Fimmtudagur 10.01.2013 - 10:10 - Rita ummæli

Heilsurækt í sátt við þyngdina

Flest okkar langar til að eiga langt líf við góða heilsu. Við vitum að til þess að auka líkurnar á því þurfum við að hugsa vel um líkama og sál. Við þurfum að borða hollan og góðan mat, mestan hluta af tímanum, og stunda hreyfingu. Því miður eru hins vegar margir sem leggja allt of mikla áherslu á þyngd sína sem mælikvarða á heilsu. Staðreyndin er sú að þyngd er ákaflega lélegur mælikvarði á heilsufar. Það er nefnilega vel hægt að vera feitur og í formi. Auk þess hafa rannsóknir sýnt að megrun virkar ekki til langs tíma og langstærstur hluti fólks nær ekki að viðhalda þyngdartapi. Það eru því miklu fleiri ókostir við það að stunda heilsurækt með það markmið að létta sig, heldur en kostir. Marylin Wann, höfundur bókarinnar Fat! So?, bendir réttilega á nokkra af þeim óteljandi göllum við að vilja grenna sig:

  • Þú hugsar aðeins um mataræði og líkamsrækt þegar þú ert í „átaki“.
  • Þú gefst upp á að rækta líkama þinn þegar þú sérð ekki breytingu á vigtinni.
  • Þú hættir að stunda heilsurækt ef þú nærð að grenna þig í stuttan tíma, af því þér finnst að markmiðinu sé þegar náð.
  • Þú missir nokkur kíló með því að borða rétt og hreyfa þig, en ekki eins mikið og þú vonaðist til og grípur því til öfgakenndra aðferða sem leiða þig í ógöngur.
  • Þú heldur að líkamsrækt sé einungis ætluð grönnu fólki.
  • Þú uppgötvar að það er vonlaust að létta sig, svo þú hættir við alla heilsurækt.

Að mörgu leyti finnst mér það skiljanlegt að fólk vilji grennast og ég er ekkert endilega á móti þyngdartapi í sjálfu sér ef það gerist sem aukaverkun af því að taka upp heilbrigðari lífshætti. En margt getur farið úrskeiðis ef þyngdartap er þungamiðja lífsstílsbreytinganna og leitt til niðurstöðu sem er ekki endilega heilbrigð, eins og punktarnir hér fyrir ofan undirstrika. Það er miklu meira vit í því að stunda heilsurækt í þeim tilgangi að fá bætta heilsu, heldur en til þess að grennast. Betra er að einbeita sér að hegðuninni sjálfri og sleppa því að einblína alltaf á vigtina. Fólk virðist nefnilega oft telja að inni í hverjum feitum líkama búi grönn manneskja sem þurfi að frelsast undan fargi fitunnar. Þetta er misskilningur. Við fæðumst með mismunandi tilhneigingu til að fitna og holdafar ræðst af mörgum mismunandi þáttum sem falla alls ekki allir undir persónulega stjórn og rannsóknir benda til þess að erfðir spila stórt hlutverk. Líklega mun þín heilbrigða þyngd koma í ljós ef þú færð næga hreyfingu og borðar fjölbreyttan mat eftir merkjum svengdar og saðsemi. Einnig er viturlegt að fara hægt í breytingar og leyfa líkama og sál að venjast hverri breytingu í mánuð eða tvo. Kannski muntu missa einhver kíló, kannski ekki. Það mikilvægasta er að þú ert að koma vel fram við líkamann þinn. Því vil ég hvetja fólk til að slíta tengslin milli heilsuræktar og megrunarhugsana. Við eigum öll skilið að fá góða næringu, góða hreyfingu og gott heilsufar. Ef markmiðið er alvöru heilsurækt þá verður hugarfarið og tilfinningalífið líka að vera heilbrigt.

Flokkar: Fjölbreytileiki · Heilsa óháð holdafari · Samband þyngdar og heilsu · Þyngdarstjórnun

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com