Föstudagur 27.05.2011 - 12:16 - 5 ummæli

Lífsstílsbreytingar

Hugtakið megrun hefur átt undir högg að sækja eftir að sú staðreynd varð að almennri vitneskju að megrun virkar ekki.  Sama hvaða aðferð er notuð og sama hvað hver segir þá er raunin sú að flestir þyngjast aftur innan skamms. Megrun er margfalt líklegri til þess að leiða til þyngdarsveiflna (jójó áhrif þar sem fólk fer upp og niður í þyngd) en viðvarandi þyngdartaps. En þrátt fyrir afgerandi niðurstöður rannsókna um afleitan langtímaárangur hefur ekkert dregið úr hvatningu til megrunar, nema að nú er ekki talað um megrun heldur lífsstílsbreytingu, aðhald eða átak. Látið ekki blekkjast, gott fólk, þetta er sama sullið undir mismunandi nöfnum.

Fyrir nokkrum vikum var mikið fjallað um megrunarátak leikarans Jóhannesar Hauks í fjölmiðlum. Eins og alltaf þegar megrun er í sviðsljósinu er umfjöllunin sett fram á einkar jákvæðan hátt, eins og þetta sé allt hið besta mál. Engu að síður er varasamt að klappa fyrir svona hegðun og ábyrgð fjölmiðla í þessum efnum er mikil. Við eigum ekki að hrósa fólki fyrir að þræla líkama sínum út og neita honum um nauðsynlega næringu. Það heitir ekki að hugsa vel um sig.

Í einu viðtalinu var birtur dæmigerður matseðill yfir það sem Jóhannes borðaði í átakinu. Að gamni fékk ég vinkonu mína sem er næringarfræðingur til þess að reikna út næringarinnihald matseðilsins og gefa álit sitt á því hvort þetta væri ákjósanleg næring fyrir fullorðinn karlmann sem er að æfa sex sinnum í viku.

Svona lítur seðillinn út:

  • morgunmatur: 150 gr hafragrautur
  • millibiti: epli og 1 skeið af mysupróteini
  • magurt kjöt (kjúlli eða fiskur) með grænmeti og hýðishrísgrjónum (t.d. burrito á Serrano án osts og sósu)
  • millibiti kl. 14.00: banani og 1 skeið af mysupróteini
  • millibiti kl. 17:00 50 gr hafragrautur
  • kvöldmatur: magurt kjöt með grænmeti og hýðishrísgrjónum
  • kvöldbiti: epli og 1 skeið af mysupróteini

Auk þessa er lýsi, vítamín og möndlur til að narta í á milli mála.

Þetta er auðvitað ekki nákvæmur listi og magnið af möndlum mun t.d. hafa  mikil áhrif á orkuinnihald hans. Engu að síður, miðað við grófa útreikninga, er hér um að ræða eðal megrunarseðil:

Næringarefni Þitt magn Æskilegt magn fyrir þig á dag
Orka kkal: 1611 2760
Prótein g 105,5 a.m.k. 69,0
Fita g 46,7 < 241,5
Kolvetni g 189,6 379,5
Viðbættur sykur g 3,4
Trefjaefni g 25,9 27,6



Samkvæmt þessum niðurstöðum er Jóhannes Haukur að fá rétt um helming þeirra hitaeininga sem líkami hans þarfnast á degi hverjum, helming þeirrar fitu og innan við helming þeirra kolvetna sem hann þarfnast en aftur á móti alltof mikið af próteini. Eða eins og vinkona mín sagði: „Þetta er svelti matseðill fyrir alla venjulega karlmenn nema að við séum að tala um karl sem er 140 cm og 35 kg“.

Nú er um tvennt að ræða. Annað hvort er aumingja maðurinn í meiriháttar svelti eða að mataræði hans er raunverulega mun fjölbreyttara og innihaldsríkara en fram kemur í fjölmiðlum og þá er sökin alfarið þeirra – að telja fólki trú um að sveltiskúrar séu heilsusamlegir og sniðugir.

Miðað við lýsingar Jóhannesar á þeim eina degi í viku þegar honum leyfist að fara út fyrir rammann má reyndar gera ráð fyrir að fyrri möguleikinn sé réttur og sveltisáhrifin séu þegar hafin:

Ég er venjulega búinn að ákveða á mánudegi hvað ég ætla að fá mér næsta sunnudagskvöld,“ segir hann og hlær. „Þessi tími hjálpar mér gríðarlega því þá hef ég eitthvað til að hlakka til. Ég fer líka „all in“ á sunnudagskvöldum, borða hamborgara, franskar, ís og nammi, alveg endalaus.

Þetta eru viðbrögð líkamans við fæðuskorti. Okkur langar endalaust í mat og yfirþyrmandi matarlöngunin minnkar ekki fyrr en líkaminn hefur endurheimt það sem hann tapaði. Líkaminn gleymir ekki þeim kílóum sem fara, hann  saknar þeirra og gerir allt sem hann getur til að fá þau til baka. Þess vegna virkar megrun ekki.

Það er kominn tími til þess að fjölmiðlar hætti að setja fram glansmynd af skammtímaárangri sem er síðan aldrei fylgt eftir. Ef þeir væru jafn duglegir við að fylgjast með famvindu mála kæmi allt annar og dapurlegri veruleiki í ljós.

Flokkar: Megrun

«
»

Ummæli (5)

  • Ég er ekki alveg á sama máli, auðvitað virkar megrun oft (en ekki ef fólk heldur áfram að troða í sig eftir megrunarátakið) en auðvitað er ákv. lífstíll og mataræði sem er ekki tímabundið miklu meira málið.
    Ef maður vill léttast eitthvað á maður að borða minna en maður gerir vanalega, þegar maður hefur náð settu marki getur maður slappað meira af varðandi það að borða minna en samt fylgst eð þyngdinni og haldið sér innan ákv. ramma. Ég er t.d. BMI 29 og ætla mér að borða minna og komast undir 100kg smám saman, reyna að ná stuðlinum 25, af því að mig langar að grennast, hvað er svona gagnrýnisvert við það? Hvernig grennist þú eða fólk í kringum þig, eða eruð þið meira í því að réttlæta ofþyngd og finnast hún bara gott mál? Það séu bara hinir sem eru fordómafullir að finnast hún ekki gott mál.
    Það er þekkt að maður léttist fyrst og fremst með því að borða minna. Þannig að ef maður hefur viljastyrkinn til þess, af hverju ekki?

  • Ástæða þess að fólk „heldur áfram“ að troða í sig eftir megrun er einfaldlega sú, eins og segir í pistlinum hennar Sigrúnar, að eftir sveltiástands líkamans hleypur líkaminn aftur í sama form, vegna þess að hann hefur ekki verið að fá þá næringu sem hann þarf og það er það sem er svo hættulegt við megrunarkúra, því þá getur myndast vítahringur.Þess vegna getur beinlínis verið stórhættulegt fyrir bæði líkama og sál að borða of lítið til að léttast. En eins og þú segir Ari þá er heilbrigt mataræði og hreyfing sem er ekki tímabundin miklu rökréttara sjónarhorn, en hinsvegar ætti markmiðið miklu frekar að vera það að lifa heilbrigðu lífi heldur en endilega að grennast eða lækka töluna á vigtinni.

  • Ef það er líkamanum svona eðlislægt að vera feitur, og algerlega ómögulegt að grennast til lengri tíma litið, hvers vegna höfum við þá ekki alltaf verið feit?

    Af hverju er fólk að verða feitara og feitara með hverju árinu? Það vantar eitthvað í þetta dæmi.

    Vissulega er jákvætt að predika líkamsvirðingu, en hvað þegar aukakílóin eru farin að há fólki svo verulega að það á erfitt með gang, er með verki víðs vegar um líkamann, fær mæði út af minnstu áreynslu, og lifir ekki innihaldsríku lífi vegna þess? Er það bara ekkert mál?

  • Dásamlegt og um leið sorglegt að sjá hvað fólk meinar með að innbyrgða færri hitaeiningar en þörf er til að létta sig. Þar fer fólk oft hamförum! Fer í svelti .. 1500-1800 hitaeiningar á dag!
    Tökum dæmi um konu sem er í yfirþyngd 130 kg geri hún ekki neitt, alls ekkert þarf líkaminn tæplega 2800 hitaeiningar til að fúnskjóna! Að kötta það niður um 1000 hitaeiningar eða meira er endemis vitleysa!
    Byrja smátt, 200 hitaeiningar á hverjum degi eða svo er ágætis byrjun. Vera meðvituð um mataræðið og hvað maður velur að setja ofan í sig og í hve miklu magni! En ekki fara að „ketósa“.

  • Eg heiti ArnaLisa og er 13 ára að vera 14 í Júni. Eg tók einu sinni ákvörðun að hætta borða , eða borða töluvert minna , svo tóku dagar við sem voru erfiðir fyrir mig , ég bókstaflega ældi öllu sem ég var að fara borða. Fór til læknis og það þurfti að taka nokkur svona glös lítil af blóði og það kom út þannig ehv , sem ég man ekki hvað heitir. Og núna er ég farin að fitna og vil stundum grenja yfir því . Reyniiiii allt til þess að koma mér í floooott form , en get ekki haldið mer fra nammi og þessu sem má ekki borða þegar maður er á matarprógrami ,, komið mer rááð!“

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com