Þriðjudagur 10.06.2014 - 21:13 - 1 ummæli

Fitubollurnar – taka tvö!

Hæ Teitur!

Ég verð að segja að ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með þig í dag þegar þú birtir pistilinn þinn í Fréttablaðinu. Þar varaðirðu við þróun ofþyngdar, offitu og aukakvillum hennar sem eru vísar til að “fylla sjúkrahús og heilsugæslur landsins”. Tilefnið var sú “skelfilega þróun” sem ráða mátti úr tölum sem birtust nýlega í læknatímaritinu Lancet, en svo virðist sem engin þjóð af heilum 188 löndum hafi tekist að lækka tíðnitölur ofþyngdar og offitu sl. 33 ár. Þvert á móti hafi fjöldinn aukist! Ja, detti mér allar lýs úr höfði!

Neeeeeei, ég er bara að djóka!! Það meikar reyndar heilmikinn sens þar sem megrun virkar ekki. Meira að segja Alþjóða Heiilbrigðisstofnunin, sem þú vísar til í greininni þinni, hefur viðurkennt að enn hafi ekki fundist leið til að léttast og viðhalda þyngdartapinu til lengri tíma, sama hvaða aðferðir eru notaðar (1, 2). Þetta eru sérstaklega slæmar fréttir því að heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum komust að þeirri niðurstöðu árið 1996 að rannsóknir hefðu ekki náð að sýna fram á að skammtíma þyngdartap hefðu jákvæð áhrif á heilsufar (3). Þvert á móti verður afleiðingin oft hin svokallaða jójómegrun, þ.e. fólk sér tólin/kemst í kjólinn fyrir jólin í smástund áður en það þyngist aftur. Jójómegrun er hvimleiður andskoti því fyrirbærið getur aukið hættu á lífstílstengdum kvillum, óháð þyngd. Aðeins einn slíkur “hringur” getur til að mynda aukið dánarlíkur vegna hjarta- og æðasjúkdóma marktækt meðal karla samanborið við karla sem halda stöðugri þyngd (4,5). Og hverjir eru það sem fara langoftast í megrun? Jú, við fitubollurnar! Það er því spurning hvort komi á undan, þegar við ræðum lífstílstengda kvilla; fitubollan eða megrunin?

Í greininni þinni segirðu líka að við séum í níunda sæti þegar komi að tíðni ofþyngdar og offitu og það finnst þér sko ekki vera neitt sem við Íslendingar ættu að geta verið stoltir yfir, sérstaklega þar sem “stefnir í að við færumst jafnvel enn ofar á þessum skammarlista”. Þér að segja hefur tíðni ofþyngdar og offitu ekki aukist meðal fullorðinna Íslendinga síðan árið 2007 og hjá börnum hefur hún minnkað! (6, 7).

Næst nefnirðu að ofþyngd og offita séu leiðandi ástæður fyrir ótímabærum dauðsföllum og að á heimsvísu sé talið að ríflega fjórar milljónir manna deyi árlega af þessum völdum. Sérstaklega tekurðu fram hérna að þá séu ekki talin með þau dauðsföll vegna lífstílssjúkdóma. Ef ég skil þig rétt þá áttu við að offita, ein og sér, valdi öllum þessum dauðsföllum. Þarna setti mig hljóða. Af hverju er allt þetta feita fólk að drepast eins og flugur, bara út af því að það er feitt? Bráðnar það í sólinni? Er það svo þungt að gólf í háhýsum halda því ekki uppi og það dettur bara í gegnum hverja hæðina á eftir annarri þar til það verður að pönnuköku? Verður offitan brjáluð þegar hún fær ekki ísinn sinn, tekur völdin af líkamanum og labbar með allar fitubollurnar útí sjó? Manni er spurn. Ég held að þú hljótir barasta að vera eitthvað að misskilja. Vegna þess að þegar offita er tengd við dauðsföll er það yfirleitt í gegnum eitthvað annað fylgnissamband, en eins og þú segir til dæmis í greininni þinni, eru ofþyngd og offita talin hafa áhrif á tæplega 50% þeirra sem greinast með sykursýki, 25% í hjarta-og æðasjúkdómum og á bilinu 7-40% í illkynja sjúkdómum. Þetta eru sláandi tölur! En ef þetta er allt saman satt, og offita er svona beintengd við alla þessa lífshættulega kvilla, af hverju höfum við þá náð stórkoslegum árangri í að fækka tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á tímabilinu, 1981-2005, akkúrat á þeim tíma sem við erum að fitna hvað mest og hraðast? Og ekki nóg með það heldur hefur nýjum tilfellum kransæðasjúkdóma fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25­‐74 ára á árunum 1980 til 2005 (8, 9, 10).

Í raun, þegar Ísland er borið saman við aðrar Evrópuþjóðir, kemur í ljós að íslenskar konur teljast að meðaltali í lágri áhættu á dauða af völdu hjarta‐ og æðasjúkdóma fyrir 75 ára aldur og karlar eru rétt fyrir ofan meðaláhættu. Í heildina stendur Ísland því vel hvað þetta varðar. Þessa lækkun er ekki hægt útskýra að fullu með framförum í lyfjagjöf eða læknismeðferðum (8), sérstaklega þar sem þessi lækkun hófst að einhverju leyti áður en til slíkra framfara kom (11).

Sykursýki 2 hefur aukist eitthvað, en þó afar hægt og við stöndum reyndar mjög vel þegar kemur að sykursýki. Á meðan 10% bandaríkjamanna hafa sykursýki, (en bandaríkin eru í efsta sæti yfir lönd með hvað flestar fitubollurnar), er samsvarandi hlutfall hér á landi 1,6% (12, 8).

Til þess að slá botninn úr þessu öllu saman hafa lífsíkur okkar Íslendinga aukist jafn og þétt undanfarna áratugi. Íslendingar geta nú búist við að lifa þar til þeir verða 81,5 ára og eru þeir í sjöunda sæti yfir þau lönd sem hafa lengstu lífslíkurnar innan OECD. Ennfremur eru þeir í sjöunda sæti yfir þau OECD‐lönd sem hafa hvað hæst hlutfall heilbrigðra einstaklinga af þjóðinni. En 80,3% Íslendinga teljast nú við góða heilsu. Á sama tíma erum við þó í áttunda sæti yfir feitustu þjóðirnar (13).

Sérðu mótsagnirnar hérna Teitur? Þetta er ekki eitthvað nýtt fyrirbæri. Það er marg búið að sýna fram á að það er hægt að vera heilsuhraustur þótt BMI stuðullinn sé hár – það sem skiptir mestu eru heilsuvenjurnar. Ég mæli með því að þú kynnir þér þessar rannsóknir, sérstaklega því að þær lýsa svo vel íslensku stöðunni. Við erum þung en heilbrigð þjóð. Mér finnst að við íslensku fitubollurnar ættum að geta verið stoltar af því! Við erum greinilega að gera eitthvað rétt. Fjármunum til forvarna og fræðslu væri líklega best varið í að fræða fólk um ranghugmyndir um heilsu og fitufordóma miðað við þín skrif. Það væri awesome, þá fengi ég kannski pening fyrir að blogga. Góð hugmynd Tara!!!!

Jæja, ég nenni þessu ekki lengur. Ég er farin að fitubollast eitthvað…

 

Heimildir

  1. http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0010/74746/E90711.pdf
  2. http://whqlibdoc.who.int/trs/WHO_TRS_894.pdf
  3. Goodrick, G. K., Poston II, W. S. C. og Foreyt, J. P. (1996). Methods for voluntary weight loss and control: Update 1996 [rafræn útgáfa]. Nutrition, 12, 672-­‐676.
  4. Bacon, L. (2008). Health at every size: The surprising truth about your weight. Dallas, TX: BenBella Books, Inc.
  5. Garner, D. M. og Wooley, S. C. (1991). Confronting the failure of behavioral and dietary treatments for obesity. Clinical Psychology Review, 11, 729-­‐780.
  6. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/09/28/bmi_studullinn_stendur_i_stad/
  7. Of feitum börnum fækkað um helming (2012, 5. júní). Fréttablaðið, bls. 6.
  8. Gunnar Sigurðsson, Vilmundur Guðnason, Tor Aspelund, Kristín Siggeirsdóttir og Bylgja Valtýsdóttir. (2008). Handbók hjartaverndar. Sótt 20. október 2012 af http://www.hjarta.is/Uploads/document/Timarit/Handbok%20Hjartaverndar.pdf
  9. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Laufey Steingrímsdóttir, Örn Ólafsson og Vilmundur Guðnason. (2001). Þróun ofþyngdar og offitu meðal 45-­‐64 ára Reykvíkinga á árunum 1975-­‐1994 [rafræn útgáfa]. Læknablaðið, 87, 699-­‐704.
  10. Margrét Valdimarsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Hólmfríður Þorgeirsdóttir, Elva Gísladóttir, Jón Óskar Guðlaugsson og Þórólfur Þórlindsson. (2009, september). Líkamsþyngd og holdafar fullorðinna Íslendinga frá 1990-­‐2007. Sótt 27. september 2012 af http://www2.lydheilsustod.is/media/manneldi/rannsoknir/Holdafar.skyrsla.25.sept.p df
  11. María Lilja Þrastardóttir. (2012, 5-­‐7. október). Hjarta og æðasjúkdómar algengasta dánarorsökin. Fréttatíminn, bls. 42.
  12. http://professional.diabetes.org/admin/UserFiles/0%20-%20Sean/FastFacts%20March%202013.pdf
  13. http://www.oecd.org/health/healthataglance

 

Flokkar: Fitufordómar · Megrun · Samband þyngdar og heilsu · Stríðið gegn fitu

«
»

Ummæli (1)

  • Það er ekki hægt að tala um dánartíðni miðað við aðrar kynslóðir útfrá ákv sjúkdómum – þar sem kynslóðirnar eru auðvitað ekki á level playing field hvað varar aðgang að aðgerðum né lyfjum. Þær kynslóðir þar sem stærst hlutfall offeitra er , eru ekki dauðar, né endilega komnar á það stig að einstaklingar innan þeirra sæki sér hjálp. Í því ljósi þá mistúlkar þú tölfræði.

