Föstudagur 26.10.2012 - 20:15 - 1 ummæli

Klikkuð tækifæri fyrir ungar stúlkur

Í gær var frumsýnd heimildarmyndin Girl Model í Bíó Paradís, sem segir frá óhugnarlegum heimi barnungra fyrirsæta tískuiðnaðarins. Þessi mynd veitir innsýn inn í veröld, sem marga grunar eflaust að geti verið til, en fæstir gera sér í hugarlund hversu slæm er í raun og veru. Þetta er veröld sem einkennist af vinnuþrælkun, hörku og virðingarleysi, sem ekki er bjóðandi fólki í neinni atvinnugrein, hvað þá unglingum undir lögaldri.

Við þurfum aðeins að leyfa þessu að setjast í huga okkar: Tískuiðnaðurinn er byggður upp af unglingsstúlkum sem í sumum tilfellum eru ekki einu sinni búnar að klára grunnskóla. Þetta eru „konurnar“ sem ganga á tískupöllunum og birtast okkur í myndaseríum hátískublaðanna. Þetta eru „konurnar“ sem hin venjulega kona ber sig saman við og óskar þess að hún gæti líkst meira í útliti.

Í umfjöllun DV um myndina í dag, er vitnað í Þórhildi Þorkelsdóttur stílista, sem segir:

Fyrir tveimur árum kom fram á sjónarsviðið fyrirsæta, Andrej Pejic, sem er ótrúlega fallegur karlmaður. Hann er notaður sem fyrirsæta fyrir kvenföt. Ég var svo slegin þegar hann var settur á pallana. Ég hugsaði með mér er þetta bara komið núna allan hringinn. Núna sér maður hversu ótrúlega óraunhæfar útlitskröfurnar eru. Það er enginn svona vaxinn. Sögusagnirnar um átraskanir. Þetta eru ekki ýkjur. Þetta er svona.

Fjöldi rannsókna hafa birst undanfarna áratugi sem sýna að konum líður verr með sjálfar sig eftir að hafa skoðað myndir af fyrirsætum. Þeim er kennt að unglingsstúlkur, sem hafa ekki tekið út sinn fullorðinsvöxt, séu hin sanna ímynd kvenlegrar fegurðar. Við virðumst vera að tala um einhversskonar barnagirnd en samt leyfum við þessum sturlaða bransa að ákveða fyrir okkur hvað telst fallegt og eftirsóknarvert og hvað ekki.

Allt við þennan heim er rangt. Vinnuþrælkun barna og unglinga er röng. Ímyndarruglið og útlitsdýrkunin er röng. Kynlífsvæðingin og hlutgervingin er röng. Átraskanirnar, sveltið, fíkniefnin, andlega ofbeldið og misnotkunin er röng. Það að halda að þetta byggi upp sjálfstraust ungra stúlkna er veruleikafirring sem byggir ekki á neinu öðru en söluræðum þeirra sem gera sér lifibrauð úr ástandinu.

Þegar ég vann við meðferð átraskana kynntist ég nokkrum stelpum með fyrirsætudrauma. Þeir voru undantekningarlaust partur af veikindum þeirra, því þær vildu ekki taka sénsinn á því að batna og missa af „stórkostlegum“ tækifærum fyrir framtíðina. En svo urðu þær ekki nýjasta undrið í tískuheiminum og fengu í staðinn endalausa höfnun og vonbrigði. Sem gerir auðvitað mikið fyrir sjálfstraustið.

Í fyrirsætubransanum er stelpum kennt að byggja sjálfsmynd sína, framtíð og atvinnutækifæri á einhverju sem þær hafa enga raunverulega stjórn á: Útliti sínu og velþóknun annarra. Hvernig hægt er að telja sér trú um að þetta hjálpi þeim að öðlast sjálfstraust og blómstra á eigin forsendum er óskiljanlegt. Þetta hlýtur að vera eitt ömurlegasta veganesti sem hægt er að gefa ungri manneskju.

 

Flokkar: Bransinn · Tíska · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (1)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com