Fimmtudagur 20.09.2012 - 22:57 - Rita ummæli

Bilun

Lady Gaga er mjög áhrifamikil kona og þekkt fyrir frábært samband sitt við aðdáendur sína. Þetta einstaka samband hennar við aðdáendur sína sem hún kallar litlu skrímslin gerir það að verkum að margir setja hana á háan stall og hún er fyrirmynd fjöldamargra ungra kvenna. Mér finnst Lady Gaga virka skemmtilegur karakter en ég tel hana ekki vera mjög góða fyrirmynd því hún á það til að „tvíta“ skilaboðum um hvað hún borðaði (lítið) og leggja ofuráherslu á grannt holdarfar. Hún hefur rætt opinskátt um það að hún hafi þjáðst af lotugræðgi þegar hún var yngri svo að óánægja hennar með líkama sinn hefur fylgt henni um langa tíð. Þessi óánægja með líkama sinn mun líklega ekki yfirgefa hana í bráð því nýlega gerði Lady Gaga sig seka um stórfelldan glæp. Glæpurinn er sá að hún þyngdist um nokkur kíló og var í kjölfarið tekin af lífi í hinum ýmsu fjölmiðlum ætluðum konum. Miðillinn Jezebel er góður miðill sem er oft mjög líkamsvirðingarvænn og þær gerðu nýlega þessa góðu umfjöllun um Lady Gaga og viðbrögðin við þyngdaraukningu hennar.

Ég hef nú svo sem ekki miklu við það að bæta nema það að þessar myndir sem ég hef séð af hinu feitu Gaga eru kómískar því á þeim sést að hún er nokkuð langt frá því að vera feit. Venjuleg já, feit nei. Nánast allir slúðurmiðlar hafa birt fréttir af þessari sjokkerandi þyngdaraukningu og ber það eitt og sér vott um fitufordóma.  Athugasemdir í athugasemdarkerfum neðtmiðla sýna svo neteinelti í hæsta gæðaflokki, athugasemdirnar eru magar á þann veg að hún sé ógeðsleg, líti út eins og flóðhestur og hún eigi að hylja líkama sinn núna þegar líkami hennar er ekki lengur örmjór. Smástirni eins og Kelly Osbourne hefur svo lagt sitt lóð á vogarskálarnar með getgátum um að Lady Gaga sé ólétt.  Ég hef hingað til ekki rekist á mikla umfjöllun um holdarfar þessarar Lady Gaga, mig rámar í að hafa lesið einu sinni að vinir hennar hefðu áhyggjur af því að hún borðaði ekki nóg og að hún væri of grönn og svo talar Jezebel um að Elton John hafi haft áhyggjur af henni þar sem hún hafi litið út fyrir að vera vannærð. Þessar áhyggjur af því að hún væri of grönn hafa ekki vakið jafn mikla athygli og þyngdaraukningin og sýnir það á afgerandi hátt að það þyki í lagi og eðlilegt að stjörnur séu grannar. Einhverra hluta vegna finnst fólki í lagi að fólk ástundi óheilbrigða hegðun til að ná fyrirmyndarútlitinu en það að stjarna bregði út frá norminu með því að bæta á sig virðist ekki samræmast heimsmynd margra.

Ég verð að viðurkenna að svona fár í kringum agnarlitla þyngdaraukningu fyllir mig vonleysi. Ef fólk sem tekur þátt í dægurmenningunni sýnir svona eindregin áhuga á að halda á lofti fitufordómum og taka undir þá á hinum ýmsustu netmiðlum þá eygi ég litla von um breytt samfélag þar sem einsleitar hugmyndir um fegurð eru á undanhaldi. Ég leyfi mér þó örlitla bjartsýni og vona að Lady Gaga stígi fram og vinni það þrekvirki að koma með einhvern jákvæðan áróður um það að fólki leyfist að elska líkama sinn þó hann falli ekki að stífum viðmiðum fjölmiðlaafla um hvað teljist fallegur líkami. Svartsýnis röddin segir mér þó að þessi viðbrögð ýti undir viðhorf hennar og margra kvenna sem er á þann veg að líkami sem ekki er örmjór beri að hata og breyta.

Flokkar: Fitufordómar · Staðalmyndir · Útlitskröfur

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com