Föstudagur 31.8.2012 - 19:54 - 18 ummæli

Ragnheiður Elín repúblikani

Athyglisvert að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins skuli sitja flokksþing repúblikana í Bandaríkjunum – reyndar í sama mund og þar er útnefnt framboðspar sem ætlar að berjast við Obama undir gunnfánum poppúlískrar hægristefnu. Er hún að sækja í sjóðinn fyrir kosningaveturinn?

Flórídaferð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur er reyndar alveg í stíl – því Sjálfstæðisflokkurinn hefur á síðari árum átt stefnulegt samneyti fyrst og fremst við tvo aðra hægriflokka, bandaríska repúblikana annarsvegar, hinsvegar Íhaldsflokkinn breska. Í þessum tveimur flokkum sló nýlíberalisminn sterkast út áratugina kringum aldamót, og þarna hafa líka náð mestum áhrifum fulltrúar hægri-popúlisma gegn kvenfrelsi, samtökum launafólks og frjálsri hugsun – og ekki síst gegn öllu sem lyktar af Evrópu. Í Tampa var einmitt haldið sérstakt námskeið um hætturnar af ,,Evrópuvæðingunni“ í Bandaríkjunum sem Obama er talinn standa fyrir með heilbrigðisumbótum sínum.

Sumir halda því reyndar fram að Sjálfstæðismenn kunni upp til hópa ekki annað erlent tungumál en ensku, og viti þessvegna ekki hvað um er að vera hjá skyldum flokkum á Norðurlöndum, í Þýskalandi eða Frakklandi.

Helstu forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa undanfarin ár sótt fræði sín og fyrirmyndir til repúblikana – en þegar Íslendingar eru spurðir um afstöðu til frambjóðenda vestra kemur yfirleitt í ljós að 75—90% styðja demókratann.

Dæmið um Ragnheiði repúblikana sýnir ágætlega að íslenski íhaldsflokkurinn er minnihlutaafl í íslenskum stjórnmálum. Mikill meirihluti Íslendinga er demókratar – vinstri- og miðjumenn.

Voruði annars ekki örugglega búin að sjá myndbandið með Romney-stúlkunni? Í tilefni af nýuppgötvuðum svissneskum bankareikningi — innilega ósvífinn amerískur húmor … hér

 

Flokkar: Spaugilegt

Laugardagur 25.8.2012 - 20:16 - 14 ummæli

Úlfur, úlfur í Hjaltadal

Vinstri hreyfingin – grænt framboð samþykkti í dag á Hólum í Hjaltadal að vara við framkomnum hugmyndum um að leggja sæstreng til rafmagnsflutninga milli Íslands og Skotlands. Því fylgir nefnilega „stórfelld rányrkja“ á íslenskum nátturauðlindum.

Af hverju að slá þessa hugmynd út af borðinu í ágústmánuði 2012? Meðan einmitt er að störfum starfshópur sem er að fara yfir öll álitamál sem tengjast þessum sæstreng – en þar á VG auðvitað  fulltrúa, sjálfa Álfheiði Ingadóttur!

Vissulega gæti fullkominn sæstrengur orðið til þess að enn meira kapp yrði lagt á hráa orkusölu til útlanda – þá væri hægt að selja beint ,,inn á kerfið“ í Evrópu án þess að þurfa að standa í flóknum samningum við bræðsluhringi um ennþá fleiri stóriðjuver. Sumir mundu svo bæta við að slík söluaðferð væri hreinn hráefnisútflutningur og skapaði þá engin störf á Íslandi með hinum frægu margfeldisáhrifum. Hugsanlega.

En sá sæstrengur sem nú er verið að ræða um er alls ekki þesskonar – allavega fyrstu áratugina — heldur fyrst og fremst ætlað að bera umframorku úr kerfinu, rafmagn sem nú er ekki hægt að selja með föstum samningum, orku sem ,til fellur’ að nóttu og að sumri. Líklegt er að með svona sæstreng mætti nýta jarðvarmavirkjanirnar betur – nú eru aðeins nýtt 15% þeirrar orku sem þar stendur til boða meðal annars vegna þess að sölusamningar gera ráð fyrir lágmarks-fastaafhendingu nótt og dag.

