Mánudagur 14.10.2013 - 20:35 - 2 ummæli

Fordómavekjandi umfjöllun fjölmiðla um offitu

headless fatties

Ég hef stundum verulegar áhyggjur af fréttaflutningi um offitu og hvernig hann hefur áhrif á líkamsmynd fólks og viðhorf gagnvart feitu fólki. Í fjölmiðlum hafa fréttir af „offitufaraldri“ aukist til muna síðan á 9. áratugnum. Fjölmiðlum finnst viðeigandi að nota orð sem í fortíðinni hefur verið notað yfir banvæna smitsjúkdóma eins og svarta dauða eða spænsku veikina, sem þurrkuðu út heilu kynslóðirnar. „Offitufaraldurinn“ er ekki hefðbundinn faraldur, því með þessari gerð af faraldri þarf fólk ekki lengur að sýna nein merki um veikindi til að vera talið í heilsufarslegri hættu. Þessi faraldur er birtur í fjölmiðlum sem vandamál þjóðarinnar og er birtur sem vísindalegur raunveruleiki, þó að gagnrýnisraddir hafi ítrekað bent á að holdafar sé ekki mælikvarði á heilsufar. Í mörgum tilvikum er þetta greinileg æsifréttamennska, eins og bent hefur verið á áður hér á síðunni. Oft eru birtar greinar á vefmiðlum landsins sem hvetja til alls konar vafasamra leiða til þyngdartaps, eins og það sé einhvers konar náttúrulögmál að fólk sé tilbúið að gera ALLT til að grennast – því það er auðvitað svo hræðilegt að vera feitur. Sjaldan eða aldrei er fjallað um siðferðislegar hliðar slíks áróðurs eða hvernig slíkur áróður gæti haft áhrif á félagsleg auðkenni og líf fólks. Skilningur á víðara menningarlegu samhengi í umræðu um heilsu, þyngd eða líkamsfitu er nánast hvergi að finna í fjölmiðlum. Hræðsluáróður um skaðsemi líkamsfitu getur haft þær afleiðingar að feitt fólk einangrast og verður fyrir fordómum, svo ekki sé minnst á skaðleg áhrif á líkamsmynd fólks.

Eitt einkenni fréttaflutnings um offitu eru myndir af líkömum feits fólks. Þessar myndir ýta undir fordóma, því fólkið á myndunum er oft sýnt borða ruslfæði, myndin er tekin aftan frá þar sem lögð er áhersla á stóra líkamsstærð, eða höfuðið er einfaldlega klippt burt af myndinni. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort fólkið á myndunum hafi gefið leyfi fyrir þessari myndatöku. Á þennan hátt er feitt fólk sýnt sem táknmynd samfélagslegs vandamáls og þeirra eigin raddir, tilfinningar og skoðanir um það að vera feitur fá aldrei að heyrast. Með því að birta myndir af höfuðlausu feitu fólki á þennan hátt er verið gefa í skyn að að heimurinn væri betri án feits fólks og ýta enn frekar undir hræðslu samfélagsins á líkamsfitu. Rannsóknir sýna einnig að slíkar myndir af feitu fólki sem fylgja fréttum um offitu vekja fitufordóma hjá lesandanum, sama hvort fréttin sjálf gefi hlutlausar upplýsingar um offitu eða ekki. Því get ég ekki annað en sett spurningamerki við upplýsingagildi þessara mynda og hvort eini tilgangur þeirra sé að vekja hræðslu, hneykslan eða einfaldlega hatur. Ég hef til dæmis reynt, þegar mig vantar myndefni fyrir færslurnar mínar, að finna myndir sem sýna feitt fólk í jákvæðu ljósi eða stunda heilsusamlega hegðun. Það hefur tekist einu sinni. Ég fann eina mynd. Á öllu internetinu.

Félagslegar rannsóknir á fjölmiðlaumfjöllun um offitu sýna að offita er álitin samfélagslegt vandamál sem kosti samfélagið háar fjárhæðir. Um leið er skuldinni enn skellt á einstaklingana, þ.e. sú hugmynd að holdafar sé alfarið undir stjórn einstaklingsins er enn samþykkt. Þannig er feitt fólk látið bera ábyrgð á samfélagslegu „vandamáli“ því persónulegar orsakir og lausnir við offitu einkenna fréttaflutning. Í þau fáu skipti sem feitt fólk fær að láta í sér heyra er þegar því tekst að grenna sig. Einstaklingssögur af fitutapi ýta hins vegar enn frekar undir þá hugmynd að eina leiðin til betri heilsu sé með þyngdartapi og að allir geti grennst – ef þeir bara reyna nógu mikið. Í raun fáum við ítrekað þau skilaboð að feitt fólk sé ekki velkomið í okkar samfélagi. Þessi skilaboð eru reyndar yfirleitt sykurhúðuð með umhyggju eða áhyggjum af heilsufari fólks.

Sýnt hefur verið fram á að fjölmiðlar leika mikilvægt hlutverk í að miðla upplýsingum um heilsu til almennings. Með röngum upplýsingum og ljósmyndum sem vekja neikvæðar tilfinningar getur fréttaflutningur því haft alvarlegar afleiðingar. Við viljum öll bæta heilsufar þjóðarinnar en öfgakenndur hræðsluáróður um skaðsemi líkamsfitu er til þess fallinn að valda meiri skaða en bót. Ég vildi því óska þess að íslenskir fjölmiðlar fari að sýna gagnrýna hugsun og virðingu fyrir fjölbreytni í líkamsvexti.

Flokkar: Fitufordómar · Staðalmyndir · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (2)

  • Guðmundur Guðmundsson

    Þetta er svo sannarlega tímabær og þörf lesning.

  • Vá hvad ég er sammála! Algjörlega ord í tíma tölud.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og þremur? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com