Morgunblaðið birtir í dag grein eftir Illuga Gunnarsson í stúkuplássinu á miðopnu (undir stórri mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni í London!), og þar staðfestir Illugi þá nýju stefnu flokksformanns síns frá um daginn að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að boða meiri niðurskurð í velferðarþjónustu og samfélagsinnviðum.
Þetta er fagnaðarefni – því það voru ekki allir alveg vissir hvað Bjarni var að meina. Stundum hrekkur ýmislegt upp úr mönnum í sjónvarpsviðtölum, ekki síst í pólitískri lognmollu á miðju sumri. En nú er þetta klárt. Illugi og Bjarni hafa undanfarin ár myndað einskonar pólitískt tvíburamerki innan flokksins, voru fyrir nokkrum árum gagnrýnir á Davíðsarminn og gældu við Evrópusambandið, berjast nú við að halda flokknum í einu lagi og sjálfum sér í fararbroddi. Þeir sem fylgjast með frá degi til dags vita að það sem Bjarni segir hefur hann borið undir Illuga, og það sem Illugi segir er einsog formaðurinn hafi sagt það.
Hægri – vinstri
Illugi rekur þau almælt sannindi að menn eiga ekki að safna skuldum, því þær hefna sín síðar með afborgunum og vöxtum, og í tilviki ríkisins dregur aukin vaxtabyrði úr útgjaldamöguleikum, rýrir lífskjör okkar sjálfra síðarmeir, kemur niður á næstu kynslóðum. Þessvegna á að skera meira niður, segir Illugi. Passar sig að tala ekkert um Sparisjóð Sjálfstæðismanna í Keflavík og hallaaukninguna hans vegna á ríkisreikningnum 2011, hvað þá um fyrri hrunreikninga.
Niðurskurðinum á svo að fylgja mikil lækkun skatta. Lítur vel út. Minnka ríkisbáknið, fá meiri peninga sjálfur. Þá gleymist að bæði fjölskyldur og fyrirtæki byggja afkomu sína að verulegum hluta á sameiginlega sjóðnum, og niðurskurður í sameiginlegum útgjöldum kemur fljótt niður á fólki og atvinnulífi með margvíslegum hætti.
Ríkisstjórnin sem tók við eftir hrun ákvað – með stuðningi frá AGS – að fara aðra leið. Hana kalla tæknimenn stundum „blandaða“: Spara einsog hægt er í ríkisbúskapnum, þar sem sumstaðar hefur verið skorið inn að beini einsog heyra má kvartað daglega um, en halda þó velferðarþjónustunni í þolanlegu lagi þannig að samfélag okkar tæki ekki eðlisbreytingum, verja einsog verða mætti kjör lág- og meðaltekjuhópa, hlífa menntakerfinu, styrkja innviði, þar á meðal í samgöngum, þannig að grunnþættir væru fyrir hendi til endurreisnar og sæmilegrar framtíðar. Að auki þarf ríkissjóður að fá tekjur, meðal annars með hærri sköttum. Þeir þyngdust fyrst og fremst hjá tekjuhærri hópunum og þeim fyrirtækjum sem voru vel aflögufær. Eftir skattahækkanir er skattastig á landinu þó heldur lægra en í flestum grannlandanna. Með þessu móti hefur tekist í stórum dráttum bæði rústabjörgun log endurreisn, og skal þó ekki gert lítið úr vandræðum ótal fjölskyldna vegna skuldavanda og atvinnuþrenginga. En nú skynja allir að það er bjartara framundan en mörg síðustu missiri – þrátt fyrir nýja reikninginn frá Sjálfstæðismönnum í Keflavík.
Alþjóðleg endurspeglun
Þessar mismunandi stefnur endurspegla auðvitað ákafa umræðu um efnahagsmál utan landsteinanna, ekki síst í Evrópulöndum, en þeir Illugi og Bjarni eru þó einkum í samhljómi við breska íhaldsmenn og repúblikana í Bandaríkjunum.
Leið Illuga, Camerons og Romneys, að skera niður og lækka skatta, veldur því að eignamenn og stórfyrirtæki fá meira í sinn hlut en hagur lág- og meðaltekjuhópa versnar. Hún dregur úr samneyslunni, ójöfnuður eykst, samstaða minnkar í þjóðfélaginu. Ávinningur fyrirtækja og atvinnulífs, sem til stóð að högnuðust á öllu saman, verður í heildina óburðugur, því átök aukast á vinnumarkaði, erfiðara verður að fá menntað vinnuafl, og kaupmáttur minnkar meðal alls almennings.
Í Evrópulöndum þykir sýnt að niðurskurðarleiðin – sem Merkel kanslari predikar einkum fyrir öðrum þjóðum en sinni eigin – hefur gert illt verra í ríkjum einsog í Grikklandi, á Írlandi, í Portúgal. Hægristjórnin á Spáni virðist stefna í sömu átt og Illugi vill hér, en um árangur af þeirri línu er mjög efast innanlands og utan, þar á meðal á hinum frægu mörkuðum. Á móti setja bæði stjórnmálamenn, svo sem Hollande Frakklandsforseti, og fræðimenn, svo sem hinn bandaríski Krugman, svipaða leið og hér hefur verið farin, nefnilega að verja velferð og lífskjör, fjárfesta í innviðum og frumkvæði í atvinnulífi. Engum á meginlandinu dettur svo í hug að lækka skatta í nýfrjálshyggjustíl.
Botninn í Borgarfirði
Illugi Gunnarsson á svo sannarlega skilið þakkir fyrir að setja fram hina nýju leiftursóknarstefnu Sjálfstæðisflokksforystunnar skýrt og afdráttarlaust – og skiptir þá litlu þótt stefnumótun þeirra Bjarna kunni öðrum þræði að spretta af sókn hægriafla innan flokksins. Ennþá er botninn samt suður í Borgarfirði hjá þeim félögum. Þeir verða að segja okkur meira: Hvar á að skera niður? Á Landspítalanum? Í Háskóla Íslands? Í fjárveitingum til samgönguframkvæmda? Barnabætur og ellilífeyrir?
Til svara gefast Illuga og Bjarna góð tækifæri við umræðu um fjárlög núna í haust. En þá þarf að tala skorinort.