Fimmtudagur 27.12.2012 - 15:33 - Rita ummæli

Heilsutrend ársins 2012

 

Líkamsvirðing var talin upp sem eitt af heilsutrendum ársins 2012 í Fréttatímanum núna fyrir jólin…á eftir blandaðri bardagalist, steinaldarmataræði, Zumba og snorkli!

 „Heilbrigð líkamsímynd: Nokkur umræða skapaðist á árinu, á Íslandi jafnt sem ytra um tengslin á milli heilbrigðis og líkamsgerðar. Ljóst þykir að ekki sé endilega samasemmerki á milli líkamsstærðar og heilbrigðis. Með tilkomu samtaka um líkamsvirðingu voru augu almennings fyrir fitufordómum opnuð. Samtökin sendu svo erindi til stjórnsýslu og eftirlitssviðs Alþingis um mikilvægi þess að nefna holdafar meðal atriða sem talin eru upp, undir ákvæði um jafnræði í nýrri stjórnarskrá“

Við erum upp með okkur yfir því að vera nefnd meðal þess sem hæst hefur borið í heilsufarsumræðunni á árinu sem er að líða. En við vonum samt, allra okkar vegna, að það verði meira en bara trend að líða vel í eigin skinni.

Við vonum að heilbrigð líkamsmynd og virðing fyrir fjölbreytileika sé komin til að vera og það verði jafn sjálfsagt að hlúa að sambandi barna við líkama sinn eins og að vernda sjálfsmynd þeirra – og það verði jafn sjálfsagt að bera virðingu fyrir fjöbreytileika holdafars eins og fjölbreytni á öðrum sviðum mannlífsins. Við bíðum eftir þeim degi þegar fitubrandarar verða jafn mikið turn off og kynþáttabrandarar, þegar megrun verður álíka fáránleg og afhommun og þegar ráðleggingar um hvernig hægt er að öðlast fullkomið útlit verða eins hallærislegar og leiðarvísar um háttvísi fyrir prúðar stúlkur. Þessar fordómafullu, hamlandi, idíótísku hugmyndir um hvernig við eigum að vera og ekki vera eru arfur fortíðar þegar fylgispekt var æðst allra gilda. Þær eru til ama og við höfum ekkert við þær að gera.

Við vonum því að líkamsvirðing verði eins og skokkið og jógað. Eitthvað sem var einu sinni framandi trend en festi rætur af því það gerir lífið betra. Líf án líkamsvirðingar er dapurleg tilhugsun og við vonum að þeir dagar sem við erum nú að upplifa verði síðustu leifar slíkrar tilveru.

Gleðilegt nýtt ár og bjarta framtíð!

Flokkar: Líkamsvirðing

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com