Föstudagur 18.03.2011 - 13:22 - 2 ummæli

Hefðbundin meðul

Það hefur lengi valdið mér sorg hve lítið virðist fara fyrir líkamsvirðingu innan heilsu- og mannræktargeirans. Meira að segja meðal þeirra sem annars virðast aðhyllast ástúðlega umönnun líkamans, þeirra sem hvetja til þess að við hlustum á líkama okkar, virðum takmörk hans og ræktum eigið innsæi varðandi umhirðu sálar og líkama, kemur oft fram áberandi líkamsflokkunarkerfi þar sem grannur vöxtur er álitinn birtingarmynd hins fullkomna jafnvægis en fita sönnun um andlega og líkamlega hnignun. Í heilsubúðum, jógasetrum og meðferðarstofum óhefðbundinna lækninga, þar sem maður myndi helst eiga von á því að vestræn speki væri dregin í efa, birtist nákvæmlega sama megrunar- og útlitsþráhyggjan og ríkir annars staðar í samfélaginu. Ef ekki meiri.

Þetta er afskaplega dapurlegt því ef einhversstaðar ætti að finnast griðarstaður frá útlitsþrýstingi þá ætti það að vera á meðal þeirra sem gefa sig út fyrir að hafa hafnað yfirborðskenndum áherslum nútímasamfélagsins. Hvernig stendur á því að flestum „óhefðbundnum“ leiðum til aukinnar velferðar fylgir samt sem áður mjög svo hefðbundin áhersla á megrun og útlit? Ein skýring gæti verið sú að það eru álitin óvéfengjanleg  sannindi í okkar menningarheimi að grannur vöxtur sé forsenda heilsu og hamingju – þess vegna efast óhefðbundni heilsugeirinn ekki um þau frekar en aðrir. En það er akkúrat málið: Þau sem eru þegar farin að efast um að það sem okkar menning hefur upp á að bjóða sé endilega réttast og best og hafið yfir allan vafa, ættu að vera tilbúnari til þess en aðrir að efast um að vestrænar hugmyndir um heilsu og fegurð séu endilega þær vænlegustu.

Önnur skýring er peningar. Það er einfaldlega of mikil gróðavon í viðskiptum sem byggja á megrunar- og fegrunarhugmyndum til þess að óhefðbundnir heilsuræktarfrömuðir  og verslanir hafi efni á því að standa þar fyrir utan. Það útskýrir væntanlega af hverju hvert argasta megrunarbullið á fætur öðru er auglýst skammarlaust innan margra heilsuvöruverslana og yfirborðskenndar bækur um grannan vöxt og yngra útlit eru uppi um alla veggi. Námskeið og fyrirlestrar sem virðast helst gera út á líkamsangist og matarsamviskubit eru einnig afar vinsæl. Þetta er bissness. Risabissness. En hann ætti ekki að þrífast meðal þeirra sem segjast líta á heilsu með heildrænum hætti og þykjast bera raunverulega umhyggju fyrir velferð fólks.

Með sömu rökum gætu snyrtivörufyrirtæki sagst vera í hjálparstarfsemi vegna þess að þau bjóða vörur sem eiga að skapa fallegra útlit, en sannleikurinn er sá að þau eiga þátt í að skapa útlitsstaðla sem eru svo strangir að flest venjulegt fólk fellur utan þeirra. Þar með eru þau komin með markhópinn: fólk sem telur sig vera óaðlaðandi og „þarfnast“ aðstoðar við að lagfæra sig – sem fyrirtækin veita auðvitað fúslega. Þau innræta tilvonandi viðskiptavinum sínum að líta á sjálfa sig sem gallaðar vörur og bjóða síðan lausnina. Þetta er ekki mannræktarstefna heldur niðurrif og virðingarleysi gagnvart fjölbreytileika mannlífsins. Að sama skapi eru það ekki mannúð eða náungakærleikur sem liggja að baki  áherslum á megrun og eilífa æsku innan hins svokallaða „óhefðbundna“ heilsugeira – heldur alveg ekta gamaldags gagnrýnisleysi og gróðavon.

Flokkar: Fitufordómar · Líkamsvirðing · Megrun

«
»

Ummæli (2)

 • Freydís Kristjánsdóttir

  Ég er ansi hrædd um að þú hafir rétt fyrir þér. Bara það að skoða myndirnar í ýmsum tímaritum sem fjalla um þessa hluti sýnir þetta vel. T.d. hið eflaust að mörgu leyti ágæta Yoga Journal. http://www.yogajournal.com/
  Það er ekki ein einasta fyrirsæta sýnd þar sem ekki fellur að hinum vestræna fegruðarímyndarstaðli. Það læðist alltaf að mér snertur að minnimáttarkennd þegar ég fletti í gegnum það.
  En vonandi leynist einhvers staðar eitthvað annað þarna innanum í þessum geira þó að við höfum ekki fundið það. Ég auglýsi hérmeð eftir fyrirtæki eða tímariti í óhefðbundna heilsugeiranum sem hampar fólki af öllum stærðum og gerðum, ekki bara þeim háu, grönnu (samt með brjóst og „rétt“ hlutfall mittis og mjaðma) og andlitsfríðu. En er það ekki málið? Slík tímarit eru sennilega ekki nógu söluvænleg. En hver veit, á maður ekki að vera bjartsýnn?

  Takk fyrir góða pistla.

 • Bjarki Guðlaugsson

  Algjörlega sammála, mér hefur sýnst þessi umræða um detox og lífrænt matarræði bara vera enn ein útgáfan af „grannur = elíf hamingja og langlífi“. Heyrði einhvers staðar að það sé enginn munur á for og drullu, held það eigi ágætlega við um þetta.

  Því miður er það staðreynd að óöryggi selur nánast alveg óháð því hvernig það er sett fram, það er alltaf hægt að búa til mynd af fullkomnum heimi sem fær mann til að efast um eigin tilveru, þó ekki sé nema í smástund. Lítil brjóst, flatur rass, ekki nógu flott húsnæði og svo mætti lengi telja. Þetta er í raun bara spurning um „pick your poison“.

  Nei, verum ánægð með það sem við höfum í stað þess að vera með þráhyggju yfir því sem við höfum ekki. Ég held að heimurinn yrði miklu betri staður fyrir vikið.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com