Mánudagur 10.03.2014 - 09:42 - 1 ummæli

Dagur líkamsvirðingar 13. mars

self-love

 

Samtök um líkamsvirðingu hafa valið næstkomandi fimmtudag, 13. mars, sem sinn árlega baráttudag. Samtökin voru stofnuð þennan dag árið 2012 og án þess að við hefðum haft hugmynd um það á þeim tíma er þetta sami dagur og fyrsta bloggfærslan var send út af líkamsvirðingarblogginu árið 2009. Þetta er því örlagadagur í sögu líkamsvirðingar á Íslandi. Þennan dag ætlum við að nota ár hvert til að minna á líkamsvirðingu og hvetja samfélagið til að leiða hugann að því hversu mikilvægt það er að skapa umhverfi þar sem allir eru velkomnir.

Í ár ætlum við sérstaklega að beina skilaboðum okkar til yngstu kynslóðarinnar. Börnin sem nú eru í leikskóla eiga mörg hver eftir að þróa með sér neikvæða líkamsmynd ef áfram heldur sem horfir. Í dag eru 40% stúlka í kjörþyngd annað hvort að reyna að léttast eða telja sig þurfa að léttast. Tölfræðilegt samband ríkir milli líkamsþyngdar og lífsánægju stúlkna. Önnur hver unglingsstúlka á Íslandi fer í megrun og vaxandi fjöldi ungra drengja. Þegar komið er upp í framhaldsskóla uppfyllir einn af hverjum tíu nemendum greiningarviðmið fyrir átröskun. Þetta er ekkert náttúrulögmál. Þetta eru afleiðingar umhverfisskilyrða sem við höfum skapað börnunum okkar. Þeim þarf að breyta ef við óskum þeim bjartari framtíðar.

Í takt við þessar hugmyndir ætla Samtök um líkamsvirðingu að halda líkamsvirðingarhátíð á leikskóla þann 13. mars með meðlimum hljómsveitarinnar Pollapönk. Þeir ætla að koma og syngja með börnunum um að það skipti ekki máli hvort við erum feit eða mjó, lítil eða stór. Svo ætlum við að skoða saman nýja barnabók um líkamsvirðingu sem kemur út á þessum degi. Henni er ætlað að styðja við jákvæða líkamsmynd ungra barna, efla umhyggju þeirra fyrir líkama sínum og virðingu fyrir fjölbreytileika. Vonandi á hún eftir að reynast gagnlegt verkfæri í fjársjóðskistum leik- og grunnskólakennara, sem og foreldra, til þess að opna þessa umræðu með börnum og vinna í átt að umhverfi sem hjálpar þeim að lifa sátt í eigin skinni.

Við hvetjum að lokum alla sem starfa með börnum eða ala upp börn til að nýta tækifærið og vinna með þetta þema í næstu viku. Hvetja börn og ungmenni til að þykja vænt um líkama sinn og kenna þeim að bera virðingu fyrir hvert öðru óháð holdafari, útliti og öllu því sem greinir okkur hvert frá öðru. Við hvetjum einnig starfsfólk og stjórnendur skóla til að taka holdafar og útlit inn í stefnur skólanna um jafnrétti, virðingu og einelti. Þótt stríðni vegna holdafars sé algeng tegund eineltis er sjaldnast minnst á holdafar í eineltisstefnum eða jafnréttisyfirlýsingum skóla, jafnvel þótt mörg önnur einkenni séu þar talin upp. Við þurfum að vakna til vitundar um að miklir fordómar og mismunun ríkja í tengslum við líkamsvöxt og holdafar í samfélaginu og það þarf að vernda börn og unglinga gegn slíku.

Saman getum við búið til betra umhverfi. Byrjum snemma!

 

Flokkar: Líkamsvirðing · Samfélagsbarátta

«
»

Ummæli (1)

  • Eygló Ida Gunnarsdóttir

    Biggest loser er tímaskekkja og skömm að þetta viðgangist. Ég vil ekki að börn og áhrifagjörn ungmenni horfi á þessa vitleysu og læri að einstaklingur sé einskis virði ef hann er ekki grannur.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com