnrýni hefur farið hátt í fjölda áratuga að tískuveröldin haldi á lofti skaðlegum útlitsstöðlum sem byggi á alltof grönnum og alltof ungum stúlkum. Hefur þessi einhliða sýn á kvenlega fegurð m.a. verið tengd við samkynhneigð karlkyns fatahönnuða, átröskunarvanda áhrifamikilla einstaklinga í bransanum, og jafnvel barnagirnd. Þessi myndasería verður vart til þess að kveða niður slíkar hugmyndir.

Yfirskrift myndaseríunnar er „cadeaux“, sem þýðir gjafir, og á ef til vill að vísa í þá dýrgripi og munaðarvörur sem koma fram á myndunum, en stúlkurnar sjást liggjandi í pakkaflóði, með dýra skartgripi, risavaxin ilmvatnsglös og sitjandi í barnaútgáfu af sportbíl. Það er þó óneitanlega einnig hægt að túlka yfirskriftina þannig að stúlkurnar sjálfar séu gjafir. Girnileg munaðarvara sem hægt er að láta sig dreyma um. Þessi tvöfalda merking hefur varla verið yfirsjón ritstjórnar, enda tískubransinn annálaður fyrir smásjársýn og  fullkomnunaráráttu, og er það einkar ógeðfelld tilhugsun.

Það sem er varhugarvert er að þarna er verið að blanda saman fullorðinsveröld, með áberandi vísun í munað, glamúr og kynþokka, og saklausri barnatilveru. Framsetningin er ekki kjánaleg og krúttleg eins og þegar lítil börn leika sér að því að klæðast alltof stórum fötum af foreldrum sínum, heldur birtast stúlkurnar í ögrandi stellingum og með tælingarsvip á andlitinu eins og fullorðnar fyrirsætur. Með slíkri framsetningu er verið að senda hættuleg skilaboð sem ríma helst við réttlætingar þeirra sem gerast sekir um barnaníð: Börn virðast kannski saklaus, en innst inni hafa þau sömu langanir og þrár og fullorðið fólk.

Kynlífsvæðing barnæskunnar er sjúkleg staðreynd og sjást merkin víða. Hægt er að kaupa g-streng fyrir smástelpur í næstu verslun, Hello Kitty framleiðir nærföt og snyrtivörur undir sama vörumerki og leikföng fyrir smákrakka, Playboy kanínan er orðið krúttlegt vörumerki í augum margra og Bratz dúkkurnar eru heill kapítuli út af fyrir sig. Það hefur orðið einhver undarlegur samruni á því sem er smábarnalegt og því sem telst kynæsandi. Í því samhengi kemur ögrandi myndaþáttur með 5-6 ára stelpum í einu virtasta tískuriti heims lítið á óvart.

Flokkar: Tíska

«
»

Ummæli (1)

  • Halla Sverrisdóttir

    Það er stundum hreinasti hryllingur að kaupa föt á stúlkur, allt frá 2 ára aldri eru flest buxnasnið sem bjóðast hér á landi mjög „grönn“, með þröngum streng og beinsniðnum, mjóum leggjum. Dóttir mín, sem nú er næstum sjö ára, hefur nánast aldrei passað vel í stelpubuxur sem fást hér og það er ekki vegna þess að hún sé „feit“ heldur vegna þess að hún er stórbeinótt og var með barnamagann svolítið fram eftir aldri. Mjónubuxurnar sem alls staðar eru í hillum barnafataverslana hér á landi passa einfaldlega ekki vel á hana, enda eru sniðin eftirlíking af sniðum fyrir unglingsstúlkur og fullorðnar konur (sem reyndar passa fæstar í þau heldur!) en miða lítið sem ekkert við líkamsbyggingu leikskólabarna eða grunnskólabarna fyrir kynþroska. Kannski ekkert undarlegt þótt stelpurnar byrji snemma að fá holdafar sitt á heilann! Þá er áberandi erfitt að finna góðar, hlýjar peysur á stelpur, það sem er aðallega í boði eru næfurþunnir, aðsniðnir bolir með „skvísulegum“ áletrunum (rock chick, party girl og annað í þeim dúr – að ógleymdum tvíræðari textum…) eða brand-áletrunum frá Disney og öðrum skemmtanaiðnaðarframleiðendum. Takk fyrir góða umfjöllun á síðunni þinni!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com