Sunnudagur 28.07.2013 - 15:40 - 1 ummæli

Félagslegt misrétti í nafni heilbrigðis

I want you to lose some weigh_2

Í gær sagði fréttastofa BBC frá því að vísa ætti suður-afrískum manni úr landi í Nýja-Sjálandi fyrir þær sakir að vera feitur. Þessi maður vegur 130 kíló en þegar hann kom fyrst til landsins var hann 160 kg. Hann hafði því grennst um 30 kg. frá árinu 2007. Tekið var fram í fréttinni að þyngd mannsins auki hættu á því að hann þrói með sér háþrýsting, sykursýki eða hjartasjúkdóma – sem bendir til þess að hann þjáist ekki af þessum kvillum í dag. Ef hann hugsar vel um sig og einbeitir sér að því að lifa heilbrigðu lífi minnkar hættan á því að hann fái þessa sjúkdóma töluvert. Engu að síður er hann metinn óæskilegur og verður að líkindum gerður brottrækur.

Sú óhugnanlega staða virðist komin upp að heilsufar og holdafar fólks má nýta sem félagslegt kúgunartæki. Heilsa er ekki lengur eitthvað gott og fallegt, gæfa og blessun sem maður óskar sjálfum sér og öðrum, heldur eitthvað sem dregur fram ljótustu hliðar mannfólksins. Hún er hinn nýji grundvöllur félagslegrar flokkunar og stéttaskiptingar

Opinber áróður síðustu 15 árin um að feitt fólk sé heilsulaust og efnahagsleg byrði á samfélaginu hefur fest þá hugmynd í sessi að feitt fólk sé óæskilegir borgarar. Ef við erum heiðarleg þá verðum við að horfast í augu við að þessi samfélagslega árás, sem gengur undir nafninu „stríðið gegn offitu“ og er á kaldhæðnislegan hátt keyrð áfram í nafni heilsu og velferðar, hefur valdið gríðarlegum skaða. Hún hefur valdið því að feitt fólk er nú álitið óvinir samfélagsins – opinber skotmörk fordæmingar og fyrirlitningar samferðamanna sinna. Fólk sem ekki þykir vænlegt að ráða í vinnu af því það er álitið gangandi tímasprengjur. Fólk sem ætti að greiða hærri skatta af því það er svo dýrt í rekstri fyrir samfélagið. Fólk sem má koma fram við eins og annars flokks manneskjur.

Þeir heilbrigðisstarfsmenn, stjórnmálamenn, fræðimenn og fjölmiðlafólk sem kynt hafa undir þessa baráttu bera þunga ábyrgð. Kannski vissu þau ekki betur. En í dag á fólk að gera það. Í dag er ekkert sem réttlætir að áhrifamikið fólk hagi málflutningi sínum á þann hátt sem getur ýtt undir félagslega kúgun og óréttlæti.

Það er kominn tími til að binda endi á þetta grimmilega og siðlausa stríð. Þetta er ekki leiðin að heilsu og velferð.

 

 

Flokkar: Fitufordómar · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (1)

  • Ragnhildur

    Talandi um að koma hugmyndum inn hjá fólki. Hvað er þessi mynd sem prýðir þessa grein að gera við umræðu um Suður-afrískan einstakling og heilsupólitik á Nýja Sjálandi?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com