Það étur hver upp eftir öðrum að þing og ríkisstjórn sitji ekki út kjörtímabilið af því að það þurfi kosningar til að ganga í Evrópusambandið. Ef við ákveðum að sækja um þá verði kosningar eftir ár eða tvö – en ekki ef sú ákvörðun dettur niður milli stóla.
Þetta sé staðan eftir að Sjálfstæðisflokkurinn kom með málþófi í veg fyrir að gamla þingið, og núna það nýja, gæti samþykkt stjórnarskrárbreytinguna um hvernig á að breyta stjórnarskránni. Nú þarf tvær samþykktir á þinginu með kosningum á milli en þessu átti að breyta yfir í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu sem þingið hefði samþykkt.
Allir eru sammála um að það sé illur kostur að ganga inn án stjórnarskrárbreytingar sem heimili að Íslendingar deili hluta fullveldis síns í yfir- (eða öllu heldur sam-) -þjóðlegum stofnunum. Það höfum við að vísu þegar gert með EES-samningnum og samstarfi um mannréttindamál án stjórnarskrárbreytinga, en auðvitað er aðild að Evrópusambandinu þvílíkt skref að ekki má leika neinn vafi á því gagnvart stjórnarskrá lýðveldisins. Og ef við næðum nú samningum við ESB eftir ár eða tvö þá þarf að breyta stjórnarskránni.
Menn sjá þetta yfirleitt fyrir sér sirka svona:
1. Ákveðið að sækja um aðild, núna í sumar (maí, júní).
2. Samningur liggur fyrir. Segjum í apríl næsta vor – Eiríkur Bergmann telur í nýrri grein að hann gæti legið fyrir innan árs frá umsókn ef allt gengur vel.
3. Stjórnarskrárbreytingar samþykktar á alþingi í maí 2010.
4. Þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB og þingkosningar haustið 2010 (saman eða sitt í hvoru lagi).
5. Ef þjóðin vill aðild taka stjórnarskrárbreytingar gildi við samþykkt á nýju þingi, haustið 2010.
6. Samningar eru undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum (sjá grein Eiríks), gæti tekið hálft til eitt ár.
7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu við hátíðlega athöfn á Hrafnseyri við Arnarfjörð á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní árið 2011.
8. Við fáum evruna eftir tveggja ára veru í hreinsunareldinum, ERM II, og nokkur misseri í viðbót við að ná Maastricht-skilyrðunum um litla verðbólgu, lága vexti, góða stöðu ríkissjóðs og þokkalegt gengi. Hátíðleg evruathöfn á Þingvöllum á 70 ára afmæli lýðveldisins, 17. júní 2014.
Eða þannig.
Hver var tilgangurinn?
ESB leysir ekki öll okkar mál, sögðum ég og félagar mínir í kosningabaráttunni (tja, sumir sögðu það reyndar …) – en það er heldur engin lausn til án ESB.
Það er eðlilegt og afar íslenskt að vilja fara strax þangað sem maður ákveður að fara – en aðal-segullinn við Brussel núna er þó fyrst og fremst tvíeinn: Evran sjálf og svo sá efnahagslegi álitsauki sem okkur yrði að því að tilkynna ákvörðun um aðild að ESB og evru.
Ljóst er að evran kemur ekki fyrren að loknum löngum ferli – sjá til að mynda grein Eiríks. Fiffið við evruna í núverandi stöðu var heldur ekki að fá hana heldur að allir vissu að hún er að koma. Að komast í skjól af evrunni frá núverandi berangri – að bæði innlendir og erlendir handhafar krónu og ýmissa bréfa sem henni tengjast viti að þessi gjaldmiðill fer ekki á áramótabrennu heldur breytist að lokum í evrur. Traust vex, trúverðugleiki eykst. Hjálpar okkur upp.
En til þess þurfum við ekki endilega að vera gengin í Evrópusambandið. Við þurfum fyrst og fremst að vera á leiðinni þangað. Ef samningar nást um greiða för okkar í myntsamstarfið, og hugsanleg sérstök ERM-tengsl þar sem vikmörk lækkuðu kerfisbundið í takt við árangur íslenska hagkerfisins – þá er engin sérstök ástæða til að fara í kosningar á miðju kjörtímabili, að minnsta kosti ekki meðan þokkalega gengur hjá ríkisstjórninni og þingmeirihluta hennar.
Í staðinn situr vinstristjórnin góða út kjörtímabilið og ferillinn verður svona:
1. Ákveðið í sumar að sækja um aðild.
2. Samningur liggur fyrir næsta vor. Sérsamningar um flýtimeðferð í átt að evru.
3. Aðild samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu haustið 2010.
4. Stjórnarskrárbreytingar – sem hafa legið fyrir óformlega frá vori 2010 – samþykktar á vorþingi 2013.
5. Þingkosningar í maí 2103, stjórnarskrárbreytingar samþykktar á sumarþingi, júní 2013.
6. Samningar undirritaðir, staðfestingarferlið hefst í ESB-ríkjunum.
7. Ísland gerist formlegur aðili að Evrópusambandinu á Þingvöllum 2014 og gengur um leið inn í Myntbandalagið á sérstakri undanþágu (nú eða þá einhverjum misserum síðar).
Nákvæmar dagsetningar eru ekki höfuðatriðið, heldur þetta: A. Evran skiptir mestu máli við fyrirhugaða/væntanlega/hugsanlega ESB-aðild. B. Evran fæst ekki strax en við getum komist fljótt í skjól af evrunni. C. Ekki skiptir í því sambandi meginmáli hvort við göngum í ESB árinu fyrr eða síðar. D. Stjórnin getur setið út kjörtímabilið ef henni og þjóðinni sýnist.
Nú kann sumum kann að þykja skrýtið að varaþingmaður leggist á sveifina gegn kosningum sem fyrst 🙂 – en það er líka óheppilegt að tjalda til einnar nætur eða fárra – fyrir ríkisstjórn sem er svona einstæð í Íslandssögunni, á við svona mikil verkefni að glíma, og þarf svona sárlega á öllu sínu að halda.