Laugardagur 20.10.2012 - 23:55 - 6 ummæli

Flottar fyrstu tölur

Fyrstu tölur um það bil kl. 23.40 benda til að kjörsókn sé milli 45 og 50% — yfir helmingur í báðum Reykjavíkurkjördæmunum, og að já-atkvæðin við aðalspurningyunni sé um 75—80%.

Birgir Ármansson er fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og sameinaðra fýlupoka í Sjónvarpsfréttunum og virðist hafa fundist sú lína best að leggja saman nei-atkvæðín og þá sem ekki komu á kjörstað – það sé bara þriðjungur sem vill endurnýjaða stjórnarskrá. Sú túlkun er út í hött. Eftir atvikum er þátttakan í atkvæðagreiðslunni veruleg, og engin leið að túlka afstöðu þeirra sem heima sátu á nokkurn veg. Formaður Sjálfstæðisflokksins hvatti flokksmenn sína til að mæta og segja nei – með sömu reikningskúnstum og Birgir má finna út að það hafi einungis gert um 15% kjósenda.

Rétt auðvitað að bíða endanlegra talna – en að svo stöddu er ástæða til að fagna bæði kjörsókn og þó einkum ótvíræðum vilja til að leggja frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar við næsta áfanga, samþykkt nýrrar stjórnarskrártillögu á þinginu. Þar verður stjórnarskrárbandalagið að hafa forustu áfram — S, V, O, BF og fleiri, — en andstaða við það frá Bjarna Ben og félögum verður eftir þetta afar fáfengileg, og líklegast að Framsóknarmenn taki eftir atkvæðagreiðsluna enn eitt heljarstökkið í stjórnartskrármálinu.

Fólkið talar – fólkið sker úr. Kjarni hverrar þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 18.10.2012 - 08:43 - 2 ummæli

Þjóðhollusta

Á 19. öld fólst þjóðhollusta í sjálfstæðisbaráttu, framfaratrú og Danahatri. Þeir tímar eru liðnir, sem betur fer! – en kannski getur hugtakið haft gildi ennþá á 21. öld: Að vera hollur þjóð sinni, vilja veg hennar sem mestan og þó einkum sem bestan, auðvitað án nokkurra illinda við annað fólk í heiminum.

Mér sýnist einmitt þetta orð eiga vel við um þátttöku í atkvæðagreiðslunni um stjórnarskrárdrögin laugardaginn 20. október. Eftir að yfir dundu fjárhagslegar, pólitískar og sálrænar hörmungar fyrir réttum fjórum árum hefur okkur þrátt fyrir allt tekist að vinna vel á nokkrum mikilsverðum sviðum. Eitt af þessu er stjórnarskrárverkið þar sem mikill meirihluti landsmanna ákvað að endurnýja fornfáleg og gölluð grunnlög sem eiga sinn þátt í aðdraganda hrunsins og eftirmálum. Þjóðfundur, almennt kjör stjórnlagafulltrúa, einróma niðurstaða ráðsins, vinna í þinginu og svo aftur út til þjóðarinnar – þegar menn líta yfir þetta og leggja til hliðar gleraugu gremjunnar og sjónauka yfirlætisins kemur í ljós merkileg lýðræðistilraun sem hefur fætt af sér margskonar umbótatillögur í frumvarpsdrögunum frá stjórnlagaráðinu. Erlendis er mjög spurt um þetta starf, svo sem þar ég hef starfað á Evrópuráðsþinginu í Strassborg, og þykir til fyrirmyndar.

Nú erum við kvödd að kjörborðinu til að veita leiðsögn um framhaldið. Sjálfur tel ég að það eigi hiklaust að starfa áfram á grundvelli tillagnanna frá ráðinu. Ég fagna líka efnisspurningunum, alveg sérstaklega þeirri um þjóðareign Íslandsauðlinda. Aðrir hafa sína skoðun á þessum álitamálum, einsog gengur.

Það sem skiptir mestu máli er að Íslendingar taki sem flestir þátt í að móta framtíð lands og fólks með því að taka nú afstöðu til stjórnarskrármálsins og greiða atkvæði hinn 20. október (eða fyrr, svo sem í Laugardalshöll 10–20 alla daga). Til þess hvet ég alla þjóðholla karla og konur.

 

 Líka birt í Fréttablaðinu 18. október.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 17.10.2012 - 09:42 - 2 ummæli

Gísli Halldórsson — In memoriam

Útför Gísla Halldórssonar fer fram í dag, miðvikudag, frá Dómkirkjunni. Ég sendi í Morgunblaðið svolitla minningargrein sem ekki komst fyrir í blaðinu núna og birtist þar væntanlega seinna í vikunni. Vona mér fyrirgefist að setja hér í bloggið mitt aðeins lengri útgáfu af þessari kveðju.

 

Í hárri elli er látinn Gísli Halldórsson, arkitekt, borgarfulltrúi og íþróttafrömuður, og vantaði bara tvö ár upp á öldina. Þegar menn deyja svo gamlir deyr með þeim tenging við forna tíma – Gísli var unglingur í upphafi kreppunnar miklu, og þurfti að gera hlé á námi þegar á skall heimsstyrjöldin síðari.

