Laugardagur 21.09.2013 - 18:41 - Rita ummæli

Er baráttan fyrir líkamsvirðingu loks farin að bera sýnilegan árangur?

Haust eru yfirleitt álitinn tími breytinga. Þá verða árstíðaskipti og veturinn fer að láta sjá sig með kólnandi veðri. Að loknu sumarfríi sest fólk aftur á skólabekk, sumir jafnvel í fyrsta skipti. Sumir setjast EKKI á skólabekk í haust í fyrsta skipti á sinni löngu ævi. Þetta á meðal annars við um mig en ég lauk loksins langri og strangri háskólagöngu í vor. Vinnumarkaðurinn fer á fullt og rútína kemst aftur á. Og ekki má gleyma líkamsræktarstöðvunum sem eru að fyllast af fólki sem ætlar sér að “komast í kjólinn/sjá tólin” fyrir jólin. Haustið 2013 virðist líka ætla að verða tími samfélagsbreytinga. Allavega ef við tökum mið af líkamsvirðingarboðskapnum. Svo virðist sem fólk sé loksins farið að verða opið fyrir þeirri hugmynd að þetta sé boðskapur sem eigi erindi við samfélagið, að þetta sé boðskapur sem skipti sköpum fyrir mannréttindabaráttu. Ég vil nefna fjögur dæmi sem renna stoðum undir þessa ályktun mína:

 

  1. Auglýsingaherferð Kellogs Special K hefur snúið við blaðinu og breiðir út þau skilaboð að við séum meira en bara buxnastærðin. Auglýsingar þessa “heilsu”morgunkorns hafa hingað til snúist um megranir og niðurskurð. Þessi viðsnúningur hefur svo miklu meiri áhrif en við teljum við fyrstu sýn. Sjáið til, stórfyrirtæki eins og Kellogs stunda nefnileg gríðarlega viðamikil rannsóknarstörf til að auglýsingar þeirra falli sem best í kramið á almenningi. Rannsóknir eru gerðar á stórum þversniðsúrtökum til að komast að áherslum og gildum þátttakenda. Tilgangurinn er aðeins einn og hann er að finna svarið við spurningunni: “hvaða auglýsingaboðskapur eykur helst líkurnar á því að fólk kaupi vöruna okkar og hámarkar þar með hagnað fyrirtækisins?”.  Þessi auglýsing segir okkur þannig að líkamsvirðingarboðskapur sé það sem fólk vilji sjá. Það eru áherslur sem virðist höfða svo  vel til almennings að líklegara er að hann skipti við fyrirtæki sem dreifir út slíkum boðskap frekar en megrunarboðskap…
  2. Ritstjórnarpistill Hlínar Einars á bleikt.is. Bleikt.is hefur að mínu mati ekki alltaf verið líkamsvirðingarvænasti vefur landsins. Smám saman hafa þó verið að laumast inn líkamsvirðingarvænar færslur á síðunni og þann 30. ágúst síðastliðinn birtist þar áðurnefndur pistill. Í pistlinum segir Hlín m.a.: “Minn draumur er að við verðum sem flestar sáttar í okkar skinni og fögnum öllum líkamsformum, fögnum heilbrigðum lífsstíl sem hentar hverjum og einum.”. Hallelúja vinkona!! Það sem stendur kannski mest upp úr í þessum pistli er að Hlín þorir að nota orðið “líkamsvirðing”. Ég hef fundið fyrir ákveðnum ótta í kringum notkun orðsins, rétt eins og sumir þora ekki að kalla sig “feminista”. Í báðum tilfellum er þessi ótti byggður á misskilningi hvað varðar merkingu hugtakanna. Þessi ótti er vel skiljanlegur ef við höfum í huga hve margir trúa því að líkamsvirðingarsinnar séu að berjast fyrir aukinni tíðni kransæðastíflna og kæfisvefns. Það er helber misskilningur…sem er efni í aðra bloggfærslu.
  3. Þetta hérna. Flick My Life er með vinsælustu grínvefjum landsins og ég ætla að leyfa mér að fullyrða það að markhópurinn sé í yngri kantinum. Vefurinn tekur við innsendum myndum og yfirleitt eru þetta myndir af skondnum mistökum eða einhverju sem lesendur telja ekki alveg fara saman við tíðarandann. Oft felst því í myndunum samfélagsleg gagnrýni með gamansömu ívafi. Í þessu tilfelli hefur árvökull lesandi vefsins komið auga á heldur betur fordómafulla lýsingu ruv.is á kvikmyndinni Shallow Hal eða eins og RÚV hefur íslenskað hana, Grunnhyggni Hal. Lýsingin hljóðar svo: “vitgrannur maður verður ástfanginn af akfeitri hlussu vegna innri fegurðar hennar”. Af titli færslunnar má ráða að sá sem sendi myndina inn hafi séð eitthvað athugavert við orðalagið “akfeitri hlussu”. Pressan.is nær síðan að orða betur hversu fjarstæðukennt þetta orðalag er. Ef þetta er ekki merki um það að líkamsvirðingarboðskapurinn og barátta gegn holdafarsfordómum hafi náð útbreiðslu þá veit ég ekki hvað!
  4. Að lokum langar mig að minnast á muninn á viðbrögðunum við þessum líkamsvirðingarpistli mínum og þessum hérna (og já ég veit alveg að þeir birtust í byrjun árs en ekki í haust. Ég ætla samt að nefna þetta dæmi). Eins og sjá má er boðskapur seinni pistilsins algjörlega andstæður hins fyrri. En takið eftir einu; líkamsvirðingarpistilinn hefur, þegar þetta er skrifað, fengið 4.793 “læk” á samskiptamiðlinum Facebook á meðan ó-líkamsvirðingarpistilinn hefur aðeins fengið 229 “læk”. Báðir pistlarnir eru birtir á mjög svipuðum tíma og því er ekki um tímamismun að kenna, þ.e. að seinni pistillinn hafi einfaldlega ekki haft tíma til safna nógu mörgum lækum. Það er greinilegt hvor boðskapurinn höfðar betur til íslensks almennings.

 

Að þessu sögðu get ég ekki annað en ályktað að almenningur sé orðinn opnari gagnvart hugtakinu “líkamsvirðing”. Margt hefur áunnist og nú erum við loksins komin að þeim tímapunkti þar sem meðbyrinn með líkamsvirðingarbaráttunni virðist ætla að verða allavega jafn mikill og mótbyrinn. En svo ég vitni aftur í nýja vinkonu mínu, hana Hlín Einars: “Raddir sem hvetja til líkamsvirðingar hafa orðið æ háværari enn sem komið er, en betur má ef duga skal.” Þetta eru orð að sönnu, sérstaklega ef við hugsum til þess að tökur standa nú yfir á íslenskri útgáfu af The Biggest Loser. En það er samt sem áður eitthvað sem segir mér að innan um allt fólkið sem streymir inn á líkamsræktarstöðvar um þessar mundir til að komast í kjólinn eða sjá í tólin, sé hærra hlutfall fólks en til að mynda haustið 2012, sem ætlar sér að vinna að líkamlegri og andlegri vellíðan frekar en þyngdartapi. Sem ætlar að stunda líkamsrækt óháð kílóatapi eða fituprósentu heldur til þess að gera einmitt það sem felst í orðinu líkamsrækt; að rækta líkama sinn. Ég tel einnig að margir muni bæta við dassi af líkamsvirðingu og að þeir ætli að öðlast sátt við líkama sinn hvernig svo sem hann lítur út. Til þeirra segi ég: Að bera einlæga virðingu fyrir líkama sínum er ævilangt ferli og í því felst mikil vinna. Vinnan fer að miklu leyti í hugarleikfimi, þ.e. að brynja sig fyrir og ígrunda þau látlausu megrunarskilaboð og holdafarsfordóma sem dynja á okkur daglegu. En ekki gefast upp! Því nú eru blikur á lofti og þessum neikvæðu skilaboðum virðist fara fækkandi. Þetta verður auðveldara. Og við í Samtökum um líkamsvirðingu ætlum svo sannarlega ekki að láta deigan síga. Við ætlum að halda vinnu okkar ótrautt áfram. Vonandi verður ykkar vinna við að öðlast líkamsvirðingu auðveldari fyrir vikið…

Flokkar: Bransinn · Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sex? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com