Föstudagur 25.03.2011 - 20:22 - 2 ummæli

Máttur viljans

Guðni Gunnarsson í Rope Yoga er einn þeirra sem að mínu mati boðar alúð og væntumþykju í garð líkamans í einu orði en skapar aðstæður til líkamsóánægju og vanlíðunar í öðru. Hann notar eingöngu grannar og vöðvastæltar fyrirsætur í auglýsingum sínum og fer því lítið fyrir framsæknum hugmyndum um tilverurétt allra líkama í myndmáli fyrirtækisins. Það er alls ekki óhugsandi að fyrirtæki á heilsu- og fegrunarmarkaði sýni það í verki að þau taki afstöðu gegn þröngum staðalmyndum og eru dæmi um að risar á þessum markaði hafi tekið þá stefnu opinberlega (t.d. Body Shop og Dove). Um ástæðu þess að Guðni hefur ákveðið að halda sig við staðalmyndirnar er erfitt að segja en óbeinu skilaboðin hljóta að vera þau að líkamar sem líta öðruvísi út eru ekki nógu góðir.

Rope Yoga er auk þess ekkert frábrugðið öðrum líkamsræktarfyrirtækjum í því að halda á lofti megrunarboðskap og bjóða upp á aðhaldsnámskeið. Á heimasíðu Rope Yoga segir: „Þú ert jafn þung(ur) og þú “vilt” vera … enda hafa ákvarðanir þínar í mat og hreyfingu gert þig að því sem þú ert, segir Guðni sem hvetur fólk til þess að taka stjórnina í sínar hendur og axla ábyrgð á þyngd sinni.“ Hér virðist því haldið blákalt fram að holdafar snúist um val og við séum persónulega ábyrg fyrir líkamsvexti okkar. Þetta er gömul ranghugmynd sem liggur til grundvallar fordómum vegna holdafars: Ef þú ert feitur þá er það þér að kenna. Ef þú ert grannur þá er það þér að þakka. Þetta er hentug hugmyndafræði fyrir þá sem eru grannvaxnir að eðlisfari, enda eru þeim sjálfkrafa eignaðar dyggðir á borð við hófsemi, sjálfsaga og atorkusemi. En þeir sem eru þéttari hljóta að vera að gera eitthvað rangt. Það er útilokað að fólk sé mismunandi frá náttúrunnar hendi.

Guðni Gunnarsson hefur ef til vill aldrei heyrt talað um líffræðilega stjórnun þyngdar eða erfðafræðilegar skýringar á holdafari. Fjöldi rannsókna sýnir að þyngd stjórnast mikið til af erfðum og benda tvíbura- og ættleiðingarannsóknir til þess að allt að 70% af breytileika líkamsþyngdar megi rekja til erfðafræðilegra þátta. Holdafari ættleiddra barna svipar t.d. mun meira til líffræðilegra foreldra þeirra heldur en kjörfjölskyldu, þrátt fyrir að börnin hafi deilt umhverfi með þeim síðarnefndu alla ævi. Ennfremur sýna rannsóknir að fólk hefur sterka tilhneigingu til þess að viðhalda ákveðinni líkamsþyngd þrátt fyrir breytileika í innbyrtri og eyddri orku.

Þetta undirstrikar að stjórn fólks yfir eigin vexti er margfalt minni en megrunar- og líkamsræktargeirinn kærir sig um að viðurkenna – og skyldi engan undra þar sem draumurinn um líkamlega umbreytingu er þeirra helsta söluvara. Miklar líffræðilegar hömlur ríkja á því hversu mikið hægt er að breyta líkamsþyngd til langframa, eins og kristallast aftur og aftur í rannsóknum á árangri megrunar. Að halda því fram að líkamsþyngd sé bara spurning um val og réttar ákvarðanir og krefjast þess að fólk axli persónulega ábyrgð á eigin vexti er bæði harðneskjulegt og heimskulegt. Það elur á sjálfsásökun og skömm meðal þeirra sem eru vaxnir utan við hinn viðurkennda ramma um æskilegt holdafar og réttlætir ásakanir í þeirra garð. Slíkur boðskapur á ekkert skylt við virðingu og væntumþykju í garð fólks og líkama þeirra.

Flokkar: Bransinn · Megrun · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com