Fimmtudagur 05.05.2011 - 22:40 - 1 ummæli

Megrunarlausi dagurinn

Megrunarlausi dagurinn er alþjóðlegur baráttudagur gegn megrun, átröskunum og fordómum vegna holdafars. Hann er upprunninn í Bretlandi fyrir 19 árum en hefur síðan borist vítt og breitt um heiminn, nú síðast til Íslands, þar sem hann hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2006. Mörgum kann að finnast kjánalegt að halda upp á einn megrunarlausan dag á ári en þessi dagur er auðvitað fyrst og fremst hugsaður sem vitundarvakning – dagur til þess að vekja samferðafólk okkar til meðvitundar um að það er hægt að lifa lífinu öðruvísi en í stöðugu stríði við matinn og vigtina. Það er andstyggilegt og niðurrífandi að vera í sífelldri baráttu við sjálfan sig og líkama sinn – óþarfa barátta sem hefur ekkert með heilbrigði að gera. Heilbrigt líf sameinar hollar lífsvenjur og hæfileikann til að njóta lífsins, að þykja vænt um okkur sjálf og eiga gott samband við þá sem eru í kringum okkur. Það er ekki hægt að meta heilbrigði í líkamlegu ástandi eingöngu því það er engin heilsa án geðheilsu og félagsleg heilsa – heilbrigð sambönd, heilbrigt umhverfi og heilbrigt samfélag – er órjúfanlegur hluti af því sem við köllum heilbrigði. Það er ekki hægt að slíta eitt úr samhengi við annað.

Markmiðið með megrunarlausa deginum er að búa til betra samfélag. Tökum höndum saman og látum megrunarþráhyggju, vanlíðan yfir líkamsvexti og fordóma vegna holdafars deyja út með okkar kynslóð. Erfum ekki börnin okkar að þessari eyðileggjandi vitleysu. Kennum þeim að elska líkama sinn eins og hann er – og hugsa vel um hann þótt hann uppfylli ekki einhver viðmið um réttan líkamsvöxt. Kennum þeim að heilbrigði snýst um það hvernig við lifum en ekki hvernig við lítum út – og að hugsunarháttur okkar og viðhorf skipta að minnsta kosti jafn miklu máli og hegðun okkar. Geðheilsa er undirstaða allrar heilsu og velferðar því þegar okkur líður illa þá skiptir ekkert annað máli. Sjálfur lífsviljinn er undir geðheilsu okkar kominn – en engu að síður er margfalt meiri áhersla lögð á líkamlega heilsu (og jafnvel bara „heilsusamlegt útlit“) en geðheilbrigði í okkar samfélagi. Þessu verðum við að breyta og megrunarlausi dagurinn veitir ágætis tilefni til þess að taka fyrsta skrefið.

Megrunarlausi dagurinn á Facebook.

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (1)

  • Sorrý Stína, en fita er óhollusta. Feitt fólk er illa haldið líkamlega, það hefur neytt of mikils af einhverju. Feitt fólk kann sér ekki hóf, eyðileggur sjálft sig með ofneyslu. Fitusöfnun er ekki eðlileg í náttúrunni, hún er afrakstur óhófs, græðgi og leti.

    Geðheilsa er ágæt og feitt fólk getur haft góða geðheilsu, en feitt fólk er ekki í góðu líkamlegu formi þó það hafi góða geðheilsu. Fita er óhollusta, náttúran er óskeikull mælikvarði á heilbrigði og hollustu, ekki einhverjir feminískir draumar um að feitir rassar muni ráða heiminum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com