Laugardagur 29.01.2011 - 15:23 - 16 ummæli

Er þyngdartap heilsusamlegt?

Eins og áður hefur verið rætt um er merkilegt til þess að hugsa að enn skuli vera hvatt til þyngdartaps af mikilli ákefð þrátt fyrir skort á raungögnum um langtíma árangur.  Þessi staðreynd verður ennþá furðulegri þegar litið er til þess að þrátt fyrir allt kappið höfum við í raun ekki hugmynd um hvaða heilsufarslegu áhrif það hefur til lengri tíma að grennast. Hvernig gætum við vitað það þegar aldrei hefur tekist að ná fram þyngdartap hjá nógu stórum hópi fólks yfir nógu langan tíma til þess að skoða áhrifin? Þótt ótrúlegt megi virðast er því hugmyndin um að þyngdartap bæti heilsu og lengi líf ennþá óstaðfest tilgáta.

Við vitum að þyngdartap tengist jákvæðum breytingum á ýmsum áhættuþáttum sjúkdóma til skemmri tíma (t.d. lækkun blóðþrýstings) en ekki hefur enn tekist að sýna fram á að það dragi raunverulega úr tíðni þessara sjúkdóma eða lengi líf. Yfirleitt er látið eins og þetta séu nánast óþarfar upplýsingar. Eins og það sé bara gefið að þyngdartap sé æskilegt ef fólk er yfir hinni svokölluðu kjörþyngd. Slík viðhorf eru þó varla til fyrirmyndar innan heilbrigðisvísinda – að keyra áfram í blindri trú á eitthvað án þess að hafa næg gögn því til staðfestingar.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að þyngdartap sé ekki alfarið af hinu góða. Í fyrsta lagi eru nær alltaf neikvæðir fylgifiskar af þyngdartapi, því eins og fjallað var um hér fyrir stuttu, þá fer líkaminn ekki bara beint inn í fitubirgðirnar og byrjar að taka út, heldur verður yfirleitt líka eitthvað tap á massa úr vöðvum, líffærum og beinum.

Í öðru lagi hefur fjöldi langtímarannsókna sýnt að þyngdartap tengist aukinni dánartíðni – ekki lækkaðri. Auðvitað eru slíkar rannsóknir ekki til þess fallnar að skera úr um hvað veldur – og benda sumir á að hærri dánartíðni gæti stafað af undirliggjandi sjúkdómum (eins og krabbameini) sem valda bæði þyngdartapi og dauða. Engu að síður hafa sömu niðurstöður fengist þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa reykinga, fyrirliggjandi sjúkdóma og öll dauðsföll sem eiga sér stað á fyrstu árum rannsóknar eru útilokuð frá tölfræðilegri greiningu. Það verður að teljast að minnsta kosti hugsanlegt að eitthvað við þyngdartapið sjálft geti verið líkamanum skaðlegt.

Rannsakendur á þessu sviði benda á að þau gögn sem við höfum útheimti í það minnsta að spurningin sé tekin alvarlega. Það er fátt sem réttlætir að henni sé ýtt út af borðinu án frekari umræðu eða skoðunar. Líffræðilega gæti þyngdartap valdið skaða með ýmsum hætti, eins og bent var á hér að ofan. Einnig hafa nýjar rannsóknir leitt í ljós að við niðurbrot á fituvef losna úr læðingi ýmis eiturefni sem safnast hafa fyrir í líkamanum. Við þyngdartap losna þau út í blóðrásina og geta náð til mikilvægra líffæra.  Maður hlýtur því að spyrja sig hvað fólk telji sig vera að gera í detox meðferðum?

Skynsamlegast væri að stíga varlega til jarðar þangað til fleiri kurl eru til grafar komin. Það er erfitt að réttlæta hvatningu til þyngdartaps fyrr en við a) vitum að það veldur engum skaða, b) höfum traustar aðferðir til þess og c) vitum að það hefur heilsubætandi áhrif til lengri tíma.

Eins og staðan er í dag hefur engum af þessum forsendum verið fullnægt.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

 • Þórarinn

  Ertu að leggja til við þá sem eru of þungir að þeir létti sig ekki því það geti verið þeirra banabiti?

 • Eins og þú ýjar að eru dæmin örfá. Reglan sem er hérumbil ófrávíkjanleg; fólk léttist ekki.
  Það verða engar rannsóknir byggðar á því sem ekki er.

