Laugardagur 7.4.2012 - 20:27 - Rita ummæli

Að vera í jafnvægi

Ég hef nú komist að því að það allra mikilvægasta við sérhvert verk er að ná jafnvæginu.

Kannski fyrir utan að vilja. HKL: Fyrst er að vilja; afgangurinn er tækni.

Fyrir utan viljann þarf til dæmis verulega tækni til að hjóla á reiðhjóli, og er ekki endilega einfalt mál fyrir fólk sem er börn og hefur aldrei hjólað. Stuðningssonurinn var ekki búinn að tileinka sér þessa tækni þegar hann varð sjö ára í haust leið en fékk samt flott hjól í afmælisgjöf. Þegar tæknin kom ekki strax var hjólið fína sett út í horn og sniðgengið undir ýmsu yfirskini – svosem því að gamla hlaupahjólið dygði vel, og það væri alltaf svo vont veður …

Svo kom að því að stuðningsfaðirinn fór að koma í heimsókn að halda hjólreiðatækninámskeið. Hélt í stýrið og hljóp með hjólreiðamanninn í hnakknum, sem var talsverð áreynsla því hlaupamaðurinn varð að hlaupa skakkur, en fátt annað bar til tíðinda á þessum ferðum nema gríðarleg skelfing þegar sá eldri reyndi að sleppa takinu. Þá var prófuð sú aðferð að halda um bakið á hjólreiðanemanum og hlaupa á eftir honum, og við reyndum að telja okkur trú um að þetta væri alveg að koma. Vissulega tókst að knýja hjólið áfram með pedulunum en ekki dugði að sleppa takinu. Nemandinn hjólaði og hjólaði, og kennarinn hljóp og hljóp, en fátt gerðist annað, og báðar persónur í ævintýrinu urðu þeirri stundu fegnastar að komast út í sjoppu að fá ís með dýfu og sælgætisbitum.

Ekkert gekk, og vandi á ferðum. Ég spurði svo Morten Lange hvað ætti að taka til bragðs – hann veit allt um reiðhjól og var lengi formaður Landssamtaka hjólreiðamanna – og leitaði svo á netinu að nákvæmri útfærslu á heilræðum Mortens – og niðurstaðan var þessi:

Hjólreiðar eru mörg tækniatriði í senn, en grundvallarmálið er að hjólin tvö haldi hjólreiðamanninum uppréttum á ferð. Til þess þarf þetta:

1. Takið pedalana af hjólinu. Farið með nemandann í brekku eða svolítinn slakka. Látið hann renna sér niður og halda jafnvægi með fótunum útréttum. Tíu til tuttugu sinnum.

2. Setjið pedalana á. Látið nemandann renna sér með annan fótinn á pedala.

3. Báða fætur á pedulum, og hjóla með þeim þegar hjólið er komið á jafnsléttu.

Og þetta var reynt um helgina í sleðabrekkunni uppi á Klambratúni. Renniferðirnar tókust strax meistaralega vel – og hrópað júhú með báða vísifingur upp í loft. Hundrað prósent árangur líka í pedalapartinum niður brekkuna og út á túnið á hjólinu. Svo var farið í heldur minni slakka, og nemandinn hjólaði alsæll langar leiðir þegar var búið að ýta honum af stað. Stórkostlegt. Stoltur stuðningsfaðir.

Það er ekki alveg allt búið – ennþá er talsvert puð og pirringur að spyrna sér af stað á jafnsléttu og komast með fæturna upp á pedala áður en hjólið missir ferð. En þetta er líka alveg að koma.

Af því núna er það allra mikilvægasta í lagi: Að ná jafnvæginu.

Júhú!

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 3.4.2012 - 16:03 - 51 ummæli

Samherji über alles

Ef löggan grunar venjulegt fólk um eitthvað misjafnt – þá kemur fyrir að venjulegt fólk skiptir skapi, en snýr sér fljótlega að því að hjálpa löggunni að finna út að það er saklaust, með aðstoð lögfræðings ef þurfa þykir og innan þeirra laga og reglna sem gilda um persónuhelgi og stöðu sakbornings. Það er að segja ef venjulegt fólk er saklaust.

Ef eigendur fyrirtækisins Samherja eru grunaðir um eitthvað misjafnt – þá verða þeir svakalega reiðir. Þeir bíða ekki eftir að rannsókn ljúki, hvað þá bjóða fram aðstoð við rannsóknina, heldur hefja fjölmiðlasókn gegn þeim yfirvöldum sem í hlut eiga – og taka venjulegt fólk í gíslingu til að sýna samfélaginu á Íslandi hver ræður í raun og veru.