Rányrkja og rányrkja

Einmitt í þessari vannýttu umframorku felst ,,stórfelld rányrkja“ – sérstaklega ef látin væru eiga sig tækifæri til að koma henni í verð. Þar við bætist að væntanleg rafmagnsframleiðsla Landsvirkjunar frá vindmyllunum sem nú eru að rísa við Búrfell er talin passa þennan markað. Fullmikið kannski að segja að sæstrengurinn sé grænn – en ályktun VG að óhugsuðu máli að nýhöfnu nefndarstarfi Álfheiðar hljómar einsog paranoja. Eða enn einar innanflokks-innantökurnar.

Það er svo rétt hjá VG að raforku gegnum sæstreng á Evrópumarkað væri hægt að selja hærra verði en nú tíðkast á íslandi. Er það vont? Stóriðjan kaupir rúma tvo þriðju af rafmagnsframleiðlsunnin núna – en er Vinstrihreyfingin að gæta þeirra hagsmuna? Viljum við ekki einmitt skipta við orkukaupendur sem hafa efni á að borga vel? Verð til almennings og ,venjulegra’ fyrirtækja kann að hækka af ýmsum orsökum í framtíðinni, meðal annars vegna beinnar tengingar við Evrópumarkað, en þá verður að muna að sem betur fer getur almannavaldið haft fulla stjórn á afdrifum auðlindarentunnar og komið hagnaði af raforkusölu aftur til íslenskra neytenda. Mun sanngjarnar reyndar en nú tíkast.

Á leiðarenda

Sæstrengur breytir síðan engu um þá staðreynd að við erum að komast á leiðarenda við nýtingu hefðbundinna orkulinda. Stefán Arnórsson hefur sagt að þær hefðbundnun virkjanir sem kynnu að vera eftir hagkvæmar og án verulegra umhverfisspjalla nemi bara um það bil hálfri þriðju Kárahnjúkavirkjun, og það passar nokkurnveginn við niðurstöður rammaáætlunarhópsins.

Verkefnið núna er að vanda sig einsog hægt er við þau verkefni sem kunna að standa eftir, og ekki síst nýta einsog hægt er þá orku sem þegar er virkjuð, ekki síst til að koma í veg fyrir framhaldandi rányrkju í íslenskri náttúru.

Og hugsanlegt er að sæstrengur geti hjálpað til við þetta. Er nú ekki rétt, kæru félagar í Grænu framboði, að bíða að minnsta kosti eftir niðurstöðum Álfheiðar Ingadóttur og samnefndarmenna hennar um málið áður en kallað er á úlf, úlf norður í Hjaltadal?

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 15.8.2012 - 17:01 - 16 ummæli

Þrjár spurningar um plan B

Árni Páll átti kollgátuna spurður um Evrópusambands-sinueldinn í pólitíkinni: Þeir ættu ekki að henda plani A sem ekki hafa plan B.

Er hvenær sem er til í umræðu um kosti og galla ESB-aðildar, almennt og sérstaklega – þótt mér finnist eðlilegast að við hinkrum með djúp-umræðuna þangað til komin eru samningsdrög.

Á móti verða ESB-andstæðingar, Evróvafrar, biðstöðusinnar og viðræðuhlésáhugamenn að sýna okkur plan B – hvað eigi að gera þegar viðræðunum er hætt / frestað / látnar bíða.

Hér er eru þrjár spurningar um plan B:

1. Hvaða gjaldmiðill er við lýði í plani B? Ef króna – er það þá króna með gjaldeyrishöftum? Eða gjaldmiðill annars ríkis á forsendum þess ríkis?

