Laugardagur 13.10.2012 - 12:54 - Rita ummæli

Alvöru birnir

Hér er hugljúft fitufordómamyndband sem teflt er fram gegn jólaherferð kókakóla þar sem hamingjusamir ísbirnir drukku kók og höfðu það kósí. Þessu myndbandi er ætlað að sýna skuggahliðar gosneyslunnar og benda á að gos gerir fólk ekki hamingjusamt heldur óheilbrigt. Það er allt gott og blessað enda inniheldur gos enga næringu en fullt af sykri og aukaefnum sem líkaminn hefur ekkert að gera við. Það sem er sorglegt er þó að ekki skuli vera hægt að gera þetta án þess að hafa fitufordóma sem meginþema.

Sú mynd sem dregin er upp af feitu fólki (eða feitum ísbjörnum) er að hér fari hópur sem geri fátt annað en að vagga um í eigin spiki, þamba gos og standa sig illa í rúminu. Yfirskrift myndbandsins er „The real bears“ og vísar væntanlega til þess að hér sé verið að tala um hvernig hlutirnir eru í alvörunni, ólíkt því hvernig þeir eru í blekkingarleik kókakóla. En þetta er ekki heldur í samræmi við raunveruleikann. Feitt fólk er ekki svona ömurlegt. Við þekkjum fullt af fólki sem telst í offituflokki en gerum okkur kannski ekki grein fyrir því vegna þess að sú mynd sem er dregin upp af „offitu“ er svo öfgakennd að fæstir kannast við hana úr daglegu lífi. Hversu margir þekkja annars einhvern sem hefur misst útlim eða fest sig í dyrakarmi vegna offitu?

Við lifum í veruleika þar sem stöðugt er verið að draga upp öfgamynd af feitu fólki – sem á sér kannski einhversstaðar samsvörun – en er langt frá því að vera dæmigerð fyrir veruleika þeirra 20% landsmanna sem flokkast í offitu. Flestir þeirra eru ósköp venjulegt fólk sem hvorki rúllar eftir götunum í eigin spiki né brýtur húsgögn vegna gríðarlegs líkamsþunga síns.

Með því að draga upp þessa stereótýpísku mynd erum við ekki aðeins að búa til hóp sem hægt er að nota sem úrhrök samfélagsins heldur erum við að draga athygli frá því að ALLIR líkamar þurfa umhyggju. Grannt fólk þambar líka gos og borðar allt of mikið nammi. Þetta vitum við. En með því að benda ásakandi fingri á feitt fólk og hrista hausinn getum við friðað eigin samvisku og hugsað með okkur að við séum að minnsta kosti ekki eins og þau.

Líkamar okkar eru dýrmætir. Ef við hugsum ekki vel um þá verða þeir veikir og deyja jafnvel fyrir aldur fram. Þeir eiga betra skilið en að vera fylltir af næringarlausu drasli og eiturefnum. En þeir eiga líka betra skilið en að vera niðurlægðir fyrir stærð sína og lögun. Til að þjóna tilgangi sínum þarf alvöru heilsuefling að taka mið af bæði umhyggju fyrir líkamanum og virðingu fyrir fjölbreytileika hans.

 

Flokkar: Fitufordómar

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com