Dótturfélagið í Þýskalandi ætlar samkvæmt nýrri tilkynningu að hætta hér með að selja afurðir sínar í gegnum íslensk sölufyrirtæki, hætta að sækja þjónustu á Íslandi eða landa þar úr skipum félagsins. Og fyrirtækið ætlar að segja upp samningi um afhendingu hráefnis til fiskvinnslunnar á Dalvík þar sem átti að landa 3.500 þorsktonnum á árinu. Að vísu óljóst hvað þetta kemur Seðlabankanum mikið við en vissulega talsvert högg fyrir fólkið á Dalvík og talsvert víðar.

Sannarlega karlar í krapinu. En eru þetta viðbrögð saklausra manna?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 1.4.2012 - 20:17 - 8 ummæli

Hollande, Bayrou, Joly

Kannski ekki beinlínis óvænt: Ef ég hefði kosningarétt í Frakklandi væri Hollande, frambjóðandi sósíalista, líklegasti kosturinn. Næstu menn væru –- nokkurnveginn í sömu fjarlægð – miðjumaðurinn Bayrou og græninginn Joly. Þetta er niðurstaðan úr spurningaprófi á vefnum hjá dagblaðinu Ouest-France. Sjálfur hefði ég kannski haldið að Mélenchon, frambjóðandi Vinstrifrontsins, stæði mér nær en Bayrou, en þótt við séum á svipuðum stað á öxlinum íhald-frjálslyndi er hann langt til vinstri við mig á efnahagsöxlinum.

Þar reyndist Árnason reyndar vera talsvert til hægri við franska sósíalistann en þó nær honum en miðjumanninum hinumegin vinstri-hægri-línunnar í efnahagsmálum. Kom mér aðeins á óvart … Eva Joly er hinsvegar til vinstri við Hollande og heldur frjálslyndari en við Hollande og Mélenchon.

Nokkurnveginn eins langt frá mér og hægt er, og í svipaðri fjarlægð, eru þau Marine Le Pen úr nýfasistaflokknum og Sarkozy forseti. Þar eru svör mín við spurningunum oftast nokkuð langt frá þeirra stefnu, en þó vorum við Marine sammála í þremur svörum um velferðar- og skattamál – og ég reyndist hafa sömu skoðun og Frakklandsforseti á ESB og evrunni!

Þetta er fyrst og fremst skemmtilegt en soldið að marka líka einsog sjá má. En það er líka talsverður munur á íslenskri pólitík og franskri – og svo kemur fyrir að maður skilur ekki alveg spurningarnar …

Prófiði sjálf hér –- það þarf ekki annað en kunna hrafl í frönsku. (– Og hægt að stilla líka á ensku, er réttilega bent á í athugasemdum.)

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 31.3.2012 - 13:33 - 9 ummæli

Meira myrkur!

Gott tækifæri í kvöld til að átta sig á myrkurgæðum og ljósmengun, stjörnuhimni og orkusóun – nú á að slökkva á jörðinni eina klukkustund, milli 20.30 og 21.30 meðan líður „stund jarðar“ – earth hour / jordens time / l’heure de la terre … um allan heim.

Borgin ætlar að slökkva á flestum götuljósum – sem vonandi verður gert í fleiri sveitarfélögum, og við erum hvött til að draga líka úr ljósum heima hjá okkur einsog hægt er. „Jarðarstundin er vitundarvakning í umhverfismálum þar sem bæði yfirvöld og borgarar í hverju landi hugsa um að hver og einn geti lagt sitt af mörkum til að efla virðingu gagnvart umhverfinu, sporna gegn sóun og temja sér nægjusemi við nýtingu auðlinda,“ segir á Reykjavíkurvefnum um þennan klukkutíma sem nú er vonast til að framkalli meira myrkur en nokkru sinni síðan 30. mars var tekinn frá fyrir þennan viðburð fyrir fimm árum. Það var víst í Sidneyborg beint fyrir neðan fæturna á okkur. Hálfu ári fyrr, 28. september 2006, var reyndar gerð myrkurtilraun í Reykjavík og slökkt á götuljósum einsog hægt var – þá sást að götuljósin eru engan veginn ein um að eyða myrkri í borginni, Þar hjálpast að stofnanir og fyritæki með mikla þarflitla flennilýsingu, kastljós að merkum byggingum sem lýsa upp miklu meira svæði en ætlunin var, og auðvitað við íbúarnir með allskyns ljósagang sem upp er komið í hálfgerðu hugsunarleysi. Reyndar er þetta líka hönnunarmál, því það skiptir verulegu máli að fólk geti átt kost á ljósum með skermum og takmörkun lýsingar á þokkalegu verði, til að lýsa upp það sem þarf að lýsa upp en ekki gjörvallt nágrenni sitt og jafnvel innum glugga hjá grönnunum.

Menn hrista ennþá hausinn yfir svona ræðum: Getur blessað fólkið ekki fundið uppá einhverju merkilegra að tala um? – en samt er um allan heim að vaxa skilningur á göllum við ljósmengun – óþarfri lýsingu sem skerðir myrkurgæði. Upphafið er hjá stjörnufræðingum og stjörnuáhugamönnum, sem sífellt hafa þurft að flýja lengra og lengra frá byggðum til að skoða næturhimininn. En sú sýn lokast líka venjulegu fólki og uppvaxandi kynslóðum. Á venjulegri skýlítilli nótt í Reykjavík sjást í mesta lagi nokkrir tugir af stjörnum. Vetrarbrautin er varla til nema sem uppsláttarorð í alfræðibókum. Og ferðamenn sem vilja skoða norðurljósin þurfa sífellt meiri akstur langt útfyrir höfuðborgarsvæðið.

Nú er komin af stað nefnd sem Svandís umhverfisráðherra var svo væn að skipa til að fara yfir myrkurgæði og ljósmengun – formaður er einmitt yðar einlægur. Við höfum fengið á okkur ýmislegt ágætt grín, nokkrar hnútur, en margir eru líka einlæglega glaðir að stjórnvöld skuli sýna málinu áhuga. Við ætlum okkur að kanna stöðuna á Íslandi, kynna okkur hvað er verið að gera best í öðrum löndum, og leggja fram ráð um aðgerðir hér og mælikvarða sem hægt sé að miða við hjá sveitarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum.

Jarðarstund einsog í kvöld getur vakið almennan áhuga á myrkurgæðum og yndi næturhiminsins – það þarf nefnilega myrkur til að njóta ljóss. Veðurspáin er að víu ekkert sérlega hagstæð hinum alstirnda næturhimni en slökkvum samt í kvöld. Í klukkutíma frá hálf-níu.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 30.3.2012 - 15:14 - 19 ummæli

„Nasty Party“

Sjálfstæðisflokknum tókst í gærkvöldið að koma í veg fyrir að umræðan um þjóðaratkvæðagreiðsluna kláraðist á réttum tíma. Engum kom á óvart að það gæti tekist, með málþófi þennan eina dag sem var til stefnu – spurningin var bara hvort þeir hefðu lyst á því að beita þessum brögðum gegn jafn-sjálfsögðum áformum, eða tækju kannski þátt í því með okkur hinum að móta réttu spurningarnar og koma stjórnarskrármálinu áfram í samtali við almenning í landinu.

Auðvitað féllu Sjálfstæðismenn fyrir freistingunni. Töluðu stanslaust í allan gærdag og komu í veg fyrir að málinu lyki á tilsettum tíma. Beðið var um fund þingflokksformanna þegar sýnt var að ræðuhöldum yrði að linna til að hægt væri að klára atkvæðagreiðslu fyrir miðnætti. Þar mætti Ragnheiður Elín Árnadóttir með uppáhaldsorðið sitt eitt í farangrinum: Nei.

Sjáum til — aðrar leiðir kunna að vera til að sama marki.

Það er athyglisvert að afgreiðslan stöðvaðist ekki á Framsóknarmönnum þrátt fyrir ýmsar athugasemdir frá fulltrúum þeirra í umræðunni og nefndarstarfinu. Það var að lokum Sjálfstæðisflokkurinn einn sem vildi ekki að landsmenn gætu tjáð sig um stjórnarskrárdrögin í kosningunum í júnílok – vildu heldur ekkert samráð um spurningarnar – nefndu aldrei annan hugsanlegan heppilegri tíma fyrir atkvæðagreiðsluna – í fullkomnu samræmi við andstöðu sína við stjórnarskrárvinnuna frá upphafi.

Í umræðunni um fiskveiðistjórn og veiðigjöld er það sama uppá teningnum. Sjálfstæðismenn hafa fengið línuna frá LÍÚ í gegnum Davíð og Moggann, og berjast á móti öllum breytingum sem færi okkur nær jafnrétti, atvinnufrelsi og skynsemi í sjávarútvegi og ráðstöfun sameiginlegra auðlinda. Það lýsir ágætlega grunnafstöðu flokksins að í báðum þessum málum hafa þeir hamast gegn hugtakinu þjóðareign – og hafa í því skyni grafið upp þrætubók sem upphafsmenn hennar úr lagadeildinni hafa sjálfir gefist upp á.

Þetta sýnir með öðru að Sjálfstæðisflokkurinn er að einangrast í íslenskum stjórnmálum. Hann neitar að takast á við mistök sín og hugmyndafræðilegar villur frá Davíðstímanum, og er hægt og hægt að færast enn lengra til hægri en árin fyrir hrun.

Reyndar ekki ólík þróun og hjá breska Íhaldsflokknum á árunum eftir valdaskeið T Margrétar Thatcher. Sá flokkur hafnaði því líka lengi að horfast í augu við arfleifð Thatcher-áranna, og reikaði lengi um í myrkviðum hægri-öfga undir forustu leiðtoga sem þeir vilja helst gleyma núna að hafi nokkurn tíma verið til. Það tók heil þrettán ár – og ótrúleg mistök Verkamannaflokksins – að ná aftur nægum trúnaði kjósenda til að komast aftur í stjórn, raunar samsteypustjórn með Frjálslyndum.

Á þessum tíma var Íhaldsflokkurinn í Bretlandi einmitt kallaður „the Nasty Party“. Það heiti á um þessar mundir ágætlega við Íhaldsflokkinn á Íslandi.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 27.3.2012 - 12:19 - 4 ummæli

Púertó Ríkó!

Sannarlega fróðlegt að heyra í Norðmönnum á fundi utanríkismálanefndar að segja frá stóru skýrslunni um reynslua af aðild Noregs að EES – núna í maí verða liðnir heilir tveir áratugir síðan samningarnir um Efnahagssvæði Evrópu voru undirritaðir í Óportó (sjá JBH hér í góðum hópi!) og þessir samningar hafa sannarlega reynst vel þeim þjóðum sem enn teljast Efta-megin borðs, okkur, Norðmönnum og Liechtensteinurum.

Ein af helstu niðurstöðum norsku skýrslunnar – sem er uppá níu hundruð síður – eru auðvitað að þrátt fyrir kosti EES-aðildarinnar séu Norðmenn í afar sérstakri stöðu gagnvart lögum og regluverki ESB. Þar kemur fram hinn frægi lýðræðishalli Eftaríkjanna, það verð sem þau þurfa að greiða fyrir að vera í senn innan Evrópusambandsins og utan. Taka við 75–80% allrar löggjafar Evrópusambandsins en hafa ekki sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar.

Kemur ekki á óvart hjá Norðmönnunum því þetta höfum við rætt um lengi hér – og vitum að lýðræðishallinn eykst í sífellu, því EES-samstarfið hefur orðið miklu nánara en gert var ráð fyrir í upphafi, og breytingar innan Evrópusambandsins einnig dregið úr möguleikum Eftaþjóðanna á áhrifum, svosem síaukin völd Evrópuþingsins.

Hafði hinsvegar ekki heyrt áður samlíkinguna sem Norðmenn fundu helsta í leit sinni að fordæmum um heiminn (nmgr. við kafla 13.1):

Det internasjonale eksemplet som i dag kanskje kommer nærmest er den tilknytningsformen som Puerto Rico har til USA, der man bl.a. overtar all føderal lovgivning, men ikke formelt er en del av USA og ikke har stemmerett.

Nefnilega Púertó Ríkó – sem ekkert hefur að segja um lagasetningu í Bandaríkjunum en tekur við öllum alríkislögum þeirra.

Manni bregður aðeins – þótt Púertó Ríkó sé sem betur fer ekki Ísland, hvað þá Noregur, og Bandaríkin sem betur fer ekki Evrópusambandið.

Ábendingin er holl. Til lengdar eru bara til tvær leiðir í spursmálinu um EES: Annaðhvort inn í Evrópusambandið reistu höfði og hafa þar þau áhrif sem hægt er og á þeim sviðum sem við þurfum, einsog við Evrópusinnar leggjum til – eða út úr öllu saman, sem enginn í íslenskri pólitík hefur ennþá verið nógu hugaður til að viðurkenna að hann vilji og ennþá síður nokkur svo djarfur að segja okkur hvar mundi enda.

Norska skýrslan hér: Öll á norsku, fyrsti kaflinn á ensku, yfirlit á íslensku.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 11.3.2012 - 10:02 - 9 ummæli

Ekkert hægt að gera

Elítuvitnin í Þjóðmenningarhúsinu segja frá því með hryggðarsvip að ekkert hafi verið hægt að gera sirka eftir 2006. Þar með sé fráleitt að Geir Hilmar Haarde hafi brugðist ráðherraskyldum sínum.

Og þarmeð séu þau sjálf, hvert og eitt, laus undan ábyrgð, að minnsta kosti eftir 2006 (nema aumingja Baldur …).

Af því nokkur þessara vitna eru forystumenn í Samfylkingunni er sérkennilegt fyrir okkur félagsmenn í þeim flokki að hafa samþykkt sérstaka afsökunarbeiðni í árslok 2010 þar sem hinu gagnstæða er haldið fram, með rót í rannsóknarskýrslu alþingis – nefnilega að ábyrgð Samfylkingarinnar í hruninu liggi í því að

þótt ekki hafi verið mögulegt að afstýra bankahruni eftir að Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn í maí 2007 hafi margt brugðist sem hefði mátt gera til að takmarka tjónið.

Vegna þessa bað Samfylkingin

íslensku þjóðina afsökunar á þeim mistökum sem hún ber ábyrgð á í aðdraganda hrunsins

– og hét bót og betrun, meðal annars með umbótum í eigin starfi. Nýsamþykktar siðareglur flokksins eru meðal annars til vitnis um að það fyrirheit var gefið í alvöru.

Afsökunarályktunin frá 4. desember 2010 var samþykkt eftir skýrslu umbótanefndar sem stofnuð var til að skoða flokkinn og hrunið. Þar er auðvitað byggt á rannsóknarskýrslu alþingis um ábyrgð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes á því að hafa ekki dregið úr afleiðingum bankakreppunnar sem verða mátti. Í ljósi vitnisburðanna í Þjóðmenningarhúsinu eru fróðlegir þessir kaflar í þessari skýrslu:

Samfylkingin sá … vanda bankanna í sama ljósi og samstarfsflokkurinn og var þrátt fyrir mikla sérfræðiráðgjöf og undirbúningsvinnu ekki fær um að greina á milli innri vanda og ímyndarvanda. Upplýsingar um raunverulega stöðu mála, þar á meðal viðvaranir sem komu fram með ýmsum hætti frá áramótum 2008, sem og gagnrýni erlendra sérfræðinga á bankakerfið féllu í grýttan jarðveg.

Samfylkingin átti sér sjálf sérfræðinga, sem meðal annars höfðu fyrir kosningar samið hagstjórnarstefnu flokksins í bæklingnum Jafnvægi og framfarir, en:

Samfylkingin nýtti ekki öflugustu sérfræðingana til að greina vandann, né var upplýsingum deilt með þeim hætti að þær nýttust til fulls eða að af þeim væri hægt að draga réttar ályktanir.

Samfylkingin brást 2007–2009, landsmönnum, kjósendum sínum og ekki síst sjálfri sér:

Þannig blasir við að Samfylkingin fylgdi ekki eftir eigin stefnu um fagmennsku og ábyrgð. Hún missti því af tækifærinu til að taka mark á og bregðast við þeim viðvörunum í efnahagsmálum sem lágu fyrir áður en stjórnarsamstarfið hófst og urðu stöðugt meiri og alvarlegri eftir því sem á leið. Hún missti líka af tækifærinu til að hefja með skýrum og áþreifanlegum hætti þá endurskoðun á starfsháttum stjórnsýslunnar og stjórnmálamanna sem hún þó hafði boðað.

Við höfum gert margt vel síðan í Samfylkingunni, reynt með verkum okkar við landstjórnina og í sveitarstjórnum að leggja nýjan grundvöll að almennri velsæld og siðlegu stjórnarfari. Innanflokks sömdum við umbótaskýrsluna og höfum stigið mörg góð skref við að bæta starfshætti og stefnuvinnu.

Stundum finnst manni samt að ýmsir foringjar okkar hafi eiginlega ekki mátt vera að því að læra af eigin þáttöku í hrunstjórninni. Og þarf þó ekki annað til en að lesa skýrslur sem flokkurinn lét skrifa, ályktanir sem við samþykktum sjálf.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 7.3.2012 - 18:06 - 15 ummæli

Ábyrgð

Auðvitað er gaman að vita hverjir mæta í Þjóðmenningarhúsið, og sjá fræga fólkið ganga inn og út í allskonar nýjum fötum, og sjá hvað sumir verða vandræðalegir að svara spurningum – og óvenjuskemmtilegir brandarar hjá Davíð um tengda aðila og bankastjórana sem tóku fimm milljarða fyrir að segja góðan daginn (Seðlabankastjórinn hefur vonandi fengið að heilsa nokkrum sinnum fyrir 300 milljarðana í ástarbréfunum) – en það er samt ekki það sem  landsdómsmálið snýst um, og þetta teater sem kannski hefði átt að vera í beinni útsendingu snýst heldur ekki fyrst og fremst um persónuna Geir Hilmar eða þá aðra sem koma þarna við sögu, og þetta snýst ekki einusinni um pólitík – – – heldur um ábyrgð.

Og hvað svo? Auðvitað er Geir eitthvað ábyrgur, segja margir, en gat hann nokkuð gert – voru þetta ekki Davíð og Halldór, og aðallega bankastjórarnir, en allra helst bara alþjóðlega fjármálakreppan? Og erum við ekki þar að auki öll ábyrg? sem kusum þessa pólitíkusa og klöppuðum fyrir bankaútrásinni og æptum Vi køber Parken! – og vorum líka gráðug og keyptum fermetra og flatskjái og þriðja bílinn?

Ábyrgð — þrjár gerðir

Í 8. bindi rannsóknarskýrslunnar, greinargerð sérhópsins  um „Siðferði og starfshætti …“ er reynt að svara einmitt þessari spurningu um ábyrgð. Þar er lögð áhersla á að þótt fjölmargir beri ábyrgð, og jafnvel hver fullorðinn Íslendingur sinn hluta ábyrgðarinnar, verði að greina að nokkrar gerðir af ábyrgð, sem hver um sig hefur sína sérstöku alvöru og kallar á sín sérstöku viðbrögð – frá hinum ábyrga og frá þeim sem hann hefur brugðist með því að gæta ekki ábyrgðar sinnar.

Þau Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir greina að þrjár gerðir ábyrgðar, sem mætti kalla verknaðarábyrgð, hlutverksábyrgð og félagslega samábyrgð.

Ábyrgð af verknaðinum

Þetta segir í skýrslunni um athafnarábyrgðina:

Í fyrsta lagi er réttmætt að draga einstakling til ábyrgðar fyrir tilteknar afleiðingar sem rekja má til athafna hans eða athafnaleysis. Meginskilyrðin sem þarf að uppfylla eru að einstaklingnum hafi verið sjálfrátt og hann hafi mátt vita hverjar afleiðingar athafnir hans eða athafnaleysi mundu hafa. Rannsókn á þessum þáttum getur skorið úr um sekt eða sakleysi viðkomandi, bæði í lagalegu og siðferðilegu tilliti. Þótt andvaraleysi og meðvirkni þorra almennings hafi átt sinn þátt í að skapa skilyrði fyrir því að þjóðfélagið þróaðist á þann veg sem það gerði, má ljóst vera að óbreyttir borgarar þessa lands hafa ekki gerst sekir um athafnir eða athafnaleysi sem tengja má beinlínis falli bankanna. Mál tiltekinna einstaklinga sem voru í lykilaðstöðu sem stjórnendur eða eigendur bankanna eru hins vegar í athugun hjá sérstökum saksóknara. Um sekt þeirra eða sakleysi verður skorið fyrir dómstólum. Siðferðilegt ámæli þeirra verður metið af almenningi í ljósi málavaxta.

Þetta eru auðvitað banksterarnir og fylgifiskar þeirra. Kannski líka hugmyndafræðingar nýfrjálshyggjunnar, þeir sem á undan fóru og stökktu vígðu vatni á hina nöktu gróðahyggju?

Hlutverk með ábyrgð 

Um hlutverksábyrgðina segir svo þetta hér:

Í öðru lagi er höfðað til ábyrgðar einstaklings í ljósi þeirrar stöðu sem hann gegnir eða hlutverks sem hann hefur. Spurning um ábyrgð snýst þá um það hversu vel eða illa viðkomandi hefur gegnt þeim skyldum sem fylgja stöðu hans eða hlutverki og hvort hann hefur staðið undir þeim væntingum sem réttmætt er að gera til hans í ljósi þeirra. Umræðan um ábyrgð í þessari skýrslu [snýst] að miklu leyti um þessa hlutverkabundnu ábyrgð. Spurt hefur verið hvort bankastjórnendur, regluverðir, endurskoðendur, eftirlitsaðilar, embættismenn, stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn hafi rækt eða vanrækt þær skyldur sem fylgja hlutverkum þeirra. Hér þarf ekki að vera bein tenging við tiltekna athöfn eða athafnaleysi heldur nægir í sumum tilvikum að vísa til þess að stjórnandi eða ráðherra eigi að sjá til þess að hlutirnir gangi eðlilega fyrir sig á tilteknu sviði – þeir eru „á hans vakt,“ eins og sagt er. Það liggur í hlutarins eðli að óbreyttir borgarar – allur almenningur – gegna engum hlutverkum sem koma sérstaklega til skoðunar þegar leitað er svara við því hverjir beri ábyrgð á hruni bankanna og tengdum efnahagsáföllum.

Helstu stjórnmálaforingjar við völd í aðdraganda hrunsins, a.m.k. frá einkavæðingu bankanna 2002–2003. Geir H. Haarde. Hinir þrír. Háembættismenn. Fjölmiðlamenn. Og líka einfaldir alþingismenn, jafnvel í stjórnarandstöðu. Hér er afsökunarbeiðni yðar einlægs í þessu hlutverki, frá 3. mars 2009.

Félagsleg samábyrgð

Og að lokum samábyrgð okkar allra – eða margra að minnsta kosti:

Hvað er þá átt við þegar sagt er að við berum öll ábyrgð á því sem gerðist? Ein leið til að átta sig á þessari hugsun er að skoða þriðju hugmyndina um ábyrgð, félagslega samábyrgð. Hér er horft til þess hvernig einstaklingar og hópar hafa stuðlað að því að viðhalda hugsunarhætti, hegðunarmynstri og verðmætamati sem býr í haginn fyrir tiltekna starfsemi. Dæmi sem stundum er tekið til að varpa ljósi á þetta er þegar borgarar vestrænna neyslusamfélaga kaupa fatnað sem er framleiddur í fátæku ríki af fólki, oft á barnsaldri, sem býr við illan aðbúnað og smánarlaun. Beint og óbeint njótum við góðs af vinnu þessara einstaklinga og stuðlum að gróða stórfyrirtækja sem notfæra sér neyð þeirra um leið og þau gera þeim kleift að sjá fjölskyldum sínum farborða. Hér er á ferð kerfisbundið ranglæti þar sem erfitt er að benda á einstaklingsábyrgð en langflestir stuðla þó að með því að njóta góðs af því með einum eða öðrum hætti.

Má yfirfæra þessa hugsun með einhverjum hætti á íslensku þjóðina í aðdraganda bankahrunsins? Vitaskuld eru aðstæðurnar gjörólíkar. Öfugt við dæmið um arðrænda fólkið í saumastofum stórfyrirtækjanna er það að miklu leyti sama fólkið sem naut góðs af  „góðærinu“ og beið skaða af hruninu. Hafa má að minnsta kosti tvennt til marks um samábyrgð íslensks almennings á þeim efnahagsáföllum sem hér hafa orðið. Í fyrra lagi það að Ísland er sjálfstætt lýðræðisríki og í lýðræðisríkjum bera borgararnir ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Bankarnir voru til að mynda einkavæddir, létt var á regluverkinu sem átti að veita þeim aðhald og kynt undir þenslu og vexti með margvíslegum efnahagsaðgerðum – allt var þetta gert í lýðræðislegu umboði almennra kjósenda. Stefnan fór ekki leynt og sá stjórnmálaflokkur sem leiddi þessar breytingar á íslensku fjármálaumhverfi naut mikils fylgis kjósenda. Eins og fram kemur í Viðauka II sem fylgir þessari skýrslu, sýndi til að mynda Gallup-könnun frá 2005 að 86% þjóðarinnar töldu að útrásin væri góð fyrir íslenskt atvinnulíf. Það segir sína sögu að 74% kjósenda Vinstri grænna, sem voru þó neikvæðastir þeirra sem svöruðu könnuninni, töldu að útrásin væri góð fyrir íslenskt atvinnulíf og einungis 7% þeirra álitu að útrásin væri beinlínis „slæm“ fyrir íslenskt atvinnulíf. …

Og ráð hópsins um siðferði og starfshætti til hinna samábyrgu eru meðal annars þessi:

Ætli þjóðin að draga uppbyggilega lærdóma af því sem gerst hefur er mikilvægt að hún horfist í augu við afleiðingar af framferði íslenskra bankamanna og vanrækslu stjórnvalda en leggist ekki í afneitun og sjálfsréttlætingu. Leiða má rök að því að eins konar ranghverfa hinnar útbelgdu sjálfsmyndar Íslendinga sem fram kom í ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins og fleiri skyldum plöggum hafi birst í eftirmálum hrunsins sem sú afstaða að vinaþjóðir okkar hafi brugðist. Slík fórnarlambshugsun er ógagnleg og hún felur í sér óraunsæja og skaðlega afstöðu til annarra þjóða. …

Sjá prýðilegt framhald bls. 230 og áfram.

Hver sinn ábyrgðarskammt – en við skulum hafna tilraunum til að koma ábyrgð af verknaði sínum eða vanræktu hlutverki yfir á aðra – jafnvel allan almenning – alla þjóðina – einsog mjög ber á í Þjóðmenningarhúsinu um þessar mundir.

 

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 6.3.2012 - 07:51 - 18 ummæli

Eftir á að hyggja …

Það sem heyrist af málinu gegn Geir H. Haarde gegnum luktar dyr – á þessari öld er varla hægt að kalla þetta annað – er aðallega: Nei, ég heyrði ekki, ég sá ekki, ég vissi ekki. Ég var bara forsætisráðherra.

Það er dómaranna að kveða upp úrskurð – en satt að segja var píslarvættisáran kringum Geir Hilmar orðin svo stæk að maður var búinn að gleyma helstu kennileitunum í hagstjórn þessarar ríkisstjórnar og þessa forsætisráðherra.

Maybe I should have. Eftir á að hyggja.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.2.2012 - 09:23 - 30 ummæli

Endurtekið eldsneytisefni

Athyglisvert frumvarp hjá Tryggva Þór Herbertssyni um verð á bensíni og olíu. Frábært ef það væri hægt að hafa Tryggva Þór bara á vaktinni að fylgjast með verðsveiflum á mörkuðunum og segja fyrir um hækkun og lækkun á allskyns vöru sem almenningur og fyrirtæki á Íslandi þurfa að kaupa. Þegar hann sér fyrir tímabundna hækkun lætur hann okkur vita, og við lækkum á vörunni allskyns skatta og gjöld, en hækkum aftur á móti þegar Tryggvi Þór telur að alþjóðamarkaðir séu að lækka verð að ósekju.

Tillagan um eldsneytislækkun 1. apríl fram að áramótum frá þeim Tryggva Þór, Árna Johnsen og fleiri Sjálfstæðisflokksmönnum á alþingi hefur að vísu ákveðna galla. Í fyrsta lagi kostar það ríkissjóð talsvert fé sem ekki er til, um það bil 13 milljarða er mér sagt, vægilega áætlað. Þessi upphæð mundi þá bætast við hallann á ríkissjóði, minnka bolmagn til að greiða niður skuldir (hrunið, muniði!) og þessvegna auka vaxtareikninginn á okkur sjálf og börnin okkar næstu ár og áratugi, = hærri skattar.

Svo er líka ákveðinn galli að ekki er hægt að treysta því alveg 100 prósent að bensín og dísilolía lækki aftur 1. janúar 2103. Tryggvi Þór segir okkur að vísu að verðhækkunin undanfarið sé bara tímabundin. Hún stafi annarsvegar af óróa í Arabíu og hinsvegar af óvenjulegum vetrarkuldum á meginlandi Evrópu. Og auðvitað er langlíklegast að þetta verði allt búið um næstu áramót. Einsog dæmin sanna:

Endurvinnsla góðra þingmála

Þessi sami Tryggvi Þór flutti á sama tíma í fyrra frumvarp sem var næstum alveg eins. Þá vildi hann líka lækka eldsneytisverð, frá 1. apríl til 31. desember 2011, með skattalækkun af því að hækkunin á mörkuðum væri tímabundin. Þá voru líka alveg sérstakar ástæður fyrir verðhækkun á bensíni og olíu á heimsmarkaði. Nefnilega ,,frelsisaldan sem nú fer um Norður-Afríku og Arabíuskagann“ sem hafði leitt til mikillar óvissu um þróun eldsneytisverðs í heiminum, en ekki síður ,,jarðskjálftinn mikli í Japan og kjarnorkuslysið sem varð í kjölfarið í Fukushima-kjarnorkuverinu“ sem leiddi — tímabundið sumsé — til ,,vantrúar á kjarnorku sem aftur eykur eftirspurn eftir öðrum orkugjöfum“.

Og auðvitað muna allir eftir bensín- og olíulækkuninni miklu þegar þessum tímabundnu vandræðum í Arabalöndunum og Japan lauk hinn 1. janúar 2012.

Enda hafði séð hana fyrir sjálfur Tryggvi Þór Herbertsson, fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde og enn áður bankastjóri stórfyrirtækisins Öskurkapítals.

 

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur