Þriðjudagur 01.05.2012 - 11:00 - Rita ummæli

Megrunarlausi dagurinn 2012

Megrunarlausi dagurinn er þann 6. maí nk. og af því tilefni ýtum við úr vör vitundarvakningarherferðinni  „Fyrir hvað stendur þú?“ sem gerð er að erlendri fyrirmynd eins og áður hefur komið fram. Konan á myndinni hér fyrir ofan heitir Helga Bryndís Ernudóttir og er snillingurinn á bak við alla myndvinnslu í þessari herferð. En þar sem þetta er í 7. sinn sem þessi baráttudagur er haldinn hátíðlegur hér á landi er ekki úr vegi að líta yfir farinn veg.

Við fögnum því að samfélagið sé smám saman að vakna til vitundar um það að megrunaráherslur, matarþráhyggja, öfgalíkamsrækt og holdafarsfordómar eru skaðleg fyrirbæri sem hafa ekkert að gera með heilsu og vellíðan. Það að vera með vigtina á heilanum, borða samkvæmt flóknum reglum og æfa 2x á dag er ekki nauðsynlegt til að lifa heilbrigðu lífi og getur meira að segja verið mjög óheilbrigt. Heilbrigði er margþátta fyrirbæri sem snýst ekki bara um líkamlegt ástand heldur einnig andlega líðan og félagstengsl. Atriði eins og þolinmæði, þrautseigja, velvild, samkennd og samskipti eru ekki síður hluti af því sem við ættum að tengja við heilsu. Samband okkar við líkamann er sömuleiðis alveg jafn veigamikill þáttur heilbrigðis eins og regluleg hreyfing eða tannburstun.

Við fögnum því að mjúkum línum sé skartað af meira stolti en áður og víðsýni í sambandi við líkamsvöxt er smám saman að taka við af þröngsýni. Það felur ekki í sér andúð á grönnum vexti heldur að hver og einn geti fundið sátt við sitt eðlislæga líkamsform í stað þess að keppa að einhverju öðru sem talið er betra. Það er jafn fáránlegt að skipa grönnu fólki að þyngja sig og gengur yfirleitt jafn illa og þegar feitu fólki er sagt að grennast. Okkur gengur almennt séð fremur illa að stjórna líkamsvexti okkar en við getum haft heilmikið um heilsu okkar og líðan að segja með því að einbeita okkur að því sem við höfum stjórn á: Hegðun okkar. Hver og einn ber ábyrgð á eigin heilsu og hvort sem við erum feit eða grönn þá þarf líkami okkar daglega umhirðu í formi hollrar fæðu, hreyfingar, hreinlætis og hvíldar. Og ástar!

Að lokum ber að fagna því að fitufordómar mæta meiri mótstöðu en áður og það þykir ekki alveg jafn sjálfsagt að tala um fitubollur og sófaklessur. Vissulega heyrast þessi viðhorf víða og þarf ekki annað en að renna örstutt í gegnum athugsasemdakerfi þessarar síðu til að finna smjörþefinn af þeim. En þessi viðhorf eru deyjandi fyrirbæri sem munu smám saman mokast út í horn þegar fleiri átta sig á því að fjölbreytileikinn er eðlilegur og honum ber að fagna.

Það gerum við!

P.s. Fleiri myndir má sjá hér og áfram verður hægt að senda inn myndir á likamsvirding@gmail.com ef fleiri vilja slást í hópinn 🙂


Flokkar: Samfélagsbarátta

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com