Þriðjudagur 22.02.2011 - 21:55 - Rita ummæli

Vonbrigði

Ég er hef lengi beðið eftir því að feit manneskja verði sýnd í jákvæðu ljósi í sjónvarpi. Í gærkvöldi munaði mjóu að sá draumur hefði ræst þegar dæmigerður sætur strákur í sjónvarpsþættinum Glee féll fyrir feitu stelpunni í bekknum. Það verður þó að segjast að tilraun höfunda þáttanna til að brjóta niður staðalmyndir varð, þegar öllu var á botninn hvolft, frekar misheppnuð. Því miður.

Karakter feitu stelpunnar var töff og kjaftfor – sem er hressandi tilbreyting frá feitu stelpunni sem er feimin og inn í sig – en þó var gengið full langt á köflum þannig að stúlkan endaði hálfpartinn í hinni stereotýpunni: Feita tuddanum. Framkoma hennar var svo fruntaleg og ofstækisfull á stundum að áhorfandinn komst vart hjá því að velta því fyrir sér hvort hún væri raunverulega svona töff eða hvort hrjúft yfirborðið ætti að vera einskonar brynja til að verja viðkvæmt hjartað fyrir grimmri veröld. Sem er önnur klisja. Stelpan hefði mátt vera aðeins slakari og minna í sjálfsvarnarhugleiðingum til þess að koma raunverulega fyrir sjónir sem sjálfsörugg og kúl manneskja.

Jæja. Feiti tuddinn var samt ekki svo töff að hún gæti forðast passive-aggressive stælana sem hafa því miður verið skrifaðir inn í hvert einasta kvenhlutverk afþreyingariðnaðarins og felast í því að láta ganga á eftir sér ad nauseam. Það er auðvitað skárra en að vera despó og undirgefin, en engu að síður, stelpa sem er raunverulega sjálfsörugg myndi ekki leika svona hallærislega leiki. Hún væri óhræddari við að sýna vilja sinn í verki: Ef þú vilt eitthvað og það er í boði þá tekurðu það. Ef ekki þá eyðir þú tímanum í eitthvað annað. Að líta á sig sem verðlaun sem tilvonandi kærastar þurfi að vinna fyrir er gamaldags og glatað.

En það sem stendur upp úr þessari velmeinandi en misheppnuðu persónusköpun er að feita stelpan, sem greinilega á að birtast áhorfendum sem töffari, móðgast á óskiljanlegan hátt þegar pilturinn, sem gengur á eftir henni með grasið í skónum, syngur rokkslagarann „Fat bottomed girls“ í von um að heilla hana. Þetta atriði sýndi betur en nokkuð annað að handritshöfundar þáttanna, hversu framsæknir og fordómalausir sem þeir telja sig vera, skilja hvorki upp né niður í málefnum sem snúa að virðingu fyrir fjölbreytileika holdsins.

Maður myndi nú halda að svona stelpa, sem kallar ekki allt ömmu sína, vissi vel af því að hún væri feit og fyndist það í lagi. Að láta hana móðgast dregur úr þeirri sjálfsvirðingu sem hún á að hafa og sýnir að hún er alls ekki eins svöl og sterk og hún virðist vera. Hún er með minnimáttarkennd og fyrirverður sig fyrir líkama sinn. Ef ætlunin er að sýna sterka og sjálfsörugga feita manneskju þá er lágmark að það komi fram að hún sé sátt við sig eins og hún er. Í því felst styrkurinn og sjarminn, sem annars fer fyrir lítið.

Flokkar: Fitufordómar · Fjölbreytileiki

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com