2. Hvernig á að hætta gjaldeyrishöftunum?

3. Hvað á að gera við EES? (sjá m.a. ágætan pistil Andra Geirs hér).

Reyndar eru spurningarnar allar samtengdar. Ef ekki á að nota krónuna verður að ganga efnahagslega í Noreg, Kanada eða annað gjaldmiðilssvæði. Það verður ekki gert með gjaldeyrishöftum. Ef á að nota krónuna verður annaðhvort að halda gjaldeyrishöftunum eða losa um þau með gengisfalli sem mundi rústa lífskjörum og gæti startað öðru hruni. Ef við ætlum að halda gjaldeyrishöftunum kemur fyrr eða síðar að því að Íslandi verður óvært í EES-samstarfinu. Það er opinbert leyndarmál að við komumst pólitískt upp með gjaldeyrishöftin – þvert á mikla hagsmuni krónueigenda – af því við erum umsóknarríki.

Þegar svör fást við þessu – frá sosum einsog Bjarna Ben, Ögmundi og Sigmundi Davíð – og B-planið er komið, þá er fyrst hægt að fara að setjast niður og tala um samningshraða og þjóðaratkvæðagreiðslur.

 

 

Flokkar: Dægurmál

Þriðjudagur 14.8.2012 - 21:49 - 25 ummæli

Risaeðlur og afastrákar

Kemur á óvart að ekki sé hægt að ná upp stemmingu á landsleikjum nema með því að selja þar áfengi.

Það er svo alveg rétt hjá Heimi Hallgrímssyni aðstoðarþjálfara að við Íslendingar erum hálfgerðar risaeðlur í brennivínsmálunum. Kannski vegna þess að við höfum aldrei kunnað með vín að fara?

Það var samt enginn bjór þessi þrjú skipti sem ég hef farið á völlinn í föðurlandi fótboltans, í Liverpool og London. En þeir staupuðu sig að vísu nokkuð duglega fyrir leik á kránum í kring, sumir.

Annars erum við að fara á landsleikinn við Færeyinga, ég og dóttursonur minn, tíu ára, annar KR-ingur og hinn Bliki. Við hlökkum til og erum að vonast eftir sigri, eða að minnsta kosti tilþrifum hjá íslenska liðinu – Gylfi Þór, Kolbeinn, Emil, kannski Eiður …

Mér finnst líklegt að þarna verði góð stemming ef strákarnir leggja sig fram og liðið leikur skemmtilegan bolta. Alveg óháð áfengisneyslu í stúkunni.

En er ekki viss um að okkur tveimur yrði hleypt í þetta ferðalag ef Heimir Hallgrímsson nútímamaður stæði við innganginn að selja bjór og snafs.

 

Flokkar: Lífstíll

Laugardagur 11.8.2012 - 08:38 - 11 ummæli

Nafnlaust hatur

Og sjálfan gleðigöngudaginn hefur einhver fundið hjá sér hvöt til að kaupa auglýsingu í Fréttablaðinu, undir sjónvarpsdagskránum á bls. 56, og komið þar fyrir hinum fræga ritningarstað um vonda fólkið sem ekki kemst til Himnaríkis:

Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa.

Nú spretta sjálfsagt upp þeir talsmenn málfrelsis sem helst láta á sér kræla þegar þarf að skilgreina róg og níð sem sérstök lífsviðhorf verðskuldandi stranga mannréttindavernd – látum vera í bili. Í Fréttablaðsauglýsingunni vekur mesta athygli að enginn skrifar undir, auglýsingin er ekki frá neinum.

Hatrið er nafnlaust.

Nema þá maður eigi að þekkja auglýsandann af stílfærðri mynd sem fylgir af pabba, mömmu og barni, sem væntanlega eru fulltrúar Guðsríkiserfingjanna. Af því auðvitað að kynvillingarnir voru aldrei börn. Þær eru ekki mömmur, og þeir eru ekki pabbar.

