Fimmtudagur 7.5.2009 - 14:40 - 16 ummæli

En af hverju aðrar kosningar?

Það étur hver upp eftir öðrum að þing og ríkisstjórn sitji ekki út kjörtímabilið af því að það þurfi kosningar til að ganga í Evrópusambandið. Ef við ákveðum að sækja um þá verði kosningar eftir ár eða tvö – en ekki ef sú ákvörðun dettur niður milli stóla.

Þetta sé staðan eftir að Sjálfstæðisflokkurinn kom með málþófi í veg fyrir að gamla þingið, og núna það nýja, gæti samþykkt stjórnarskrárbreytinguna um hvernig á að breyta stjórnarskránni. Nú þarf tvær samþykktir á þinginu með kosningum á milli en þessu átti að breyta yfir í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu sem þingið hefði samþykkt.

Allir eru sammála um að það sé illur kostur að ganga inn án stjórnarskrárbreytingar sem heimili að Íslendingar deili hluta fullveldis síns í yfir- (eða öllu heldur sam-) -þjóðlegum stofnunum. Það höfum við að vísu þegar gert með EES-samningnum og samstarfi um mannréttindamál án stjórnarskrárbreytinga, en auðvitað er aðild að Evrópusambandinu þvílíkt skref að ekki má leika neinn vafi á því gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins. Og ef við næðum nú samningum við ESB eftir ár eða tvö þá þarf að breyta stjórnarskránni.

Menn sjá þetta yfirleitt fyrir sér sirka svona:

1. Ákveðið að sækja um aðild, núna í sumar (maí, júní).

2. Samningur liggur fyrir. Segjum í apríl næsta vor – Eiríkur Bergmann telur í nýrri grein að hann gæti legið fyrir innan árs frá umsókn ef allt gengur vel.

3. Stjórnarskrárbreytingar samþykktar á alþingi í maí 2010.

4. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB og þingkosningar haustið 2010 (saman eða sitt í hvoru lagi).

5. Ef þjóðin vill aðild taka stjórnarskrárbreytingar gildi við samþykkt á nýju þingi, haustið 2010.

6. Samningar eru undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum (sjá grein Eiríks), gæti tekið hálft til eitt ár.

7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu við hátíðlega athöfn á Hrafnseyri við Arnarfjörð á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní árið 2011.

8. Við fáum evruna eftir tveggja ára veru í hreinsunareldinum, ERM II, og nokkur misseri í viðbót við að ná Maastricht-skilyrðunum um litla verðbólgu, lága vexti, góða stöðu ríkissjóðs og þokkalegt gengi. Hátíðleg evruathöfn á Þingvöllum á 70 ára afmæli lýðveldisins, 17. júní 2014.

Eða þannig.

Hver var tilgangurinn?

ESB leysir ekki öll okkar mál, sögðum ég og félagar mínir í kosningabaráttunni (tja, sumir sögðu það reyndar …) – en það er heldur engin lausn til án ESB.

Það er eðlilegt og afar íslenskt að vilja fara strax þangað sem maður ákveður að fara – en aðal-segullinn við Brussel núna er þó fyrst og fremst tvíeinn: Evran sjálf og svo sá efnahagslegi álitsauki sem okkur yrði að því að tilkynna ákvörðun um aðild að ESB og evru.

Ljóst er að evran kemur ekki fyrren að loknum löngum ferli – sjá til að mynda grein Eiríks. Fiffið við evruna í núverandi stöðu var heldur ekki að fá hana heldur að allir vissu að hún er að koma. Að komast í skjól af evrunni frá núverandi berangri – að bæði innlendir og erlendir handhafar krónu og ýmissa bréfa sem henni tengjast viti að þessi gjaldmiðill fer ekki á áramótabrennu heldur breytist að lokum í evrur. Traust vex, trúverðugleiki eykst. Hjálpar okkur upp.

En til þess þurfum við ekki endilega að vera gengin í Evrópusambandið. Við þurfum fyrst og fremst að vera á leiðinni þangað. Ef samningar nást um greiða för okkar í myntsamstarfið, og hugsanleg sérstök ERM-tengsl þar sem vikmörk lækkuðu kerfisbundið í takt við árangur íslenska hagkerfisins – þá er engin sérstök ástæða til að fara í kosningar á miðju kjörtímabili, að minnsta kosti ekki meðan þokkalega gengur hjá ríkisstjórninni og þingmeirihluta hennar.

Í staðinn situr vinstristjórnin góða út kjörtímabilið og ferillinn verður svona:

1. Ákveðið í sumar að sækja um aðild.

2. Samningur liggur fyrir næsta vor. Sérsamningar um flýtimeðferð í átt að evru.

3. Aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2010.

4. Stjórnarskrárbreytingar – sem hafa legið fyrir óformlega frá vori 2010 – samþykktar á vorþingi 2013.

5. Þingkosningar í maí 2103, stjórnarskrárbreytingar samþykktar á sumarþingi, júní 2013.

6. Samningar undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum.

7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu á Þingvöllum 2014 og gengur um leið inn í Myntbandalagið á sérstakri undanþágu (nú eða þá einhverjum misserum síðar).

Nákvæmar dagsetningar eru ekki höfuðatriðið, heldur þetta: A. Evran skiptir mestu máli við fyrirhugaða/væntanlega/hugsanlega ESB-aðild. B. Evran fæst ekki strax en við getum komist fljótt í skjól af evrunni. C. Ekki skiptir í því sambandi meginmáli hvort við göngum í ESB árinu fyrr eða síðar. D. Stjórnin getur setið út kjörtímabilið ef henni og þjóðinni sýnist.

Nú kann sumum kann að þykja skrýtið að varaþingmaður leggist á sveifina gegn kosningum sem fyrst 🙂 – en það er líka óheppilegt að tjalda til einnar nætur eða fárra – fyrir ríkisstjórn sem er svona einstæð í Íslandssögunni, á við svona mikil verkefni að glíma, og þarf svona sárlega á öllu sínu að halda.

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 29.4.2009 - 07:39 - 11 ummæli

VG og ESB: Textinn sjálfur

Vinstriflokkarnir tveir hljóta að koma sér saman um Evrópusambandsumsókn, hvaða leið sem menn velja að henni og hvað sem hún er látin heita. Auðvitað hafa stjórnmálamenn úr öðrum flokkum gert mikið úr ágreiningi þeirra um þetta, og svo auðvitað Morgunblaðið, en þeir hafa sér til afsökunar að yfirlýsingar Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar hafa verið nokuð á skjön við þá málamiðlun sem náðist um ESB á landsfundi VG. Þar eru ítrekaðar efasemdir um að aðild samrýmist hagsmunum Íslendinga — þó að nú væri — en líka talið að ekki verði úr skorið nema með þjóðaratkvæðagreiðslu. Merkilegt að setningin um atkvæðagreiðsluna er orðuð jákvætt, það eigi að leiða þetta lykta með þjóðaratkvæði; í staðinn fyrir hefðbundna neikvæða orðun: Því aðeins í ESB að þjóðin hafi samþykkt samning.

Þegar maður les ályktun landsfundarins frá í vor kemur líka í ljós að VG hefur ekki (lengur a.m.k.) á stefnuskránni atkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, tvöfalt þjóðaratkvæði, einsog Sjálfstæðisflokkurinn nú og Framsókn áður. Það skiptir miklu máli. Í þessu ljósi er að vænta athyglisverðra tíðinda úr Evrópunefnd stjórnarmyndunarviðræðnanna þar sem þeir fara fyrir félagi Ögmundur og félagi Össur.

Í fílólógíunni er æðsta boðorðið að taka aldrei mark á neinu nema textanum sjálfum, og hér er textinn sjálfur, Evrópukafli landsfundarályktunar VG um utanríkismál:

,,Vinstrihreyfingin – grænt framboð telur nú sem fyrr að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.  Sjálfsagt er og brýnt að fram fari opin og lýðræðisleg umræða um samskipti Íslands og sambandsins. Landsfundur VG leggur áherslu á að aðild Íslands að ESB eigi að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Landsfundur telur mikilvægt að fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu fái rækilega umræðu og að hliðsjón verði höfð af væntanlegum stjórnarskrárbreytingum og hvað eðlilegt getur talist þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um framsal og fullveldi.“

Norge sa nei

Steingrímur og Atli og svo framvegis — auðvitað hljótum við að virða skoðanir þeirra, sem byggjast bæði á raunverulegum rökum, óvissu og ótta um framtíðina innan ESB, og á gamalli afstöðu og tilfinningum. Steingrímur hefur alltaf haft sterk norræn tengsl, ekki síst norsk, og Atli var í framhaldsnámi í lögum í Ósló, sömu vetur og ég var þar að grúska í grísku og sanskrít.

Ég kom þangað rúmum tveimur árum eftir atkvæðagreiðsluna 1972, og það var hetjuljómi yfir þessari þjóð í augum róttæklinga um alla Norður-Evrópu. Ekki síður hjá íslenskum námsmönnum í Ósló. Þegar ég kom fyrsta sinn í heimsókn til góðs vinar míns á Studentbyen Sogn dró hann út skúffu í skrifborðinu sínu þar sem hann geymdi einsog helgan dóm blað frá því daginn eftir atkvæðagreiðsluna með flennifyrirsögn yfir þvera forsíðuna: NORGE SA NEI.

Þetta var auðvitað mikill sigur gegn hinu alþjóðlega auðvaldi, og þann sigur hafði unnið bandalag róttækra ungmenna, ekki síst námsmanna, gamla vinstrið, hluti af krötunum, bændur og sjómenn — gegn stóru flokkunum, meirihluta vinnuveitenda, forustu verkalýðshreyfingarinnar, flestum álitsgjöfum og fjölmiðlum. Einmitt gegn ,,elítunni“ — og engin furða að Steingrímur hafi búið sér til eina slíka til að tala gegn í Sjónvarpinu um kvöldið.

Seinna fann maður út að þarna höfðu ráðið harðir hagsmunir meðfram hugsjónaglóðinni — og þótt margt væri vel gert í áróðri brá mér aðeins við plakatið þar sem sæti litli græni Noregur var í einu horninu en Evrópa vonda á leiðinni að gleypa hann með stórum reykspúandi strompum og bakvið vængir þýska arnarins frá 1933-45. Uppúr þessum atburðum spratt svo á vinstrikantinum ákaflega þreytandi þjóðlegur og bernskur maóismi sem ýmsir Íslendinganna létu heillast af — þar á meðal Atli Gíslason þótt hann héldi lengstaf fullum sönsum.

Fyrir sjálfum mér átti það svo að liggja að dveljast nokkur námsdægur í Frakklandi þar sem gafst önnur sýn að Evrópusambandinu — með vígvellina austur af, sífelld minnismerki í hverju þorpi um hina föllnu í fyrra stríði og seinna, litlu skildina í París um þá sem féllu í andspyrnuhreyfingunni og frelsuninni, áminningar stórar og smáar um hina stríðshrjáðu álfu, svo fagra samt og fjölbreytta og gáfaða og auðuga.

Í Noregi fengu þeir hinsvegar olíu og eru enn að segja nei.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 28.4.2009 - 08:02 - 87 ummæli

Hættu þessu, Þráinn

Hinn ágæti nýi þingmaður Þráinn Bertelsson er enn að vandræðast með heiðurslaunin sín. Þau vandræði hafa sennilega skemmt fyrir honum og framboðinu á síðustu dögunum af því hann langar að halda þessum peningum ofan á þingmannslaunin, og enn halda þau áfram að skemma fyrir. Mig minnir þau séu um það bil 150 þúsund krónur á mánuði, en þingfararkaupið sirka 550.

Þetta eru heiðurslaun sem alþingi veitir sérstaklega, og koma „listamannalaununum“ – starfslaunum listamanna – ekkert við lengur, sem koma úr sérstökum sjóðum utanþings og er úthlutað samkvæmt umsóknum til einstakra verkefna. Heiðurslaunin eru einkum ætluð listamönnum á efri árum, þótt nokkur dæmi séu fyrr og síðar um yngra fólk, og auðvitað er afar sérkennilegt að þau fái maður í fullri vinnu við allt annað en listsköpun. Enda eru ekki nein dæmi um að alþingismaður þiggi slík laun.

Heiðurslaunin eru veitt frá ári til árs með sérstakri tillögu, um þau gilda engin lög. Menntamálanefnd þingsins gerir tillögu um þau að hausti, yfirleitt milli 2. og 3. umræðu fjárlaga, og síðan er sú tillaga borin upp á þinginu. Þetta er sumsé sérstök ný tillaga á hverju ári þar sem listamennirnir eru taldir upp í stafsrófsröð (hér í fyrrahaust) , þótt hefðin sé sú að menn falla ekki af listanum fyrren þeir eru dauðir. Ef Þráinn vill halda áfram að fá heiðurslaunin þarf hann þessvegna sjálfur að taka þátt í því sem alþingismaður að afgreiða tillögu um þennan heiður í sinn garð. Það er nú ekki alveg normalt –

 – en þessutan lendir hann í því klandri að í 64. grein þingskapa stendur að þingmaður megi ekki „greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín“. Þegar kemur að atkvæðagreiðslunni þarf því Þráinn Bertelsson alþingismaður úr Reykjavík norður að sitja hjá eða greiða atkvæði gegn tillögunni – eða þá að forðast að koma í salinn þegar tillagan er afgreidd.

Þetta verða sífelld leiðindi. Málið kemur upp á hverju hausti. Þráinn þarf að skrifa hverja varnargreinina af annarri.

Æ, hættu þessu bara, Þráinn.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 27.4.2009 - 18:31 - 23 ummæli

Þjóðstjórn hvað?

Atli Gíslason vill þjóðstjórn frekar en að þurfa í viðræður við Evrópusambandið.

Þjóðstjórn? Það er bara ekki í stöðunni. Samfylkingarmenn líta svo á að án ESB-samnings sé engin leið út úr vandanum. Ef VG eða aðrir flokkar vilja ekki reyna þá leið, sem þjóðin sker úr um að lokum, nú — þá er eðlilegt í lýðræðissamfélagi að þeir flokkar bjóði fram aðra leið. Hina leiðina. Hugsanlegt er að meirihluti VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komi sér saman um einhverja krónubjörgunarleiðréttingu. Þá fer Samfylkingin einfaldlega í stjórnarandstöðu.

Hvað er að, Atli? Þjóðin ræður að lokum! Treystirðu því kannski ekki að þjóðinni þyki aðildarsamningur nógu vondur til að fella hann?

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.4.2009 - 17:18 - 10 ummæli

Stærsti landsbyggðarflokkurinn

Fór áðan í kaffi til fornvinar míns, Þrastar Haraldssonar ritstjóra Bændablaðsins. Hann sagði mér það í fréttum að Samfylkingin væri stærsti landsbyggðarflokkurinn. Það þóttu mér tíðindi, en þetta er rétt hjá Þresti:

NV+NA+SL

S     8 þingmenn, 16.854 atkvæði

V    7 þingmenn, 15.569 atkvæði

D    7 þingmenn, 15.189 atkvæði

B     6 þingmenn, 15.262 atkvæði

O    1 þingmaður,  2.658 atkvæði

Og þessar tölur segja okkur líka að landsbyggðarmenn vilja ESB-umsókn, líka þegar F-atkvæðum (2.151) er bætt við ESB-andstöðuna:

S+B+O   34.774

V+D+F   32.909

Magnað! Á höfuðborgarsvæðinu er Samfylkingin auðvitað flokkur númer eitt:

RN+RS+SV

S     12 þingmenn, 38.904 atkvæði

D     9 þingmenn, 29.180 atkvæði

V     7 þingmenn, 25.011 atkvæði

B      3 þingmenn, 12.437 atkvæði

O     3 þingmenn, 10.861 atkvæði

Maður bara brosir.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 26.4.2009 - 10:29 - 43 ummæli

Engin stjórn án Evrópu

Í þessum merkilegu kosningum er út af næstu dögum vert að taka fyrst eftir því að upp úr kjörkössunum kemur skýr krafa um viðræður við Evrópusambandið um aðildarsamning og gjaldmiðilsmál. Þetta var höfuðmál stærsta flokksins og tveir aðrir höfðu samningaviðræður á dagskránni. Á hinu nýja þingi er Evrópumeirihluti, 33 þingmenn Samfylkingarinnar, Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar, og framhaldsstarf stjórnarflokkanna hlýtur að mótast af því.

VG-arar mega kalla það kynningarviðræður eða undirbúningsamtöl – en það er einfaldlega krafa kjósenda sem Samfylkingin getur ekki brugðist að taka strax upp Evrópuþráðinn. Þetta verður að vera ótvíræður raunveruleiki í stjórnarsáttmála, og fyrsta Brussel-lota á að hefjast í maímánuði.

Það er kannski ágætt að þetta segi Samfylkingarmaður utan þings: Flokkurinn myndar einfaldlega ekki ríkisstjórn án þess að ganga frá Evrópumálunum. Og það veit VG.

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.4.2009 - 21:48 - 15 ummæli

Orð kvöldsins

— Ég hef verið með ykkur í ríkisstjórn. Ég veit hvernig þið hugsið.

                                         Jóhanna Sigurðardóttir við Bjarna Benediktsson

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 24.4.2009 - 10:28 - 6 ummæli

Vinna, velferð, Evrópa, Jóhanna

Það er auðvitað galli á vísu að fyrri hlutinn rímar ekki og seinni hlutinn stuðlar ekki – en þá taka menn bara viljann fyrir verkið. Þessa síðustu daga kveð ég þessa vísu aldrei of oft:

Vinna

Við verðum að ná vinnustöðunum – fyrirtækjunum – af stað aftur. Í finnsku kreppunni um 1990 voru gerð þau afdrifaríku mistök að fyrirtækin urðu gjaldþrota án nokkurs tillits til þess hvort þau voru lífvænleg, og að sama skapi hófst mikið atvinnuleysi – um 50% í þeim héruðum sem verst urðu úti. Þetta leiddi til þrots hjá fjölskyldum, skilnaða, börn fóru á vergang, alkóhólismi geisaði. Og þótt Finnar tækju síðar skynsamlega á í menntamálum og nýsköpun í iðnaði segjast þeir hafa misst fjölda manns í þessu stríði, þar á meðal heila kynslóð þeirra sem þá voru að ljúka skólum og ekki fengu vinnu.

Velferð

Við höfum gert margt vel Íslendingar, þrátt fyrir allt, og þar á meðal er velferðarþjónustan – nú er mikilvægara en nokkru sinni að nota hana til að styrkja fjölskyldurnar og einstaklingana. Við þurfum að skera niður en eigum að hlífa velferðarstofnunum og –sjóðum. Og í þessu samhengi er menntakerfið hluti af  velferð í samfélaginu, bæði fyrir fólkið og fyrirtækin.

Evrópa

Það er engin vinna eða velferð ef allt fer aftur um koll af því menn þora ekki að taka á mesta meininu: Gjaldmiðli sem enginn tekur mark á innanlands eða utan. Krónan er ónýt – og þeir tímar eru liðnir að hægt sé að halda uppi gjaldeyrishöftum nema örskamma hríð. Evran hlýtur að vera markmiðið, og allar líkur benda til að ástandið skáni strax og ríkisstjórn Íslands sendir til Brussel litla póstkortið með skilaboðum um að við viljum semja. Margir mögla gegn Evrópusambandinu – en enginn þeirra hefur lagt fram leið út úr kreppunni eða framtíðarsýn í efnahagsmálum. Ef evruleiðinni er hafnað stöndum við í raun frammi fyrir þeim kosti að segja okkur frá EES-samningnum, því grundvöllur þess samstarfs er fjórfrelsið, þar á meðal frjálsir fjármagnsflutningar. Viljum við það?

Jóhanna

Kreppan í haust var ekki bara bankakreppa og efnahagskreppa heldur breyttist strax í stjórnmálakreppu, og þótt Sjálfstæðisflokkurinn og hugmyndafræði hans beri mesta ábyrgð þarf enginn að furða sig á því að þjóðin snerist gegn stjórnmála-„stéttinni“ allri – sem ekki sá, heyrði né sagði frá, sem hafði tekið þátt í dansinum kringum gullkálfinn hver með sínu móti. Þegar ríkisstjórn Geirs Haarde hrökklaðist frá með skömm var það eiginlega ekki nema einn stjórnmálamaður í landinu sem þorri þjóðarinnar treysti til forystu: Jóhanna. Aðeins hún hafði þann trúverðugleik, þá áru heiðarleika og þann feril þjónustu við alþýðu manna. Það er viðeigandi þversögn að Jóhanna er annarsvegar reyndasti stjórnmálamaður þjóðarinnar, og hinsvegar fulltrúi þeirra gilda sem þarf að hefja til vegs í framtíðinni: heilindi, dugnaður, nægjusemi, hóf.

Vinna, velferð, Evrópa, Jóhanna. Ágæt vísa fyrir daginn á morgun.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.4.2009 - 16:49 - 2 ummæli

Flokkurinn, ekki fólkið

Hvernig komast vinstri flokkarnir upp með stefnu sína í auðlindamálum? Annar flokkurinn vill ekki nýta auðlindirnar og hinn veita öðrum þjóðum aðgang að þeim.

Eftir Hannes Hólmstein? Frá nafnlausum Heimdellingum í skítadeildinni?

Nei, þetta er eftir Tryggva Þór Herbertssoon hagfræðing og hugsanlegan alþingismann, fyrrverandi efnahagsráðgjafa forsætisráðherra og forstöðumann Hagfræðistofnunar Háskóla slands. Hér á Eyjunni. Örvæntingin hefur gripið hina skástu menn á hægrikantinum slíkum tökum að nú eru öll ráð dýr.

Ég ætla ekki að svara fyrir vinstrigræna, sem væntanlega er átt við í fyrri lið nema því að efasemdir um stórvirkjanir sem selja stórfabrikkum ódýra orku jafngilda því auðvitað ekki að vilja ekki nýta auðlindir. En Tryggvi Þór þekkir greinilega bara eina tegund nýtingar og viðskipta 2007-tegundina: Pening strax, uppgjör síðar.

Í síðari lið reynir efnahagsráðgjafinn að vega að stefnu Samfylkingarunnar um ESB-aðild og evru. Og hvaða auðlindir er hann að tala um? Orkuna? Samkvæmt lögum sem iðanðarráðherra Samfylkingarinnar kom fram eru orkuauðlindirnar í þjóðareigu nema þær sem Sjálfstæðisflokkurinn á Suðurnesjum var búinn að koma einkaeigu, erlenda eða innlenda. Auðlindir sjávar? Sem Sjálfstæðisflokkurinn á alþingi kom i veg fyrir að yfirlýstar væri í þjóðareigu með viðbótum við stjórnarskrá?

Staðreyndin er auðvitað sú að ESB-aðild hefur engin áhrif á eignarhald auðlinda á Íslandi – nema Íslendingar sjálfir séu svo vitlausir að koma þeim í einkaeigu útlendinga, til dæmis með því að íslenskir eigendur selji þær frá sér. Einmitt þessvegna þarf að tryggja þjóðareign sjávarauðlindanna áður en við göngum í ESB, einsog Jóhann Ársælsson á Skaga hefur verið manna duglegastur að benda á.

Tímabundinn nýtingarréttur gegn gjaldi er svo annað mál og yrði öllum heimild, rétt einsog annar atvinnurekstur er nú þegar á EES-svæðinu.

Maður hélt kannski að frambjóðendur einsog Tryggvi Þór Herbertsson mundu bæta málflutning FLokksins, að minnsta kosti um alvörumál og grundvallarrök.

Því miður. Það var nefnilega alltaf flokkurinn, ekki fólkið.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 23.4.2009 - 10:27 - 19 ummæli

Kasper, Jesper og Jónatan í Laugardalnum

Sjálfstæðisflokkurinn á höfuðborgarsvæðinu – eða það sem eftir er af honum – hefur leigt Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í dag og býður stuðningsmönnum að skoða dýrin og fara í tækin. Ekkert að því – við hjá Samfylkingunni bjóðum fólki einmitt niður á Austurvöll í svipaða fjölskyldudagskrá.

Skemmtilegt samt að í heilsíðuauglýsingu Flokksins ber mest á heiðursgestunum – sem eru engir aðrir en ræningjarnir þrír úr Kardimommubænum. Einhvernveginn alveg viðeigandi eftir hrunið:

 

Þó fyllt við höfum fötu og sekk 

af fæðu, drykk og klæðum, 

er aumt að vera auralaus, 

en um það fátt við ræðum. 

Því bankinn okkur blasir við 

og brátt til starfa tökum við. 

Þó tökum við aldregi of eða van, 

hvorki Kasper né Jesper né Jónatan.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur