Fimmtudagur 04.04.2013 - 19:37 - 2 ummæli

Bikinikroppur

bikini

Hverri árstíð fylgir iðulega regluleg áminning frá fjölmiðlum um að við þurfum að passa okkur að verða ekki feit. Fyrir jólin erum við vöruð við því að fitna yfir jólin og við fáum skýr skilaboð um að hátíðarhöld gefi engum leyfi til að sleppa því að hugsa um hitaeiningar. Ekki í eina einustu mínútu er okkur leyft það frelsi að borða eftir eigin matarlyst eða vera ánægð með líkamann okkar. Fyrir páska sjáum við greinar um hvernig væri hægt að forðast að fitna um páskana. Eftir hátíðirnar fáum við síðan endalaus skilaboð um hvernig við eigum að losna við þau kíló sem við mögulega bættum á okkur yfir hátíðarnar.

Nú fer að koma sumar og þá er ekki seinna vænna en að fjölmiðlar og sjálfskipaðir heilsugúrúar fari að bretta upp ermarnar og ota að fólki auglýsingum og upplýsingum um hvernig eigi að öðlast hinn eina sanna bikinikropp. Það er nefnilega eins gott að þú látir ekki sjá þig á baðfötunum ef þú samsvarar ekki hugmyndum samfélagsins um hinn fullkomna líkama. Krafa samfélagsins um nánast fitulausan líkama hefur orðið til þess að mörgum finnst ekkert jafn niðurlægjandi og erfitt en að þurfa að opinbera líkama sinn í baðfötum. Mikill kvíði og vanlíðan fylgir því að standa í mátunarklefa og máta baðföt fyrir sumarið og margir fara í megrun til að reyna að minnka þessa vanlíðan.

Ég varð því himinlifandi þegar ég sá þessa grein sem vegur á móti þessum hugmyndum. Eins og höfundur greinarinnar kemst að orði: „We happen to believe that if you’re physically able to put on a bathing suit, you’re bikini-ready.“ Bikinikroppar eru alls konar, eins og sést á þessum myndum. Ég mæli með því að þið skoðið þessar myndir sem sýna konur af mörgum stærðum og gerðum, klæddar í baðföt, að skemmta sér í sólinni. Það þarf ekki að þröngva líkamanum í neitt ákveðið form til að geta notið sumarfrísins í sátt við sjálfan sig. Áfram alls konar!

Flokkar: Fjölbreytileiki · Staðalmyndir · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com