Föstudagur 28.09.2012 - 12:23 - 2 ummæli

Lady Gaga og líkamsvirðingarbyltingin hennar

Ég endaði mína síðustu færslu á því að tjá litla tiltrú á Lady Gaga. Ég vonaði að hún sneri þyngdaraukningu sinni upp í eitthvað jákvætt en hélt þó að hún myndi láta undan þrýstingi fjölmiðla og grenna sig í snatri. Það sem ég heyrði fyrst af hennar viðbrögðum virtist svo vera smá þversagnakennt; hún sagðist elska líkama sinn og að hún væri „fædd svona“ (born this way) en í næstu setningu sagðist hún bara ætla að drekka djús því hún væri í megrun.

Einhverjir hafa samt bent á að Lady Gaga er mjög opin með það að hún hafi barist við átröskun frá unglingsaldri og að áherslan hjá henni sé aldrei að hún hafi barist við átröskun og sigrast á henni; áherslan sé á að baráttan eigi sér enn stað. Það er ekki óalgengt hjá fólki með átraskanir að vilja elska líkama sinn og vilja sætta sig við þyngdaraukningu en á sama tíma eiga erfitt með hana og langa allra helst að grenna sig. Á þann hátt er Gaga ekki ólík öðrum í hennar sporum. Það sem gerir hana þó ólíka er áhrifastaða hennar og það að hún ákvað að stíga skrefið og segja „Nei, það er ekki allt í lagi segja við mig að ég eigi að grennast”. Það næsta sem ég heyrði nefnilega af Lady Gaga var það að hún sneri vörn í sókn og skrifaði á heimasíðuna sína að hún hafi stofnað til LÍKAMSVIRÐINGARBYLTINGAR (BODY REVOLUTION) og að hún geri það til að veita öðrum innblástur, sýna hugrekki og hvetja til samhyggðar. Hún hvetur aðdáendur sína til „að þora” að sýna líkamlega galla okkar og gera þá með því að  einhverju sem við getum sætt okkur við og taka með því það „ljóta” burt. Hún hvetur fólk til vera hugrakkt og senda myndir af sér sem sýna það svart á hvítu hvernig fólk komst yfir óöryggi sitt. Hér er svo linkur á litlu skrímslasíðuna þar sem allt er að gerast. Myndirnar sem fólk sendir inn eru frábærar og sendendur eru feitt fólk, grannt fólk, vöðvastælt fólk og fólk sem er ákaflega smávaxið eða á einhvern annan hátt frábrugðið hefðbundnum viðmiðum um fegurð. Þessar myndir fá svo jákvæðar viðtökur hjá öðrum notendum síðunnar og endalausar jákvæðar og uppbyggilegar athugasemdir streyma inn.

Ég er mjög ánægð með Gaga og tel að þarna hafi hún stigið skref sem enginn tónlistarmaður né kona (svo ég viti til) hefur áður stigið og ég vona að þessi bylting fari sem víðast. Nú þegar hefur byltingin hlotið jákvæð viðbrögð hjá aðdáaendum hennar sem margir hverjir eru ungir og ómótaðir, og hefur byltingin líka náð til fólks af öllum aldri sem ekki eru áðdáendur hennar fyrir. Mér finnst frábært að Lady Gaga hafi sýnt þennan kjark og ekki leyft fjölmiðlum að segja henni að hún sé óaðlaðandi og eigi að grennast; í staðinn segir hún óbeint að þetta sé bilun og snýr hlutunum við eins og kona í hennar áhrifastöðu getur gert. Það er raunar skrítið að engin stjarna hafi gert þetta áður, en á sama tíma ekkert skrítið því við erum bara öll manneskjur sem lifum í samfélagi sem hefur kennt okkur að grannt sé fallegt en fita ljót. Kannski nær Lady Gaga að hafa áhrif á þessar hugmyndir, hver veit, en ég leyfi mér að vera bjartsýn!

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (2)

  • Sem betur fer eru fleiri í Hollywood sem ekki samþykkja útlisstaðlana með fullu. Þó að hún sé ekki beint að standa í neinni herferð þá hefur t.d. Kate Winslet oft látið þau orð falla að hún neiti að grenna sig þó að henni sé oft ráðlagt að gera það til að fá fleiri hlutverk, hún var meðal annars beðin um það fyrir tökur á Titanic þar sem hún kom fram svo gott sem kviknakin. Hún hefur einngin talað um að það þurfi að huga að því hverju er haldið að ungum stúlkum og segist sjálf aldrei láta falla niðrandi orð um líkama sinn eða annarra í návist ungrar dóttur sinnar. Vonum að fleiri taki sér þær báðar til fyrirmyndar:)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com