Föstudagur 03.06.2011 - 10:41 - 2 ummæli

Íþróttaiðkun barna

Alveg er ég næstum því sammála þessari grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær. Það er glatað að búið sé að binda svo um hnútana í íþróttastarfi barna að þeim bjóðist almennt ekki að stunda hreyfingu án stigvaxandi pressu um ástundun, keppni og afrek. Af hverju er ekki hægt að æfa sund tvisvar í viku nema rétt í byrjun? Af hverju eru krakkar sem ætla að halda áfram að stunda íþróttir á unglingsárum krafin um sífellt tímafrekari og strembnari æfingar flesta daga vikunnar? Getur verið að þetta sé ein af ástæðum þess að svo mörg ungmenni hætta þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi þegar komið er fram á unglingsár?  Þau hreinlega nenna ekki að eyða öllum sínum tíma í æfingar.

Ég er sem sagt sammála – öllu nema þessu: „Hreyfing er fyrir öllu. Kannski sérstaklega í ljósi þess að fimmta hvert barn á Íslandi mælist yfir kjörþyngd og fimm prósent barna of feit“. Mikið er það sorglegt að við skulum ekki geta séð gildi hreyfingar öðruvísi en að blanda þyngdarstjórnun inn í umræðuna.  Hvað með þá staðreynd að hreyfing er öllum nauðsynleg, hún ætti að vera sjálfsagður hluti af lífinu því án hennar er öll starfsemi, vöxtur og þroski líkamans í hættu. Ófullnægjandi hreyfing á barnsaldri getur t.d. stuðlað að lélegri beinþéttni síðar á ævinni og allir sem eru komnir yfir þrítugt ættu að vera farnir að reyna á eigin skinni að ef þeir hreyfa sig ekki þá hreinlega bilar líkaminn. Við fáum í bakið og þjáumst af vöðvabólgu. Hreyfing er nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og viðhald.

Hreyfing er líka skemmtileg, hressandi og eflandi. Hún vinnur gegn streitu og andlegri vanlíðan, gefur okkur kraft, vellíðan og tilfinningu fyrir því að vera á lífi. Hún er einföld þegar svo margt annað í lífinu er flókið. Það tekur tíma, vinnu og mikla þolinmæði að byggja upp góða fjölskyldu, góðan starfsframa, gott líf. Það eru endalausar hindranir og hliðargötur og verðlaunin koma oft mjög seint. En tilfinningin sem þú færð eftir að hafa hlaupið 10 kílómetra, gengið á fjall eða tekið betur á því en þú hélst að þú ættir til, er innan seilingar og ótrúlega sæt.

Hreyfing er náttúrulegt gleðiefni, rétt eins og matur og kynlíf. Hún ætti að vera eðlilegur hluti af lífi okkar allra – sama hvernig við erum vaxin – og hún hefur nægjanlegt gildi í sjálfri sér. Það þarf ekki að leita að utanaðkomandi ástæðum fyrir því að stunda hreyfingu og þyngdarstjórnunarsvipan er alger óþarfi.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Þyngdarstjórnun

«
»

Ummæli (2)

  • Haraldur Finnsson

    Þessi grein Sigríðar er virkilega umhugsunarverð. Og það hangir fleira á spítunni. Íþróttahreyfingin lætur mikið yfir forvarnargildi íþróttaþátttöku barna og unglinga. En hvað kostar sú þátttaka í peningum ? Hversu margir foreldrar hafa ekki efni á að láta börn sín taka þátt í íþróttum. Hver sér um þeirra forvarnir ? Svo er endalaust verið að safna fyrir þátttöku í öllum þessum mótum. Þetta er orðin veruleg útgerð sem ekki er á færi heimila sem eiga í erfiðleikum fjárhagslega. Svo er farið að greiða verulegar upphæðir til leikmanna í meistaraflokkum og til kaupa á erlendum leikmönnum.
    Er ekki kominn tíma á að skoða þessi mál í heild sinni ?

  • Niels Hermannsson

    Þetta eru þarfar og góðar ábendingar og pælingar. Einkanlega sú að hreyfingin sjálf, það að stunda hreyfingu í einhverju formi er ánægjulegt. Það er misjafnt hvað heillar hvern og einn, en flestir ættu að geta fundið sína íþrótt. Það er samt næstum orðið varhugavert að nota orðið „íþrótt“ einmit vegna þess sem kvartað er um, afrekspressu og markaðssetningu. Sú hugmynd að afreksíþróttir muni draga allskonar aðrar íþróttir með sér til vegs og virðingar er úr sér gengin og minnir helst á (fyrirgefið þið) þá hugmynd að ef fámennur hópur í þjóðfelaginu græði nógu svakalega mikið muni molar hrjóta til hinna. Það er líka satt held ég að pína sig í íþróttir bara til að ná einhverju öðru markmiði eins og að léttast, er rangt af stað farið. Sálin og líkminn fylgjast að í þessum efnum, en það er farsælast að sálin leiði. Hitt fylgir þá sem bónus, stór og góður, en samt bónus.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com