Sunnudagur 27.01.2013 - 14:02 - Rita ummæli

Leiðarvísir að heilsurækt óháð holdafari

Ég hef nokkrum sinnum verið beðin um leiðbeiningar varðandi hvernig hægt er að stunda  heilsurækt án þess að áherslan sé á þyngd eða þyngdarbreytingar. Það er sáraeinfalt. Þú gerir bara nákvæmlega það sama og venjulega nema þú sleppir því að pína líkama þinn, hunsa þarfir hans eða rembast við að breyta honum.

Í praxís lítur þetta svona út. Þetta er ekki tæmandi listi því það er hægt að hugsa vel um og hlúa að líkama sínum á endalaust marga vegu. Allt lýtur þó að því sama – að láta þér líða vel:

1. Farðu í ræktina, út að ganga, hlaupa, hjóla eða synda. Það skiptir ekki öllu hvað þú gerir svo lengi sem þú gerir eitthvað og hafir gaman af því.

2. Gerðu eingöngu það sem lætur þér líða vel og styrkir þig. Hlustaðu á merki líkamans um þreytu eða verki og farðu eftir þeim. Aldrei pína líkama þinn eða ganga fram af honum.

3. Ekki bera þig saman við aðra. Það sem aðrir gera og geta á ekki við um þig. Þú ert þú og þau eru þau.

4. Ekki mæla árangur þinn með vigt eða málbandi. Finndu árangurinn innan í þér í því hvernig þér líður á meðan þú ert að hreyfa þig og eftir hreyfingu, hvernig styrkur þinn, sveigjanleiki og þol eykst og hvernig þú getur hlaupið hraðar, synt lengur og lyft þyngri hlutum en þú gast áður.

5. Ekki setja þér markmið um útlitsbreytingar og ekki líta á þær sem tilganginn með því að lifa heilbrigðu lífi. Þú hefur litla stjórn á því hvernig þú lítur út en þú hefur talsverða stjórn á því sem þú gerir og hvernig þú lifir. Það er viturlegt að læra að gera greinarmun á þessu tvennnu.

6. Heilsurækt er eins og tannburstun. Takmarkinu verður aldrei náð. Þetta er einfaldlega eitthvað sem þú þarft að gera alla ævi til að halda þér hraustum. Því fyrr sem þú áttar þig á þessu því betra. Þess vegna þarf sú heilsurækt sem þú velur þér að meika sens, vera ánægjuleg, viðráðanleg og henta þínu lífi. Þú myndir aldrei gera átak í því að bursta í þér tennurnar í nokkrar vikur og hætta því svo mánuðum saman þar til næsta átak hefst. Hugsaðu langt. Ævilangt.

7. Nærðu þig á mat sem þér líður vel af. Hlustaðu á líkama þinn á meðan þú borðar og eftir máltíð. Stundum bragðast matur vel en líkamleg líðan eftir á segir þér að þessi matur geri þér ekki gott. Og öfugt. Stundum finnst þér matur ekki bestur í heimi en þú finnur á líðan þinni að þetta er matur sem gerir líkama þínum gott og stuðlar að vellíðan.

8. Ekki neita þér um nauðsynlega næringu. Borðaðu þangað til þú ert södd/saddur og ekki fá samviskubit yfir því sem þú borðar. Þú átt rétt á því að borða og það er ekkert til að skammast sín fyrir. En borðaðu bara þegar þú finnur fyrir hungri. Ekki skerandi, nístandi, æpandi hungri, heldur mildum merkjum um að nú fari líkama þinn að vanta eldsneyti. Ef þig langar í mat þegar þú ert ekki svöng/svangur þá vantar þig ekki mat heldur eitthvað allt annað, eins og félagsskap, hvíld eða útrás.

9. Lærðu á líkama þinn. Það fylgja honum engar leiðbeiningar og allir líkamar eru mismunandi. Hlutverk hvers og eins okkar er að komast að því hvaða lífsvenjur henta okkar líkama og gera okkar besta til að tileinka okkur þær. Til þess þurfum við að hlusta á þau merki sem líkaminn gefur okkur, allan daginn, alla daga.

10. Lærðu að meta hvernig líkami þinn er bæði að utan og innan. Þú hefur kannski einhverjar fastmótaðar hugmyndir um hvernig hann ætti að vera, en þetta eru lærðar hugmyndir, byggðar á ytri kröfum, og yfirleitt ekki í neinum tengslum við veruleikann. Líkami þinn er eins og hann er. Það skiptir engu hvaða veikleika hann hefur, á meðan hjarta þitt slær er líkami þinn lifandi kraftaverk. Hann er duglegur og þrautseigur og gerir sitt á hverjum degi til að halda þér á lífi. Þú átt honum allt að þakka og hann á allt það besta skilið. Þar með talið ást, umhyggju og virðingu.

11. Njóttu lífsins og nærðu gleðina þína. Ef þú nýtur ekki lífsins skiptir fátt annað máli. Þetta gleymist oft í heilsurækt en þetta er það sem skiptir allra, allra, allra mestu máli. Lífsgleði og lífsgæði. Sama hvort líf þitt verður stutt eða langt, þá skiptir öllu að það hafi verið gott og þér hafi liðið vel. Geðheilsa er aðalatriði og ef „heilsurækt“ þín ógnar henni á einhvern hátt þá er það engin heilsurækt. Það er engin heilsa án geðheilsu.

Flokkar: Heilbrigt samband við mat · Heilsa óháð holdafari · Líkamsvirðing

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com