Mánudagur 07.10.2013 - 10:40 - 3 ummæli

Á að segja börnum að þau séu of feit?

happy_kidsÉg lenti í samræðum um þetta um daginn. Ef börn eru of feit, af hverju má ekki segja þeim það? Hvernig á eiginlega að tala við börn um holdafar? Á að telja öllum börnum trú um að þau séu grönn?

Það er flókið og erfitt mál að ræða holdafar í dag vegna þess að holdafar er svo gríðarlega félagslega og tilfinningalega hlaðið fyrirbæri. Mörgum, ef ekki flestum, sem vaxnir eru út fyrir ramma samþykktra líkamsviðmiða líður illa yfir því. Og flestir sem eru feitir vita af því, þannig að hver er tilgangurinn með því að draga fram það augljósa?

Ég held að það sé líka aðalspurningin: Hver er tilgangurinn? Er tilgangurinn að láta barnið vita að það sé eitthvað að því? Að líkami þess sé vandamál? Eða er tilgangurinn að hjálpa barninu að sættast við sjálft sig?

Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki tekist á við þá félagslegu og tilfinningalegu merkimiða sem fylgja því að vera feitur með því að telja öllu feitu fólk (og börnum) trú um að þau séu í raun ekki feit. Þau vita betur. Og á meðan það er litið neikvæðum augum að vera feitur þá mun þeim líða illa yfir því. Svo það er það sem þarf að breytast. Ekki merkimiðinn sjálfur heldur hvað hann þýðir.

Ég er lágvaxin. Ég er svo lágvaxin að ég er lægri en allir sem ég þekki, að börnum undanskildum. Ég held að dóttir mín hafi verið 10 ára þegar fyrstu vinkonur hennar fóru að gnæfa mér yfir höfuð. Ég næ ekki upp í næstneðstu hillurnar í eldhússkápunum mínum og þarf því að þvælast um með koll ef ég er að elda. Það má alveg segja að hæð mín sé „óeðlileg“ ef miðað er við þessar upplýsingar. Þegar ég vann með börnum og unglingum var ég meira að segja einu sinni spurð (af barni) hvort ég væri unglingur eða fullorðin, þannig að það má líka færa rök fyrir því að mögulega hafi hæð mín truflað trúverðugleika minn í vinnunni. Mér hefur hins vegar aldrei liðið illa yfir því að vera lítil. En ég held að það sé að stórum hluta vegna þess að ég er kona. Það er í lagi fyrir konur að vera litlar. Það er að minnsta kosti ekki almennt álitið neikvætt. Ef ég væri karlmaður þá væri sagan mögulega öðruvísi. Mögulega myndu ofangreind atriði trufla mig ef ég væri karlmaður. Ég væri væntanlega aðeins stærri en ég er núna ef ég væri karlkyns en ég væri samt lítill. Og karlmenn eiga ekki að vera litlir heldur stórir og sterkir. Rannsóknir sýna meira að segja að lágvaxnir karlmenn eiga erfiðara með að fá vinnu en hávaxnir, fá síður stöðuhækkun og fá lægri laun. Já. Þegar ég hugsa út í það þá er ég rosalega fegin að vera ekki karlmaður. En synir mínir eru það. Og þeir eru lágvaxnir líka.

Vitandi hvað bíður þeirra ef þeir vaxa úr grasi, alltaf minnstir í bekknum, og verða síðan lágvaxnir fullorðnir menn, þá er það eina sem ég get gert að stappa í þá stálinu. Hjálpað þeim að þróa með sér jákvæða sjálfsmynd út frá þeim mörgu styrkleikum og kostum sem þeir hafa til að bera. Ekki gera hæð þeirra að neinu aðalatriði en ekki vera heldur með neina vitleysu ef þeir viðra áhyggjur eða leiða yfir hæð sinni. Ég segi ekki: „Hvaða vitleysa, þú ert ekkert lítill“. Þeir vita að þeir eru litlir. Ég er sjálf lítil. Að halda öðru fram er bara kjánalegt. Það sem ég segi er að já, þeir séu frekar lágvaxnir en það sé ekkert að því að vera lítill. Fólk sé allskonar. Og svo er gott að spyrja af hverju þeir séu yfirleitt að hugsa um þetta. Gerðist eitthvað? Sagði einhver eitthvað? Er eitthvað að gerast í þeirra félagslega umhverfi sem ég þarf að bregðast við?

Ef börnin mín væru feit þá hugsa ég að ég myndi nálgast málið á sama hátt. Ég myndi hins vegar aldrei segja þeim að þau væru „of“ feit. Það er ekki það sama. Það felur í sér neikvæðan dóm. Ef þú ert „of“ eitthvað þá er eitthvað að þér. Ég segi sonum mínum ekki að þeir séu „of“ litlir þrátt fyrir að þeir skeri sig úr meðaltali íslenskra barna. Þeir eru bara nákvæmlega eins og náttúran skapaði þá. Þeir eiga ættarsögu um lága líkamshæð. Að ætlast til þess að þeir verði öðruvísi er ekki raunhæft. Þeir verða að mega vera litlir og þeim verður að geta liðið vel með það. Til þess þarf þýðing merkimiðanna að breytast. Það verður að vera í lagi að vera lítill. Það verður að vera í lagi að vera feitur. Annars erum við að dæma öll börn sem eru ekki vaxin samkvæmt meðaltali til að vaxa úr grasi sem brotnir einstaklingar, alltaf ósátt við að vera eins og þau eru. Það eru ekki örlög sem ég óska neinu barni.

Það er vert að minnast á að vissulega hefur orðið „feitur“ neikvæða merkingu í okkar samfélagi. Það þarf því að fara varlega í hvernig það er notað. Við ættum til dæmis aldrei að nota þetta orð í neikvæðu samhengi. Við ættum heldur ekki að ota því að börnum að fyrra bragði að þau séu feit. En ef þau spyrja þá þurfum við að svara. Ef okkur líður illa við að nota merkimiða yfir börnin okkar þá getum við bara sagt þeim að þau séu fullkomin eins og þau eru. Stundum er það einfaldast, sérstaklega þegar börn eru ung. Fyrir eldri börn gæti þetta hins vegar virkað eins og við værum að forðast umræðuefnið, svipað og að segja „hvaða vitleysa, þú ert ekkert feit“. Kannski situr barnið áfram með þá vitund að það sé feitt en að það sé svo slæmt að það megi ekki einu sinni ræða það. Við gætum líka ákveðið að nota önnur orð eins og „þéttur“ eða „stór“ í staðinn fyrir „feitur“ en þar er líka ákveðin hætta. Hún er sú að ef merking þess að vera feitur er áfram neikvæð þá munu öll orð sem tekin eru upp yfir þann líkamsvöxt líka öðlast neikvæða merkingu með tímanum. Ég sé því málið ekki leysast þannig. Ég sé lausnina felast í því gera það sama og við gerðum við orð eins og hommi og píka. Orð sem voru hreinlega blótsyrði fyrir ekki svo löngu síðan en hefur markvisst og meðvitað verið breytt í hlutlausari orð yfir það sem þau þýða: Samkynhneigða karlmenn og kynfæri kvenna. Þau breyttust af því við fórum að nota þau öðruvísi. Merking orðsins „feitur“ þarf líka að breytast ef þeim sem eru feitir á einhvern tíman að geta liðið vel í eigin skinni. Þetta orð er ekki neikvætt í eðli sínu. Þetta er bara lýsingarorð eins og „lágvaxinn“ eða „skolhærður“. Ef við æfum okkur í að nota það þannig þá hættir það loks að meiða.

 

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsvirðing

«
»

Ummæli (3)

  • Silja Björk Baldursdóttir

    Ég man alltaf þegar ljósmóðirin kom heim til okkar og mældi nýfæddan miðsoninn fyrir framan okkur hin í fjölskyldunni. Hún sagði að hann væri: „Feitur og flottur“. Af einhverjum ástæðum man elsti sonurinn þetta alltaf og við höfum haldið þessum frasa á lofti síðan þá.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    Það er ekki vandalaust að vera foreldri. En hvað um það. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft. Líklegt er að börn sem alin eru á pizzum og kók verði feit þó þannig vaxnir foreldrar botni ekkert í því og drífi sig til sálfræðing til að fá lausn sinna mála – og barnanna.

  • Þorsteinn Jón Óskarsson

    sálfræðings

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com