Ef kristið fólk þegir þá talar Biblían

Það er fyrirsögnin í auglýsingunni. Textinn er hafður eftir Páli postula, stendur í kafla 6, 9. og 10. versi í bréfinu fyrra til Kórintumanna. Um nákvæma þýðingu og frummerkingu er reyndar vafi – ég held þetta sé öðruvísi í nýju biblíuþýðingunni sem ég hef þó ekki við höndina. Mér finnst sennilegast að þessi kall hafi samt meint þetta nokkurnveginn svona. Kristnir söfnuðir á þessum tíma – og sannarlega líka síðar – voru almennt ekki hrifnir af kynlífi eða jarðneskum ástum yfirhöfuð nema þá rétt til að fjölga mannkyninu, hvað þá samkynhneigð … kannski einmitt vegna þess að hún þótti ekki tiltökumál í þeim menningarheimi sem kristnina fóstraði, hinum grísk-rómverska.

Páll postuli – amma hans hvað!

– en Páll sagði sitthvað merkilegra en þessa blessuðu tuggu um drykkjumenn og þjófa og kynvillinga. Til dæmis þetta við Galatamenn (3.28) um einingu mannanna í Kristi, hvaðan sem þeir koma, hverjir sem þeir eru:

Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.

Og svo auðvitað þetta um eiginleika kærleikans, í sama bréfinu og nafnleysinginn vitnar til í Fréttablaðinu, 13.13.:

Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. …

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Til hamingju með daginn.

Flokkar: Vinir og fjölskylda

Miðvikudagur 8.8.2012 - 12:59 - 13 ummæli

Harpa og attitjúdið

Hallatölurnar og úttektarskýrslan um Hörpu hafa – loksins – hrist upp í undarlegum málatilbúnaði í kringum tónlistarhúsið sem svo marga dreymdi um svo lengi. Fréttir eru sagðar af furðulegri stjórnskipan, sem þó hefur viðgengist síðan ákveðið var að bjarga Hörpu uppúr hruninu. Aðrar fréttir nýrri eru auðvitað um fjárhagsáætlun sem ekki hefur staðist og virðist aldrei hafa átt að standast.

Það þarf ekki að endurtaka oft að þetta hús er misskilningur – sem sést ágætlega af grein Hjörleifs Stefánssonar í Fréttablaðinu í dag – en við sitjum uppi með það og þá er að nýta það einsog hægt er. Nú er kominn forstjóri sem hefur þann mikla kost að bera enga ábyrgð á Hörpusögunni hingað til. Og tilkynnt er að eigendur, ríki og borg, hafi ákveðið að sameina öll félögin, kynna í haust eigendastefnu og leggja fram rekstraráætlun.

Í henni þarf að vera ljóst hver er áætlaður stuðningur af hálfu almennings við fyrirtækið í framtíðinni, fyrir utan byggingarmilljarðana. Nú er talað um „sjálfbæran“ rekstur. Það merkir væntanlega ekki hallarekstur. Við vonumst til að hugmyndir um þetta verði settar fram í alvöru, ekki með fiffum. Það er eðlilegt að Sinfónían og Óperan borgi leigu en sú upphæð verður að vera sanngjörn þannig að hallinn af Hörpu sé ekki færður úr einum vasa ríkis og Reykjavíkur í annan, og niðurstaðan verður líka að mótast af því að húsið var í upphafi reist til þess einmitt að smíða þak yfir höfuð Sinfóníuhljómsveitinni. Það er ekki henni að kenna að húsið fór í vitleysu.

Maður fagnar forstjóranum, stjórnskipunareinföldun, væntanlegri eigendastefnu og hinni sjálfbæru rekstraráætlun. Sama þótt sumt af þessu hafi verið tæpt ár á leiðinni. Mér sýnist hinsvegar að það þurfi meira til að geta byrjað upp á nýtt í Hörpu. Heiðarleik og einlægni af hálfu forráðamanna í staðinn fyrir PR-glamur, og kannski ákveðna auðmýkt gagnvart greiðandi almenningi og fulltrúum hans á stjórnmálavettvangi og í fjölmiðlum.

„Ertu með attitjúd?“ stóð uppúr áhrifamanni innanþings þegar ég byrjaði að spyrja um Hörpumál á alþingi, í febrúar 2011 (hér, og svo aftur hér). Þetta var á kaffistofunni, en lýsir ágætlega almennum varnarviðbrögðum fólksins í kringum Hörpu – bæði þeirra sem þangað höfðu plaserast fyrir hrun og þeirra sem nauðugir viljugir fengu þetta upp í hendurnar þegar búið var að grafa holuna og afskrifa fyrsta milljarðatuginn. Á kostnað erlendra kröfuhafa og íslenskra skattgreiðenda.

Já, kannski var ég með attitjúd – og miklu fleiri. En var það ekki bara sjálfsagt mál? Og höfðum við ekki bara rétt fyrir okkur, gagnvart talna- og staðreyndaspunanum sem fyrr og síðar vall upp úr forráðamönnum Harpa house?

Sem hljóta nú að vera að leita sér að atvinnu og bitlingum anderswo.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.8.2012 - 18:13 - 47 ummæli

Ekki leiðum að líkjast

Gott að eiga sér fyrirmyndir þegar maður lendir í klæðaburðarvafa – ég mætti í embættistöku forsetans í dag í þokkalegum jakkafötum og setti þar að auki upp bindi sem ekki er hversdags.

Á boðsbréfi stóð sem frægt er orðið ,,kjólföt og heiðursmerki“ – en þá er þess að minnast að alþingismaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson mætti samt í jakkafötum við sömu athöfn 1988 og 1992 (hér). Þannig að ekki er leiðum að líkjast. Sem heiðursmerki hafði ég svo í barminum birtingarrauðan eldhnött Samfylkingarinnar. Magga Tryggva var með demantsorðuna sína úr fermingarveislunni og Birgitta með svart P úr píratapartíinu. Við vorum mætt fyrst, af því við skrópuðum í kirkjunni, og söknuðum mjög Þórs Saaris sem hefði sannarlega verið tignarlegt að sjá í kjólfötum.

Annars tók þetta fljótt af. Ólafur Ragnar flutti ræðu um sjálfan sig og samstöðu þjóðarinnar sem hefði komið svo vel fram í forsetakosningunum. Vont að hann skuli ekki vera lengur á þingi, hugsar maður, þar vantar einmitt svona samstöðu- og einingarforingja. Einsog í gamla daga.

En mér finnst gott hjá Ólafi að láta alltaf syngja þarna Þó þú langförull legðir eftir Stephan G. og Sigvalda Kaldalóns – ættjarðarsöngur sem stendur óvenjuvel af sér tímans gnag.

Svo heldur lífið áfram, og líka stjórnarskrárstarfið og Evrópuumsóknin …

Óvissan horfin

Framhald …: Fékk senda rétt í þessu svolitla talningu úr ræðu forsetans — held að uppí Háskóla mundu þetta vera kölluð drög að orðræðugreiningu. Niðurstaðan er svona:

50 sinnum þjóðin, Íslendingar

13 sinnum eining, samstaða (Lilja Mós er víst afar sæl með þessa auglýsingu!)

16 sinnum við

10 sinnum ég

10 sinnum alþingi

8 sinnum lýðræði

4 sinnum lýðveldi

5 sinnum stjórnarskrá

3 sinnum hrunið

6 sinnum þáttaskil

8 sinnum átök

6 sinnum ábyrgð

Ekkert af þessu kemur áhugamönnum um forsetann á óvart, einkum ekki þjóðinþáttaskilin og ég, sem kemur einmitt jafnoft fyrir og alþingi. En hvað varð um óvissuna sem leitaði svo sterkega á okkur síðustu vikurnar fyrir kjördag?

Flokkar: Íþróttir

Sunnudagur 29.7.2012 - 14:14 - 5 ummæli

Spinn, spinn á miðju sumri

Gúrkurnar spretta á sumrin, kringum hitt og þetta, og nú síðast segjast fréttir af gúrkuuppskerunni í garði Samfylkingarinnar – málhress almannatengill er búinn að finna út að Jóhanna segi af sér eftir mánuð, og Orðið á götunni (aldrei skilið það Eyjardálksheiti) segir frá því að ef Jóhanna hættir ekki bráðum ætli örvæntingarfullur hópur þingmanna og þingmannsefna barasta að stofna nýjan Alþýðuflokk.

Ég er greinilega ekki í þessum örvæntingarhópi enda hef ég ekkert orðið var við tíðindin – fyrir utan þrár og drauma einstakra félaga minna, sem er auðvitað eðlilegur hluti af tilveru unga fólksins. Svo man ég of skýrt eftir gömlu alþýðuflokkunum til að detta í nostalgíur.

Spyrjum að leikslokum

Aðalástæðan er í þessum spásögnum sögð fullvissa um hörmulegt gengi Samfylkingarinnar í kosningunum í apríl. Kannanir eru flokknum ekki sérlega hagstæðar þessa mánuði – en satt að segja hafa kannanir um þetta leyti lítið forsagnargildi um kosningaúrslit. Í tólf ára sögu hefur Samfylkingin gengið fjórum sinnum í gegnum þingkosningar – og kannanir árið áður hafa aldrei verið verulega nálægt úrslitunum sjálfum. Enda ráðast niðurstöður kosninga af mörgum þáttum öðrum en kannanafylgi á kjörtímabilinu, þótt þær tölur séu mikilvægar á hverjum tíma. Einn af þessum þáttum er heildarframmistaðan síðan síðast, og annar auðvitað krafturinn í kosningabaráttunni – og í hvorugri þessari deild er nein ástæða til örvæntingar af hálfu okkar í Samfylkingunni. Vorið 2007 mældist flokkurinn með 18% í mars en fékk svo 27% í maí með góðri kosningabaráttu. Þessi úrslit voru svo nýtt til að fara í afspyrnuvonda ríkisstjórn, en það er önnur saga.

Ríkisstjórnin sem skilar af sér næsta vor hefur ekki búið við vinsældir – en hinsvegar skilað miklum árangri sem nú er að verða alveg heiðskír. Fyrirfram er full ástæða til að ætla að sá árangur nýtist jafnaðarmönnum til að bjóða kjósendum nýjan samning um samstarf. Þar skiptir auðvitað máli hvaða áherslur verða uppivið hjá kjósendum og öðrum framboðum. Mér sýnist núna að stóra spurningin ætli að verða um markmið og leiðir um efnahag og lífskjör, jöfnuð, velferð og skatta. Þar þarf Samfylkingin engu að kvíða. Vonandi snúast kosningarnar líka um atvinnustefnu og græna hagkerfið, um tækifæri og hættur í umhverfismálum, um menntir og menningu – ekki heldur þar þurfa jafnaðarmenn að skammast sín.

Traust almennings hér og annarstaðar í okkar heimshluta hefur snarminnkað til helstu stofnana samfélagsins, þar á meðal þings og stjórnmálaflokka. Það eiga þessar stofnanir sannarlega skilið – þær brugðust við að stýra framhjá kreppu og hruni, og létu nota sig til að skapa aðstæðurnar fyrir hrun og kreppur. Við þennan vanda glímir auðvitað forustuflokkur í stjórnarsamstarfi á Íslandi, og enn eigum við í þessum flokki brekku eftir við lýðræðisumbætur, bæði í samfélaginu öllu og í innra starfi. En líka hér hefur Samfylkingin gert betur en önnur skipuleg stjórnmálaöfl.

Allt hefur sinn tíma

Alfa og ómega í sumarspunanum um gengi Samfylkingarinnar, hvort sem hann nú er runnin upp í Valhöllu eða nær heimatúnum, sýnast vera spurningar um formennsku í flokknum, og spinnendur láta einsog í gangi sé mikil óþreyja að vita um fyrirætlanir Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá er að minna á þau orð Predikarans að allt hefur sinn tíma. Og enn stendur einmitt tími Jóhönnu Sigurðardóttur, sá sem koma mundi. Hvort sem mönnum er ljúft eða leitt er staðan einfaldlega þannig að hún ræður sjálf sínum málum fram að landsfundi sem líklega verður í febrúar. Gefi Jóhanna kost á sér áfram, með skýrum áherslum um árangur og áfanga næstu árin, fengi hún hiklausan stuðning, meðal annars frá yðar einlægum. Þetta kemur væntanlega í ljós í haust – í október eða nóvember. Þangað til höfum við nóg að gera.

Þrár og draumar eru hinsvegar ágæt hvatning til góðra verka. Má þá gilda einu hvort að lokum verður farin sú ferð sem þrárnar vakti.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 27.7.2012 - 11:47 - 11 ummæli

Illugi staðfestir leiftursóknina

Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Illuga Gunnarsson í stúkuplássinu á miðopnu (undir stórri mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í London!), og þar staðfestir Illugi þá nýju stefnu flokksformanns síns frá um daginn að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að boða meiri niðurskurð í velferðarþjónustu og samfélagsinnviðum.

Þetta er fagnaðarefni – því það voru ekki allir alveg vissir hvað Bjarni var að meina. Stundum hrekkur ýmislegt upp úr mönnum í sjónvarpsviðtölum, ekki síst í pólitískri lognmollu á miðju sumri. En nú er þetta klárt. Illugi og Bjarni hafa undanfarin ár myndað einskonar pólitískt tvíburamerki innan flokksins, voru fyrir nokkrum árum gagnrýnir á Davíðsarminn og gældu við Evrópusambandið, berjast nú við að halda flokknum í einu lagi og sjálfum sér í fararbroddi. Þeir sem fylgjast með frá degi til dags vita að það sem Bjarni segir hefur hann borið undir Illuga, og það sem Illugi segir er einsog formaðurinn hafi sagt það.

Hægri – vinstri

Illugi rekur þau almælt sannindi að menn eiga ekki að safna skuldum, því þær hefna sín síðar með afborgunum og vöxtum, og í tilviki ríkisins dregur aukin vaxtabyrði úr útgjaldamöguleikum, rýrir lífskjör okkar sjálfra síðarmeir, kemur niður á næstu kynslóðum. Þessvegna á að skera meira niður, segir Illugi. Passar sig að tala ekkert um Sparisjóð Sjálfstæðismanna í Keflavík og hallaaukninguna hans vegna á ríkisreikningnum 2011, hvað þá um fyrri hrunreikninga.

Niðurskurðinum á svo að fylgja mikil lækkun skatta. Lítur vel út. Minnka ríkisbáknið, fá meiri peninga sjálfur. Þá gleymist að bæði fjölskyldur og fyrirtæki byggja afkomu sína að verulegum hluta á sameiginlega sjóðnum, og niðurskurður í sameiginlegum útgjöldum kemur fljótt niður á fólki og atvinnulífi með margvíslegum hætti.

Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun ákvað – með stuðningi frá AGS – að fara aðra leið. Hana kalla tæknimenn stundum „blandaða“: Spara einsog hægt er í ríkisbúskapnum, þar sem sumstaðar hefur verið skorið inn að beini einsog heyra má kvartað daglega um, en halda þó velferðarþjónustunni í þolanlegu lagi þannig að samfélag okkar tæki ekki eðlisbreytingum, verja einsog verða mætti kjör lág- og meðaltekjuhópa, hlífa menntakerfinu, styrkja innviði, þar á meðal í samgöngum, þannig að grunnþættir væru fyrir hendi til endurreisnar og sæmilegrar framtíðar. Að auki þarf ríkissjóður að fá tekjur, meðal annars með hærri sköttum. Þeir þyngdust fyrst og fremst hjá tekjuhærri hópunum og þeim fyrirtækjum sem voru vel aflögufær. Eftir skattahækkanir er skattastig á landinu þó heldur lægra en í flestum grannlandanna. Með þessu móti hefur tekist í stórum dráttum bæði rústabjörgun log endurreisn, og skal þó ekki gert lítið úr vandræðum ótal fjölskyldna vegna skuldavanda og atvinnuþrenginga. En nú skynja allir að það er bjartara framundan en mörg síðustu missiri – þrátt fyrir nýja reikninginn frá Sjálfstæðismönnum í Keflavík.

Alþjóðleg endurspeglun

Þessar mismunandi stefnur endurspegla auðvitað ákafa umræðu um efnahagsmál utan landsteinanna, ekki síst í Evrópulöndum, en þeir Illugi og Bjarni eru þó einkum í samhljómi við breska íhaldsmenn og repúblikana í Bandaríkjunum.

Leið Illuga, Camerons og Romneys, að skera niður og lækka skatta, veldur því að eignamenn og stórfyrirtæki fá meira í sinn hlut en hagur lág- og meðaltekjuhópa versnar. Hún dregur úr samneyslunni, ójöfnuður eykst, samstaða minnkar í þjóðfélaginu. Ávinningur fyrirtækja og atvinnulífs, sem til stóð að högnuðust á öllu saman, verður í heildina óburðugur, því átök aukast á vinnumarkaði, erfiðara verður að fá menntað vinnuafl, og kaupmáttur minnkar meðal alls almennings.

Í Evrópulöndum þykir sýnt að niðurskurðarleiðin – sem Merkel kanslari predikar einkum fyrir öðrum þjóðum en sinni eigin – hefur gert illt verra í ríkjum einsog í Grikklandi, á Írlandi, í Portúgal. Hægristjórnin á Spáni virðist stefna í sömu átt og Illugi vill hér, en um árangur af þeirri línu er mjög efast innanlands og utan, þar á meðal á hinum frægu mörkuðum. Á móti setja bæði stjórnmálamenn, svo sem Hollande Frakklandsforseti, og fræðimenn, svo sem hinn bandaríski Krugman, svipaða leið og hér hefur verið farin, nefnilega að verja velferð og lífskjör, fjárfesta í innviðum og frumkvæði í atvinnulífi. Engum á meginlandinu dettur svo í hug að lækka skatta í nýfrjálshyggjustíl.

Botninn í Borgarfirði

Illugi Gunnarsson á svo sannarlega skilið þakkir fyrir að setja fram hina nýju leiftursóknarstefnu Sjálfstæðisflokksforystunnar skýrt og afdráttarlaust – og skiptir þá litlu þótt stefnumótun þeirra Bjarna kunni öðrum þræði að spretta af sókn hægriafla innan flokksins. Ennþá er botninn samt suður í Borgarfirði hjá þeim félögum. Þeir verða að segja okkur meira: Hvar á að skera niður? Á Landspítalanum? Í Háskóla Íslands? Í fjárveitingum til samgönguframkvæmda? Barnabætur og ellilífeyrir?

Til svara gefast Illuga og Bjarna góð tækifæri við umræðu um fjárlög núna í haust. En þá þarf að tala skorinort.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 25.7.2012 - 16:10 - 15 ummæli

Hæstiréttur – eitt í dag …

Hæstiréttur neitar því að gallar á forsetakosningunum valdi því að það þurfi að kjósa aftur. Sammála Hæstarétti. Gallarnir felast að sjálfsögðu í því misræmi að sumir fatlaðir fengu að velja sérstakan aðstoðarmann, aðrir fatlaðir ekki. Hér verður að vera annaðhvort – eða, og þann kost verður að velja samkvæmt íslenskum lögum. Þetta hafði hinsvegar engin áhrif á úrslit kosninganna. Þær þarf ekki að endurtaka.

Sami Hæstiréttur ógilti hinsvegar kosningar til stjórnlagaráðs í fyrra – án þess að fjalla um það ákvæði kosningalaganna sem nú er rifjað upp, að kosningar skuli aðeins ógilda ef gallar á þeim hafa haft áhrif á kosningaúrslit.

Hæstiréttur segir eitt í dag, annað á morgun.

Það er ekki gott. Það vekur óþægilegar spurningar um úrskurð dómaranna frá í fyrra.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur