Á vef matvæla- og næringarfræðafélags Íslands er að finna reiknivél þar sem hægt er að setja inn tölur um kyn, hæð, þyngd og aldur og fá útreikninga á líkamsþyngdarstuðli, efri og neðri mörkum „kjörþyngdar“ ásamt daglegri hitaeiningaþörf og upplýsingum um hversu mörgum hitaeiningum maður eyðir við að skokka. Argasta bull og megrunarþráhyggjufóður að mínu mati. Hér er ástæðan:
Það er ekki hægt að vita hversu mörgum hitaeiningum fólk brennir nema gangast undir mjög nákvæmar, tímafrekar og kostnaðarsamar mælingar. Orkunotkun er breytileg dag frá degi og því yrðu allar slíkar tölur, þótt einstaklingsmiðaðar væru, bara meðaltöl sem ættu misvel við á hverjum tíma. Allar tölur um hvað hin og þessi hreyfingin brennir mörgum hitaeiningum eru sama marki brenndar – þetta eru meðaltöl sem geta verið ansi nálægt því sem á við í þínu tilfelli eða víðs fjarri. Það er engin leið fyrir þig til að vita það. Þar að auki á „brennsla“ ekki bara við um hreyfingu, heldur nær þetta hugtak yfir alla orkueyðslu sem á sér stað í líkama þínum, öll þín líkamsstarfsemi er „brennsla“ með einum eða öðrum hætti, hvort sem það er andardráttur, hugsun, hárvöxtur eða hjartláttur.
En það sem meira er – líkami þinn getur hagrætt orkueyðslu sinni eins og honum sýnist. Þegar allt er í góðu standi, líkami þinn á nóga fitu og kolvetni til að brenna og enginn skortur er ríkjandi, þá brennir hann kannski 400 he. á sveittri æfingu. Nákvæmlega sama æfing mánuði seinna þegar þú ert komin í megrun veldur hins vegar mun minna orkutapi því þá er líkaminn farinn að spara. Þessi sveigjanleiki líkamans við orkueyðslu gerir það að verkum – auk eðlilegra sveiflna í orkuþörf frá degi til dags hjá heilbrigðu fólki – að það er lífsins ómögulegt að treysta á einhverja formúlu eða reiknivél til að vita hvað þú þarft að borða og hversu mikið. Skekkjan sem hlýtur alltaf að fylgja svo ónákvæmum reikningum verður hæglega til þess að þú of- eða vanmetur hitaeiningaþörf þína.
Það að vera sífellt að hvetja fólk til þess að telja hitaeiningar og birta formúlur og reiknivélar í þeim tilgangi elur á þeirri ranghugmynd að það sé yfir höfuð hægt, fyrir venjulegt fólk, að nálgast næringu líkama síns eins og stærðfræðidæmi – eitthvað sem inniheldur bara skýrar og klárar tölur og hægt er að reikna út með yfirveguðum hætti hvort þú ert að gera rétt eða rangt. Það er vitleysa. Í þessu reikningsdæmi eru tölurnar síbreytilegar og engin leið að henda reiður á þeim til þess að fá endanlega útkomu sem stenst. Þegar litið er til þess að að boðberar næringarjöfnunnar („kaloríur inn – kaloríur út“) hamra sífellt á því að minnstu frávik geti safnast saman yfir tíma og orðið að gríðarlegri þyngdaraukningu með árunum, þá er furðulegt að þessir sömu aðilar skuli halda aðferð að fólki sem virðist hafa í för sér óhjákvæmilega skekkju.
Sem betur fer er til önnur og mun áreiðanlegri leið til þess að komast að því hvað líkami þinn þarf að borða til að viðhalda eðlilegri líkamsstarfsemi og þyngd. Hún er svo auðveld að smákrakkar geta framkvæmt hana, hún kostar ekkert, tekur engan tíma og er þar að auki meðfædd. Hún heitir að hlusta á líkamann. Alveg eins og líkami þinn lætur þig vita þegar hann er þreyttur eða þarf á klósettið, þá lætur hann þig vita hvenær hann þarf að borða og hversu mikið hann þarf til þess að fá nóg. Það eina sem þú þarft að gera er að læra að hlusta. Þú gast það einu sinni – ungabörn fæðast í langflestum tilfellum með hæfileikann til þess að taka inn nóg af næringu (miðað við að nóg næring sé í boði) til þess að vaxa og dafna eðlilega. Þau kunna hvorki að tala né lesa og skilja ekki mælt mál. Enginn hefur kennt þeim þetta en þetta kunna þau nú samt. Hvernig getum við skýrt það að ungabörnum takist betur að áætla orkuþörf sína en háþróuðum mæliformúlum fagaðilanna? Það verður ekki skýrt með öðru en því að líkaminn stýrir matarlyst og orkueyðslu miðað við þörf og fæðuframboð. Það er hluti af eðlilegri starfsemi hans. Ef við fáum ekki nóg að borða, þá dregur líkaminn úr óþarfa orkueyðslu. Hið öfuga gerist þegar við fáum of mikið miðað við þörf. Við missum áhugann á mat og líkaminn sóar orku eins og útrásarvíkingar sóa peningum.
Þetta kerfi er ekki fullkomið og það geta myndast aðstæður sem ná að yfirvinna það. Langavarandi fæðuskortur leiðir til þess að líkaminn klárar á endanum sínar varabirgðir, hvort sem þær eru í formi vöðva eða fitu. Langvarandi ofeldi leiðir sömuleiðis til fitusöfnunar, því er ekki að neita. Það breytir hins vegar ekki því að líkaminn leitast við að halda jafnvægi í þyngd og næringarástandi og sendir okkur reglubundin skilaboð um svengd og saðningu í þeim tilgangi. Öruggasta leiðin til að halda þessu jafnvægi er að hlýða þeim.
Líkami minn talar bara Sykurlensku -þannig að ég er líklega fucked
Njótum lífsins
Ahh, takk fyrir þetta. Þoli ekki þetta kaloríurugl. Hvað með anorexíusjúklingana sem lifa á kóki og súkkulaði, hamborgurum og hvítu brauði og eru að detta í sundur.
Lýðheilsustöð er nú ekki mikið skárri heldur. Var það ekki þeir sem vildu að veitingastaðir reiknuðu út kaloríufjölda réttanna sinna?
Prófið að borða 2000 hitaeiningarnar aukalega á dag miðað við það sem þið gerið núna og athugið hvað gerist.
Þetta eru góðar pælingar hjá þér. Það mættu fleiri horfa svona heildstætt á hlutina líkt og þú gerir. Takk!
Þetta er áhugavert og þetta blogg hefur hjálpað mér mikið um hvernig ég hugsa. Hef lengi verið mikið að velta mér upp úr því að léttast og prufað margt. Nú er hugsunin og áherslan á það að ég vilji vera í góðu formi. Reyndar er hluti af því í mínum huga að léttast. Til þess að nálgast það hef ég talið kaloríur. Aðal ástæðan fyrir því er að fyrir mér verður þetta ákveðinn leikur. Ég er vísindamaður og hef áhuga á tölfræði osfrv. Ég hef prufað að reyna að áætla borðaðar kaloríur og hvernig það tengist við þyngdarbreytingar.
Í þessu gagnasafni er ég nú með 27 mælingar og er R2 nú um 0,28. Það segir okkur að um 28% af þyngdarbreygingu milli daga megi skýra með því hversu margar kaloríur voru borðaðar.
Helsti kosturinn hjá mér við þessa nálgun hefur verið að nú borða ég allt. Áður var ég alltaf að hugsa, „má ekki borða brauð, kartöflur osfrv.“ og var því að sleppa út hinu og þessu. Nú borða ég brauð með smjöri og osti og fæ mér það sem ég vil. Eina sem ég geri er að ég reyni að vera í kringum 2000 kaloríur. (veit að það getur líka verið óholt). Hef aukið hreyfinguna, helst í tengslum við geocaching (sjá geocaching.com). Við þetta líður mér mun betur, hef lést um nokkur kíló, og get gert hluti sem ég gat ekki áður.
Það mikilvæga er að nú er hugsunin ekki að verða 90 kg eða 100 kg, heldur bara að gera hlutina þannig að mér líði vel.
Bjarni