Mánudagur 14.6.2010 - 08:45 - 14 ummæli

Vatnið – furðuleg staða

Deilan um vatnalögin snýst um grundvallarmál – hvort auðlindir landsins eigi að vera sameign þjóðarinnar eða einkaeign útvalinna. Á þeim forsendum var um þau háð mikil og erfið orusta á alþingi árin 2005 og 2006, sem lauk með því að meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks samþykkti lögin en við fengum fram frestun á gildistökunni fram yfir næstu kosningar.

Nú standa málin þannig að nýtt lagafrumvarp er ekki tilbúið – veit ekki af hverju – en Sjálfstæðisflokkurinn stendur þver gegn því að hin lögin séu numin úr gildi. Það mundi skapa einkaeignarrétt á vatni þvert á vilja mikils meirihluta þjóðarinnar og stefnu stjórnarflokkanna.

Mér heyrast forystumennirnir vera að tala um að fresta gildistökunni aftur, reyndar í þriðja sinn. Það er ekki gott – meðal annars vegna þess að enginn veit hvað ríkisstjórnin lifir lengi, en þó skárra en að lögin taki gildi, sem væri fullkomlega fáránlegt í samstjórn þeirra flokka sem einmitt tókst að standa vörð um fornan rétt í málinu.

Í pósthólfinu sé ég að þetta finnst fleirum — og það styrkir okkur í að ganga frá þessu á síðustu dægrum þingsins.  

Skil annars ekki af hverju í ósköpunum stjórnarmeirihlutinn hefur málað sig svona út í horn með því að semja um þinglok á einhverjum tilteknum tíma fyrir þjóðhátíðardaginn. Kannski er fólk bara  orðið þreytt? En samfélagið er enn í sárum eftir hrunið og algerlega eðlilegt að alþingismenn séu við störf þangað til þeir hafa lokið sínum verkum – þar á meðal þeim að ákveða um vatnalögin með tilheyrandi umræðum. Ekki stendur á mér – á töluvert á lager frá fyrri umræðu um vatnalög — og er ekki á leiðinni eitt né neitt í sumar.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.6.2010 - 16:05 - 4 ummæli

Pollýanna á aðalfundi

Hitti Pollýönnu á aðalfundi Græna netsins – hún þakkaði mér fyrir formennsku í því góða félagi í þrjú ár og fagnaði kjöri Dofra Hermannssonar – Polla hefur alltaf umgengist mig af ákveðinni varfærni en er beinlínis skotin í Dofra og var heldur dauf eftir prófkjörið í vetur. Mig grunar hún hafi kosið Besta.

Polla kom reyndar aðallega á Sólon að hlusta á Vilhjálm Þorsteinsson tala um orkustefnuna sem töluverð nefnd á vegum Kötu Júl er i þann mund að skila af sér – og hún var ánægð með Vilhjálm:

„Þetta er alvöru,“ sagði Pollýanna, „þarna er farið í gegnum þessi orkumál frá öllum sjónarhornum, ekki bara orkufyrirtækjanna og stóriðjunnar – og ekki bara með einhverri hippaspeki. Þegar þessi vinna er komin í gott plagg geta ríkisstjórnin og þið á þinginu – ertu ekki nýdottinn þangað inn aftur? – haft eitthvað að miða við til framtíðar í staðinn fyrir upphrópanir og þras um eina og eina virkjun.“

Ég samsinnti þessu – því mér líkuðu ágætlega vinnubrögðin hjá nefndinni og framsetning Vilhjálms – held reyndar upp á þá bræður alla: Gallinn er bara sá, Polla mín, að orkufyrirtækin eru ekkert með í þessu og eiga eftir að draga lappirnar endalaust – þau eru ríki í ríkinu sem enginn ræður við.

Það kom svipur á Pollýönnu: „Alltaf sami tónninn í ykkur þessu umhverfisliði! Auðvitað er brekka eftir í þessu – allt full af brekkum. En sérðu ekki hvað hefur gerst á bara fáum árum: Orkustefnan hérna í dag hjá Vilhjálmi prúða. VG og Samfylkingin ná saman um Rammaáætlunarfrumvarpið sem er komið inn í þingið þótt það verði ekki afgreitt fyrren í haust. Landskipulagið inni í skipulagsfrumvarpinu og verður samþykkt næsta vetur. Gott fólk að endurskoða alla náttúruverndarlöggjöfina einsog þið eruð búin að vera að kalla eftir árum saman. Og allt á fullu við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum eftir mikla vinnu í tveimur merkilegum skýrslum núna síðustu árin. Enda hafa þrír umhverfisráðherrar síðustu verið grænir: Kolbrún, Þórunn og Svandís. Og sumt af þessu er nánast einsog þið pöntuðuð það í Fagra Íslandi fyrir bara nokkrum árum.“

M: – Já, það er rétt, kæra Pollí – en þú heyrðir í Sigmundi jarðfræðingi: Það þýðir lítið að skrifa og samþykkja orkustefnu ef það á að klára nánast alla orku á Suður- og Suðvesturlandi í Helguvíkurálverið, og svo í næsta bita alla orku á Norður- og Norðausturlandi í þessa dellu á Bakka.

„Auðvitað ekki,“ segir Poll-Poll, „en hér er vinstristjórn! Fariði bara á fullt að skapa aðstæður fyrir öðruvísi atvinnulíf! Er ekki Vilhjálmur einmitt stjórnarformaður í Verne? Og Dofri framkvæmdastjóri í sprotaátakinu?“

M: – Við erum að reyna. En það vill enginn bíða. Störf strax, alveg sama hvernig og hvað þau kosta. Sjáðu Árna Sigfússon. Sjö menn í Keflavík. Allt út á taumlaus loforð um stóriðju og orkufyllirí.“

„Árni er úr járni og segir poi-oi-ong. Sunguði það ekki hérna um árið i Reykjavíkurlistanum? Þið eigið bara að hætta að mikla fyrir ykkur allan vanda og spila ykkur alltaf einsog fórnarlömb. Það er ekkert skemmtilegt að horfa upp á Kárahnjúka, eða kolefnishlutfallið, eða til dæmis villtan akstur utan vega, eða umgengnina um dýraríkið á sjó og landi – en græna hreyfingin hefur samt verið að vinna stöðuga sigra allt frá því náttúruvernd varð til í pólitíkinni kringum  1970. Og aldrei einsog núna á síðustu misserum – það er stórsókn í gangi og ótrúleg færi, bara ef menn geta rifið sig upp úr gamalli sjálfsmeðaumkun og minnimáttarhugarfari. Unga liðið stendur með ykkur, og landsbyggðin er líka að koma, af því þar eru menn að venja sig á ferðaþjónustu og menntun og náttúrlega framleiðslu og hættir að trúa á þrjúhundruð ára gömul iðnbyltingarfræði. Meira að segja Gísli Marteinn er orðinn grænn – hvernig heldurðu að Hannesi Hólmsteini líði?“

Við fáum okkur annan kaffibolla – ég venjulegt svart, Pollýanna auðvitað latté og trúir mér fyrir því að núna ætli hún að halda með Argentínumönnum á HM. „Þetta eru einu alvöru-karlmennirnir eftir í heiminum, geta bæði spilað fótbolta og dansað tangó,“ segir Polla með glampa í augunum. Ég tauta eitthvað um Ribery og Govou … en Pollýanna lætur sem vind um eyru þjóta, slær hendinni út og brosir: Messi …, hallar svo aðeins dreymin undir flatt og viðurkennir fúslega að hún hafi samt alltaf verið langveikust fyrir Diego Armando: – Já, drengurinn er breyskur og með kjaft, og svo er það kókið og konurnar – en hann er bara snillingur, þessi elska … og svo kemur hann alltaf aftur …

– Svona eigiði einmitt að hugsa, þið í þessum grænu netum: Aldrei gefast upp.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 10.6.2010 - 08:27 - 19 ummæli

Alvöru-stjórnlagaþing

Sérstakt stjórnlagaþing, þjóðkjörið á svig við flokkakerfið, án þátttöku ráðherra og þingmanna, með öll þau völd sem unnt er að veita því – þetta er ein af sjálfsögðum umbótaaðgerðum eftir hrun og búsáhaldabyltingu, tilraun til að skjóta nýjum grundvelli undir samfélagið – skapa Nýja Ísland.

Að þetta margumtalaða þinghald skuli ekki ennþá vera á hreinu – skýrir kannski að hluta til útreiðina sem listar hefðbundinna framboða fengu í kosningunum um daginn.

Sjálfstæðisflokkurinn er skíthræddur við stjórnlagaþing og berst gegn því með öllum ráðum. Þarna gæti eitthvað gerst – sem klíkubandalagið í Sjálfstæðisflokknum næði ekki að kontrólera, annaðhvort í krafti auðs og valda eða þá með hótunum og málþófsruðningi gegn veiklunduðum meirihluta á alþingi.

Hugmyndin um úrtaks-þjóðfund er alveg ágæt sé sá fundur liður í undirbúningi og almennri umræðu fyrir sjálft stjórnlagaþingið. Úr slíkum fundi kæmu eflaust ýmsar hugmyndir og tillögur – en fyrst og fremst mundi fundarhaldið líklega verða til tákns um að þjóðin öll tekur þátt í þessari endursköpun með margvíslegum hætti.

Hugmyndavinnan er nefnilega óvenjulega langt komin um nýja stjórnarskrá. Það er búið að ræða þau mál, skrifa um þau og setja þau inn í stefnuskrár almannasamtaka og stjórnmálaflokka í ein 66 ár – þannig að aðeins sé tekinn tíminn frá lýðveldisstofnun. Áður hafði langtímum saman farið fram stjórnarskrárumræða á Íslandi, nánast samfellt allt frá því á fyrrihluta 19. aldar.

Það sem núna liggur fyrir er að vinna úr þessum hugmyndum og tillögum, læra af mistökum undangenginna ára og áratuga, og smíða stjórnskipulag sem hentar nýjum tímum.

Tillagan sem Mogginn kynnir í dag úr Sjálfstæðisflokknum um þjóðfund í staðinn fyrir stjórnlagaþing – er eingöngu sett fram til að slátra stjórnlagaþinginu  og sjá til þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aftur undirtökin um stjórnskipulag þjóðarinnar – í félagi við afturhaldsmenn og værukæra hugdeyfingja annarstaðar í flokkakerfinu.

Stjórnarmeirihlutinn sem ég er hluti af samþykkir auðvitað stjórnlagaþing hvað sem líður undanbrögðum og villuljósum Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin sem ég styð fellst auðvitað ekki á tillögu um að síðdegiskaffi í Laugardalshöll og enn ein sérfræðinganefndin komi í staðinn fyrir þjóðkjörna samkomu um stjórnskipunina með völd við hæfi þeirra atburða sem við lifum lengi enn í skugga þeirra.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 1.6.2010 - 14:18 - 32 ummæli

Besti kosturinn

Samstjórn Besta og Samfylkingarinnar er klárlega langbesti kosturinn í Reykjavík – ég vona að meirihlutamyndun gangi fljótt og vel.

Nei, það er rétt. Við vitum ekki mikið um stefnumál Besta flokksins. Mér hefur samt heyrst að hann sé almennt hlynntur velferðarþjónustunni og vilji að fólk hafi vinnu. Á báðum þessum sviðum hefur Samfylkingin reynslu og áætlanir. Samfylkingin í borginni – og á undan henni Reykjavíkurlistinn  – hefur svo verið döpur annarstaðar þar sem Besti gæti bætt stöðuna: Í skipulagsmálum einkum og tilfinningu fyrir samhengi og sögu í byggðinni. Nú eru verktakarnir flestir farnir á hausinn þannig að það er kannski hægt að fara að hlusta á fólkið og fagmennina.

Já, það er rétt. Það verður skrýtið í nokkra daga að Jón Gnarr sé allt í einu orðinn borgarstjóri. En er þar úr svo háum söðli að detta? Gnarrinn er vís til að brillera í þessu, vantar að minnsta kosti ekki tilfinningu fyrir grasrótinni í borginni og veit vel hvað fólk flest er að hugsa. Það sýnir einfaldlega árangurinn á laugardaginn.

Svo hafa menn talað um aðra á Æ-listanum sem einhverja vitleysingahjörð – en það er mikill misskilningur. Þar er samankomið hvert talentið af öðru, framkvæmdamenn, stjórnendur, hugsuðir og skipuleggjendur, þaulvant samningafólk með fingurgómsnæmi á tíðaranda og almannatengsl.

Spurningin er ekki um hæfnina heldur hvort þau koma sér saman og hvort þau standa saman þegar gefur á bátinn – en þá er að muna að mörg koma þau úr veröld tónlistarinnar og leiklistarinnar þar sem einstaklingsframtakið er lítils virði nema samleikurinn sé þéttur.

Þetta getur orðið fínn borgarstjórnarmeirihluti – ég spái pólitískri frjósemi næstu misserin í höfuðborginni. Fyrir minn leiðtoga í borginni, Dag B. Eggertsson, er þetta nýtt tækifæri til að skapa í stjórnmálum. Grunar að að hann sé ekki jafn-búinn á því og maður les um á blogginu þessa daga. En auðvitað þurfa ungir menn stundum að uppgötva að heimurinn er eftir allt saman heldur meiri en kálfskinn hálft.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.5.2010 - 18:23 - 35 ummæli

Verstu úrslit sögunnar

Áður en við í Samfylkingunni förum að tala um hrunið, aðstæðurnar, mannskapinn, frammistöðuna og aðra flokka er ágætt að gera sér grein fyrir því að úrslitin í Reykjavík eru ekki bara verstu heldur langverstu úrslitin í framboðssögu flokksins í höfuðborginni rúman áratug. Þetta lítur svona út:

þing 1999   19.153 atkv.    29,0%   5  þm.

þing 2003   25.396 atkv.   34,3%   8  þm.

borg 2006  17.750  atkv.   27,4%   4  bftr.

þing 2007  20.481  atkv.   28,7%   8  þm.

þing 2009  23.231  atkv.    31,7%   8  þm.

borg 2010  11.344  atkv.    19,1%   3  bftr.

Meðalfylgi S-listanna í kosningunum 1999–2009 er 30,2%. Miðað við það tapar S-listinn nú 11,1% – rúmum þriðjungi. Pollýanna mundi svo segja að S-listinn héldi tæplega tveimur þriðju.

Þetta verður enn sárara þegar haft er í huga að fyrir utan úrslitin í fyrra hafa Samfylkingarmenn aldrei talið niðurstöðuna sérlega góða í Reykjavík og alltaf talið sig eiga meira inni. Líka þegar við fengum uppundir 35 prósent vorið 2003.  En nú er kannski kominn tími til að horfast í augu við raunveruleikann.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 30.5.2010 - 07:31 - 9 ummæli

Og hjartað brann

Ömurlegt að horfa upp taparana í nótt – forustumenn hefðbundnu flokkanna: Stórsókn Hönnu Birnu, traustsyfirlýsing hins endurnýjaða Sigmundar Davíðs, ofsalega ósanngjarnt fyrir VG, og svo Dagur sem hélt sínu og vel það í glæstum varnarsigri rétt áður en fjórði maðurinn rann líka út í sandinn.

Þetta er ekki leiðin til að læra af því sem fram fór í gær – þar sem kjósendur kusu einmitt gegn svona aðferðum og talsmáta og vinnubrögðum: Ég er gull og gersemi, þið skituð á ykkur í hittifyrra, þúsund sinnum sterkari hvað sem þú segir.

Eina sem tók úrslitunum af alvöru var Jóhanna.

Hinir spunnu og spunnu þótt ekkert væri efnið í klæðin: Bjarni spann og Dagur spann og Grímur spann og Hulda spann og hjartað brann og aldrei fann hún unnustann.

Óska Besta og Fólkinu á Akureyri til hamingju – Einari Erni og Óttari í Ham og öllum hinum nýju stjórnmálamönnunum. Nú þarf að vanda sig. Og er farinn með Ferðó og Landvernd á Reykjanestá að skoða náttúru og virkjanaspjöll.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 12.5.2010 - 10:10 - 45 ummæli

Mig líka, Ásta

„Það er grundvallarregla í réttarríki að þeir sem hafa gerst sekir um refsiverða háttsemi sæti ákæru og séu beittir lögmæltum viðurlögum.“

Sammála Ástu R. Jóhannesdóttur, forseta alþingis. Alveg rétt að sá sem bítur í annars eyra eða sparkar í hnéskel náungans þurfi að svara fyrir það, borga bætur og sektir, jafnvel dúsa í fangelsi ef málsatvik eru talin þess eðlis í dómsúrskurði – sama hvert tilefnið kann að vera.

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður spyr hinsvegar ekki nógu vel. Aðalmálið í kærunni gegn nímenningunum er ekki að þeir þurfi að standa fyrir máli sínu og verkum – heldur hver ástæða var til að kæra þá fyrir að ráðast á alþingi samkvæmt 100. grein hegningarlaga, „svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin“ (hér). Við því liggur liggur fangelsi ekki skemur en eitt ár, og má vera ævilangt ef sakir teljast miklar.

Undan þessari ákvörðun – sem skrifstofustjóri alþingis bað um að tekin yrði – getur forseti alþingis ekki skotið sér með því að skrifstofustjóranum beri „sjálfstæð skylda“ til að gæta öryggis á vinnustað sínum. Beiðnin um að kæra fólkið samkvæmt greininni um árás á alþingi á ekkert skylt við öryggi – hún er pólitísk, og er augljóslega ætlað að vara almenning við mótmælum í framtíðinni.

Strax og forseti alþingis heyrði af þessari beiðni – hafi hún ekki beinlínis verið borin undir hann – átti forsetinn að láta saksóknara vita um eigin afstöðu til málsins. Úr því það var ekki gert er eðlilegt að svo sé litið á að forseti alþingis sé sammála skrifstofustjóranum og saksóknaranum – og beri beina pólitíska ábyrgð á því að málaferlunum getur lokið með löngum fangelsisdómum yfir nímenningunum vegna árásar á alþingi. Í fyrsta sinn síðan 1949.

Það er óþolandi að Samfylkingin taki þátt í þessum leik. Og þyngra en tárum taki fyrir okkur félaga og samstarfsmenn Ástu Ragnheiðar að sjá hana gengna í þessi björg.

Ég hef skrifað undir áskorunina sem nú er á leiðinni til yfirvalda vegna máls nímenninganna, þótt þarmeð sé ekki tekið undir hvert stóryrði í textanum. Þeir sem skrifa undir telja sig jafnseka í „árásinni“ og hina níu sem nú koma fyrir rétt.

Kærðu mig líka, Ásta!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.5.2010 - 07:18 - 28 ummæli

Ég er enginn nasisti …

Ég er er rosalega sár yfir að þetta skítablað skuli ljúga því að ég hafi heilsað með nasistakveðju þarna um nóttina á barnum.

Ég er enginn fokking nasisti!

Ég er bara venjulegur Íslendingur með ameríska kynþáttafordóma.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 3.5.2010 - 12:50 - 17 ummæli

Því miður, kæri Már

Þú hefur staðið þig frábærlega hingað til, góði seðlabankastjóri, og átt örugglega eftir að gera enn betur. Þegar þú tókst við starfinu voru hinsvegar tiltekin launakjör í boði – í meginatriðum taxti forsætisráðherra – á þeim kjörum réðstu þig til starfa á Íslandi og hjá Íslandi.

Við höfum því miður ekki efni á að hækka launin þín. Enda engin stórkostleg ástæða til.

Stundum verður bara að hlusta á Kennedy: Ekki spurja hvað landið þitt geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir landið þitt. Maður með milljón á mánuði hefur að minnsta kosti alveg efni á því.

Svo máttu heldur ekki gera okkur í Samfylkingunni það að þurfa að fleygja fulltrúum okkar út úr stjórn Seðlabankans, þeim Láru V. Júlíusdóttur lögfræðingi og hinum kunna athafnamanni Birni Herberti Guðbjörnssyni. Nóg er nú samt með ýmislegt forystufé þessa dagana.

Flokkar: Óflokkað

Laugardagur 1.5.2010 - 10:20 - 28 ummæli

Útgjöld í prófkjöri

Ég hef ekki skipt mér undanfarnar vikur af umræðu um styrki til prófkjörsþátttakenda – fyrsti varamaður S-listans í Reykjavík norður er nánast vanhæfur í þessu máli hvað sem honum kann að sýnast.

Mér finnst hinsvegar rétt að endurbirta hér gamla greinargerð af þáverandi bloggsíðu minni — af því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir segir í Fréttablaðinu í dag að hún hafi „líklega ein frambjóðenda“ birt opinberlega „öll útgjöld“. Þetta er eftir prófkjörið fyrir alþingiskosningarnar 2007, sem fram fór í nóvember 2006. Ég varð númer 7 í prófkjörinu, næstur á eftir Ástu R. Jóhannesdóttur, næstur á undan Steinunni Valdísi. Hér er þetta, frá 14. nóvember 2006:

Kostnaður minn við prófkjörið var um 2 milljónir króna, og stóðst áætlun. Prentun, hönnun og útsending efnis nemur tæpum tveimur þriðju upphæðarinnar en um þriðjungur fjárins rann til auglýsinga. Enginn kostnaður við fundi eða veitingar. Hér er nánari sundurliðun:

Þátttökugjald: 40.000 kr.
Prentun:* 477.086 kr.
Útsendingarkostnaður:** 393.360 kr.
Auglýsingar´ 640.425
Ljósmyndun o.fl.: 70.000 kr.
Hönnun:´´ 332.415 kr.

Samtals: 1.953.286 kr.

* Þrír prentgripir: Bókarkorn með stökum, blöðungur með ,skýrslu‘, einskonar nafnspjald.
** Límmiðar, sendibíll, póstburðargjöld, hlutdeild í kostnaði við samsendingu frambjóðenda.
´ Í Útvarpinu, Morgunblaðinu, Blaðinu, Breiðholtsblaðinu og Vesturbæjarblaðinu.
´´Hönnun prentefnis og auglýsinga, breytingar á vefsíðu.

Þetta er að mestu leyti eigið fé en ég þakka fjölskyldu og vinum einnig fyrir framlög og annarskonar stuðning. Hæsta framlag nam 100.00 krónum. Engir styrkir voru sóttir til fyrirtækja eða auðmanna.

Ég nota tækifærið og þakka hinum smekkvísu fagmönnum sem unnu fyrir mig, Spessa ljósmyndara, hönnuðunum Þorvari og Jóni Óskari (stökurnar) Hafsteinssonum, Prentmetsmönnum og öðrum.

Svo kemur spjall um úrslitin og að lokum þessi yfirlýsing:

Tel að við í Samfylkingunni eigum núna að skoða vandlega þessi prófkjörsmál, ekki síst kostnaðarþáttinn.

Sjá hér.

Styrkur frá auðmanni

Ég leitaði ekki eftir neinum styrkjum frá óvandabundnu fólki í þessu prófkjöri, heldur ekki prófkjörinu í fyrravor. Einusinni var það samt – ég fékk fyrir prófkjörið 2003 styrk frá Björgólfi Guðmundssyni, þá aðaleiganda Eddu þar sem ég starfaði. Það voru 200 þúsund krónur. Ég er Björgólfi þakklátur fyrir þetta framlag, sem skipti máli við prófkjörsútgjöldin. Því fylgdu auðvitað engin skilyrði og við Björgólfur erum held ég ennþá ágætir kunningjar þótt ég hafi ekki séð hann lengi – ekki heldur á KR-vellinum. Mér fannst hinsvegar ekki þægilegt að hafa fengið þetta fé frá áhrifamiklum viðskiptajöfri sem þá var að hefja gríðarleg umsvif með ýmiskonar samskiptum við ríkisvaldið. Meðal annars þessvegna ákvað ég að fara ekki framar slíkar leiðir í prófkjörsbaráttu.

Og þá er sagt það sem nú þurfti að segja.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur