Föstudagur 29.03.2013 - 13:00 - Rita ummæli

Heilsa óháð holdafari og Hvíta húsið

LetsMovePeeps

Ég hef áður ritað um „Let’s move“ herferð Michelle Obama og lýst áhyggjum mínum af yfirlýstu markmiði hennar um að „útrýma offitu barna á einni kynslóð“. Svona yfirlýsingar eru bæði óábyrgar og óraunhæfar af því offitu (það er að segja feitu fólki) á ekkert að útrýma og verður aldrei útrýmt. Heilbrigðisboðskapur á ekki að snúast um útrýmingu tiltekinna líkama heldur um að hver manneskja, hvernig sem hún er vaxin, geti lifað sem heilbrigðustu og hamingjusömustu lífi miðað við sína persónulegu styrkleika og takmarkanir. Við erum öll mismunandi.

Michelle Obama virðist loks vera búin að ná þessu. Kannski hafa gagnrýnisraddir undanfarinna ára náð eyrum hennar og kannski er hún svo vel gerð að hún hlustar. Í það minnsta talar hún nú um að allir líkamar séu mismunandi og að heilsuefling eigi ekki að snúast um holdafar heldur um heilbrigðar lífsvenjur. Forsetafrúin sat nýlega fyrir svörum í þættinum „Fireside Hangout“ þar sem  kemur skýrt og greinilega fram að hún telji réttu leiðina að heilsu og velferð barna vera einfaldlega að skapa þeim heilbrigt umhverfi þar sem hollur matur er á borðum og hreyfing er gerð að skemmtilegum leik. Það sé engin þörf á að minnast einu orði þyngd eða holdafar. Hún telur sérstaklega mikilvægt að áherslan sé lögð á hegðun en ekki holdafar í ljósi þess að við viljum ekki ýta undir fitufordóma eða þyngdarþráhyggjur meðal ungs fólks.

Ég á tvær ungar dætur. Við tölum aldrei um þyngd. Ég gæti þess sérstaklega. Ég vil ekki að börnin okkar verði upptekin af þyngdinni. Ég vil að þau einbeiti sér að þessu: Hvað þarf ég að gera, í þessum líkama – af því allir líkamar eru mismunandi, líkami hverrar manneskju er ólíkur – hvað þarf ég að gera svo ég verði eins heilbrigð (ur) og ég get orðið.

Það lá við að ég klökknaði. Ein áhrifamesta kona heims að tala á svona ótrúlega skynsamlegan og mannúðlegan hátt um heilsu og holdafar. Eitthvað sem sárvantar svo í alla umræðu af þessu tagi sem enn einkennist svo mikið af virðingarleysi og fjandsamleika í dulbúningi „heilbrigðisumræðu“.

Frú Obama hefur alveg misstigið sig áður. Og, já, það er enn talsverður fókus á holdafar á heimasíðu Let’s move átaksins. Kannski er hún ekki alveg búin að ná þessu. En samt. Hvílík vatnaskil.

Flokkar: Heilsa óháð holdafari · Samfélagsbarátta

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com