    Yngri kynslóðir eru meira að kljást við offitu (hlutfallslega) heldur en eldri – og WHO spáir að það muni hafa slæm áhrif hvað varðar nefnda sjúkdóma – því offita sannarlega eykur líkur á þeim, og er sannarlega að aukast. http://en.wikipedia.org/wiki/Preventable_causes_of_death#Leading_causes_worldwide

    Það er rétt að megrun virkar ekki nema fyrir sirka 5% þeirra sem slíkt reyna — enda þarf lífstílsbreytingu til að komast hjá því að vera obese. Megranir eru yfirleitt einhverskonar æfingar til að megra sig tímabundið, en síðan fer fólk í sömu neyslu-venjur, þegar einhverjum árangri hefur verið náð, og það virkar auðvitað ekkert betur heldur en þegar reykingarmenn hætta að reykja í ár, og reykja svo það næsta, og svo framvegis.

    „Þetta eru sérstaklega slæmar fréttir því að heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum komust að þeirri niðurstöðu árið 1996 að rannsóknir hefðu ekki náð að sýna fram á að skammtíma þyngdartap hefðu jákvæð áhrif á heilsufar (3)“

    — Þessar niðurstöður koma ekki á óvart, á sama hátt og fólk sem tekur reykingarpásur minnkar ekki sérlega líkur á sjúkdómum sem því fylgir.

    „Ef ég skil þig rétt þá áttu við að offita, ein og sér, valdi öllum þessum dauðsföllum. Þarna setti mig hljóða. Af hverju er allt þetta feita fólk að drepast eins og flugur, bara út af því að það er feitt? Bráðnar það í sólinni?…“

    Nei, þú misskilur Teit, og virðist vera að gefa í skyn að það sé enginn munur á tilhneygingu til ákv sjúkdóma hjá offeitum, miðað við þá sem eru í kjörþyngd ?

    „…Ég held að þú hljótir barasta að vera eitthvað að misskilja. Vegna þess að þegar offita er tengd við dauðsföll er það yfirleitt í gegnum eitthvað annað fylgnissamband, en eins og þú segir til dæmis í greininni þinni, eru ofþyngd og offita talin hafa áhrif á tæplega 50% þeirra sem greinast með sykursýki, 25% í hjarta-og æðasjúkdómum og á bilinu 7-40% í illkynja sjúkdómum. Þetta eru sláandi tölur! En ef þetta er allt saman satt, og offita er svona beintengd við alla þessa lífshættulega kvilla, af hverju höfum við þá náð stórkoslegum árangri í að fækka tíðni dauðsfalla af völdum hjarta- og æðasjúkdóma á tímabilinu, 1981-2005, akkúrat á þeim tíma sem við erum að fitna hvað mest og hraðast? Og ekki nóg með það heldur hefur nýjum tilfellum kransæðasjúkdóma fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25­‐74 ára á árunum 1980 til 2005 (8, 9, 10).“

    Þú virðist ekki hafa lesið pdf skjalið sem þú vísar í, því fækkun á kransaæðasjúkdómum er útaf þáttum sem þar eru upptalnir, sem vega meira en offita, – en þú virðist halda að þarafleiðandi skipti offita engu máli ?

    Það deyr heldur enginn úr sígarettum, heldur auka sígarettur líkur á allskyns kvillum – það sama á við um offitu eins og WHO hefur gefið út. þó sígarettur sé tvisvar sinnum stærri áhættuþáttur en offita, þá gerir það engann veginn lítið úr offitu sem áhættuþætti, sérstaklega í ljósi þess hve mikið offita hefur aukist.

    Að okkur hafi tekist að vinna gegn sykursýki og hjarta og æðasjúkdómum er útaf stórkostlegum framförum í læknavísindum. Genatækni hefur gefið okkur betri leiðir til að búa til insúlín – öruggari leiðir í uppskurðum, æðaþráðum, og fleira — læknavísindum hefur farið meira fram síðustu 25 ár , heldur en líklega síðustu 100 ár áður.

    Við metum sjúkdóma-týðni útfrá því hversu margir koma inn með ákv kvilla, ekki hversu vel gengur að lækna þá kvilla.

    „Það er marg búið að sýna fram á að það er hægt að vera heilsuhraustur þótt BMI stuðullinn sé hár“

    Jújú, það er alveg hægt, líkt og George Burns gat reykt vindla og dó um nítugt – en heilsa stórra þýða af obese fólki, samanborið við þá sem eru í kjörþyngd er verri eins og WHO hefur bent á.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com