 • Sæl
  Ég tek undir það sjónarmið þitt að stíga varlega til jarðar varðandi ályktanir af flóknum klínískum rannsóknum á meðferð við offitu, en þú tekur þann pól í hæðina að segja að líklega leiði þyngdartap til minnkaðrar lifunar til langs tíma frekar en að halda þig við að segja að það hafi ekki verið úrskurðað.
  Rannsóknin sem þú bendir á fær sína gagnrýni () og bent er á varðandi viljað þyngdartap (Intentional weight loss, IWL) að:

  „However, it is important to note that none of the existing studies were designed specifically to test the hypothesis that IWL reduces mortality rate, and given methodological problems, these studies do not provide a satisfactory way to address the body mass index (BMI)-mortality question.“

  Það sem er orðið nokkuð ljóst er að skyndikúrar og sérstakt megrunarfæði skilar nær aldrei árangri til frambúðar. Þeir geta skaðað því að hröð megrun minnkar vöðvamassa.
  Offita (LÞS >30) er gríðarlegt vandamál og alvarlegt. Hætta á krabbameinum er aukin um 40%, efnaskiptin brenglast (sykursýki, fitulifur, gallsteinar), mekanísk byrði og slit á liðum margfaldast, kæfisvefn, háþrýstingur, bláæðablóðtappar, bjúgur, húðvandamál, fylgikvillar aðgerða, aukning ristiltota og fleira óskemmtilegt.
  Auðvitað er forvörnin best en það væri ákaflega skringileg ályktun að halda að það sé best fyrir offeitt fólk að halda áfram að vera offeitt af ótta við ósvaraða spurningu um lífslengd. Það er ljóst að heilsufarsleg lífsgæði aukast verulega við það t.d. að lækka úr 35 í 28 í LÞS (BMI), sérstaklega ef það er gert samhliða góðu æfingaprógrammi, á rólegan máta. (3-500 gm/viku). Við þurfum líka að lifa lífinu hamingjusöm og þau lífsgæði sem fást með betra líkamlegu formi eru ákaflega mikilvægur hluti þess að ná að lifa hamingjusamlega.
  Bestu kveðjur – Svanur

 • Hér er slóðin sem ég ætlaði að segtja í svigann () hér að ofan:
  http://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/12608523

 • Það liggur þó fyrir að ofþyngd er mönnum ekki holl, borin saman við kjörþyngd. Að hvetja fólk til þess að léttast er því rökrétt.

 • En hvað er ofþyngd? Ég tel að verið sé að ræða hér að „kjörþyngd“ og „BMI (Body Mass Index)“ hversu gamlar eru þessar „rannsóknir“ sem liggja sem grunnur að þessu að því að dæma hver er of feitur?

  Hvað er heilbrigður lífsstíll? Er það heilbrigður lífstíll að lifa á viktuðu og mældu fæði ALLTAF, kolefnissnauðu og kannski ekki meira en 1200 kaloríum?

  Er það heilbrigður lífstíll að taka af sér 40 kíló með ofangreindri aðferð á einu ári og fara svo að borða „öðruvísi“ og salla á sig á 3 mánuðum a.m.k helmingnum af þessu og restinni innan árs? Nei!

  Þannig að besta umræðan hlýtur að vera hvað er heilbrigður lífstíll en ekki hvað er ofþyngd.

  Heilbrigður lífstíll er að borða mátulega til að nærast.
  Heilbrigður lífstíll er að halda þeirri líkamsþyngd sem þinn líkami hefur valið! Ekkert jójó
  Heilbrigður lífstíll er að hreyfa sig og njóta útiveru sem eðlilegum þætti í lífinu.

  Mín eðlilega þyngd sem líkami minn valdi þegar ég var ung var 10 kílóum fyrir ofan kjörþyngd. Ég ákvað að þetta gæti ekki gengið svo ég svellti mig niður í kjörþyngd. Svo kom jójóið og það sölluðust kíló á smám saman og líf ýmisst í megrun eða í afslöppun frá megrun. Og summan af þessu varð VEIKINDI léleg heilsa.

  Ég fór í heilbrigðan lífstíl fyrir 10 árum – jú ég léttist fyrst en ekki í kjörþyngd – og þetta eru einu 10 árin í lífi mínu sem ég er hress og heilbrigð og of feit (samkvæmt fyrrnefndum viðmiðum) — en ég á líf sem er ekki í jójó þyngd upp og niður heldur stöðugleika og ég finn að ég er mörgum sinni heilbrigðari en þegar ég var í svo kallaðri kjörþyngd 🙂

  Takk fyrir skrifin þín!

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Mikið er gott að fá álit Svans hér fyrir ofan, en ég hef beinlínis þurft að verja mig fyrir að vera í kjörþyngd.

  Það er að vera ljóst að síðuhöfundur og þeir sem skrifa reglulega, vilja hafa fólk sem feitast og líta á of feita sem minnihlutahóp á borð við samkynheigða.

  Ég hef lengi bent á að kynhneigð er ekki hægt að breyta, en offitu má breyta og það er hægt að grennast á auðveldan hátt.

  Mér er fyrirmunað að skilja hvernig fólki getur liðið vel þegar það er meira en tíu, tuttugu eða jafnvel þrjátíu kílóum og þungt. Ég var einu sinni 17 kíló í umframþyngd en náði þeim af mér og allir þeir kvillar sem höfðu hrjáð mig hurfu með aukakílóunum.

