Þriðjudagur 29.03.2011 - 20:00 - 6 ummæli

Fitufordómar í víðu samhengi

Eitt heitasta málið í vikunni var án efa þáttur Audda og Sveppa þar sem ítrekað var gert grín að holdafari athafnamannsins Einars Bárðarsonar. Hann fékk endalaus skot á sig í tengslum við meinta matgræðgi og var kallaður bæði fituhlunkur og offitusjúklingur. Það er svo sannarlega ekkert einsdæmi að gert sé grín að feitri manneskju í sjónvarpi enda hafa rannsóknir sýnt að þá sjaldan að feitt fólk birtist á skjánum er það gert eins klunnalegt, hallærislegt, kjánalegt, heimskulegt og óaðlaðandi og frekast er unnt. Fitubrandarar koma fyrir í sjónvarpsþáttum, bíómyndum og barnaefni í hverri viku og yfirleitt kippir sér enginn upp við það.

Það felst hins vegar óneitanleg von í því að sjá hversu margir hafa stigið fram og fordæmt þennan sjónvarpsþátt. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér sömu viðbrögð fyrir aðeins nokkrum árum síðan, enda umræðan um fitufordóma aðeins nýlega hafin á Íslandi. Sem dæmi þá var þetta orð hreinlega ekki til á íslensku þegar ég skrifaði meistararitgerð mína um efnið árið 2005. Smátt og smátt hefur síðan umræðan aukist og sífellt fleiri kveikt á perunni. Miðað við viðbrögð við þætti Audda og Sveppa er jafnvel þorandi að vona að meðvitund um fitufordóma sé orðin nokkuð almenn. Ekki aðeins virðist fólk vera farið að átta sig á því þegar þessir fordómar koma fram heldur er það líka tilbúið að mótmæla opinberlega. Bravó.

Það er hins vegar varla hægt að ræða um þátt Audda og Sveppa án þess að benda á að sömu viðhorf og þar komu fram – svo sem að feitt fólk sé latt og matgráðugt – hafa í raun verið hluti af opinberri umræðu um offitu um árabil. Þessi skilaboð hafa komið fram aftur og aftur í máli heilbrigðisstofnana og sérfræðinga þar sem hamrað er á því að offitu megi rekja til hreyfingarleysis og ofneyslu matar:

 • „Fólk sem er of þungt innbyrðir fleiri hitaeiningar en það brennir“. Auglýsing fyrir Alþjóðlega hjartadaginn 2005.
 • „Börn, eins og fullorðnir, eru of feit vegna rangs mataræðis og lítillar hreyfingar“. Klínískar leiðbeiningar um offitu barna, 2004.
 • „Offita er afleiðing misvægis í orkubúskap líkamans þ.e. við borðum einfaldlega umfram það sem við höfum not fyrir. Þannig er hægt að skilgreina þetta vandamál út frá minnst tveimur sjónarhornum, í fyrsta lagi … að við borðum of mikið og í öðru lagi við hreyfum okkur ekki nægilega mikið í samræmi við neyslu.“ Grein eftir Erling Jóhannsson, prófessor í íþrótta- og heilsufræðum við Háskóla Íslands, 2001.

Hvernig er hægt að vera hissa þegar þessi sömu viðhorf birtast í þjóðfélaginu sem fitufordómar? Er við öðru að búast en að fólk líti á það sem vísindalega viðurkennda staðreynd að feitt fólk sé latt, gráðugt og skorti sjálfsaga?

Rannsóknir á þessu sviði sýna svart á hvítu að pörun ofáts og hreyfingarleysis við offitu ýtir undir fordóma gagnvart feitu fólki. Heilbrigðisstarfsfólk sem kærir sig ekki um að auka á þessa fordóma þarf því að huga vandlega að því hvernig rætt er um þessi mál. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að hin stöðuga og neikvæða umræða um offitu undanfarinn áratug hefur átt þátt í því að opna skotleyfi á feitt fólk og stuðla að mismunun og fordómum í þeirra garð.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Mér finnst samt verra þegar fitufordómarnir koma frá heilbrigðisstarfsfólki og öðru „fagfólki“ heldur en einhverjum jólasveinum sem ætlast ekki einu sinni til að tekið sé mark á sér.

 • Jakob Bjarnar Grétarsson

  Fitufordómar? Hvað veldur þá eiginlega offitu ef ekki a) hreyfingarleysi eða b) ofát nema hvoru tveggja sé? Af hverju eru það fordómar að kalla hlutina sínum réttu nöfnum?

 • Ósk Sigurðardóttir

  Jakob! ég skora á þig að fara inn á svo sem einn link hér á þessari síðu og fá svör við spurningum þínum

 • Kannski eitthvað til í þessu með markleysi rugludalla eins og Sveppa og Audda!

  Það á kannski ekki við hér en ég skil ekki hvernig Stöð 2 getur verið þekkt fyrir að nota Sveppa bæði sem barnastjörnu og sorakjaft, hvernig eiga börn að vita muninn eftir því í hvoru hlutverkinu Sveppi er!

  EN þetta má heimfæra upp á skilningsleysið á offitu — og vítahringnum sem fólk lendir í þegar erfðir eru þáttur í sífelldri þyngdaraukningu. Hvernig er hægt fyrir þann sem er grannur og hreyfir sig mikið og borðar oftast eins og hestur á móti vininum sem er feitur og hreyfir sig jafnmikið og borðar eins og mús = en útkoman er samt ofþyngd … já hvernig er hægt að skilja þetta?

 • tek undir með Guðnýju – heilbrigðisstéttir þyrftu að fara að skoða sinn gang!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com