Laugardagur 11.06.2011 - 09:25 - 10 ummæli

Foreldrafordæming

Síðustu helgi birtist dapurleg umræða í Fréttatímanum þegar næringarfræðingur hjá MATÍS opinberaði þá skoðun sína að réttast væri að taka feit börn af foreldrum sínum ef þeim tækist ekki að megra þau. Þetta er einkar öfgakennd útgáfa af þeirri fordæmingu í garð foreldra sem gjarnan kemur fram í umræðu um offitu barna. Foreldrar sjá jú um innkaup og matseld á heimilinu -bera þau þá ekki ábyrgð á holdafari barna sinna?

Nei, aldeilis ekki. Holdafar er flókið samspil erfða og umhverfis og sumum börnum er eðlislægt að vera feitlagin rétt eins og sumum er eðlislægt að vera grannvaxin. Það er alls ekki samasemmerki á milli lífsvenja og líkamsþyngdar. Sum börn eru grönn þrátt fyrir að alast upp á óhollu fæði á meðan önnur eru feitlagin þrátt fyrir góðar lífsvenjur. Sem samfélag eigum við að vinna gegn slæmri umönnun barna, en við þurfum jafnframt að átta okkur á því að það er ekki hægt að koma í veg fyrir margbreytileika vaxtarlagsins.

Við eigum að tala almennt um lífsvenjur allra barna og efla þannig vitund allra foreldra um mikilvægi næringar, hreyfingar, slökunar, svefns, samvista, hlýju, ástar og alls þess sem börn þurfa til þess að dafna og líða vel. Ef börnin okkar fá gott atlæti hvað þessa þætti varðar, þá getum við treyst því að holdafar þeirra sé sú líkamsbygging sem er þeim eðlislæg en ekki afbrigðileiki sem er til kominn vegna slæmra lífshátta. En við getum verið jafn viss um það að börn munu halda áfram að vera í mismunandi stærðum og gerðum, því þannig er lífið.

Sem betur fer var þessu fordómafulla sjónarmiði svarað í nýjasta helgarblaði Fréttatímans sem kom út í gær. Þar er annars vegar að finna aðsenda grein eftir Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, meistaranema í félagsráðgjöf, sem hvetur til þess að atlaga samfélagsins gegn offitu verði endurskoðuð í heild sinni, og hins vegar viðtal við Þrúði Gunnarsdóttur sálfræðing. Þrúður hefur nýlega lokið við doktorsritgerð á þessu sviði sem sýndi meðal annars að talsverður hluti feitra barna glímir við tilfinningaleg og hegðunarleg vandamál en tölfræðileg greining sýndi að reynsla barnanna af stríðni og félagslegri höfnun skýrði bæði slæma líðan og námsvanda meðal þeirra.

Þetta er átakanleg mynd sem oft blasir við þegar líðan og félagslegur veruleiki þéttvaxinna barna er skoðaður. Þau eru hædd, niðurlægð og skilin útundan auk þess sem hin lúmsku skilaboð streyma alls staðar að úr menningu okkar um að þau séu ljót og asnaleg, óheilbrigð og óæskileg. Þessu verðum við að breyta. Við getum ekki leyft okkur að ala á neikvæðri sýn á stóran hóp fólks og litið framhjá þeim skaða sem það veldur. Holdafar er persónulegt einkenni, rétt eins og húðlitur og kynferði. Það er ekki staðfesting á góðum eða slæmum lífsvenjum eins og flestir ættu að vera farnir að gera sér grein fyrir – það er ekki hægt að sjá utan á fólki hverskonar lífi það lifir. Bæði Tara Margrét og Þrúður undirstrika það að heilsan skipti meira máli en þyngdin – og það hlýtur að eiga jafnt við um tilfinningalega og félagslega heilsu.

Flokkar: Fitufordómar · Fjölbreytileiki

«
»

Ummæli (10)

  • Ég hef sett inn nokkur komment hér og býst ekki við neinum viðbrögðum. Að því sögðu get ég samt ekki orða bundist.

    Síðuhöfundur titlar sig sem sálfræðing, en það er býsna langt og strembið nám. Því vekur hugsunarhátturinn hér stundum furðu:

    „Það er alls ekki samasemmerki á milli lífsvenja og líkamsþyngdar. “

    Þessi setning er bara ein af mörgum sem undirstrikar þá staðreynd, að hér er predikuð sú skoðun að offita fólks, bæði fullorðinna og barna, hafi ekkert að gera með hegðun en allt að gera með „upplag“. Fita er þannig áskapað eðli líkt og hörundslitur eða kynhneigð og fordómar gegn henni af sama meiði og fordómar gegn þessum hlutum.

    Seriously!!!????

  • Snorri Sturluson

    Að offita hafi ,,ekkert“ að gera með hegðun?

    Það er hvergi ,,predikað“ á þessari síðu.

    Heldur er bent á að málið er flóknara en margur megrunarpostulinn boðar.

    Seriously.

  • Ösp Árnadóttir

    Takk fyrir að benda á þetta Sigrún, kíki á þessar umfjallanir.

    Cephmyc hefurðu einhvern tímann velt fyrir þér að skrifa undir kommentin þín með eigin nafni? ef þú stendur með því sem þú segir þá ætti það að vera lítið mál 😉

  • Sigurður Ingi

    Ég var að velta því fyrir mér þegar ég las þetta í Fréttatímanum hvernig það væri ef þessi væri snúið uppá óþæg (ofvirk) börn og ef sagt væri að þetta væri bara uppeldislegt og að rétt væri að taka börnin af foreldrunnum.
    Ekki viss um að það vekti mikinn fögnuð.

    Sem betur fer vitum við betur í dag með ofvirknina, vonandi kemur sá dagur að sami skilningur verði í sambadi við líkamsvöxt.

  • Mín reynsla er sú að sama hvaða lífsstíl ég hef lifað finn ég alltaf til svengdar þegar líkaminn er að ganga á varaforðann (fituna). Það held ég að börn finni líka. Mín börn hafa alltaf borðað mikið, hvorki hollusta né óhollusta í öfgum, bara svona venjulegan mat sem buddan leyfir. Þau eru ekki lítil og búttuð eins og mamma sín, heldur fengu þau grönnu genin. Ég hef alltaf fundið til með þeim foreldrum sem hafa þurft að halda í við börnin sín. Það er gagnstætt foreldraeðlinu að horfa á þau svöng og vansæl. Frá náttúrunnar hendi erum við (og önnur spendýr) hönnuð til að næra börnin okkar og sjá þeim farborða þar til þau geta það sjálf. Það er bara ekki innbyggt í eðli okkar að neita afkvæmum okkar um mat. Það er örugglega erfiðara að grenna börnin sín heldur en sjálfan sig.

  • Harpa Kristjánsdóttir

    Mér fannst þessi grein mjög sorgleg og enn sorglegra að sjá þegar fólk drullar yfir Sigrúnu, að hún sé að „halda með fitubollunum“…ég allavega les það útúr þessu að hún sé að segja að það þurfi ekki að allir að vera eins. Þekki báðar hliðar, vera feit og eiga börn sem fóru útúr þessu heilaga normi, held að það sé verra að vera of þungur í þessu þjóðfélagi en að selja dóp, svei mér þá.

  • Ég ætla að leyfa mér að koma fram undir þessu nafni, ef það er í lagi. Hef mínar ástæður, sem ættu ekki hafa nein áhrif á umræðuna.

    Grein næringarfræðingsins var út í hött, enda minnist ég ekki á hana.

    Það er ekki rétt að „predikunarásökunin“ mín sé úr lausu lofti gripin. Ég kem með beina tilvitnun.

    Það eru tvö atriði í þessu:
    1. Það er sorglegt þegar fólk verður fyrir aðkasti og megintilgangur þessarar síðu er góðra gjalda verður. Það er ömurlegt ef fólk verður fyrir aðkasti og fordómum fyrir að sveigja út frá þröngu samfélagslegu normi. Þetta er ekkert nýtt og hefur þekkst í ýmsum myndum um árabil. Það er þarf ekki að vera feitur til að verða fyrir aðkasti og einelti–feitt fólk leggur líka í einelti.

    2. Aukiningin á offitu er staðreynd. Hún blasir við. Hún er mælanleg. Hér er stundum haldið fram fáránlegum staðhæfingum um þessi mál. Hegðun hefur mikil áhrif. Uppeldi skiptir miklu máli. Það er undarlegt að halda því fram að breyttar lífsvenjur hafi ekki haft geigvænleg áhrif á þessa þróun.
    Offita er ástand sem skapast að stórum hluta vegna hegðunar og hún leiðir til lífshættulegra sjúkdóma. Að amast við umræðunni í heild sinni og tilraunum til að snúa þessu við er jafn furðulegt og að vilja ekki að reynt sé að sporna við reykingum.

  • „Offita er ástand sem skapast að stórum hluta vegna hegðunar og hún leiðir til lífshættulegra sjúkdóma.“

    Ertu viss um það, Cephmyc? Vissir þú að ofþyngd og offitu fylgir, skv. stórum rannsóknum í Bandaríkjunum, ekki aukin dánartíðni fyrr en þyngdin er orðin veruleg, eða það sem Bandaríkjamenn kalla morbid obesity.

    Venjulegu aukakílóin hjá Jóni og Gunnu eru ekki líklegri til að leiða til lífshættu. Hreyfingarleysi eykur mun frekar áhættu á ýmsum sjúkdómum heldur en ofþyngd, vegna þess að hreyfing heldur hjarta- og æðakerfi hraustu. Grannur maður sem hreyfir sig sama og ekkert, kannski einmitt vegna þess að hann er hvort sem er grannur og „þarf“ þess því ekki, getur verið talsvert líklegri til að deyja fyrir aldur fram en þybbinn maður sem hreyfir sig daglega.

    Kílóin eru ekki allt, en þau eru sýnilegust og því einblínir óupplýst fólk á þau.

  • Því miður hef ég ekki heimildirnar mínar hérna hjá mér til að vitna í þær en það er beint samhengi milli „offitu“ (þ.e. mikillar fitusöfnunar vegna óheilbrigða lífshátta) og anorexíu/bulemíu. Það er krafan um einsleitt grannt vaxtarlag og sífelldar megranir þar sem matur heldur óeðlilega lágt fituhlutfall og neysla á ýmsum fitubrennsluefnum. Megrun er eitt af því versta sem þú gerir líkamanum, en því miður er það sem flestir tala um sem „breyttar lífsvenjur“.
    Ég held að Cephmyc ætti að hætta að tala um samhengi offitu og hættulegra sjúkdóma og skoða lífsstíl í staðin óháð vaxtarlagi. Sófakartöflur sem borða bara pizzur og gos geta verið allavega í laginu og ég þekki þéttvaxið fólk sem stundar íþróttir allt árið um kring.

  • Eitt stutt:

    Það er beint samband milli offitu (burtséð frá hreyfingu) og sykursýki. Að vera alltof þungur veldur ýmsum stoðkerfisvanda. Osfrv. Lesið alvöru heimildir (WHO, Lancet, NEJM, BMJ, osfrv).

    Ég er ekki að tala um aukakíló. Við erum að tala um BMI >30 og þá sér í lagi >35. Það skiptir engu máli fyrir heilsu hvort þú ert 5 til 10kg of þungur ef þú hreyfir þig eins og hér er réttilega bent á. En þetta eru algjör strámannsrök hjá ykkur, því umræðan hér hefur sýnt æ ofan í æ að hún snýr að nær allri umræðu um offitu sem vandamál. Því er oft haldið fram hér, að offita hafi lítil sem engin tengsl við hegðun. En hún hefur bein tengsl við hegðun. Auðvitað hefur fólk mismikla stjórn yfir hegðun sinni og vandamálið er því ekki bara persónulegt, það er líka menningarlegt og þar kemur að þætti stjórnvalda til að leysa vandann (áhrif á markað með matvæli og skipulagsmál varðandi hreyfingu).

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com