  Hér er einnig ráðist reglulega á BMI stuðulinn og hann beinlínis álitinn hættulegur. Eitthvað verður að miða við og mér hefur sýnst hann vera innan þeirra marka sem flestir geta stuðst við.

 • MJ ef að þú upplifir að fólk ráðist á þig vegna þess að þú ert í kjörþyngd ættir þú að skoða sjálfa þig, því þegar við setjum tilfinningar á aðrir er eitthvað að hjá okkur sjálfum.

  Hér er ekki ráðist gegn fólki sem er grannt og það er hér mælt með því að fólk haldi sér heilbrigðu og ekki of feitu.

  En það er rætt að virða margbreytileika og það getur alveg verið grannt fólk sem er 10-15 kílóum ofar kjörþyngd – það mælist að vísu betur samkvæmt BMI.

  Ef að þú flettir hér á blogginu og lest þá muntu sjá þetta.

  Ég þekki konu sem er alltaf undir kjörþyngd en lætur það ekki á sig fá og virðir margbreytileikann.

  Og það er alveg jafnerfitt að fita sig eins og að grenna sig, það hef ég séð!

  Þannig ekki skipa sér í dómarasætið útfrá bara sér sjálfum! Berum virðingu fyrir margbreytileika hér er enginn að hvetja til að fólk burðist með 40+ aukakíló.

  Takk fyrir bloggið

 • Nafnlaus

  Endilega skoðið þetta — það sýnir að ekki er verið að prísa að vera virkilega of þungur en hér er sýnt hvernig BMI staðallinn virkar!

  http://kateharding.net/bmi-illustrated/

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Anna,

  Því miður vill brenna við að það er verið að hvetja fólk til að vera sem feitast. Ég hef lesið greinar síðuhöfunds síðan í fyrrasumar og þótt margar þeirra séu góðar, eru sumar beinlínis öfgafullar og mér finnst verið að gera lítið úr því að offita er stórhættulegur heilsufarsvandi.

  Skoðaðu færslurnar um megrunarátak sem forsetafrú Bandaríkjanna hleypti af stokkunum vegna offitu barna og svörin við því. Það sýnir best hvaða skoðun höfundur hefur á offitu.

  Í þessari færslu hér fyrir ofan er verið að letja fólk við að grennast. Hvað lestu út úr því annað en að verið er að gera lítið úr alvarlegum heilsufarsvanda?

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Auðvitað er þetta fáránlegt, en það vantar þyngd viðkomandi kvenna til að þetta sé marktækt.

 • Danton-María (María Jónsdóttir)

  Ég var að vísa í BMI stuðulinn, Nafnlaus. Er möguleiki að vita hversu þungar konurnar eru og af hverju þær teljast svona þungar?

 • Nafnlaus

  Maður þarf að fara á BMI vefsíðu og sjá hvaða kíló eru fyrir hvert stig í stuðlinum. Það er rétt það er ekki gert þarna en mér finnst það alveg óþarfi – myndirnar tala sínu máli — og þá er ég að horfa á GRÖNNU konurnar sem lenda í overweight flokknum án þess að mínu mati að vera með nokkuð sjáanlegt aukagramm 🙂 Það eru þarna feitar konur sem mín vegna mega alveg skipta um lífstíl sem kannski færir þeim þyngdartap, sem er þá varanlegt vegna þess að það er tilkomið vegna lífsstílsbreytingar sem helst.

 • Sigríður Ólafsdóttir

  María Jónsdóttir, þú segir að síðuhöfundur og aðrir sem hér skrifa (reyndar sé ég engan skrifa jafn oft hér og þú gerir, áhugi þinn á þessari síðu er magnaður, svona miðað við allt kjörþyngdareineltið sem þú verður fyrir) „vilji hafa fólk sem feitast“. Þetta er einfaldlega vitleysa, það sér hver maður sem les þessa síðu fordóma-og æsingalaust. Hér er svo sannarlega verið að hvetja til þess að ekki sé einblínt á aukakíló eingöngu þegar heilsufar er annars vegar en einnig er fólk hvatt til að lifa heilsusamlegu lífi. Málið er….og það er það sem þú virðist ekki vilja skilja….að sumir hreyfa sig reglulega og borða hollan mat en eru samt á hættusvæði samkvæmt hinum guðlega BMI stuðli. Það er með ólíkindum hvernig þér tekst að rangtúlka flest það sem sett er fram hér, hvaða fáránlega árátta er þetta eiginlega? Hvernig væri nú að nefna dæmi um að Sigrún vilji „hafa fólk sem feitast?“ Færðu rök fyrir máli þínu, manneskja.

 • Takk Sigríður Ólafsdóttir er svo sammála þér, hér er verið að hvetja til heilbrigðs lífsstíls!

 • Amen Sigríður Ólafsdóttir – vel að orði komist! 🙂

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com