Laugardagur 13.09.2014 - 11:27 - 3 ummæli

Útlitstal

Vöðvar

Ég var stödd á fimleikaæfingu með syni mínum þegar ég varð vitni að eftirfarandi samtali milli móður og sonar: „Mamma ég er þreyttur má ég ekki bara fara núna?“ Móðirin svarar: „Nei, viltu ekki klára æfinguna, þú verður ekki sterkur eins og fimleikaþjálfararnir nema með því að vera duglegur á æfingum. Sjáðu þjálfarana þína, sérðu hvað þeir eru með stóra vöðva. Vilt þú ekki líka fá svona stóra vöðva?“

Á þessum tímapunkti  átti ég erfitt með að hemja mig og svara ekki móðurinni fullum hálsi. Myndir þú hvetja stelpuna þína til að halda út æfingu svo hún gæti orðið jafn grönn og þjálfararnir?

Hvað við segjum við börnin okkar og hvað við segjum fyrir framan þau mótar þau. Barn sem elst upp við sífellt útlitstal foreldra sinna, foreldri sem stendur fyrir framan spegilinn og klípur í maga sinn með ógeðissvip eða spyr makann sinn „er ég feit í þessu“ fær skýr skilaboð um að ákveðið útlit sé óásættanlegt.

Í rannsókn sem unnin var í Háskólanum í Minnesota kom í ljós að það hvernig við ræðum við börnin okkar um líkama þeirra sem og okkar eigin getur haft mikil áhrif á líkamsmynd þeirra. Samtöl um kíló, líkamsútlit, vöðva og fleira getur ýtt undir óheilbrigðar matarvenjur og vanda með líkamsmyndina.

Börn fæðast ekki með hugmyndir um hvað þykir fallegt og hvað ekki, þau læra það af umhverfi sínu. Börn taka oft upp hugmyndir foreldra sinna og því ber að varast að stimpla ákveðið vaxtarlag sem betra eða verra. Að ræða um kosti þess að vera vöðvastæltur við drengi getur haft mikil áhrif á líkamsmynd þeirra. Verum dugleg að fagna fjölbreytileikanum, forðumst að hylla undir ákveðið vaxtarlag og einbeitum okkur frekar að öllu því góða sem líkaminn gerir okkur kleift að gera, hlaupa, ganga, lyfta hlutum, dansa og melta mat.

 

Flokkar: Fjölbreytileiki · Líkamsmynd · Líkamsvirðing · Staðalmyndir · Útlitskröfur

«
»

Ummæli (3)

  • Jú, reyndar fæðast börn með fegurðarsmekk. Kornabörn horfa lengur á myndir af andlitum sem almennt þykja falleg en á myndir af andlitum sem almennt þykja ljót.

  • Elva Björk Ágústsdóttir

    Sæll
    Jú það er rétt hjá þér að rannsóknir hafa sýnt að kornabörn kjósi frekar að horfa á ákveðið útlit umfram annað. En hvort viðkomandi á myndinni sé feitur, grannur, vöðvastæltur, ljóshærður eða dökkhærður virðist ekki hafa mikil áhrif. Í pistlinum er ég meira að meina þau fegurðarviðmið sem koma að mestu frá umhverfinu og eru mismunandi eftir menningarheimum.

  • Það er greinilegt að manneskjan er fáviti af guðsnáð.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Líkamsvirðing er vettvangur þeirra sem vilja breytt samfélagsviðhorf varðandi útlit, heilsu og holdafar. Við viljum efla heilbrigði í víðum skilningi, vellíðan og virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti. likamsvirding@gmail.com