Föstudagur 18.01.2013 - 09:59 - 3 ummæli

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu

Janúar er mánuður átaka. Þetta er sá tími þegar fólk setur sér markmið og strengir þess heit að gera betur á nýju ári. Eitt algengasta áramótaheitið er að koma sér í form og er það eflaust eitt það besta sem fólk getur gert fyrir sjálft sig. Ef þau fjölþættu og jákvæðu áhrif hreyfingar á líkamsstarfsemina væri hægt að fá í lyfjaformi, þá væri þetta lyf gefið öllum, hvort sem þeir væru veikir eða heilsuhraustir, á hvaða aldri sem er, og bæði sem forvörn og meðferð. Allir hafa gott af hreyfingu og hún bætir ekki aðeins heilsufar heldur líka andlega líðan, minnkar streitu og vinnur gegn þunglyndi. Hreyfing bætir, hressir og kætir.

Það sorglega er þó að margir þeirra sem stefna að því að komast í form á nýju ári eru lítið með hugann við þetta heldur einblína fyrst og fremst á þær mikilfenglegu breytingar á útliti og þyngd sem hreyfingin á að framkalla. Fólk lofar sjálfu sér að það muni verða grennra, stæltara, flottara og fittara en í fyrra, eða eins og segir í líkamsræktarauglýsingunni, verða betri útgáfa af sjálfu sér. Maður kemst ekki hjá því að greina dapurlegan tón í svona loforðum. Þetta er andstæðan við að lifa sáttur í eigin skinni. Ef við trúum því að til þess að vera í lagi þurfum við að verða öðruvísi – eða að minnsta kosti betri útgáfa af okkur – þá þýðir það að okkur finnst við ekki í lagi eins og við erum. Þennan hugsunarhátt fóðrar megrunar-líkamsræktar-fegrunarmaskínan með endalausum flaumi auglýsinga sem segja allar það sama: Þú ert ömó. Breyttu þér!

Þetta er ekki góður grunnur til að byggja á. Það er ekki hægt að hlúa að líkama sínum og hata hann um leið. Hreyfing hefur endalausa kosti og hún mun hafa jákvæð áhrif á alla sem hana stunda af skynsemi, en hreyfing mun ekki gera okkur öll grönn. Það er ekki öllum ætlað að vera grannir. Breytingar á holdafari er það sem er erfiðast að ná fram og viðhalda í líkamsrækt en samt er þetta það markmið sem flestir einblína á. Vísindin segja okkur að fæstum þeirra, sem setja sér markmið um þyngdartap nú í byrjun árs, mun takast ætlunarverk sitt. Og það sem verra er, af því markmiðið var fyrst og fremst að breyta holdafari en ekki að bæta heilsu og vellíðan, þá munu flestir smám saman hætta að hreyfa sig þegar þeir komast að því hvað það er erfitt að grennast til langframa. Þetta er uppskrift að uppgjöf og vonleysi.

Janúarátak Samtaka um líkamsvirðingu snýst um dálítið annað. Við viljum koma þeirri hugsun áleiðis að hreyfing sé eitt það besta sem þú getur gert fyrir líkama þinn og hreyfing hefur gildi í sjálfri sér. Hún er ekki leið að öðru markmiði, hún er markmiðið. Hreyfing mun gera líf þitt betra, þú verður sterkari, hraustari, liðugri, úthaldsmeiri, hressari, glaðari og kraftmeiri manneskja. Þú munt sofa betur og þér mun líða betur. Hún er ókeypis í þokkabót og stendur öllum til boða hvenær sem er. Allir geta fundið hreyfingu við hæfi, hvernig sem þeir eru vaxnir, í hvernig formi sem þeir eru, hvernig sem heilsufari þeirra er háttað og sama á hvaða aldri þeir eru.

 

Michael Moore, heimildarmyndagerðarmaðurinn frægi, tók þá ákvörðun fyrir um ári síðan að fara út í göngutúr og hefur gert það daglega allar götur síðan. Um gönguferðir sínar segir hann:

Ég er oft spurður að því hvað ég sé búinn að missa mörg kíló af öllu þessu labbi. Fyrst skildi ég ekki spurninguna. Ég meina, af hverju skyldi ég vilja tapa einhverju? Mér finnst nógu erfitt að finna lyklana mína! En svo fattaði ég það — grannt fólk — þriðjungur fólksins í landinu mínu, vill að við hin verðum eins og þau. En hvað það er fallegt af þeim.

Hann ætlaði sér ekkert að grennast. Hann ákvað bara að fara út á hverjum degi og ganga í 30 mínútur, hvar sem hann væri staddur. Það er alltaf hægt að stela hálftíma, hvort sem það er í matartímanum í vinnunni, í sumarbústað uppi í sveit eða í erindagjörðum niðri í bæ. Og við það að fara í heilsubótargöngu á hverjum degi hefur margt frábært gerst í lífi Michael Moore. Hann hefur öðlast meiri orku til daglegra starfa, hann sefur betur og nýtur lífsins í ríkari mæli. Það bara þó nokkuð. Hverjum er ekki sama hvort hann grennist eða ekki? Þetta hefur hann sjálfur að segja um þyngdarþráhyggjuna:

Sannleikurinn er sá að líkamsrækt virkar ekki, megrun virkar ekki, það að líða ömurlega með sjálfan sig virkar ekki. Ekkert virkar. Mitt ráð er þess vegna: Hættu að reyna að vera eitthvað annað en þú ert, vertu ánægður með lífið sem þér var gefið og farðu í góðan göngutúr. … Stígðu niður af hlaupabrettinu, hættu að drekka diet kók og hentu út öllum reglunum. Þetta er allt saman plat sem heldur þér óhamingjusömum. Ef það stendur „fitusnautt“ eða „sykurlaust“ eða „aðeins 100 hitaeiningar!“, hentu því þá út. Mundu að eitt af grundvallaratriðum kapítalismans er að fylla neytandann ótta, óöryggi, öfund og óhamingju til þess að hann kaupi, kaupi, kaupi sér leið út úr ástandinu og, fjandinn hafi það, líði betur í smá stund. En okkur líður ekkert betur, er það? Leiðin að hamingjunni – og innst inni vitum við þetta – er kærleikur, umhyggja fyrir sjálfum sér, samvistir við annað fólk og að upplifa sig hluta af samfélagi, vera þátttakandi en ekki áhorfandi, og vera á hreyfingu. Hreyfast. Hreyfast allan daginn.

Hreyfing er ekki bara fyrir þá sem eru grannir eða ætla sér að verða grannir. Hreyfing er fyrir alla og hraustir líkamar eru af öllum stærðum og gerðum.

 


Flokkar: Fjölbreytileiki · Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (3)

  • Frábær grein Sigrún!

  • Vá hvað ég er innilega sammála þessu!

  • Halla Sverrisdóttir

    Þetta er átak að mínu skapi. Gætirðu ekki sett saman kennsluefni fyrir unglinga um þetta?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com