Kjörsókn ekki nema 40% – það veldur auðvitað vonbrigðum. Hún er talsvert minni en í Icesave-atkvæðagreiðslunni í mars (63%), heldur meiri en í flugvallaratkvæðagreiðslunni í Reykjavík 2001 (37%). Kjörsóknin minni reyndar mjög á tölur í flestum Evrópusambandsríkjum þegar þar er kosið til Evrópuþingsins (http://en.wikipedia.org/wiki/European_Parliament_election,_2009, „results“ – næstsíðasta dálki), og kannski er það einmitt sambærilegt. Þær kosningar snerta almennig ekki á sama hátt og þingkosningareða grenndarkosningar heimafyrir, með þeim afleiðingum að þátttakendur eru sá sirka tæpur helmingur þjóðarinnar sem hefur áhuga á þjóðmálum, eða telur það þess virði að fara á kjörstað – þetta má orða með ýmsum hætti, en einhverhendi slík skil virðast vera fyrir hendi.
Vonbrigði auðvitað, að minnsta kosti fyrir okkur sem vonuðumst til að stjórnlagaþingið gæti orðið tilefni verulegrar umræðu um grunngildi og grundvallarskipun í samfélaginu, og áfangi í pólitísku og sálrænu ferli úr taugaáfallinu til nýrrar samstöðu og velsældar. Eða voru þetta bara frasar?
Þá er að svipast um eftir ástæðum, og ein er augljós án þess við neinn sé sosum að sakast: Það var ákveðið að leggja ekki stein í götu frambjóðenda þannig að allir lysthafar kæmust að í algjöru persónukjöri sem átti að vera svo lýðræðislegt að frambjóðendur þyrftu nánast enga peninga til að kynna sig eða auglýsa. Þeir urðu svo á sjötta hundrað, alltof margir til að kjósendur næðu yfirsýn, alltof margir til að fjölmiðlar ættu nokkurn möguleika á að bregða kastljósi á þá alla, líka alltof margir til að milli þeirra skapaðist nokkur umræða eða aðþar kviknaði málefnaafstaða sem vekti áhuga og drægi að atkvæið. En hvað átti að gera?Hafa listakosningu? Einmenningskjördæmi? Heimta marga meðmælendur? Hátt framboðsgjald? Auglýsingafrelsi?
Aðra ástæðu má finna í afstöðu Sjálfstæðisflokksins, einkum Moggaklíkunnar, til kosninganna. Davíð og félagar hömuðust gegn tóku þessari lýðræðistilraun, og því miður tóku ýmsir aðrir miðlar undir og fluttu einkumum hana neikvæðar fréttir sem hröktu kjósendur frá þátttöku – þetta væri svo flókið og svo ómerkilegt og frambjóðendur svo margir og vitlausir. Langflestir fjölmiðlarnir tóku svo þá stefnu að hleypa ekki að neinum frambjóðendum, notuðu til þess hlutlægnisrök en létu í rauninni stjórnast af leti – í skársta falli – í stað þess að þora að velja með einhverjum hætti (Ríkisútvarpið hefði sannarlega átt erfiðara með þetta en hinir).
Og svona mætti halda áfram. Ein ástæðan er líka sú að stjórnarskrárhugleiðingarnar færa okkur núna enga bráðalausn á niðurskurðarvanda, húsnæðisskuldum eða Icesave-klandri. Því þá að kjósa? hugsa sumir. Önnur kannski að það hafi verið misskilningur að alþingismenn og aðrir stjórnmálamenn á „hefðbundnum“ stjórnmálavettvangi héldu sig nánast alveg fjarri umræðu, stuðningi eða annarskonar þátttöku. Því má ekki gleyma að 75–90% kjörsókn í kosningum til þings og sveitarstjórna, og forseta, fæst með löngu og kostnaðarsömu starfi flokka og frambjóðenda sem höfða til allskyns markhópa með þeirri kunnáttu og færni sem til verður og upp safnast í slíku starfi. Algengasti áróðurinn í slíkum kosningum eru svo andlitin á frambjóðendunum – sem núna sáust varla!
Þetta er til að læra af, og fyrir stjórnmálafræðingana að skrifa um. Það gæt reyndar orðið merkileg skrif því að ýmsir stjórnmálafræðinganna – öðrum fremur sá ágæti Melaprófessor Gunnar Helgi Kristinsson – hafa notað hvert tækifæri einmitt til að draga úr áhuga og kosningaþátttöku með neikvæðu suði og tuði um framkvæmd kosninganna og skipulag.
Vandi og vegsemd
Á hinn bóginn er 40% þátttaka nægileg til að gefa stjórnlagaþinginu fullt gildi – það hefur ótvírætt umboð til sinna verka þótt um helmingur kjósenda hafi falið hinum helmingnum að kjósa stjórnlagaþingmenninna. Hinir kjörnu – sem við þekkjum enn ekki þegar þetta er skrifað – eiga að ganga reistu höfði inn í sinn þingsal og taka þar til óspilltra mála þvert á úrdráttarraddir þvergirðinga og hæðnishróp úr Hádegismelum.
Verkið verður þó erfiðara fyrir bragðið. Stjórnlagaþingið þarf að finna fljótt hinn gullna meðalveg milli ýmiskonar öfga og dellu, og það verður að temja sér bæði öguð vinnubrögð og hæfilegan starfsstíl (öfugt við alþingi blessað). Kjörsóknin á líka að verða stjórnlagaþingmönnunumhvati til að ná almennilegri niðurstöðu með sem breiðastri samstöðu, sem verður veruleg kúnst í öllu havaríinu.
Þannig gæti nýja þingið markað þáttaskil í íslandssögunni hvað sem líður kjörsóknarprósentum gærdagsins.