Föstudagur 4.2.2011 - 16:22 - 18 ummæli

Hver dó?

Hver dó?

Skrýtið að hitta menn úr Sjálfstæðisflokknum þessa daga í þinginu. Þeir eru þegjandalegir, líta til manns snöggt og grúfa sig strax aftur niður í þingskjölin eða kaffibollann, láta óvenjulítið á sér bera í nefndunum (þeir sem mæta þar á annað borð), tala í salnum einsog annars hugar af skyldurækni.

Það er varla maður þori að spyrja blessað fólkið hverju sæti – og sé það gert kemur í ljós að einn er að flýta sér á foreldrafund í skólanum hjá dóttur sinni og annar er nýkominn frá tannlækni og á ekki auðvelt með talanda, en samt finnur viðmælandinn að það er eitthvað sem þjakar, leitar útrásar undan farginu.

Svona einsog barn eftir að pabbi og mamma eru skilin – eða þá að menn hafa nýspurt lát nákomins ættingja.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.1.2011 - 18:03 - 6 ummæli

Vegtollum lítt fagnað

Eftir fund um vegaframkvæmdir og fjármögnun í nýja innanríkisráðuneytinu í dag sýnist mér ljóst að það þurfi að byrja uppá nýtt að skipuleggja stórframkvæmdir sem áður átti að fá lífeyrissjóðina með í og fjármagna með veggjöldum.

Lífeyrissjóðirnir eru hættir við – nema þá sem hugsanlegir lánveitendur með eins háum vöxtum og hægt er – og á fundinum í dag varð alveg skýrt að veggjöldin sem til stóð að setja á eiga ekkert skylt við framtíðarmússík um notendagjöld sem komi í staðinn fyrir skatta á bensín og olíu á nýjum og fögrum umhverfistímum. Þau eru miklu lengra undan.

Planið sem eftir stendur er einfaldlega að láta þá borga fyrir framkvæmdirnar – 29 milljarðar á Suður- og Vesturlandi, að höfuðborgarsvæðinu ógleymdu – sem aka vegina. Það verða engar hjáleiðir, og heldur enginn teljandi sparnaður við minni orkukaup og bílslit einsog er við Hvalfjarðargöngin – menn eiga bara að borga sérstaklega fyrir að keyra þessa vegi.

Á fundinum með ráðherranum voru sveitarstjórnarmenn og þingmenn í Suðurkjördæmi auk embættismanna – og svo þingmenn í samgöngunefnd alþingis. Tók eftir því að á þessum kynningar- og samráðsfundi var vesalingur minn eini kjörni fulltrúinn frá Reykjavík og nágrenni – auk Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Spurði reyndar út í þetta en fékk ekki svar.

Sveitarstjórnarmenn og þingmenn voru nánast á einu máli um að þetta gengi ekki svona. Ef það þyrfti að borga sérstaklega fyrir vegabætur á Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut hlyti að þurf að gæta jafnræðis – annaðhvort með öðruvísi fjármögnun, það er að segja öðrum sköttum, eða þá gjaldi á veganot alstaðar á landinu.

Þannig að nú þarf Ögmundur að hugsa sig um – sem var reyndar á móti öllu saman þegar hann var bara stjórnarandstöðuþingmaður.

Það þurf a forystumenn á SV-svæðinu líka að gera. Auðvitað stafar gríðarlegur kostnaður á blöðunum núna af því að þeir hafa látið etja sér út í miklar kröfur um vegabætur – mislæg gatnamót og tvöfalda vegi – þótt 2+1-vegir séu miklu ódýrari og næstum jafn-öruggir.

Og kannski er kominn tími til að kjörnir fulltrúar í Reykjavík og nærsveitum – bæði í bæjarstjórnunum og á þingi – fari að rumska?

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 1.12.2010 - 10:45 - 13 ummæli

Glæsilegt stjórnlagaþing

Þegar komin eru 25 andlit á stjórnlagaþingið breytist strax viðhorf til þess í samfélaginu – neikvæði nöldurtónninn víkur fyrir því sem okkur Íslendingum finnst skemmtilegast af öllu – að spá og spekúlera í náunganum!

Góður hópur, mestallt úrvalsfólk sýnist manni – og það spillir ekki fyrir að sjálfur „á“ ég eina sex þingmenn í hópnum, og fjórir-fimm í viðbót komu sterklega til greina. Sakna líka nokkurra, til dæmis Jóns Ólafssonar heimspekings sem var ofarlega á mínum seðli og þeirra Stefáns Gíslasonar og Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur … og auðvitað miklu fleiri. Þar á meðal er Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndagerðarmaður sem ég hlaut að kjósa í eitt af efstu sætum eftir að könnunin á DV.is tilkynnti að hann stæði mér næst í stjórnarskrárlegum málefnum. Við vorum 82% sammála. 🙂

Er þetta ekki að meirihluta til frjálslynt fólk mislangt til vinstri við miðju – einsog Íslendingar eru flestir þegar okkur tekst að hafa þokkalegt vald á ráði og rænu? Mér sýnast líka að þeir af hinum kjörnu sem má telja til hægri í almennri pólitík séu frekar vel heppnuð skynsemiseintök af því tagi, varla neinir öfgahægrimenn og lítið um hólmsteinunga. Gott úrtak úr þjóðinni.

Kynjahlutfall er innan marka þvert á hrakspár margra úr hópi kvennaforystukvenna sem hafa tamið sér undarlega óbeit á kosningum og persónuvali. Vel má finna að búsetudreifingu. Merkilegir stjórnmálaskýrendur, nú síðast hinn knái og síuppbyggilegi varaþingmaður Sigurður Kári Kristjánsson úr Reykjavík, telja að þar með sé búið að afgreiða stefnuna um landið allt eitt kjördæmi. Um það er annarsvegar að segja að þetta hreina persónukjör – gallað sem það var í ofurfjölda frambjóðenda – á lítið skylt við þingkosningar þar sem menn eru kosnir eftir almennri afstöðu í pólitík í einhverskonar flokkum, hvernig sem kjördæmakerfi er háttað. Á hinn bóginn skal fúslega viðurkennt að við áróðursmenn um einskjördæmiskjör höfum ekki útfært þá hugmynd með til dæmis persónukjörsmöguleikum þannig að einstakir kjósendahópar, meðal annars ýmsir héraðsmenn, eigi kost á að sameinast um „sinn“ frambjóðanda á lista stjórnmálasamtaka. Þetta hefur staðið nokkra hríð uppá okkur – en kannski sér stjórnlagaþingið um málið?

Það er líka skrýtið tuð sem strax kemur upp um þessa 25 að þar sé alltof mikið af þjóðþekktu fólki. Við hverju bjuggust menn eiginlega? Að það yrðu kosnir á stjórnlagaþingið 25 frambjóðendur sem enginn þekkir? Hér er samt líka galli í kosningakerfinu sem þarf að skoða: Það miðast við að kjósandi velji fyrst og fremst einn fulltrúa, og svo næsta og þarnæsta til vara. Mér sýnist eðlilegra að hafa kosningakerfi sem miðast við að hver kjósandi velji hóp manna á svona samkomu.

Kannski hefði verið best að hafa kerfið sem notað var með ágætum árangri í Alþýðubandalaginu sáluga – þar var kosið í miðstjórn og álíka stofnanir með krossum en hægt að setja tvöfalt vægi á þrjá frambjóðendur og þrefalt vægi á aðra þrjá. Þetta var bæði lýðræðislegt og tiltölulega einfalt kerfi sem tryggði að einstakir hópar kjósenda – menn úr kjördæmum, ungliðar, fólk úr verkalýðshreyfingunni, uppreisnarmenn gegn ráðandi flokksöflum – gátu komið sínum mönnum að. Hér má auðvitað hafa þá mótbáru að þetta hafi ekki dugað flokknum til langlífis – en því skal svarað þannig að flokkurinn gaf upp öndina þrátt fyrir sitt ágæta kjörkerfi en ekki þess vegna.

Hvað sem líður almennri ánægju með úrslit kosninganna til stjórnlagaþings dregur kjörsóknin úr vægi þess – það er ósanngjarnt en óhjákvæmilegt. Þá skiptir miklu að þingmennirnir nýju vinni vel saman, forðist fjas og reyni að ná fljótt samstöðu um grundvallaratriði máls. Það verður náttúrlega snúið – því slík samstaða má heldur ekki byggjast á lægsta samnefnara í viðhorfum þannig að sá ráði sem hægast vill fara. Nýja þingið er kosið til að ná árangri.

Ef eitthvað er að marka yfirlit DV í dag um viðhorf hinna nýkjörnu í könnuninni um daginn – þá er engu að kvíða.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 29.11.2010 - 09:25 - 37 ummæli

83.708 Íslendingar gegn Gunnari Helga

Í miðjum kliði og spuna um klúður og klandur í kosningum til stjórnlagaþings er gott að velta fyrir sér tölunni 83.708 – sem segir til um kjósendur í kjörinu á laugardaginn. Þetta er fjöldinn sem setur stjórnlagaþingið af stað: 83.708 Íslendingar, hvað sem prósenturnar segja. Og ef menn vilja í talnaleik er þetta til dæmis uppundir tvöföld atkvæðatala Sjálfstæðisflokksins í síðustu alþingiskosningum (44.369).

Vissulega veldur kjörsóknin vonbrigðum. Það veldur ekki síður vonbrigðum að bestu menn, í fjölmiðlum og háskólum, skuli gera sér leik að því að tala kosninguna niður – og taka þar með þátt í pólitískum áróðri sem hefur verið beitt gegn þessari lýðræðis- og umbótatilraun frá því í hruninu.

Hvaða fræði eru til dæmis á bakvið þá upphrópun stjórnmálafræðiprófessorsins Gunnars Helga Kristinssonar að hér sé komin versta kjörsókn í 100 ár? Hafa stjórnlagaþingskosningar verið haldnar svo oft á tímanum frá 1910 að þangað sé að leita þessa góða samanburðar? Nei, þetta eru víst tölur úr alþingiskosningum! En hér voru allsekki alþingiskosningar, heldur algert nýmæli. Aðrir hafa bent á að svipuð kjörsókn og á laugardag sé algeng í Evrópuþingskosningum ESB-ríkjanna, og enn aðrir talið að samanburðar við kjörið á laugardaginn sé miklu heldur að leita í þjóðaratkvæðagreiðslum þar sem þær eru algengar en í þingkosningum þar sem þaulvanar flokkasveitir takast á með fúlgum fjár. En 100 ára samanburð Gunnars Helga gripu andstæðingar stjórnlagaþingsins meðal Sjálfstæðismanna strax á lofti og byrjuðu svo (Sigurður Kári fremstur í foraðinu) að spinna úr kjörsóknartölunum sérstakan ósigur Jóhönnu Sigurðardóttur!

Þessir sömu Sjálfstæðismenn sátu hjá eða greiddu atkvæði gegn lögunum um stjórnlagaþingið á alþingi í fyrra. Þeir báru í staðinn fram tillögu um að þingið kysi nefnd til að ráðgast um breytingar á stjórnarskránni. Frumlegt. Í nefndinni áttu að vera níu menn.

Og hvor stofnunin ætli hafi nú meira almannaumboð – þessir 9 sem 63 áttu að kjósa, eða þau 25–31 sem 83.708 Íslendingar hafa nú kosið?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 28.11.2010 - 09:19 - 13 ummæli

Stjórnlagaþingið: Vandi og vegsemd

Kjörsókn ekki nema 40% – það veldur auðvitað vonbrigðum. Hún er talsvert minni en í Icesave-atkvæðagreiðslunni í mars (63%), heldur meiri en í flugvallaratkvæðagreiðslunni í Reykjavík 2001 (37%). Kjörsóknin minni reyndar mjög á tölur í flestum Evrópusambandsríkjum þegar þar er kosið til Evrópuþingsins (http://en.wikipedia.org/wiki/European_Parliament_election,_2009, „results“ – næstsíðasta dálki), og kannski er það einmitt sambærilegt. Þær kosningar snerta almennig ekki á sama hátt og þingkosningareða grenndarkosningar heimafyrir, með þeim afleiðingum að þátttakendur eru sá sirka tæpur helmingur þjóðarinnar sem hefur áhuga á þjóðmálum, eða telur það þess virði að fara á kjörstað – þetta má orða með ýmsum hætti, en einhverhendi slík skil virðast vera fyrir hendi.

Vonbrigði auðvitað, að minnsta kosti fyrir okkur sem vonuðumst til að stjórnlagaþingið gæti orðið tilefni verulegrar umræðu um grunngildi og grundvallarskipun í samfélaginu, og áfangi í pólitísku og sálrænu ferli úr taugaáfallinu til nýrrar samstöðu og velsældar. Eða voru þetta bara frasar?

Þá er að svipast um eftir ástæðum, og ein er augljós án þess við neinn sé sosum að sakast: Það var ákveðið að leggja ekki stein í götu frambjóðenda þannig að allir lysthafar kæmust að í algjöru persónukjöri sem átti að vera svo lýðræðislegt að frambjóðendur þyrftu nánast enga peninga til að kynna sig eða auglýsa. Þeir urðu svo á sjötta hundrað, alltof margir til að kjósendur næðu yfirsýn, alltof margir til að fjölmiðlar ættu nokkurn möguleika á að bregða kastljósi á þá alla, líka alltof margir til að milli þeirra skapaðist nokkur umræða eða aðþar kviknaði málefnaafstaða sem vekti áhuga og drægi að atkvæið. En hvað átti að gera?Hafa listakosningu? Einmenningskjördæmi? Heimta marga meðmælendur? Hátt framboðsgjald? Auglýsingafrelsi?

Aðra ástæðu má finna í afstöðu Sjálfstæðisflokksins, einkum Moggaklíkunnar, til kosninganna. Davíð og félagar hömuðust gegn tóku þessari lýðræðistilraun, og því miður tóku ýmsir aðrir miðlar undir og fluttu einkumum hana neikvæðar fréttir sem hröktu kjósendur frá þátttöku – þetta væri svo flókið og svo ómerkilegt og frambjóðendur svo margir og vitlausir. Langflestir fjölmiðlarnir tóku svo þá stefnu að hleypa ekki að neinum frambjóðendum, notuðu til þess hlutlægnisrök en létu í rauninni stjórnast af leti – í skársta falli – í stað þess að þora að velja með einhverjum hætti (Ríkisútvarpið hefði sannarlega átt erfiðara með þetta en hinir).

Og svona mætti halda áfram. Ein ástæðan er líka sú að stjórnarskrárhugleiðingarnar færa okkur núna enga bráðalausn á niðurskurðarvanda, húsnæðisskuldum eða Icesave-klandri. Því þá að kjósa? hugsa sumir. Önnur kannski að það hafi verið misskilningur að alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn á „hefðbundnum“ stjórnmálavettvangi héldu sig nánast alveg fjarri umræðu, stuðningi eða annarskonar þátttöku. Því má ekki gleyma að 75–90% kjörsókn í kosningum til þings og sveitarstjórna, og forseta, fæst með löngu og kostnaðarsömu starfi flokka og frambjóðenda sem höfða til allskyns markhópa með þeirri kunnáttu og færni sem til verður og upp safnast í slíku starfi. Algengasti áróðurinn í slíkum kosningum eru svo andlitin á frambjóðendunum – sem núna sáust varla!

Þetta er til að læra af, og fyrir stjórnmálafræðingana að skrifa um. Það gæt reyndar orðið merkileg skrif því að ýmsir stjórnmálafræðinganna – öðrum fremur sá ágæti Melaprófessor Gunnar Helgi Kristinsson – hafa notað hvert tækifæri einmitt til að draga úr áhuga og kosningaþátttöku með neikvæðu suði og tuði um framkvæmd kosninganna og skipulag.

Vandi og vegsemd

Á hinn bóginn er 40% þátttaka nægileg til að gefa stjórnlagaþinginu fullt gildi – það hefur ótvírætt umboð til sinna verka þótt um helmingur kjósenda hafi falið hinum helmingnum að kjósa stjórnlagaþingmenninna. Hinir kjörnu – sem við þekkjum enn ekki þegar þetta er skrifað – eiga að ganga reistu höfði inn í sinn þingsal og taka þar til óspilltra mála þvert á úrdráttarraddir þvergirðinga og hæðnishróp úr Hádegismelum.

Verkið verður þó erfiðara fyrir bragðið. Stjórnlagaþingið þarf að finna fljótt hinn gullna meðalveg milli ýmiskonar öfga og dellu, og það verður að temja sér bæði öguð vinnubrögð og hæfilegan starfsstíl (öfugt við alþingi blessað). Kjörsóknin á líka að verða stjórnlagaþingmönnunumhvati til að ná almennilegri niðurstöðu með sem breiðastri samstöðu, sem verður veruleg kúnst í öllu havaríinu.

Þannig gæti nýja þingið markað þáttaskil í íslandssögunni hvað sem líður kjörsóknarprósentum gærdagsins.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 31.10.2010 - 09:54 - 13 ummæli

Lobbíisti snýr hjólum

Eftir að áláhugamenn á Suðurnesjum réðu vel tengdan lobbíista, Runólf Ágústsson, til starfa við að koma upp Helguvíkurálveri eru hjólin aldeilis farin að snúast – að minnsta kosti í fjölmiðlum. Á Stöð tvö í fyrrakvöld snerust hjólin til dæmis einkar hratt í Helguvík. Fréttastjórinn Kristján Már Unnarsson, sem hefur lagt feikilega rækt við stóriðjugeirann í starfi sínu, sagði fréttir af því að nú væru hjólin farin að snúast hraðar í Helguvík eftir nokkurt hlé. Eftir kynningu fréttastjórans kom frétt frá fréttamanninum Kristjáni Má Unnarssyni um aðalfund Vinnumálastofnunar. Þar hélt erindi forstjóri Norðurorku, Ragnar Guðmundsson, og var sagt lítillega frá því. Fram kom að Norðurál hefur ákveðið að stefna að fjórðungi minna álveri en áður, sem gerir allt auðveldara. Sem betur fer engar frekari spurningar um þá áætlun. Og svo ræddi Kristján Már við formann stjórnar Vinnumálastofnunar, þann sem hafði boðið Ragnari forstjóra að halda erindið. Og það var einmitt Runólfur Ágústsson, sá sami og gegnir störfum lobbíista fyrir Helguvíkurálverið. Runólfur sagði allt gott, og taldi að nú væru hjólin einmitt að fara að snúast í Helguvík.

Nú mundi einhver dóninn auðvitað spyrja hver hafi borgað Runólfi þessum fyrir að halda aðalfund Vinnumálastofnunar með þeim KMU og Ragnari. Því er til að svara að þegar lobbíisti selur sig, þá selur hann ekki bara vinnu sína og hæfileika heldur umfram allt félagstengsl sín, sambönd öll og þrýstingsmöguleika – í þessu tilviki sem formaður stjórnar Vinnumálastofnunar. 2007 lengi lifi!

Það skiptir svo litlu máli fyrir þá Ragnar, KMU og Runólf Ágústsson að engu er ennþá svarað um orkuöflun fyrir álverið – þannig að drepið sé á smávægilegan þátt þessara langvinnu draumfara suður með sjó. Fréttir af orku úr áður fyrirhugaðri Hverahlíðarvirkjun eru þær að Orkuveitan er hætt við og komin í viðræður við aðra.

Skiptir litlu. Hjólin snúast samt hjá hinum stórhuga lobbíista, og hjá hinum ágætu vinnuveitendum formanns stjórnar Vinnumálastofnunar.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.10.2010 - 14:37 - 42 ummæli

Fáfræði, fordómar og andleg örbirgð

Kannski kominn tími til að menn fái að lesa þennan svakalega texta frá hinu svokallaða mannréttindaráði Reykjavíkurborgar sem nú dreifir yfir borgarbúa og landslýð allan skefjalausum fordómum sínum og andúð á trú, sér í lagi kristni og þjóðkirkju, og vegur að rótum trúar, siðar og hefðar á miklum háskatímum þegar gott samfélag, holl gildi og gott líf eru í hættu.

Hér eru drögin sem nefndin hefur sent út til umsagnar:

Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að ýmsum réttindamálum á vegum Reykjavíkurborgar. Réttindum innflytjenda hefur verið sinnt af alúð meðal annars í samstarfi við félagasamtök. Verulegur árangur hefur náðst á sviði kynjajafnréttis og réttindi samkynhneigðra hafa færst til hins betra með aukinni fræðslu. Þess hefur jafnframt verið gætt í starfi borgarinnar að fólki sé ekki  mismunað vegna efnahagsstöðu, stjórnmálaskoðanna eða fötlunar.

Mannréttindaráð Reykjavíkur telur að beina þurfi sjónum að einum málaflokki til viðbótar, en það er málaflokkur trúar- og lífsskoðana. Fjölmörg kvörtunarefni foreldra í leik- og grunnskólum eru vegna slíkra mála og margar kvartanir  hafa borist Mannréttindaskrifstofunni. Einnig hafa starfsmenn þessara stofnana óskað eftir skýrum leiðbeiningum borgarinnar. Það er hlutverk Reykjavíkurborgar að sjá til þess að réttur allra sé tryggður.

Árið 2007 sendi Leikskóla- og Menntasvið Reykjavíkur frá sér skýrslu um samstarf kirkju og skóla. Starfshópurinn sem vann skýrsluna setti fram ákveðnar niðurstöður. Þrátt fyrir að þær hafi legið fyrir í nokkur ár er enn verulegur ágreiningur um þessi mál sem fer vaxandi ár frá ári. Mannréttindaráð Reykjavíkur vill því beina eftirfarandi atriðum til sviða og stofnana borgarinnar:

*   Fermingarfræðsla Þjóðkirkjunnar og annarra trú- eða lífsskoðunarfélaga skal fara fram utan skólatíma. Undanfarin ár hefur skólastarf í öllum skólum farið úr skorðum í a.m.k. 2 daga á hverju hausti vegna þessa. Slík truflun á skólastarfi er óæskileg auk þess sem hætta er á að börn sem eftir verða telji sig útundan.

*   Heimsóknir starfsmanna trúar- og lífsskoðunarfélaga á frístundaheimili, í leik- og grunnskóla, auglýsingar eða kynningar á starfi þeirra í þessum stofnunum sem og dreifing á öðru trúarlegu efni er ekki heimil í starfi barna á vegum Reykjavíkurborgar. Þar með er talin dreifing trúarrita s.s. Nýja testamentis, Kóransins, auglýsingabæklinga og annars kynningarefnis.

*   Samþætting húsnæðis og starfsemi stofnana sem vinna með börn á vegum Reykjavíkurborgar og starfsemi trúar- og lífsskoðunarhópa verður ekki heimil á skólatíma.

*   Ferðir í bænahús trúar- og lífsskoðunarfélaga, bænahald, sálmasöngur og listsköpun í trúarlegum tilgangi er hluti af trúaruppeldi foreldra en ekki hlutverk starfsmanna borgarinnar. Slík starfsemi á ekki  heima í starfi með börnum í opinberum skólum. Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma frístundaheimila og leik- og grunnskóla. Þess skal sérstaklega getið að ekki er verið að hrófla við öðrum jólaundirbúningi leik- og grunnskóla.

*   Því er beint til stofnana borgarinnar sem hafa starfandi áfallaráð að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- eða lífsskoðunarfélaga.

Til grundvallar þessum ákvörðunum er sá vilji Reykjavíkurborgar að tryggja rétt foreldra til að ala börn sín í þeirri trúar- og lífsskoðun sem þeir kjósa  og tryggja þar með trúfrelsi þeirra. Foreldrar eiga að geta treyst því að börn þeirra verði ekki fyrir trúarlegri innrætingu í starfsemi borgarinnar. Með því vinna starfsmenn Reykjavíkurborgar samkvæmt mannréttindastefnu hennar og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 22.10.2010 - 08:05 - 21 ummæli

Ekki dissa stjórnlagaþingið

Mjög merkilegur viðburður í Íslandsögunni: Stjórnlagaþing – í fyrsta sinn frá Vér-mótmælum-allir-þinginu í sal Lærða skólans sumarið 1851, uppsprottið í búsáhaldabyltingunni góðu, fjallar um grundvöll samfélagsskipunar á Íslandi, verkefni sem margar kynslóðir alþingismanna hafa heykst á að ljúka, kosið úr þjóðardjúpinu með aðferðum alveg gagnstæðum því sem okkur þykja ekki hafa heppnast, svar við stjórnmálakreppunni sem menn eru loksins farnir að skilja að hér geisar …

 – og samt gengur á með dissi og drullukasti.

Auðvitað er íhaldið á móti stjórnlagaþinginu, var á móti frá upphafi, er á móti núna, verður alltaf. Bandalag sérhagsmunanna að baki Sjálfstæðisflokknum vill ekki missa völdin á Íslandi, og forsvarsmenn þess standa skjálfandi á taugum frammi fyrir stjórnlagaþinginu alveg einsog vinstristjórninni í landinu og gjörbreyttum viðhorfum almennings eftir hrun. Þetta vissu allir.

En aðrir göfugir skynsamir velmeinandi framfarasinnaðir landar: Hættið öllu þusi – hér er meiriháttar tækifæri sem á að grípa fagnandi.

Nú á að þykja fáránlegt að svona margir skuli bjóða sig fram – en er það ekki þvert á móti merki um almennan áhuga á samfélagsmálunum? Vinnufúsar hendur hvarvetna í samfélaginu að finna lausnir sem við þurfum? Menn kvarta yfir að landsþekktir menn eigi meiri tækifæri en aðrir – og vissulega vildi maður þekkja fleiri af frambjóðendunum fimmhundruð. En ekki hvað? Eru ekki kosningar yfirleitt þannig að fólk kýs frekar þá sem það þekkir en þá sem það þekkir ekki? Ég hef ekki frekar en aðrir séð lista yfir alla frambjóðendur og kynningu á þeim – hlakka til – en er strax kominn með svona 5–10 frambjóðendur sem mér líst vel á, og ekkert endilega af því þeir séu sömu skoðunar innbyrðis, hvað þá að maður ætlist til að þeir hafi nákvæmlega manns eigin viðhorf til allra hluta. Þetta á fyrst og fremst að vera góður hópur, íslenskt úrvalslið.

Næsta frétt er auðvitað að þetta sé svo svakalega dýrt – en ef hér næst árangur má þingið alveg kosta nokkurt fé. Það sparar okkur ærinn vanda síðar. Hefur einhver annars reiknað út hvað allar stjórnarskrárnefndirnar með fínu köllunum hafa kostað í sextíu ár?

Og kosningakerfið er svo flókið … Segir þjóðin sem hefur gripið hvert einasta gaddsjett í heiminum báðum höndum í hundrað ár og hefur ekki af öðru meira gaman en að verða fullnuma í nýjustu torfærubíla- / tölvukerfa- / fjórhjóls- / farsíma- / fótanudds- / heilsuræktarstöðva- / naglalakksþurrkara- / stjórnunarskóla- / handknattleiksmótakerfa- / verðbréfamarkaðsbréfa- / kynlífstækja-/ Icesaveflækjuskjala- / bílskúrshurðafjarstýringa-fræðum! Eitt lítið kosningakerfi? sem er svo eftir alltsaman sáraeinfalt. Frambjóðandinn hefur númer (númer muniði? einsog nafnnúmer og kennitala, einsog stendur aftan á leikmönnum í fótbolta? einsog PIN-númerin fjöldamörgu?) sem maður finnur alstaðar á listum, til dæmis í kjörklefanum, og skrifar svo á seðil með 25 þartilgerðum eyðum á kjörseðilinn. Svo er talið – og aldrei þessu vant þannig að öll atkvæði skipta máli – og allt atkvæði hvers kjósanda skiptir líka máli, meira að segja hvern hann valdi númer 25.

Svo koma á stjórnlagaþingið þessir 25 til 31 (tillit til kynjaskiptingar, athugið, 35 árum eftir kvennaverkfallið mikla). Og þar snýst líklega til góðs það sem margir töldu mikinn galla við skipulag þingsins, að það er ráðgefandi að forminu til en alþingi setur að lokum lögin sem þjóðin kýs svo um: Af því að þá ríður á að stjórnlagaþingmennirnir nái sem breiðastri samstöðu um úrbæturnar. Ef stjórnlagaþingið er einhuga, þá hefur það sterka stöðu gagnvart alþingi – þessvegna verður þetta hvatning til að skiptast ekki í fjölmargar deildir með þrasi og dellumakeríi.

Þetta verður spennandi – og við eigum að styðja þessa lýðræðistilraun, ekki tala hana niður og blanda saman við það leiðinlega bölv og ragn og svartagallsraus sem nú ber hæst í þjóðfélagsumræðu á landinu bláa.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 20.10.2010 - 18:57 - 37 ummæli

Skólinn er sameiginlegur

Leikskólarnir, grunnskólarnir, framhaldsskólarnir flestir og háskólarnir – við eigum þetta öll saman, og einmitt það að skólarnir eru sameiginlegir á ekki minnstan þátt í því að íslenskt samfélag er þó jafn-manneskjulegt og það er.

Í sumu munar okkur, til dæmis í stjórnmálum, lífsskoðun, trúmálum. Þessvegna skiljum við þann ágreining eftir utan skóladyranna en leggjum sameiginlegan grunn að skilningi á þessum fyrirbærum með fræðslu um samfélag, heimspeki, trúarbrögð.

Samfélag nútímans er öðruvísi en einleitt Ísland fyrri alda og þarf ekki að fara langt aftur í tímann eftir verulegum breytingum. Samt er það svo að kirkjuleg ásókn í skólastarf er miklu meiri núna en fyrir nokkrum áratugum – kannski vegna stefnubreytingar hjá kirkjunni sem að sínu leyti væru viðbrögð við þeim breyttu tímum að ekki er lengur sjálfsagt að allir séu evangelísk-lúterskir.

Þegar loksins á að virða borgaralegt eðli skólanna í höfuðborginni rís upp mikil sveit sem telur að með því eigi að eyðileggja jólin og rústa Jesú Kristi – og sumir heimta að nú skuli meirihlutinn ráða. Það er ekki merkilegur lýðræðisskilningur.

Auðvitað er kristin kenning veigamikill partur af menningararfleifð Íslendinga, og það er sjálfsagt að biblíusögur af ýmsu tagi skipi heiðurssess í trúarbragðafræðslu í sameiginlegu skólunum okkar – þar sem nemendur hljóta þó að þjóðlegum hætti að byrja á Þór, Óðni og Freyju – en trúboð og guðsþjónusta einstakra kirkjudeilda á einfaldlega heima annarstaðar í borginni en í skólunum. Sama hvort það eru mormónar, múslimar eða þjóðkirkjumenn.

Þið hafið á réttu að standa, kjörnir fulltrúar í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Ekki gefast upp!

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 19.10.2010 - 11:29 - 12 ummæli

Ráðuneytið sem ekkert veit

Það hafa verið talsverðar umræður undanfarna mánuði um þátt útlendinga í íslensku atvinnulífi – hversu mikill hann sé í einstökum greinum, hversu æskilegur í þessari grein og hinni, hvar eigi að setja mörkin. Þetta kom meðal annars upp í sumar kringum kínverskan eignarhlut í sjávarútvegsfyrirtæki, og sjávarútvegsráðherra var að sjálfsögðu einn af þeim sem tjáði sig, taldi óhæfu að Kínverjar ættu mjög mikið í útgerð á Íslandi. Ég er honum alveg sammála, að minnsta kosti þangað til við afnemum gjafakvótakerfið.

Þegar við vorum að ræða þetta nokkrir félagar barst talið að þætti Íslendinga í atvinnulífi erlendis, ekki síst í sjávarútvegi, og þá kviknaði þessi fyrirspurn á þingi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:

1. Hvað eiga íslenskir einstaklingar og lögaðilar mikið í erlendum sjávarútvegsfyrirtækjum? Hver eru fyrirtækin, hvar starfa þau, hver er hlutur Íslendinga í þeim, hvenær eignaðist íslenski aðilinn fyrst hlut í fyrirtækinu og hvers virði er heildarhlutur Íslendinga í fyrirtækjunum talinn?

2. Hver eru tuttugu umsvifamestu fyrirtækin að fjórðungi eða meira í eigu Íslendinga (velta) og hverjir eru tuttugu helstu eigendur erlendra sjávarútvegsfyrirtækja hérlendis (miðað við veltu fyrirtækis og hlut)?

Fyrirspurnin var lögð fram 6. október og aðeins tólf dögum síðar kom svarið, skýrt og skorinort:

Ráðuneytið hefur engar upplýsingar um efni fyrirspurnarinnar og ber ekki að lögum að safna slíkum upplýsingum og getur því ekki svarað fyrirspurninni.

Örugglega rétt hjá ráðuneytinu, þótt ég hafi reyndar spurt ráðherrann en ekki skrifstofu ráðherrans. Kannski hefur ráðuneytið heldur engan áhuga á svona upplýsingum?

Einhver hlýtur samt að vita þetta í stjórnkerfinu – og í því trausti sendi ég boltann áfram á næsta mann, og legg í dag fram samhljóða fyrirspurn til efnahags- og viðskiptaráðherra.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur