Fimmtudagur 17.02.2011 - 20:00 - Rita ummæli

Framganga réttindabaráttu feitra

Í þessu myndbandi fjallar Íslandsvinurinn Marilyn Wann um réttindabaráttu feitra og framgang hennar. Sívaxandi hópur fólks um heim allan er farinn að storka ríkjandi hugmyndum um fegurð, hreysti og holdafar með því að „koma út úr skápnum“ sem feitar manneskjur. Það þýðir að þau eru hætt að slá lífinu á frest þangað til þau grennast, hætt að biðjast afsökunar á sjálfum sér og hætt að líta á líkama sinn sem einhverskonar mistök sem þurfi að leiðrétta. Þetta er fólk sem kemur til dyranna eins og það er klætt: „Ég er feit manneskja og hvað með það??  Ég á sama rétt til lífsins og aðrir og ég ætla að njóta þess að vera til, gera það sem mig langar og láta þröngsýni um rétt og rangt holdafar sem vind um eyru þjóta.“

Þegar mannréttindabaráttan er loksins farin af stað er ekki langt þess að bíða að samfélagsviðhorfin taki að breytast. Það er lögmál sem sagan hefur staðfest aftur og aftur. Næsta skref í réttindabaráttu feitra er að svokölluð fitufræði (Fat Studies) líti dagsins ljós, sem er gagnrýnin og þverfagleg skoðun á fitu og stöðu feitra innan samfélagsins. Svipaðar fræðigreinar hafa sprottið upp í tengslum við aðra hópa, sem eiga það sameiginlegt að hafa átt á brattann að sækja í gegnum tíðina: konur, samkynhneigt fólk, fatlað fólk, fólk af afrískum uppruna o.s.frv.

Það er stórt skref þegar staða feitra og fitufordómar eru orðin að viðurkenndu akademísku viðfangsefni. Þetta þýðir að skilningur okkar á þessum efnum mun vonandi vaxa ört á næstu árum og meðvitund um það misrétti sem fólk má þola vegna holdafarsins verður sífellt almennari. Þegar við höfum lært að viðurkenna tilvist óréttlætisins blasir við að breyta því.  Spennandi tímar framundan.

Flokkar: Samfélagsbarátta

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com