Gísli er einn af þeim sem mótuðu fyrstu áratugi lýðveldisins. Hann á sinn þátt í svipmóti Reykjavíkur – teiknaði Lögreglustöðina, Loftleiðir og Esju, Tollstöðvarhúsið og fjölmargt annað, verkamannabústaði og einbýlishús, þar á meðal sitt eigið við Tómasarhagann. Funkisstefnan hefur ekki vakið sérstaka hrifningu á síðari tímum. Mér sýnist þó að Gísli sé einn besti fulltrúi þessarar stílstefnu hérlendis, með einföldum og praktískum lausnum, léttleika og natni sem vinnur gegn mónúmentalhneigðinni, og næstum því and-funkislegri skrauthneigð í mjóu súlunum og öðrum formbrigðum. Margir hafa hamast gegn funkishúsinu á Pósthússtræti 9 af því það skeri í augu á milli gömlu glæsibygginganna – en sjálft er þetta hús látlaust og smekklegt með græna ferningaspilið rammað inn í hvíta steypu.

Sérstakan sess á Gísli sem íþróttaarkitekt, fyrstur á Íslandi, og teiknaði hvert stórvirkið eftir annað. Vænst finnst manni samt um það íþróttahús Gísla sem nú er horfið, KR-braggann – með einmitt súlunum góðu og hvolfþaki sem seinna tók á sig annan svip í Laugardalshöllinni. Í KR hófst líka íþróttaferill Gísla og þar varð hann félagslegur forustumaður í íþróttahreyfingunni. Stökkið yfir í stjórnmálin gegnum Sjálfstæðisflokkinn virðist hafa verið einsog sjálfsagður hlutur í beinu framhaldi af störfunum fyrir KR og ÍBR – og seinna Ólympíunefndina og ÍSÍ.

Þetta voru aðrir tímar, og nú þykir okkur einkennilegt hvað Gísli kom miklu í verk í félags- og stjórnmálum – meðfram ævistarfi sínu sem arkitekt. Að hluta má rekja það þráðbeint í pólitískar siðvenjur þessara áratuga, þar sem menn gátu sinnt í senn mörgum hlutverkum án tillits til reglna og hefða sem nú eiga að slá á of mikil áhrif og völd í sömu höndum – og staða Gísla verður ekki skilin nema í þráðbeinu sambandi við valdakerfi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þaðan sem borginni var stjórnað í stóru og smáu. Að því sögðu held ég að Gísli hafi verið heiðarlegur og korrekt sem stjórnmálamaður og félagslegur foringi, og ég veit að honum var fjarri að skara eld að eigin köku heldur notaði áhrif sín í þágu málefnisins, sem sífellt var íþróttahugsjónin um heilbrigða sál í hraustum líkama.

Annarra er að rekja afrek Gísla fyrir íþróttahreyfinguna. Þeir eru reyndar svo heppnir að Gísli er búinn að því sjálfur í ágætum æviþáttum, sem ég fékk að eiga í örlítinn þátt. Þá fannst mér eftirtektarvert að af öllum verkum sínum í þágu íþróttanna og samfélags síns talaði hann af mestri tilfinningu um tvennskonar frumkvæði þeirra félaga við stjórnvölinn hjá ÍSÍ – annarsvegar um þátt sinn við að glæða það sem við köllum núna almenningsíþróttir en þá var kallað trimm, hinsvegar um frumkvæði við að efla íþróttir kvenna. Það er þessi útbreiðsla fagnaðarerindisins sem Gísla þótti vænst um af verkum sínum – og á okkar dögum öflugra íþróttakvenna og útbreiddra almenningsíþrótta sjáum við hvað þau skiptu miklu máli.

Sjálfur kynntist ég Gísla ekki fyrr en seint á ævinni þótt við værum tengdir gegnum Björn bróður hans í Granaskjólinu, eiginmann Nönnu ömmusystur minnar. Það var reyndar Björn sem kom mér í KR þar sem ég hef verið síðan, að minnsta kosti í anda. Ég tók sjónvarpsviðtal við Gísla um ævi og störf, og seinna var ég látinn lesa yfir bækur hans og Jóns M. Ívarssonar, um ævistarf hans og um Ólympíuþátttöku Íslendinga. Þetta samstarf var gott og gjöfult, og við uxum saman í spjalli um íþróttir og fyrri áratugi. Lítið minnst á pólitík, en aðeins á golf sem hann stundaði af kappi í ellinni, hraustur og vinnusamur, og stundum fannst mér einsog Gísli væri á sinn hátt fulltrúi sjálfrar aldamótakynslóðarinnar með stórhug sinn og framfaratrú.

Fyrir tæpu ári þurfti ég að heyra í Gísla um gamlar teikningar af torfbæjum. Hann leysti vel úr erindi mínu en sagðist vera hættur í golfinu, orðinn þreyttur og leiður, þetta væri ekkert líf lengur. Hinum starfsama afreksmanni hefur þótt illt að geta ekki sinnt fleiri verkum – og við svo búið hefur hvíldin líklega verið kærkomin.

Kveðjum til Leifs og annarra aðstandenda Gísla Halldórssonar fylgja þakkir fyrir örlítil kynni við merkismann í sögu Íslands og íþróttanna á 20. öld.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 15.10.2012 - 15:44 - 31 ummæli

Herdísarfrumvarp um búfjárbeit

Til að hefta uppblástur og landspjöll verður búfé framvegis aðeins beitt innan girðingar – samþykki alþingi frumvarp sem við Birgitta Jónsdóttir leggjum fram og verður dreift á morgun, þriðjudag. Gert er ráð fyrir að hin nýju „lög um búfjárbeit“ taki gildi eftir rúman áratug og ef frumvarpið verður samþykkt gefst góður tími til að undirbúa hina nýju skipan, með breytingum á öðrum lögum, með nýju regluverki frá ráðuneytum og sveitarstjórnum, og með framkvæmdum á beitarsvæðum.

Þetta yrði auðvitað í bili fyrst og fremst viljayfirlýsing og stefnumörkun til langtíma af hálfu alþingis – og frá okkur Birgittu er þessi málflutningur ekki síður stuðningsyfirlýsing við Herdísi Þorvaldsdóttur, baráttumann fyrir landvernd á Íslandi – eftir sýningu kvikmyndar hennar um uppblástur og beit í Sjónvarpinu í gær, sunnudagskvöld. Þingmálið er sérstaklega tileinkað Herdísi í lok greinargerðarinnar – sem er nokkuð óvenjulegt um þingmál.

Frumvarpið er aðeins þrjár greinar. Í 1. grein eru kynnt markmið frumvarpsins, landvernd og sjálfbær búfjárbeit. Í 2. grein segir að búfé skuli aðeins beitt innan girðingar. Í 3. segir að lögin öðlist gildi í ársbyrjun 2o23, eftir tíu ár rúmlega. Í greinargerð kemur meðal annars fram að í öllum öðrum norrænum ríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu.

Við Birgitta ákváðum satt að segja að smíða þetta frumvarp í haust þegar mynd Herdísar var frumsýnd í Regnboganum/Paradís – allir þingmenn fengu boð um að vera viðstaddir en við tvö vorum þau einu sem mættu. Texti frumvarpsins er að meginhluta orðinn til úr viðtali við Þorvald Gylfason í mynd Herdísar.

Það er auðvitað ekki einfalt að stöðva lausagöngu búfjár, sauðfjár og hrossa. Kostnaðarsamt líka, og krefst samstöðu og skipulags. Sjálfum þykir mér hérumbil jafnvænt um sauðkindina og Bjarti í Sumarhúsum eftir kynni af þingeysku fé á árum áður, og viðurkenni að mér finnst land varla vera íslenskt nema þar sjáist nokkrir hvítir eða mórauðir blettir hátt í fjalli. Sauðfénu sjálfu er hinsvegar hollast að bíta þar sem nóg er að hafa – en fyrst og fremst eigum við Fjallkonunni skuld að gjalda.

Frumvarpið er svona:

Frumvarp til laga um búfjárbeit.

Flm.: Mörður Árnason, Birgitta Jónsdóttir.

1. gr.

Markmið laga þessara er að efla landvernd og sjálfbæra búfjárbeit.

2. gr.

Búfé skal aðeins beitt innan girðingar.

3. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2023.

Greinargerðin:

Uppblástur hefur öldum saman spillt landinu. Ein helsta ástæða uppblásturs er óvarleg beit búfjár. Miklu skiptir að fé sé einungis beitt þar sem hagar eru góðir og ekki hætta á landspjöllum. Þetta krefst afgirtra beitarsvæða.

Með frumvarpi þessu er mörkuð stefna til framtíðar í þessum efnum. Í öllum öðrum Norðurlandaríkjum er að finna lagareglur sem skylda eigendur búfjár til að beita því aðeins á afmörkuðum svæðum að viðlagðri skaðabótaskyldu. Þegar frumvarpið verður að lögum þarf að gera talsverðar breytingar á öðrum lögum áður en að gildistöku kemur, svo sem helstu lögum um búfjárhald til samræmis við þá meginreglu sem lagt er til hér að verði lögfest, að búfé sé aðeins beitt innan girðingar. Hæfilegur tími er hins vegar gefinn til að hrinda þessari stefnu og breytingum vegna hennar í framkvæmd, eða rúmur áratugur.

Flutningsmenn tileinka frumvarpið Herdísi Þorvaldsdóttur sem áratugum saman hefur beitt sér fyrir landvernd á Íslandi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 11.10.2012 - 15:23 - 5 ummæli

Samfylkingin og jafnaðarstefnan

Samfylkingin er hreyfing jafnaðarmanna á Íslandi. Því miður eru ekki allir íslenskir jafnaðarmenn félagar í Samfylkingunni, stuðningsmenn hennar eða kjósendur. En við í Samfylkingunni erum öll jafnaðarmenn, hvert með sínum hætti. Við teljum að jöfnuður í lífskjörum og jöfn tækifæri séu heilladrýgst fyrir einstaklinga og samfélag. Við teljum að hver maður skuli vera frjáls gerða sinna og hugsana svo fremi hann skerðir ekki frelsi annarra og kemur fram af heilindum. Við teljum að mennirnir beri ábyrgð hver á öðrum – játumst undir þá samábyrgð sem Frakkarnir kölluðu bræðralag á18. öld – en krefjumst þess líka af hverjum og einum að hann taki ábyrgð á sjálfum sér sé hann þess megnugur. Við þökkum frumherjum jafnaðarmanna á Íslandi fyrir að rækta þennan garð – skáldunum sem ortu kjark í alþýðu um aldamótin þarsíðustu, fólkinu sem stofnaði verkalýðshreyfingu og alþýðusamtök á fyrstu áratugum 20. aldar.

Velferðarþjónustan – Norðurlönd

Okkur finnst nánast liggja fyrir af dæmum Norðurlanda að öflug velferðarþjónusta sé burðarás þjóðarheimilis þarsem menn vinna saman jafnt að almannaheill og eigin þroska. Við teljum markaðinn þarfan þjón í atvinnulífi og viðskiptum – en afleitan húsbónda. Við viljum efla menntir og menningu, sem hafa gildi í sjálfu sér í sífelldri hollustu mannsins við hamingju sína, en gæða samfélagið líka innihaldi – og skapa störf! Við þökkum forustumönnum alþýðuflokkanna, félagsskap fólksins og framsýnum fræði- og listamönnum fyrir mikið verk í þessum efnum alla síðustu öld. Þau hafa borið árangur þrátt fyrir óhjákvæmilegar villur og mistök.

Græn jafnaðarstefna, kvenfrelsi

Sígild jafnaðarstefna mótaðist á árunum eftir iðnbyltingu, í karlveldisþjóðfélögum 19. aldar,  í andrúmslofti óbilandi tæknihyggju og framfarablætis. Nú eru aðrir tímar – og þeir jafnaðarflokkar í Evrópu hafa dregist aftur úr og trénast upp sem ekki tókst að auðga jafnaðarstefnuna með því að samþætta hana kvenfrelsi og umhverfisstefnu – jafnrétti kynjanna og jöfnuði kynslóðanna. Þetta var sá boðskapur sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir færði jafnaðarflokki okkar öðrum fremur – og við þökkum henni fyrir ásamt öðrum hetjum kvennahreyfingarinnar og mörgum einörðum baráttumönnum fyrir náttúruvernd og umhverfisviðhorfum síðustu fjóra áratugi.

Samsafnskenningin   

Það er misskilningur sem sumir halda fram, að í Samfylkingunni sé samankomið frekar tilviljunarkennt samsafn hinna og þessara pólitískra klúbba og áhugahópa þar sem sumir séu klassískir og aðrir frjálslyndir, einhverjar kvenfrelsiskellingar innanum græna öfgaliðið sem togast á við virkjunarsinna og byggðajálka. Flokkurinn endurspeglar vissulega fjölbreytileikann í íslensku samfélagi, eftir starfsstéttum, kynslóðum, menntadeildum, héruðum. Sem betur fer. En við eigum okkur öll sameiginlegan grunn – jafnaðarstefnuna.

Sjálfsmynd

Þessvegna er óþarfi að hafa miklar áhyggjur af sjálfsmynd Samfylkingarmanna eða kjölfestunni í pólitík þeirra frá degi til dags. Sjálfsagt er að leiðrétta kúrsinn eftir stórsjó og brim á siglingunni. Við skulum muna að stefna og verk samsteypustjórnar í stjórnarráðinu eða sveitarfélögunum markast auðvitað af málamiðlunum og forgangsröðun þeirra afla sem að henni standa, og af fjölmörgum fleiri þáttum. Jafnaðarstefnan – og nauðsynleg umræða í hópi jafnaðarmanna – veitir góða yfirsýn og skýra sjálfsmynd.

Formannsefni

Framundan er formannskjör. Þau sem nú hafa verið nefnd sem hugsanlegir formenn gætu hvert og eitt sinnt því starfi með prýði, og líklega verður ekki mikill málefnalegur munur á formannsefnunum. Fyrir mína parta ætla ég þó að hlusta grannt eftir þessu tvennu:

Grænar áherslur

Ég vil vita hvar þau standa í umhverfis- og náttúruverndarmálum, og hvert þau vilja stefna í atvinnumálum. Nú eru að verða straumhvörf. Eðlilegt er að segja skilið við fortíðardrauma um stóriðjuuppbyggingu í sovéskum stíl, með öllum sínum umhverfisfórnum, og byggja markvisst upp grænt hagkerfi. Upp úr hruninu erum við að komast með hjálp náttúrugæða af landi og hafi, en því má ekki gleyma að verulegur hluti af verðmætasköpun dagsins sprettur af okkar eigin hyggjuviti. Hugverkageirinn er ört vaxandi hluti atvinnulífsins og forsvarsmenn hans hafa bent stjórnvöldum á að nokkur helstu fyrirtæki hans þurfi tæknimenntað fólk þúsundum saman á næstu árum.

Samstarfskostir

Samfylkingin, flokkur jafnaðarmanna, er stofnuð til að vera höfuðafl í íslenskum stjórnmálum. Hún er mið-vinstriflokkur, og á að bjóða til samstarfs öðrum flokkum og hreyfingum til vinstri og fyrir miðju, fólki sem leggur áherslu á jöfnuð og frjálslyndi hvað sem líður afstöðu þess í einstökum átakamálum. Stjórn með hægrimönnum er ekki eðlilegur kostur fyrir Samfylkinguna, enda hafa slíkar tilraunir gefist illa. Samstarf við hægriflokka tel ég því aðeins koma til greina að um sé að ræða mikilvæga þjóðarhagsmuni, svo sem inngöngu í Evrópusambandið, eða þá brýnar umbætur innanlands sem ekki yrði komið á með öðrum hætti.

Önnur spurningin er um samfélagsstrategíu, hin um pólitíska taktík. Báðar mikilvægar.

 

Einnig birt sem grein í Fréttablaðinu í dag, fimmtudaginn 11. október.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 10.10.2012 - 18:20 - 3 ummæli

Betri strandveiðar

Okkur sem finnst ekki nóg hafa gerst á kjörtímabilinu i fiskveiðistjórnarmálum, þrátt fyrir veiðigjaldið, við verðum að muna eftir strandveiðunum sem upp voru teknar við hlið kvótakerfisútgerðar, til að gefa einherjum og nýliðum tækifæri, til að efla smáar byggðir og til að gera tilraun með vistvæna veiðimáta, að öðrum ólöstuðum.

Strandveiðunum var komið á í upphafi kjörtímabilsins, við nokkuð almennan fögnuð. Strax komu í ljós gallar á fyrirkomulaginu, og því fylgdu ýmsar aukaverkanir sem ekki var ætlunin. Lífsins gangur.

Ólína Þorvarðardóttir, duglegur og röggsamur þingmaður úr alþýðuhéruðum vestra hefur nú lagt fram frumvarp til að laga það sem aðfinnsluvert hefur reynst við strandveiðarnar – og festa þær betur í sessi. Okkur Skúla Helgasyni hlotnaðist sá heiður að vera meðreiðarsveinar.

Í frumvarpi Ólínu (dreift í þinginu í dag, hér) eru góðar breytingar. Gert er ráð fyrir því að bátarnir fái jafnan hluta heildaraflamagns hverju sinni (enginn hefðarréttur). Það kemur í veg fyrir hinar „ólympsku“ veiðar – helsta galla sóknarmarkskerfanna þar sem menn keppa hver við annan um að ná sem mestum afla og setja í hættu bát, mannskap og afla líka. Þá er losað um svæðaskiptinguna þannig að bátar á einu svæði geta klárað veiðaskapinn á öðru ef fræðingum og yfirvöldum þykir nóg veitt á upprunalega svæðinu. Gert er ráð fyrir að ekki skuli vera fleiri en þrjár handfærarúllur á bát (nú fjórar), og að aflahámark sé 650 kíló í hverri veiðiferð (nú 800). Þetta eiga að vera alvöru-strandveiðar.

Mikilvæg breyting – kannski sú mikilvægasta – er sú að herða kröfuna um eignarhald báts sem á að fara á strandveiðar þannig að þeir sem á bátnum eru eigi meirihluta í honum. Nú leika menn sér að því – einkum útgerðarmenn annarra báta og skipa – að hafa á bátnum einhvern sem ekki á í bátnum nema að nafninu til – til dæmis 1%. Með öðrum orðum er í frumvarpinu ætlast til að strandveiðimenn séu raunverulegir sjálfstæðir trillukarlar, ekki dulbúnir leiguliðar hjá kvótakóngum.

Ólína hefur unnið þarft verk með þessu frumvarpi. Ég á von á að því verði tekið fagnandi, bæði á þinginu og á bryggjunum.

Flokkar: Sjávarútvegsmál

Laugardagur 6.10.2012 - 19:53 - 16 ummæli

Skríll

Gengjaliðið sem ógnar einstökum lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra, situr um heimili þeirra og sendir þeim hótanir um að þeir viti í hvaða skóla börnin ganga – þetta er sannkallaður skríll.

Þessi skrílslæti bitna ekki bara á lögreglumönnunum sem eru að vinna vinnuna sína, og á fjölskyldum þeirra, heldur á samfélaginu sem slíku. Samfélagið hlýtur með öllum tiltækum ráðum að verja þá sem það hefur falið að gæta laganna, og er um leið að verja sjálft sig.

Án þess að efna til nokkurs konar samanburðar er þó rétt að minna á dæmi Noregs frá síðasta sumri. Jafnframt ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að voðaverkin yrðu endurtekin voru Norðmenn staðráðnir í að láta illvirkjann – skrílmennið – ekki eyðileggja kjarnann í samfélagsgerð sinni, hinu opna og lýðræðislega réttarríki.

Þannig eigum við líka að vinna.

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 1.10.2012 - 08:29 - 17 ummæli

Bjarni segir nei

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hefur gefið sínum mönnum línuna gagnvart nýrri stjórnarskrá: Hann ætlar að segja nei í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október.

Fróðlegt. Ný stjórnarskrá var ein af kröfum almennings eftir hrunið – af því sú gamla átti auðvitað sinn þátt í öllu klandrinu – þar er skipting framkvæmdavalds og löggjafarvalds óglögg, óljóst verksvið og starfshættir forseta, ríkisstjórnar og alþingis, fáorður kafli um dómstóla og ekki minnst á Hæstarétt. Aðferðir virks lýðræðis í stjórnarskránni takmarkast við einstakar þjóðaratkvæðagreiðslur, í hana vantar sárlega ákvæði um sameiginlegar auðlindir – og hún ber þess í heild sinni merki að vera barn síns tíma, siðbúinn ávöxtur byltingarhreyfinganna kringum 1848 þegar barist var fyrir frelsi frá alráðum konungum og áþján lénsveldis. Síðan er hálf önnur öld rúmlega.

Og Bjarni segir nei.

Við stofnun lýðveldis breyttu landsfeðurnir því sem þurfti fyrir umskiptin úr konungsríki í sambandi við gamla herraþjóð en einsettu sér að ganga síðar til heildarendurskoðunar í samræmi við nýja tíma. Síðan hefur starfað ótal stjórnarskrárnefnda á vegum ríkisstjórnar og alþingis en aldrei haft kraft til breytinga nema þeirra allra brýnustu – málamiðlanir sem allir þurftu að vera sammála um og urðu þessvegna flestar hverjar hvorki fugl né fiskur. Nú var ákveðið að fara öðruvísi að og boða til sérstaks þings til þessara verka, óháðu sífelldri pattstöðu í stjórnarskrármálinu á alþingi. Ýmsir stjórnmálamenn, fræðimenn og hugsuðir höfðu reyndar fyrir löngu bent á þessa leið, enda þekkt úr sögunni og samtímanum – meira að segja til íslensk fyrirmynd frá 1851 sem kóngurinn kæfði með herliði í Kvosinni („Vér mótmælum allir“).

En Bjarni – hann segir nei.

Hin nýju stjórnarskrárdrög eru sprottin úr lýðræðisjarðvegi sem þjóðin sjálf yrkti eftir hrun. Ný stjórnarskrá var eitt af ráðum almennings til að ná valdi á samfélagi sínu úr höndum gráðugra kaupsýslumanna og misviturra stjórnmálamanna, og í kosningunum vorið 2009 gerðu Íslendingar skýrar kröfur til stjórnmálaflokkanna um að greiða leið nýrra grundvallarlaga – þvælast að minnsta kosti ekki fyrir þeim.

Bjarni segir: Nei.

Ferlið hófst með því að boðað var til þjóðfundar – sem lagði grunninn að framhaldsstarfi með umræðum sínum heilan dag í Laugardalshöll. Þessum fundi var fagnað um allt land sem vísbendingu um að við ættum betri tíma í vændum ef við kynnum að standa saman. Þjóðfundurinn dró upp þau gildi sem höfð skyldu að leiðarljósi og vísaði veginn við endurskoðunarstarfið. Það er merkilegt – en um leið sjálfsagt – að allar helstu tillögur stjórnlagaráðsins má rekja til umræðna og niðurstaðna á þjóðfundinum, þar sem störfuðu eitt þúsund fulltrúar valdir af handahófi – þjóðin sjálf án dilkadráttar.

Bjarni Benediktsson hinsvegar veit betur – hann segir nei.

Það má lengi deila um einstök atriði í kosningafyrirkomulagi og um æskilega kjörsókn, en ekki verður um það deilt að framboð 522 Íslendinga til stjórnlagaþings sýndi mikinn áhuga á því verkefni, og með fullri virðingu fyrir öllum hinum frambjóðendunum var það einvalalið sem hlaut kosningu á þingið. Það tók síðan til starfa, vegna tæknilegra mistaka undir heitinu stjórnlagaráð. Þessir fulltrúar einsettu sér að ná saman um þau atriði sem mestu máli skiptu, og samþykktu að lokum frumvarpsdrög sín samhljóða.

Það gerir ekki Bjarni Ben. Hann segir nei.

Alþingi hefur samkvæmt núverandi stjórnarskrá síðasta orðið – eða réttara sagt það næstsíðasta, því að eftir að alþingi samþykkir breytingar á stjórnarskránni þarf að kjósa nýtt þing sem síðan getur samþykkt breytingarnar endanlega. Í þinginu þótti fagnefndinni, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þó eðlilegt að leita álits þjóðarinnar á drögunum frá stjórnlagaráðinu. Þar var samþykkt að efna til almennrar atkvæðagreiðslu í landinu um drögin og fara um leið fram á svör við nokkrum brýnum spurningum um einstök atriði í drögunum, svo sem um sameign á helstu auðlindum. Alþingismenn úr fjórum flokkum sögðu já við þessari tillögu um atkvæðagreiðslu, nema

Bjarni Benediktsson og félagar, og nokkrir Framsóknarmenn, sem sögðu nei.

Þetta er sosum ágæt vinna hjá stjónlagaráðinu, segir Bjarni Benediktsson. Hefur ekki tjáð sig um vinnuna hjá þjóðfundinum – sem meðal annars var boðað til að tillögu Sjálfstæðisflokksmanna. Örugglega skítsæmileg vinna líka. En við í Flokknum erum sem kunnugt er snillingar, og viljum ekki að fólk sé að fikta við hluti sem við kunnum miklu betur á. Þjóðin? Hún hefur bara því miður ekki vit á þessu.

Þessvegna segir Bjarni nei.

En kannski er núna kominn tími til að þjóðin segi nei við Bjarna Benediktsson?

 

Einnig birt í DV 26. september.

 

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 29.9.2012 - 08:06 - 2 ummæli

Staðirnir sem tengja okkur

Almannahagur á að ráða miklu meira en nú er venjan við ákvarðanir um skipulag og framkvæmdir í hverfum og kjörnum þar sem byggðin er gömul eða merkileg af öðrum ástæðum, þar sem svæðið sjálft og sögu þess má telja mikilvæga sameign allra íbúa í sveitarfélaginu og í sumum tilvikum allra landsmanna. Með því að gefa þessum svæðum – sögulegri byggð – sérstöðu í skipulagslögum er hægt að styrkja almannarétt og auka svigrúm borgarfulltrúa og annarra sveitarstjórnarmanna við að vernda sérkenni og andrúmsloft þessara svæða: Kvosarinnar og Laugavegarins í Reykjavík, gömlu kjarnanna á Ísafirði og Akureyri, elstu hluta Seyðisfjarðar, Þingeyrar, Flateyrar og miklu fleiri byggða.

Þetta er kjarninn í frumvarpi sem ég hef lagt fram á alþingi ásamt sjö öðrum þingmönnum í þeirri þingnefnd sem fjallar um skipulagsmál, fólki úr samtals fjórum flokkum og einum utan þingflokka. Þar er lagt til að sveitarstjórnirnar geti skilgreint svæði sem sögulega byggð í skipulaginu, og um slík svæði gildi síðan sú regla að fasteignareigandi á því aðeins rétt á skaðabótum vegna breytinga á skipulagi að hann hafi fengið byggingarleyfi fyrir tiltekinni framkvæmd, sem ekki passar við nýja skipulagið. Með mér í þessu eru Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Róbert Marshall og Þór Saari.

Vandinn kringum Ingólfstorg

Kveikja frumvarpsins eru umræðurnar í sumar um hugmyndasamkeppnina kringum Ingólfstorg í Reykjavík. Þar eru borgarfulltrúar og borgarbúar í þeirri klemmu að peningamaður hefur keypt fjölmörg hús og lóðir. Viðhorf til þessa reits – sem er hluti af elstu byggð í Reykjavík, upphaflega tún og beitarland Ingólfs og Hallveigar – hafa breyst mjög frá því misvitrir ráðamenn í borginni samþykktu deiliskipulag fyrir Kvosina árið 1986, fyrir rúmum aldarfjórðungi. Vegna ákvæða í skipulagslögum um sérstakar bætur (51. grein í núverandi lögum, 123/2010) ef nýtt skipulag telst skerða verðmæti eða nýtingarmöguleika fasteignar standa borgarfulltrúar nú frammi fyrir því að peningamaðurinn gæti krafist verulegra skaðabóta ef skipulaginu yrði breytt þannig að æstustu byggingardraumar yrðu ekki að veruleika. Þeir telja því aðeins þann kost í boði að reyna samninga við eigandann til að stefna ekki fjárhag borgarinnar í voða. Niðurstaða: Hugmyndasamkeppnin, sem mér sýnist reyndar hafa tekist ágætlega miðað við þær forsendur sem til grundvallar lágu.

Í umræðum um Ingólfstorg og nágrenni bentu bæði gagnrýnendur og verjendur hugmyndasamkeppninnar á bótagreinina í skipulagslögum, og rifjuðu upp að alþingi hefði ekki treyst sér til að breyta henni þegar samþykkt voru endurskoðuð lög fyrir aðeins tveimur árum. Það er rétt – mea culpa,okkar sök, getum við sagt sem þá sátum í umhverfisnefnd. Það þurfti meiri undirbúningsvinnu en hægt var að ráðast í á þeim tíma. Slík vinna er nú í gangi í umhverfisráðuneytinu, en með frumvarpi okkar er tekið á brýnasta vandanum.

Ekki óyggjandi

Að vísu telja ýmsir fróðleiksmenn um skipulag og lögfræði að dómar sem fallið hafa í málum af þessu tagi séu ekki óyggjandi, en áhættan er vissulega fyrir hendi, og út af fyrir sig eðlilegt að sveitarstjórnarmenn leiti annarra lausna en að fara dómstólaleiðina. Hvað sem líður viðhorfum manna til tillagnanna í hugmyndasamkeppninni um byggð við Ingólfstorg er þó ekki sæmandi að loftkenndur réttur fasteignareiganda vegi í raun þyngra en almannahagur. Samkvæmt ýtrustu túlkun bótaákvæðisins á fasteignareigandinn ekki rétt á bótum vegna þess sem hefur gerst, að nýtt skipulag þrengi að húseign hans, hindri til dæmis aðgang að henni eða ný hús skyggi á útsýni frá henni – heldur vegna þess sem hefði getað gerst, að nýtt skipulag kemur í veg fyrir að eigandinn hefði til dæmis getað byggt nýtt 8 hæða hús en geti nú ekki byggt nema 6 hæðir, eða sitji jafnvel uppi með það sem honum finnst vera gamlar fúaspýtur á tveimur hæðum þótt aðrir líti á þær sem menningarverðmæti gulls ígildi. Það hlýtur að vera eðlilegt að fasteignarkaupandi taki að þessu leytinu áhættu, og að fasteignaverð miðist í minna mæli við óljósa framkvæmdakosti í framtíðinni, sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæm hverfi með sérstakt gildi fyrir sveitarfélagið allt.

Á hinn bóginn eiga peningar og peningamenn vel heima í gömlum hverfum – því fé er afl þeirra verka sem fram skal koma, sagði gamli Cicero fyrstur manna. Engin ástæða er til að amast þar við eðlilegum breytingum, annarskonar nýtingu, verslun og viðskiptum, enda eru mörg þessara hverfa einmitt til orðin utan um ýmiskonar athafna- og viðskiptalíf.

Söguleg byggð

Söguleg byggð er þannig skilgreind í frumvarpinu að um sé að ræða hverfi eða hverfiskjarna þar sem byggð er að stofni til frá því fyrir 1920, eða þar sem byggð hefur sérstakt byggingarsögulegt gildi, eða þar sem byggð hefur sérstakt menningarsögulegt gildi. Svæðið þarf aðeins að uppfylla eitt þessara skilyrða til að hægt sé að kalla það sögulega byggð.

Víða erlendis er slíkum skipulagshugtökum beitt til að auka vernd gamalla byggðarkjarna eða sérstæðra, en í íslenskri löggjöf hefur skort á með þeim afleiðingum að um framkvæmdir og skipulag í sögulegum kjörnum hefur staðið styr áratugum saman, og margir þeirra verið eyðilagðir að hluta eða heild.

Ártalið 1920 er valið vegna þess að þá eru ákveðin þáttaskil í byggingarsögunni, steinhús verða allsráðandi samfara batnandi kjörum eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftir sem áður gilda lög um menningarminjar um einstök hús eldri en 100 ára og frá því fyrir 1925. Við gerum ráð fyrir að einnig sé hægt sé að afmarka sögulega byggð annars vegar út frá byggingarsögulegu gildi og hins vegar menningarsögulegu gildi. Mörg hverfi með húsum frá 4., 5. og 6. áratug síðustu aldar teljast nú hafa mikið byggingarsögulegt gildi, og ýmis önnur byggð getur haft verulegt menningarsögulegt gildi, svo sem þegar tilteknu svæði tengist saga sérstakra viðburða eða mannlífsminningar.

Staðirnir sem tengja okkur

Þetta hljómar flókið en í daglegu lífi er einfalt að koma auga á svæði með sögulegri byggð. Það eru svæðin þar sem fjölskyldurnar koma á hvíldardögum, sem ferðamenn sækja í, kjarnarnir þar sem við viljum koma saman á mannamót, fagna áföngum eða minnast liðinna stunda. Staðirnir sem tengja okkur og sameina okkur.

Lög eru ekki afturvirk, og þetta frumvarp leysir ekki vandann sem við blasir á Ingólfstorgi. Þar verður að ná samningum við fasteignareigandann eða láta reyna á bótagreinina fyrir dómi. Á hinn bóginn gætu svobreytt lög dregið úr vanda af þessu tagi á komandi tímum, og ekki er með öllu útilokað að skýri vilji löggjafans um almannarétt í þessu efni kynni að hafa áhrif á gang samtímamála, að minnsta kosti áður en kemur að dómstólunum.

 

Einnig birt í Reykjavík 29. september. Fyrir ákafa áhugamenn:

,,Bætur vegna skipulags.“ Glærur úr erindi Trausta Fannars Valssonar á samráðsfundi Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga á Hellu 26. apríl 2011, hér.

Umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til skipulagslaga frá 9. apríl 2010, hér, sjá einkum bls. 10; umsögn Húsafriðunarnefndar, dags. 16. mars 2010, hér.

Grein Páls Hjalta Hjaltasonar í Fréttablaðinu 2. júlí, hér (Ingólfstorg — Kvosin); Hjálmars Sveinssonar 18. júlí, hér (Björgum Ingólfstorgsumræðunni);  Péturs H. Ármannssonar 20. júlí, hér (Fílar í fólksvagni miðbæjarins); Hjörleifs Stefánssonar 24. júlí, hér (Ingólfstorg og hagsmunir okkar); Páls Hjaltasonar 25. júlí, hér (Byggingarmagn og bótaskylda); Hjálmars Sveinssonar 26. júlí, hér (Kostir við Ingólfstorg og nágrenni).

Hef ég gleymt einhverju mikilvægu? Allavega frétt Hilmars Þórs Björnssonar um frumvarpið og athugasemdum hana á arkitektablogginu hans 24. september, hér. — Bætið við í athugasemdum!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 27.9.2012 - 14:02 - 7 ummæli

Siðbót á alþingi

Í frumvarpi sem við Valgerður Bjarnadóttir og níu aðrir þingmenn höfum lagt fram á þinginu er gert ráð fyrir að alþingismenn hætti með öllu að skammta sér laun. Þetta er í þriðja sinn sem við Valgerður flytjum frumvarp um kjör þingmanna, og nú er von til að eitthvað gerist – vegna þess að margir þingmenn hafa undanfarið tekið undir gagnrýni í samfélaginu á ýmsar sporslur sem úthlutað er á þinginu. Nú síðast um gleraugu, heyrnartæki, líkamsrækt og svo framvegis aftan í sakleysislegu þingskapafrumvarpi núna í vor.

Við leggjum til að allar ákvarðanir um laun þingmanna, svokallað þingafararkaup og tengdar greiðslur, verði framvegis í höndum Kjararáðs. Nú er ákvörðun um grunnlaun hjá Kjararáði, en í lögum um þingfararkaupið eru ákvæði um að allskyns störfum og titlum á þinginu fylgi álagsgreiðslur, 5–30%. Formenn nefnda og þingflokka fá álag, formenn stjórnarandstöðuflokka, fólk í forsætisnefnd, varaformaður nefndar fær álag og meira að segja 2. varaformaður nefndar, titill sem var búinn til í fyrra í nánast fullkomnu tilgangsleysi, hann fær álag blessaður garmurinn. Staðan er núna þannig að um það bil 38 þingmenn fá svona álagsgreiðslu, af þeim 54 sem ekki sinna ráðherra- eða forsetastörfum. Bara 16 eru álagslausir – einskonar undirstétt á þinginu!

Flutningsmenn frumvarpsins eru ekki einkum að hugsa um peningaþáttinn í þessu, heldur fyrst og fremst prinsippið. Annaðhvort tekur alþingi á sig þá ábyrgð alla að ákveða laun þingmanna – eða felur öðrum, Kjararáðinu, að sjá um þetta allt. Núverandi ástand býr til feluleik með raunveruleg laun kjörinna fulltrúa. Það er í andstöðu við þá siðbót sem við erum að reyna í samfélaginu eftir hrun, og á að ljóma skærast á sjálfu alþingi.

Flutningsmennirnir ellefu eru auk mín og Valgerðar þau Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Lúðvík Geirsson, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir, Guðmundur Steingrímsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir. Fríður flokkur – hljótum að koma þessu í gegn!

 

Einnig birt í Fréttablaðinu fimmtudaginn 27. september.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur