Föstudagur 9.9.2016 - 10:52 - FB ummæli ()

Saga stórhuga á Ströndum

kleifar

Við Kleifar á Selströnd, Kaldrananeshreppi, í vikunni.

Ég vil með þessum pistli fyrst og fremst  minnast starfsfélaga míns Guðmundar Sigurðssonar, heimilislæknis á Hólmavík frá árinu 2004 og sem lést 5. september sl. á gjörgæsludeild Landsspítalans eftir erfið veikindi sl. ár, 74 ára að aldri. Ég er einn nokkra lækna sem leyst hefur af á Hólmavík sl. 18 ár, með mislöngum hléum allt frá því Sigfús Ólafsson heitinn var læknir í Strandasýslu til ársins 2000 og sem lést fyrir aldur fram 2002 eftir stutt og erfið veikindi. Blóðtakan hefur því verið mikil fyrir Standamenn hvað fastráðna lækna snertir frá aldarmótum.

Guðmundur Sigurðsson var mikill frumkvöðull í læknisfræðin hér á landi og hannaði m.a. bæði fyrsta tölvutæka sjúkraskrákerfið fyrir heilsugæslu meðan hann gegndi héraðslæknisstöðu á Egilsstöðum 1971-1985 (Egilstaðaskránna svokölluðu) og var síðar aðalhöfundur Sögu, tölvuvæddu sjúkraskrákerfi sem nú er notað bæði í heilsugæslunni og á sjúkrahúsum landsins. Á árunum 1985-2004 gengdi hann heimilislæknisstöðu á Heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnes auk þess að hann gegndi fjöldamörgum trúnaðar- og kennslustörfum. Hans er sárt saknað af öllum sem þekktu.

Guðmundur náði að koma til vinnu á Hólmavík 4 vikum fyrir andlátið. Fullt var út úr dyrum þann eina virka dag sem hann var með opna stofu. Allir vildu heilsa upp á sinn gamla lækni og óska honum góðs bata og þakka honum fyrir gamalt og gott. En galdrar Strandamanna dugðu ekki til. Guðmundur mun hins vegar lifa í endurminningum þeirra, eins og Sigfús heitinn gerir ennþá daginn í dag.

Strandir eru einstakur staður með sína víðfermdu töfra og sögu. Saga Guðmundar var einstök og sem spratt upp af miklu frumkvöðlastarfi. Sagan hans lifir í vinnulagi okkar heilbrigðisstarfsfólks hvern dag og sem tekur sífeldum breytingum eins og til stóð. Sama og segja má um sögu Strandamanna, þótt tíminn virðist oft standa í stað. Myndin hér að ofan er t.d. frá Kleifum við Selströnd. Torfi Einarsson alþingismaður lét þar reisa mikla steingarða til að verja engin sín frá búfénaði í uppahafi síðustu aldar. Sláttuengin þóttu einstök verðmæti þótt hólótt væru og grundvöllur landbúnaðar fyrir heimamenn með sjósókninni sem var aðal lifibrauðið. Til mikils var að vinna að halda landinu í byggð og sem lesa má um í fyrri pistli frá því í vor, Kálfanes á Ströndum við Hólmavík og fásögninni um Guðmund góða Hólabiskups fyrir 800 árum. Sama má sjá í læknisstarfi og Sögunni góðu hans Guðmundar og starfi Sigfúsar heitins áður með stofnun íþróttafélaga á Stöndum (golf- og skíðafélag) í lok síðustu aldar og þegar sumir Strandamenn voru farnir að hreifa sig aðeins of lítið.

Sæl sé minning þeirra beggja á Ströndum og annars staðar. Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldu Guðmundar Sigurðssonar, læknis, Guðrúnar Þorbjarnardóttur eiginkonu og barna.

Hólmavík, 9.9.2016

kleifar

Kleifar á Selströnd, Kaldranneshreppi, í vikunni.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Fimmtudagur 8.9.2016 - 07:57 - FB ummæli ()

Að þjóðin fái að njóta vafans

lsh

Byggingaáform Nýs Landspítala við Hringbraut og uppbygging í Vatnsmýrinni samkvæmt deiliskipulagi Reykjavíkurborgar

Nú líður fljótt að næstu alþingiskosningum. Skoðanakannanir sl. ár hafa sýnt að mikill meirihlut landsmanna og starfsmanna Landspítalans telja staðarval nýs spítala slæmt við Hringbraut og vilja fá nýja staðarvalsathugun. Sama vill fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Framsóknaflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Nokkrir staðir hafa þegar verið nefndir sem álitlegur kostur, einkum Vífilstaðir. Píratar og Dögun hafa samþykkt að slík athugun ætti að fara fram. Tæplega 9000 Íslendingar hafa einnig stutt málstaðinn á facebókarsíðu Samtaka um betri spítala á betri stað (SBSBS).

Hræðsluáróður fyrir ágæti Hringbrautarframkvæmdanna nær hins vegar stöðugt nýjum hæðum meðal stjórnvalda, einkum nú að ný athugun dragi of mikið á langinn að nýr spítali rísi. Samt er það svo að sýnt hefur verið fram á að svo þurfi alls ekki að vera og getur reyndar verið fullbúinn miklu fyrr ef byggt er á opnu landi frá grunni. Aðrar þjóðir hafa reist álíka stóra spítala og nýr Landspítali á að verða (um 140.000 fm2) á 7-8 árum með undirbúningstíma og það fyrir minna fé en framkvæmdir munu kosta að lokum á Hringbraut (80.000 fm. í nýbyggingum, þar af um 60.000 í nýjum meðferðakjarna sem ekki á að verða lokið fyrr en 2023-2024, og síðan endurnýjun á gamla og oft illa farna og skemmda húsnæðinu, um 60.000 fm. ekki fyrr en um 2030).

Miklu meira hagræði í alla staði er að byggja nýjan spítala á betri stað frá grunni og sem mætt getur öllum kröfum um vel útbúið nútímasjúkrahús. Minni rekstrarkostnaður gæti hugsanlega borgað niður nýbyggingalánskostnað á besta stað á 40 árum miðað við 60-70 milljarða árlega fjárveitingu til starfsem spítalans og nú er reiknað. Betra staðarval getur sparað þjóðfélaginu óþægindi og kostnað við allt að 9000 of langar akstursferðir á dag auk nauðsynlegra umferðamannvirkjaframkvæmda. Gríðarlegt ónæði sjúklinga, starfsfólks og íbúa Þingholta og nágrennis af niðurbroti og jarðvinnu ásamt flutningi á hundruð þúsunda tonna af grjóti og byggingarefnum gegnum miðbæinn má einnig fyrirbyggja og sem gæfi starfseminni nú á Landspítala við Hringbraut og í Fossvogi þann frið sem hún þarf, ásamt ódýrum bráðabirgðarlausnum í framkvæmdum, svo sem í Fossvogi með viðbótar legudeildum (t.d. viðbyggingu við núverandi bráðamóttöku fyrir 3-5 daga lyflæknalegudeild).

Aðgengi fyrir sjúkraflutninga í umferðinni verður miklu betra á miðlægum stað höfuðborgarsvæðisins alls, óháð staðsetningu Reykjavíkurflugvallar. Eins aðgengi sjúkraþyrluflugs sem á eftir að aukast mikið á komandi árum og sem er alls ófullnægjandi á þröngri Hringbrautarlóðinni og fyrirhugað er nú. Byggja má eins nýtt og betra húsnæði fyrir heilbrigðisvísindi HÍ á betri stað með næga stækkunarmöguleika fyrir framtíðina. Nálægð Hringbrautarlóðar við aðalbyggingu HÍ og DeCode í Vatnsmýrinni eru auðvitað veigalítil rök fyrir staðarvali spítalans. Miklu frekar græðandi umhverfi (helende medicine) sem mikið er lagt upp úr í hönnun nútímalegra spítala í dag og sem nágrannaþjóðir okkar leggja mikla áherslu á eins og t.d. Danir. Þar sem náttúran og rólegt umhverfi spilar veigmikið hlutverk í batanum, en ekki bara Laugavegurinn, Skólavörðuholtið og kaffihúsin hans Dags.

Aðeins það helsta hefur verið talið upp og sem mælir með að strax fari fram ný staðarvalsathugun á nýjum þjóðarspítala og sem Alþingi verður að ákveða. Forða má ennþá þjóðinni frá e.t.v. mestu og dýrustu mistökum sögunnar og sem virðist „föst“ vegna ártugagamalla ákvarðana og fóstbræðrablóðbanda gömlu stjórnmálaforingjanna frá því um aldarmótin og sem var alla tíð illa undirbúin. Skömmin er enn meiri í dag þar sem áhrifamiklir stjórnmálamenn og ríkisfjölmiðillinn (RÚV), sem virðast undir hælunum á sumum, neyta að horfast í augu við staðreyndir málsins eða hafa vilja til að ræða málin frekar. Þöggunin sé besta leiðin til að halda bara áfram. Á framkvæmd sem ekki er bara óörugg, heldur endast mun illa og kostað getur okkur allt að hundruð milljarða króna meira (framkvæmda-, og rekstrarkostnaður ásamt ótímabærum úrheldingarkostnaði), en skynsamleg framkvæmd á besta stað. Þjóðarheilsunnar og öryggisins okkar allra vegna og sem enst getur langt inn í framtíðina. Það sem þjóðin væntanlega kýs með atkvæði sínu í komandi alþingiskosningum.

Dauðasyndirnar sjö við Hringbraut!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 1.9.2016 - 17:52 - FB ummæli ()

Sveppir og mygla, hinn nýi óvinur

candita

Candida albicans í munnvatssýni (ljósmynd Dr E. Walker)

Athyglisverð grein birtist nýlega í the guardian um víðfengi sveppasýkinga í nútíma samfélagi sem sífellt verður alvarlegra. Ekki nóg með að tíðni sýkinga hefur stóraukist, einkum húðsveppasýkinga, heldur einnig hættulegra ífarandi sýkinga sem áður voru einkum bundnar ónæmisbilun viðkomandi (t.d. alnæmi, HIV) og ónæmisbælandi lyfjameðferðum í tengslum við alvarlega sjúkdómum eins og krabbamein. Eins fjallar greinin um vaxandi áhyggjur af lyfjaónæmi sveppalyfja og ofnotkun þeirra, ekki síst í landbúnaði s.s. í akuryrkju og við þekkjum vel tengt sýklyfjunum í landbúnaði erlendis þar sem nokunin er jafnvel meira en meðal manna. Sveppalyfin eru auk þess mjög fá, ólíkt sýklalyfjum og sem þó miklar áhyggjur eru af tengt víðfermdu sýklalyfjaónæmi og fá ný lyf í augsýn. Svepplyf til inntöku til langrar meðferðar eru eins þegar tengd oft alvarlegum aukaverkunum og lifrarbilun sem fjallað hefur verið um hér áður á blogginu mínu og sem leysa má oft úr með staðbundnari inngripum og betri umhirðu húðar og hreinlæti. Sérstakt áhyggjuefni í dag er hins vegar vaxandi algengi ífarandi sveppasýkinga hjá annars heilbrigðum einstaklingum t.d. í lungum og sem hefur áður fyrst og fremst verið bundið sýkingum hjá ónæmisbældum sjúklingum (cryptococcus species)

Vaxandi tíðni sveppasýkinga og umræða um myglu í eldra húsnæði sem oft tengist aðeins ofnæmisviðbrögðum, setur þessi mál í enn meiri brennidepil og sem mikið hefur verið rætt um í fjölmiðlum. Jafnvel í opinberum byggingum eins og sjúkrahúsum og skólum þar sem við öndum að okkur ótilteknum fjölda sveppagróa á degi hverjum. Spurningin í dag er því hvernig við ætlum að geta viðhaldið okkar heilsu þegar svo er komið í okkar nánasta umhverfi, á heimilum okkar, í skólunum, á vinnustöðum og á íþróttastöðum og síðan en ekki síst á sjálfum sjúkrahúsunum. Að öðrum kosti og allt stefnir í, munu sveppir og mygla sífellt taka meira völdin frá okkur, tengt alvarlegri sýkingum og heilsubresti landans. Eins og reyndar einnig ofnotkun sýklalyfja sem ekki aðeins leiðir til meira sýklalyfjaónæmis og miklu meiri erfiðleika í meðhöndlun alvarlegustu bakteríusýkinganna í náinni framtíð, heldur einnig til enn meiri vaxtar sveppa í og á líkama okkar. Ábyrgð heilbrigðiskerfisins, stjórnavalda og heilbrigðisstarfsfólks á þessum málum öllum er því mikil, einkum varðandi hreinlætiskröfur (þ.á.m. matvæla), ástands húsnæðis og áframhaldandi notkun sýkla- og sveppalyfja af minnsta tilefni.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · útivist

Þriðjudagur 16.8.2016 - 16:02 - FB ummæli ()

Reykjavíkurflugvöll út, en sjúkraþyrluflug inn í Þingholtin !!!

þyrla

Sikorsky S-92 yfir Þingholtunum? – Framtíðarsýn yfirvalda á sjúkrþyrluflugi á Nýjan Landspítala við Hringbraut.

Nokkrir þingmenn hyggja að þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðisgreiðslu á afdrifum Reykjavíkurflugvallar sem Reykjavíkurborg vill að hverfi úr Vatnsmýrinni. Þegar er búið að loka neyðarbrautinni og byggingaframkvæmdir byrjaðar við brautarendann. Í framtíðaruppbyggingu nú á Nýjum Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir þyrlupalli á 5 hæð rannsóknarbyggingar næst meðverðarkjarnanum sjálfum, bráðamóttöku og hjarta spítalans sem einnig mun hýsa bráðadeildir og gjörgæslu ásamt skurðstofum. Verklok eru áætluð um 2023. Krafa er um öflugri þyrlur en eru í rekstri í dag og sem samsvarar svokölluðum „3 mótora þyrlum“ með afl til að geta haldið hæð þótt einn/annar mótor bili. Slíkar þyrlur eru miklu þyngri, vega allt að 20 tonn og geta borið allt að 50 manns (hver þyrla kostar auk þess um 10-15 milljarða króna og rekstrarkostnaður miklu meiri en er við þyrlurnar í dag). Skilyrðin eru gerð meðal annars þar sem engir opin svæði eru í grennd til lendinga ef bilun verður og vegna slæmra veðra.

Þegar er mikil aukning á sjúkraflutningum með veika og slasaða sl. ár með þyrlu Landhelgisgæslunnar og nálgast flugin að vera eitt á dag. Vaxandi ferðamannastraumur og hækkandi slysatíðni á þjóðvegunum er meðal annars um að kenna. Enn mikilvægara verður einnig að fljúga með veika og slasaða beint á þjóðarspítalann ef langt er frá flugvelli, sem annars væri hægt að lenda á (í u.þ.b 60% tilvika og þar sem hver mínúta er ekki talin skipta máli milli lífs og dauða). Mikil aukning er því fyrirséð á sjúkraþyrluflugi miðað við flutningana í dag á Landspítalann í Fossvogi og þar sem aðstaða er þó mikið betri en við Hringbraut. Lokun Reykjavíkurflugvallar mun hafa enn verulegri áhrif á öryggi þyrluflugs og sjúkraflutninga í náinni framtíð ef Reykjavíkurflugvelli verði lokað og sem var auk þess ein aðal forsenda fyrir staðarvali Nýs Landspítala við Hringbraut, allt til ársins 2012 (neyðarbrautin meðtalin).

Það verður ekki bæði sleppt og haldið og ef menn virkilega vilja spítalanum stað á þröngri Hringbrautarlóðinni í stað betri staðar á opnu svæði, að þá ætti Reykjavíkurflugvöllur a.m.k að fá að vera í friði og þar sem þá væri hægt að lenda með minna veika og slasaða sjúklinga og þegar veðurskilyrði eru slæm og oft vill vera yfir íbúabyggðinni í Þingholtunum, ekki síst á veturna.

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/04/02/ahaettusamt-thyrlusjukraflug-yfir-thingholtin-og-a-nyjan-landspitala-vid-hringbraut-hver-aetlar-ad-bera-abyrgdina/

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 12.8.2016 - 13:50 - FB ummæli ()

Dauðasyndirnar sjö við Hringbraut!

syndirnar 7

Building the Tower of Babel was, for Dante, an example of pride. Painting by Pieter Brueghel the Elder

 

Fyrir rúmlega hálfu ári skrifaði ég pistil hér á Eyjunni Af hverju ekki mikið betri Landspítala á betri stað fyrir minna fé ??? og þar sem talin eru upp 7 stórkostleg mistök varðandi staðarval Nýja Landspítalans við Hringbraut og sem ágætt er að rifja upp í tilefni umræðunnar í dag og væntanlegra Alþingiskosninga í lok október nk.

1) Framkvæmdir á besta hugsanlegum stað kostar þjóðarbúið allt að 100 milljörðum minna næstu hálfa öldina ef allt er talið með og byggingaráformin nú við Hringbraut gera ráð fyrir. Söluhagnaður eldri bygginga við Hringbraut og í Fossvogi, hagkvæmari byggingamáti og síðan hagkvæmari rekstur spítala á betri stað, að mestu undir einu þaki, skýrir þennan mun og miðað við árlegar fjárveitingar til Landspítalans í dag (um 60 milljarða króna á ári). Framkvæmd á besta stað gæti þá staðið undir lántökukostnaði og gott betur, en ekki við Hringbraut. Staðist auk þess allar nútímakröfur í fallegu og græðandi umhverfi vel og lengi.

2) Endurnýjunarkostnaður á tæplega 60.000 fermetrum í eldra húsnæði er stórkostlega vanáætlaður í dag á Hringbraut (um 110.000 krónur á fm2) og sem er reiknaður aðeins um fimmtungur af nýbyggingakostnaði þrátt fyrir að vera meira eða minna ónýtt húsnæði og heilsuspillandi. Slíkar breitingar eru þó ekki fyrirhugaðar næstu árin meðan á nýbyggingum stendur (til 2023) og þurfa sjúklingar og starfsfólk að sætta sig á meðan við heilsuspillandi umhverfi og myglu. Breytingar á lagnakerfi miðbæjarins og byggingar umferðamannvirka er ekki fullreiknaður í dag. Áætla má að nauðsynlegt nýtt skólplagnakerfi eitt og sér fyrir spítalann og sem þarf að vera aðskilið almenningsskólpkerfinu með sótthreinsistöð verði mikið dýrara að koma fyrir í gamla miðbænum.

3) Tryggja má nýjum spítala á betri stað nóg rými til stækkunarmöguleika í framtíðinni, m.a. vegna meiri íbúafjölda en reiknað er með í dag og hratt vaxandi þörf heilbrigðisþjónustu vegna ferðamannastraumsins til landsins og sem á eftir að aukast mikið. Eins fyrir byggingar í nátengdri starfsemi svo sem fyrir nám heilbrigðisstétta, vísindastarfsemi, líf- og lyfjaiðnað. Hanna má um leið sjúklingavænni spítala (samanber nýja Hilleröd spítalann í Danmörku) að þörfum samtímans í dag og framtíðarinnar, ekki síst með tilliti til sóttvarna og sál- of félagslegra þátta. Mikill misskilningur fellst í þeirri staðreynd að aðalbygging HÍ þurfi a vera í göngufæri frá spítalanum.

4) Tryggja má öruggari sjúkraflutninga og örugga aðkomu sjúkraþyrluflugs á betri stað og sem á eftir að stóraukast í framtíðinni. Aðstaða sem verður alls ófullnægjandi á Hringibrautarlóðinni og sem kosta mun þar að auki tugi milljarða króna aukalega að útfæra og reka (stærri og mikið dýrari þyrlur). Bráðasjúkrahús landsins þá þannig með ófullnægjandi aðgengi frá láði, lofti og legi, svo ekki sé talað um ef Reykjavíkurflugvöllur verður látinn fara í náinni framtíð og stefnt virðist að hjá borginni.

5) Framkvæmdir á besta stað á opnu svæði má klára á 5-7 árum eftir 1-2 ára undirbúningstíma eins og reyndslan er nú víða erlendis og þannig jafnvel á undan áætluðum lokum nú við nýbyggingar á þröngu Hringbrautarlóðinni (2023-26) og sem mun auk þess skaða mikið starfsemi sem þar er fyrir og valda miklu ónæði fyrir sjúklinga og strfsfólk á byggingatíma.

6) Tryggja má öruggara og betra aðgengi sjúklinga, náms- og starfsfólks af höfuðborgarsvæðinu öllu með minni tilkostnaði í akstri og byggingu umferðamannvirkja (áætlað um 9000 ferðir á dag) enda helstu umferðarásar í dag þegar staðsettir mikið austar í borginni.

7) Byggingaframkvæmdirnar nú á Hringbraut eru andstæðar þeirri meginhugsun að þétta aðra íbúakjarna höfuðborgarsvæðins og dreifa atvinnustarfsemi í aðra bæjarhluta til fólksins sem mest. Sjúkrahús á besta stað jafnar hins vegar aðgengi íbúa höfuðborgarsvæðisins að stærsta vinnustað landsins. Staðsetning sem liggur mikið austar en nú er í gamla miðbæ Reykjavíkur og sem ekki á enda að vera sérhagsmunamál Reykjavíkurborgar einnar, sér í lagi 101-102 Reykjavík.

lsh

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2016/06/27/algjorir-forsendubrestir-a-stadsetningu-nys-landspitala-vid-hringbraut/

 

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 5.8.2016 - 12:23 - FB ummæli ()

Fáninn í Lückendorf

luckendorf

 

Í síðustu viku fögnuðum við hjónin sextíuára afmælisárinu okkar með börnum, tengdabörnum og barnabörnum í Þýskalandi. Um leið ákveðna nálgun við söguna og forfeður aldir aftur í tímann. Á Íslandi og í Evrópu, nánar tiltekið Danmörku og í gamla Prússlandi. Þannig um leið ákveðna sýn á lífsbaráttu okkar allra og mikilvægi frelsis og framfara í fortíð og framtíð.

Rætur mínar, gen og reynsla eru samofin tilverunni minni í dag og skoðunum. Um lífsgæðakapphlaupið og valdabaráttuna sem á sér stað í heiminum öllum og það líka heima á litla Íslandi. Hvað oft skilur lítið á milli öfganna og þess sem heita á réttlæti í ákvörðunartökum jafnvel nútíma lýðræðisríkja og kemur best fram í Bandarísku forsetakosningunum nú. Þar sem siðferðið eins og við höfum skilgreint það er hiklaust látið víkja fyrir skammtíma sérhagsmunum fárra. Til marks um breytta heimsmynd sem hefur minnkað um mörg númer á síðustu áratugum? Minn skilningur a.m.k. sem þarf að bæta með nýrri og framsýnni hugsun stjórnmálanna. Með smá afturhvarfi í hugsun til fortíðar eins og við þekkjum best og réttlátari sýn. Landinu okkar, börnum og afkomendum til heilla. Smá spegilmynd í tilefni tímamótanna og fánanum okkar í Lückendorf í síðustu viku.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 27.6.2016 - 10:29 - FB ummæli ()

Algjörir forsendubrestir á staðsetningu Nýs Landspítala við Hringbraut

AR-160629429

Lokun neyðarflugbrautar á Reykjavíkurflugvelli og framkvæmdirnar í Vatnsmýrinni í dag, leggur línurnar varðandi framtíðina á svæðinu.

 

Sennilega má eitthvað gott finna í bútasaumshugmyndum að Nýjum Landspítala við Hringbraut. Tvær meginforsendur upphaflegs staðarvals fyrir einum og hálfum áratug eru hins vegar brostnar. Reykjavíkurlugvöllur í næsta nágrenni við spítalann og sem nú er sennilega á förum og gott aðgengi almennings til framtíðar. Byggingarlóðin er auk þess orðin allt of lítil og þröng. Staðreyndir sem stjórnvöld og jafnvel ríkisfjölmiðlarnir (RÚV) hafa ekki viljað ræða. Alþingi þögult sem gröfin í allan vetur vegna fyrri ákvarðana og sem er í andstöðu við þjóðarmeirihluta og starfsfólk spítalans. Að málið sé löngu ákveðið og sem ekki þurfi að endurskoða. Þokkaleg þjóðargjöf það á dýrustu ríkisframkvæmd sögunnar. Frekari tafir nú hinsvegar á endurskoðun á málinu og staðarvali ásamt nauðsynlegum bráðabirgðalausnum, er ekki valkostur og sem samrýmist að upphaflegum hugmyndunum að nýjum sameinuðum Landspítala og bráðamóttöku sem mest miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu öllu. 

þyrla

Framtíðarskipulag á Nýjum Landspítala við Hringbraut og nágrenni sem skapað getur stórslys varðandi þyrluflug yfir Þingholtin.

Öruggt aðgengi tengt sjúkraflutningum, aðkomu sjúklinganna sjálfra og aðstandenda, ásamt starfsfólki á fjölmennasta vinnustað landsins er ekki tryggt. Hætt var við umferðamannvirki sem talin voru nauðsynleg í gerð undirbúningsáformanna allt til ársins 2009. Hringbrautina í stokk og umferðagöng um Hlíðarfót. Kostnaður við Hringbrautarframkvæmdina þannig reiknuð niður um tugi milljarða króna. Í annan stað var Reykjavíkurflugvelli síðan kippt út sem upphaflegri meginforsendu staðarvalsins árið 2012, sennilega aðallega vegna bygginga- og hóteluppbyggingar Reykjavíkurborgar í Vatnsmýrinni. Nú er þegar búið að loka neyðarbrautinni (SV brautinni) við enda Valslóðarinnar næst Landspítalalóðinni og framkvæmdir hafnar. Fyrirséðar eru miklar tafir á sjúkraflugsflutningum  og það sem verra er, nú ófullnægjandi öryggi varðandi sjúkraflug um Reykjavíkurflugvöll og síðar aðkomu sjúkraþyrluflugs á þak nýrrar rannsóknarbyggingarinnar LSH á 5 hæð í framtíðinni, Rétt við sjálfan meðferðarkjarnann og sem skapað getur stórslys á sjálfri spítalastarfseminn við minnsta óhapp. Auðvitað verður að tryggja opin svæði fyrir nauðlendingar í misjöfnum veðrum yfir Þingholtunum og eins ef einhver vélarbilun verður. Það verður auðvitað ekki bæði sleppt og haldið í þessum efnum og ef Reykjavíkurborg vill á annað borð halda í Landspítalann á Hringbrautarlóðinni.

Þannig eru tvær af þremur helstu forsendum fyrir staðsetningu á Nýjum Landspítala við Hringbraut horfnar og aðeins stendur eftir nálægðin við aðalbyggingu HÍ í Vatnsmýrinni, gamla Tanngarð, DeCode og Alvogen. Bent hefur verið á að það muni kosta mikið meira fyrir HÍ að tjasla upp á gamla Tanngarðinn við Hringbrautina með endurnýjun og viðbótarbyggingum, samanborið ef reist væri heilstæð ný bygging fyrir allt heilbrigðissvið skólans tengt byggingu Nýs Landspítalans á miklu betri stað, t.d. á Vífilstaðalóð og mest hefur verið rætt um. Þar sem jafnt aðgengi fyrir alla væri mikið betur trygg og þar með styttri meðaltalsfjarlægð frá heimilum höfuðborgarbúa til spítalans. Ekki að aðeins sé tekið mið að 101 Reykjavík og næsta nágrenni.

landeyjahöfn

Landeyjahöfn og endalausar sanddælingar úr henni sem fyllist strax aftur af sandi eins og meðfylgjandi mynd ber glöggt með sér. Þannig heldur hún ekki sjó frekar en keraldið hjá Bakkabræðrum forðum. http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2010/12/29/ekki-er-kyn-thott-keraldid-leki/

Samtök um betri spítala á besta stað (SBSBS) hafa látið reikna út að heildstæð framkvæmd á besta stað kosti minna þegar upp er staðið, taki jafnvel skemmri tíma þótt undurbúningur hæfist ekki fyrr en með haustinu og væri mikið hagkvæmari síðar í rekstri. Eins sem kæmi í veg fyrir mikið rask og ónæði í starfsem gamla Landspítalans næsta áratuginn vegna byggingaframkvæmda og endurnýjunar á hálfónýtu húsnæði. Nýja skynsamlega ákvörðun hefur hins vegar dregist fram úr hófi að taka, að því er virðist vegna gamalla loforða í gömlu stjórnmálaflokkunum. Ekki þó meðal Pírata sem vilja strax endurskoðun á málinu. Mál sem verður eitt af stóru kosningamálunum í haust.

Margar skynsamlegar bráðabirgðalausnir til að brúa bilið næsta áratuginn eru í boði og gert hefur verið m.a. grein fyrir hjá SBSBS. Loks þegar við höfum efni á að ráðast í byggingu Nýs sameinaðs þjóðarsjúkrahúss og sem gerist kannski ekki nema einu sinni á öld og þegar vel árar í efnahagnum. Að við byggjum hyggilega til framtíðar á besta mögulega stað í fallegu og opnu umhverfi eins og flestar aðrar þjóðir kappkosta að gera þegar því verður við komið. Að öðrum kosti og allt stefnir nú í, framtíðarstrand á flaggskipi heilbrigðisþjónustunnar og glundroðaástand í gamla miðbænum í 101 Reykjavík um langa framtíð og sem margir telja að sé nú þegar búið að eyðileggja

 

Eins og síld í tunnu – Nýi þjóðarspítalinn við Hringbraut!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 17.6.2016 - 07:07 - FB ummæli ()

Eins og síld í tunnu – Nýi þjóðarspítalinn við Hringbraut!

 

lsh

 

Við Íslendingar erum svo lánsamir að vera fámenn en rík eyþjóð í miðju Atlantshafi með nóg og gott landrými til íbúabyggðar um nær alla strandlengjuna. Eins og verið hefur í um þúsund ár þrátt fyrir allskonar harðindi á köflum. Höfuðborgarsvæðið hefur byggst upp sem höfuðborg alls landsins og þjónað því lengst af vel í samspili við öfluga byggðarstefnu um landið allt. Þangað sem allra leiðir hafa leigið þegar mestrar þjónustu er þörf.

Nú er þar skarð fyrir skildi og eins og verið sé að vinna að borgríki í miðbæ höfuðborgarinnar fyrir hagsmunaaðila sem vilja ekki sjá út fyrir 101 Reykjavík. Fyrirséðar miklar skerðingar á umferðarsamgöngum inn í miðborgina, af landi sem úr lofti. Meðal annars að nýja þjóðarsjúkrahúsinu okkar og sem byggja á, á versta stað á aðþrengdri Hringbrautarlóðinni þegar lífið sjálft liggur við. Heimsborgarsýnar borgarstjórnar á heimsmælikvarða og sumir skipulagsfræðingar vilja kalla mikilmennskubrjálæði sem samsvarar helst uppbyggingu höfuðborga á þéttbýlustu svæðum veraldar. Á stöðum þar sem möguleikar til annarra uppbyggingar eru kannski engir. Þar sem við fáum ekki lengur að elta atvinnutækifærin, heldur atvinnutækifærin okkur, m.a. nú á stærsta og sérhæfðasta vinnustað landsins, Nýjum Landspítala. Hiklaust á að fórna möguleikum samspils íslenskrar náttúru við íbúa- og spítalabyggð. Stappþéttingu byggðar m.a. með brottnámi flugvallarins í Vatnsmýrinni og sem alltaf var ein aðal forsenda staðarvals byggingaáforma spítalans um síðustu aldarmót. Allt til ársins 2012 að þeirri forsendu var skyndilega kippt út. Eins nú hótelbygginga um allan miðbæinn og eins og að aðrir kostir í nágrannabyggðum séu útilokaðir. Í raun græðgisvæðing borgarstjórnarmeirihluta stjórnmálaflokks sem vildi kenna sig við samfylkingaröfl alþýðunnar á landsvísu! Í dag er höfuðborgarsvæðið allt auðvitað svo miklu meira en bara „gamli miðbærinn í Reykjavík“ og sem getur munað fífil sinn svo miklu fegri.

Samtök um betri spítala á betri stað (SBSBS) hafa skorað á stjórnvöld og stjórnmálasamtök sl. ár að endurskoða fyrri ákvörðun um byggingu Nýs Landspítala við Hringbraut og finna honum betri stað, góðan stað á sem skemmstum tíma. Nú tengt alþingiskosningunum í haust. Byggingaframkvæmdir á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni setur málið nú í enn meiri forgang en áður og þegar allir vankantar eru orðnir miklu augljósari. Hér fyrir neðan er nýleg sameiginleg ályktun SBSBS og sem er birt í tilefni af degi okkar allra.

Við ákvörðun um staðsetningu sameinaðs spítala um síðustu aldamót þótti valið standa á milli Landspítala við Hringbraut og Borgarspítala. Erlendir ráðgjafar kusu Fossvoginn, en áhrifamönnum á Hringbraut hugnaðist það ekki og fengu því hnekkt. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og rökin standa nú til þess að byggja nýjan spítala á betri stað.
Heildarkostnaður er 50-100 milljörðum króna lægri
Nettó fjárfesting, að teknu tillit til betri nýtingar húsnæðis, söluverðmætis eigna sem losna og minni gatnaframkvæmda er um 20 milljörðum kr. lægri ef byggður er nýr spítali frá grunni.
Rekstrarkostnaður verður um 500 milljónum á ári lægri því það er ódýrara að reka spítalann í betra húsnæði og ferðakostnaður notenda ef spítalinn verður nær þungamiðju byggðar. Núvirt gerir þessi tala um 20 milljarða kr.
Samtals er ofangreindur hagur af því að byggja nýjan og betri spítala á betri stað 40 milljarða kr.
Ef nýr spítali verður einnig nær þungamiðju byggðar, en Hringbrautin er, þar sem ferðir til og frá spítalanum verða um 9.000 á sólarhring og þar sem hver kílómetri sem ferðin styttist sparar um 1 milljarð króna á ári gæti viðbótar sparnaður orðið allt að 60 milljarðar króna núvirði.

Það er tafsamara að byggja við Hringbraut en á aðgengilegu svæði.

imageTímaáætlun NLSH ohf. fyrir nýbyggingar við Hringbraut nær til 2023, sjá mynd. Endurgerð gömlu bygginganna er talin um 6 ár, sem kann að tefjast. Nýr spítali við Hringbraut verður því í fyrsta lagi tilbúinn 2027.
Samkvæmt áætlunum sérfræðinga SBSBS getur nýr spítali á nýjum stað verið tilbúinn árið 2025. Þó gerð faglegs staðarvals og nýr undirbúningur taki tíma, vinnst það upp með meiri framkvæmdahraða á betri aðgengilegri stað þar sem minni truflun er af byggingarframkvæmdunum.
Gæði nýs spítala eru meiri og öryggi sjúklinga tryggara
Nýr spítali á betri stað verður betri spítali og það mun bjarga mörgum mannslífum og bæta önnur. Í því sambandi skiptir miklu að sem flestir eigi stutta, greiða leið að spítalanum.
Það verða um 9000 ferðir að og annað eins frá spítalanum á sólarhring eftir sameiningu, enda starfsmenn um 5000.
Um 100 sjúkrabílar og allt að 200 í toppum munu koma að spítalanum á sólarhring.
Vænlegastir staðir fyrir spítalann liggja við meginstofnbrautir, sjá teikningu. Til að finna besta stað þarf faglega staðarvalsgreiningu, sjá neðar.
Aðflugsskilyrði sjúkraþyrlna skipta mjög miklu. Með góðri aðkomu verður hægt að nota svipaðar þyrlur og nú eru notaðar, en á Hringbraut er gert ráð fyrir þyrlupalli á þak spítalans, sem þýðir 2-3 sinnum dýrari þyrlur og minna öryggi.

Fagleg staðarvalsgreining og endanleg ákvörðun.
Til að gera faglega staðarvalsgreiningu þarf óháða fagmenn svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Fagfólkinu yrði falið að gera úttekt á mögulegum staðsetningum á út frá fjárhags-, gæða-, ferða- og umferðar-, öryggismálum og svo framvegis.
Niðurstöðurnar ætti að birta með aðgengilegum hætti fyrir allan almenning, þannig að glögglega megi átta sig á hvernig hver staður kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.
Endanlegt val milli bestu kosta gæti svo verið Alþingis eða þjóðarinnar í vandaðri skoðanakönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi er mikilvægt að búa þannig um hnútana að um niðurstöðuna verði ekki frekari ágreiningur.

Góðar lausnir geta brúað bilið.
Ef hætt verður við nýjan meðferðakjarna við Hringbraut má grípa til góðra ráðstafana til að brúa bilið.
Að sjálfsögðu þarf að tryggja nægt fjármagn til tækjakaupa og launa. Sjúklingahótelið kemur í gagnið á næsta ári og það mun létta á. Auðvelt er að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi álmu yfir greiningadeild lyflæknissviðs og fyrir legudeildir og nauðsynlegar skrifstofur. Þessar framkvæmdir þurfa ekki að taka nema 2-3 ár, þeim má haga miðað við að notkunin breytist síðar þegar nýr spítali kemur í gagnið. Þetta eru fljótlegar lausnir sem heilbrigðiskerfið þarf hvað mest en auk þess þarf að taka á aðflæðisvanda og fráflæðisvanda heilbrigðiskerfisins það er styrkja heilsugæslu og bæta við langtímalausnum fyrir aldraða.
Mikill meirihluti styður annað og betra staðarval.
Óyggjandi vissa er fyrir því eftir margar viðhorfskannanir að allur almenningur sem og heilbrigðisstarfsmenn styðja nýjan spítala á betri stað í stað klasturs við Hringbraut.

Gleðilega þjóðhátíð

Sjá nánar á:

Nýr Landspítali á betri stað

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 27.5.2016 - 09:47 - FB ummæli ()

Þorskurinn og lækningamátturinn fyrir vestan

2908_þorskurÍ vikunni greindi RÚV frá góðum árangri í meðhöndlun djúpra legusára á Ísafirði með þorskroði. Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis á Ísafirði hefur getið af sér gott orð áður fyrir árangur í meðferð langvinnra sára. Sérmeðhöndlað þorskroð án lifandi frumna og sem er ríkt af Omega 3 er notað sem gervihúð eða stoðgrind yfir sárin. Þessi meðferð er viðurkennd af bandarískum og evrópskum heilbrigðisyfirvöldum til nota í sérvöldum tilvikum hjá heilbrigðisstofnunum og þótt enn sé unnið að rannsóknum á endanlegum áhrifum meðferðarinnar.

Með sanni má segja að þetta er í fyrsta skipti sem viðurkennd íslensk læknismeðferð við alvarlegu sjúkdómsástandi kemst á markað erlendis og sem auk þess lofar miklu um framhaldið. Árlega er áætlað að um 35 milljón sjúklinga séu til meðferðar vegna legusára í heiminum og milljónir vegna annarra skurðaðgerða og vefjahöfnunar eftir ígræðslur hverskonar, t.d. vegna oft brjóstaimplanta (gervibrjósta) sem Íslendingar nálgast að eiga heimsmet í miðað við íbúafjölda og sem þegar er orðin alvarlegur tilbúinn heimilisvandi. Í sumum tilvikum varður samt um langtímahöfnun að ræða á þorskroðinu en sem hefur þá skapað oft miklu betri vef umhverfis sárin og sem vænlegra er að reyna húðágræðslu síðar. Eins verður spennandi að fylgjast með árangri í meðferð alvarlegra og jafnvel útbreiddra brunasára með filmum úr þorskroði og sem mér skilst að unnið sé að hjá Kerecis. Þetta kemur svo sem ekkert voðalega á óvart, enda kemur oft það besta til lækninga beint frá náttúrunni. Hér er þó engan veginn lítið gert úr hátæknislæknisfræðinn og hefðbundnum lyfjameðferðum, en sem margar hvejar eiga reyndar líka rætur að rekja til jurta og dýraríkisins.

Annars leiðir þessi frétt að annarri frétt hér á blogginu mínu fyrir 3 árum. Um var að ræða árangur sem undirritaður varð vitni af í meðferð legusára á baki og lendum tveggja langlegusjúklinga á Sjúkrahúsi HVE á Hólmavík. Frumkvæðið hafði verið hjá sjúrkliðum og hjúkrunarfræðingi sem önnuðust hjúkrun og hreinsun sáranna og sem höfðu stækkað og dýpkað mánuðum saman eins og oft gerist hjá langveikum, þrátt fyrir hámarks umönnun með snúningum á eggjadýnum og fleiri úrræðum til að tryggja betri loftun um sárin og minnka leguþrýsting. Allt var prófa þar til tilraun var gerða að nota íslenskt nátttúrkrem, bioICE (áður kallað Lýsiskremið) og framleitt er á Grenivík. Notað var bórsýruslím til að hreinsa upp sárin áður en kremið var borið í. Sárin tóku fljótlega við sér og greru síðan upp á nokkrum vikum. Nokkuð sem ég hafði aldrei búist við en varð vitni að á milli tveggja áramóta þar sem ég starfaði þá á heilbrigðisstofnuninni. Mér lék mikill hugur á að vita hvað þetta undrakrem innihélt og hafði samband í framhaldinu við hönnuðinn símleiðis.

Sigríður Einarsdóttir heitir hún og sem er nú öldruð kona sem að mestu er búin að draga sig í hlé. Hún tjáði mér um vissa eiginleika kremsins og sem hafði verið um langt skeið mikið notað til sárameðferðar á dýrum, einkum hrossum. Og ekki bara hér á landi heldur hafði hún leyfi lyfja- og matvælaeftirlits Bandaríkjanna (FDA) til útflutnings, aðallega til meðferðar á sólarexcemasárum á bandarískum hrossum. Sigríður upplýsti að uppistaðan í kreminu væri lýsi sem eins og allir vita inniheldur ríkulega m.a. af Omega 3 og 6 fitusýrun og repjuolía. Síðan væri galdurinn uppleystar ákveðnar íslenskar lækingajurtir í ethanol seyði, m.a. blóðberg. Allar þessar upplýsingar fannst mér stórmerkilegar auk frásagna Sigríðar af virkni kremsins á allskonar sár dýra hjá bændum. Vísindaleg athugun hafði þó ekki verið gerð á virkni kremsins.

Einhvern veginn hafa menn komist af hér áður fyrr og sem erlendar forskriftarbækur á jurtalyf lækna bera glöggt vitni um. Nýlega minntist ég á annan „galdraseyð“ af Ströndum og sem er safinn hennar Ragnheiðar Hörpu Guðmundsdóttir á Kálfanesi og sem inniheldur seyði af stórnetlu og sem virkar á vel gegn bólgusjúkdómum hverskonar. Eins vitum við sögu asperíns (magnýls) sem meðal annars fíflamjólkin okkar er ríkuleg af og notað var til lækninga allt frá dögum Hippókratesar. Ekkert síður mikilvægi eðlilegrar garnaflóru með réttu mataræði m.a. okkur til varnar. Og um lýsið og D vítamínið efast enginn sem gerir mikið gott, ekki síst fyrir húðina.

Hvað varðar almennt húðsjúkdóma og sár kennir margra grasa er varðar læknismeðferðir m.a. hér á landi á árum áður og ég nokkrum sinnum komið inn á áður m.a. með tilvitnunum úr alþýðutímaritinu Eir um heilbrigðismál um aldarmótin 1900. Sár vegna stórubólu gátu t.d. verið sérlega illvíg og seingróandi. Niels Finsen, danskur læknir af íslenskum ættum fékk Nóbelsverðlaunin í læknis- og eðlisfræði árið 1903 fyrir geislarannsóknir. Fyrir hans orð fóru læknar að reyna þá aðferð við bólusótt að byrgja úti bláa hættulega geisla sólarinnar með því móti að láta aðeins rautt ljós komast að sjúklingnum (síðar skilgreind sem innrauð geislameferð). Það mátti gera með því að hafa rautt gler í gluggarúðunum eða rauð tjöld fyrir gluggum og hurðum. Reynslan sýndi að bólan varð miklu vægari með þessari aðferð og það gróf lítið sem ekkert í bólunum auk þess sem þær þornuðu upp fyrr en ella.

Í dag eru hins vegar allskonar dellukúrar ráðandi og sem stundum skírskota til náttúruefna. Kúrar sem settir eru á markað fyrst og fremst til að framleiðendur maki krókinn. Sennilega er Zinzino kúrinn hvað frægastur og sem fær ákveðinn trúverðugleika með því að innihalda Omega 3 fitusýrur umfram aðrar omega fitusýrur. Fólk er haft að féþúfu og heilu íþróttafélögin hef ég heyrt fjármagni starfsemi sína með pýramídasölu á þessu rándýra mixtúrudufti í ársáskrift. Auðvitað er a.m.k. jafn hollt eða sennilega miklu hollara að taka bara inn sitt íslenska Lýsi daglega og losna þannig við tilhugsunina um að vera sem nýveiddur spriklandi þorskur á króki misvandaðra veiðimanna.

 

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll

Þriðjudagur 24.5.2016 - 23:17 - FB ummæli ()

Nýtt höfuðborgarskipulag í þágu 101 Reykjavík !

aðals

Úr kynningu Dags B. Eggertsonar borgarstjóra Reykjavíkur – Þróunarás aðalskipulags 20. maí 2016

Nú skal ég taka strax  fram að ég er ekki sérfræðingur í borgarskipulagsmálum. En af tilefni nýrrar kynningar á borgarskipulagi Reykjavíkurborgar og þéttingu byggðar, aðallega kringum miðbæinn og sem starfandi læknir á höfuðborgarsvæðinu öllu í þrjá áratugi, kemst ég ekki hjá að leggja nokkur orð í belg. Kannski mest sem á rætur að rekja til umræðunnar á nýjum Landspítala á Hringbrautarlóð þar sem ég nú starfa og endurspeglast m.a. í rökum Samtaka um betri spítala á betri stað. Mér er í raun skylda til þess sem læknis og sem horfir upp á dragbít góðrar spítalaþjónustu næstu áratugina. Samkvæmt lækniseið gengur maður ekki fram hjá bráðveikum eða slösuðum manni og sem höfuðborgarbúi fylgi ég sannfæringu minni um gott skipulag, ekki síst á umferðinni, aðgengi að þjónustu og til verndar umhverfis og gamalla menningarverðmæta sem vill svo til að eru mest staðsettar í miðborginni sjálfri eins og gefur að skilja og mér þykir afskaplega vænt um.

stofnar-640x736

Meðfylgjandi kort er úr Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til 2040 en það sýnir fyrirhugaða legu megin stofnvega á höfuðborgarsvæðinu til þess tíma. „Besti staður“ fyrir spítalann er greinilega þar sem þessir aðal stofnvegir mætast.

Höfuðborg hlýtur að bera skyldur gangvart öllum landsmönnum og ekkert síður gagnvart nágrannabyggðum. Það kemur mér því sérstaklega á óvart að ofuráhersla skuli vera á að þétta byggðina kringum gamla miðbæinn á kostnað þéttingu úthverfanna. Að þar eigi mesta áherslan að vera á atvinnuuppbyggingu og atvinnutækifærum. Hvers eiga úthverfaíbúar að gjalda og sem í góðri trú festu sína búsetu í nýjum hverfum sl. áratugi og sem byggjast áttu síðan upp sem ein heild. Hvað réttlætir aðeins eina þéttingu og sem þar að auki er ofhlaðin þjónustu fyrir og takmörkuðu aðgengi og samgöngumöguleikum. Ofuráhersla á hótelbyggingar og þar sem varla má nú sjást grænn reitur. Vatnsmýrin þjónar nú, hvað sem verður í framtíðinni, sem aðal innanlandsflugvöllur landsins og nálægð þannig landsbyggðarinnar við opinbera þjónustu í miðbænum. Hvað réttlætir að á sama tíma og stefnt er að að láta flugvöllinn víkja vegna skorts á lóðum að þá skuli reist nýtt/gamalt 140.000 fermetra þjóðarsjúkrahús á gömlu og þröngri Hringbrautarlóðinni með flóknum bútasaum og óhagræði á allan hátt. Flugvöllurinn var þó forsenda staðarvalsins á sínum tíma um aldarmótin allt til ársins 2012 þegar þeirri forsendu var skyndilega kippt út vegna byggingaáforma í Vatnsmýrinni. Af hverju þá ekki að sama skapi staðsetningu spítalans? Nei mikill vill alltaf meira og ekki mátti hrófla við atvinnutækifærum í miðbænum á stærsta vinnustað landsins. Það verður aldrei bæði sleppt og haldið og ef flugvöllurinn fer að þá ætti borgin að þakka pent fyrir sig og finna spítalanum annan ákjósansamlegan stað eins og hún gerði þegar ákveðið var að reisa Borgarspítalann á sínum tíma. Ef borgin á annað borð leggur metnað sinn í að halda í þjóðarsjúkrahúsið.

Nýjasta borgarskipulagið geri nú ráð fyrir brú frá Skerjafirði yfir í Álftanes með þéttari byggð í Vatnsmýrinni og flugvöllurinn verður farinn eins og sjá má á myndinni hans Dags hér að ofan. Gott og vel og þá bættar samgöngur á landi og nýr samgönguás í austur til Hafnarfjarðar. Enn þéttist þá að sama skapi byggðin kringum Nýjan Landspítalann og enn minna rými verður til stækkunar síðar og eins nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja gott og öruggt sjúkraflug með þyrlum með opnum öryggissvæðum í kring. Spítali sem verður þá líka eins fjarri náttúrunni og hugsast getur og sem mikil áhersla er lögð á í bataferli sjúklinga nú á dögum. Bjart og opið svæði kringum allar legudeildir. Önnur bæjarfélög eiga líka eftir að stækka bæði í norður og austur frá borginni. Hvað með þeirra hagsmuni. Enn meiri umferðartrafík þá fyrirséð inn í gamla miðbæinn.

Hótelgræðgi Reykjavíkurborgar þessa daganna dæmir sig auðvitað sjálf og sem mest er fjármögnuð gegnum allskonar aflandsfélög. Miðbær Reykjavíkur er varla lengur fyrir Reykvíkinga og varla tíundi hver vegfarandi innlendur. Hvað þá í náinni framtíð. Látum hins vegar ekki borgarstjórn Reykjavíkur og stjórnvöld eyðileggja líka fyrir fyrir okkur nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á þjóðarsjúkrahúsi okkar allra í framtíðinni. Hvað segja eiginlega borgarbúar um þá einangrunarstefnu sem nú ríkir gagnvart úthverfunum í þágu 101 Reykjavík? Enn eins og ég sagði, ég er ekki skipulagsfræðingur. Almenn skynsemin mín æpir hins vegar á aðrar lausnir, ekki síst varðandi vanhugsuð byggingaáform á dýrustu og stærstu ríkisframkvæmd sögunnar og sem ég þekki ágætlega til. Á gamla góða Landspítalanum sem segja má líka að ég hafi alist að hluta upp á.

Öll viljum við auðvitað glæsilega miðborg í Reykjavík og tækifæri til að njóta sem best, m.a. sögu byggingarlistar þjóðarinnar. Öll hljótum við að vilja sem bestan þjóðarspítala á sem bestum stað og mikið betri en nú er áformað að byggja og sem átt hefur sér allt of langa og flókna sögu. Spítala sem kostar jafnvel miklu minna þegar upp er staðið, tekur jafnvel skemmri tíma að fullklára og endast mun langt fram í framtíðina, en ekki bara næstu tvo áratugina. Framkvæmd sem allt of margir stjórnmálamenn eru of stoltir til að viðurkenna mistökin á varðandi undirbúning og forsendur, þverpólitískt, með vinagreiða og hollustu við leiðtogana bæði hjá ríki og borg.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn