Mánudagur 4.5.2020 - 15:52 - FB ummæli ()

Tími til að endurskoða aðgerðaleysi íslenskra stjórnvalda gegn smitáhættu sýklalyfjaónæmra súna erlendis frá?

Sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins getur kostað íslenska ríkið allt 50-100 milljarða króna á ári eftir 2-3 áratugi, í auknum heilbrigðiskostnaði og töpuðum mannslífum, allt að nokkur hundruð líf á ári og ef spár heilbrigðisstofnana heims ganga eftir, þar á meðal WHO og bandaríska landlæknisembættisins, CDC og tölur heimfærðar fyrir Ísland.

Kostnaður fyrir þjóðfélagið vegna Covid19 veirufaraldursins nú, er áætlaður upp á allt að 400 milljarða króna. Íslenska þjóðin hefur ekki efni á öðrum slíkum faraldri næsta áratuginn. Þjóðin skilur samt vonandi betur en áður í seinni tíð, mikilvægi smitvarna í víðara samhengi og margsinnis hefur verið varað við. Margt í almennum smitvörnum, með lágmarks tilkostnaði, getur sparað mikla fjármuni í framtíðinni og ef vel er staðið að málum. Lýðheilsumarkmiðin látin ráða fram yfir viðskiptahagsmuni og t.d. EFTA ákvæði sem byggjast að hluta á miklum misskilningi og ekki tekið tilliti til sérstöðu Íslands. Að okkur takist að takmarka sem mest nýdreifingu sýklalyfjaónæmra súna á Íslandi, sameiginlegri flórubaktería dýra og manna, erlendis frá með landbúnaðarafurðum. Þar á meðal sýklalyfjaónæmra colibaktería (ESBL) og klasakokka (MÓSA).

Sýklalyfjaónæmi súna í eldisdýrum er víða orðið mjög algengt erlendis (oft >50%), ólíkt því sem þekkst hefur á Íslandi og þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði hefur alltaf verið mjög lítil. Sáralítið er af þessari sýklalyfjaónæmu flóru í Íslendingum og íslenskum eldisdýrum í dag (<2%). Íslendingar hafa þannig sloppið að mestu við þennan mangerða faraldur, vegna lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði, frystiákvæða á erlendu kjöti til síðustu áramóta og legu landsins. Lágmarks krafa ætti því að vera að flytja ekki þessar flórubakteríur á auðveldasta máta til landsins með ófrosnu kjöti og sem var ákveðið að leyfa frá síðustu áramótum. Nýja óhagstæða flóru með blóðleku kjöti og sem dreifist miklu frekar um allt en frosið. Í og úr kjötborði kaupmannsins, á aðrar vörur, í margnota innkaupapokana okkar, á hendur okkar og barnanna.

Þó að enginn 2 metra regla gildir auðvitað í samskiptum við kjötkaupmanninn eða neinn annar samfélagssáttmáli gerður fyrir verslanir, ætti að vera miklu meiri áhersla á að fyrirbyggja fyrirséða snertismitáhættu súnubaktería frá hráu ófrosnu erlendu kjöti í menn. Síðar sýklalyfjaónæmri garna- og húðflóru sem við berum um ófyrirsjáanlegan tíma og sem getur verið afar illgjörn löngu ef veldur sýkingum síðar og sýklalyfin virka ekki á. Sýklar sem valda algengust sýkingum mannsins eins og t.d. sárasýkingum hverskonar eða þvagfæra- eða iðrasýkingum og við myndum ekkert ónæmi gegn. Sérstakt ráðgert eftirlit í tollinum í dag, með svokölluðum matareitrunarbakteríunum og sýklalyfjaónæmi meðal þeirra (salmonellu og kamphýlobakter), dugar auðvitað engan veginn gegn þessari nýju óhagstæðu nærflóru mannsins sem verið er að bjóða upp á.

Eins og ég er stoltur af árangri smitvarna í Covid faraldrinum nú, er ég jafn hissa á andvaraleysinu er snertir stærstu manngerðu lýðheilsumistök samtímans og þar sem takmörk smitsjúkdómafræðinnar eru þverbrotin. Alverleg og rándýr misstök stjórnvalda þegar upp verður staðið. Með flutningi á ófrosnu og lekandi hráu erlendu kjöti í verslanir landsmanna. Frjáls innflutningur á erlendu ófrosnu grænmeti er síðan enn annað stórmál og þar með aukin smithætta á sýklalyfjaónæmum bakteríum úr erlendum menguðum jarðvegi og áveituvatni. Þegar öryggir framleiðsluhættir á landbúnaðarafurðum, þrif, skol og öruggir flutningar, skiptir mestu máli.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 26.4.2020 - 13:14 - FB ummæli ()

Villtari Freyjukettir

Fyrir öld síðan var sjötta hvert barn óskilgetið á Íslandi. Fjöldi lekandatilfella árið 1914 voru 235 og sárasóttartilfellin 40, einu mestu samfélagsvandamáli þess tíma. Í þá daga voru ungir ungir menn hvattir til að lesa handbækur um það hvernig þeir ættu að hegða sér gagnvart hinu kyninu, ekki síst áður en þeir lögðu út í hinn stóra heim og sagt var frá í kverinu hans Steingríms Matthíassonar héraðslæknis á Akureyri um samræðissjúkdómana sem svo voru nefndir, Freyjukettir og Freyjufár, árið 1918.

 

Landlæknisembættið, apríl 2020

 

 

Steingrímur vísar þar til sagna í Snorra-Eddu þar sem mynnst er á ástargyðjuna Freyju og kettina hennar og sem hafa verið mörgum skáldum yrkisefni. Kynsmitsjúkdómarnir læðast hins vegar ekki lengur bara í skjóli myrkurs og tenjast frekar kynhegðun okkar í nútímasamfélagi. Stundum ískaldar staðreyndir á norðurhjara veraldar og faraldrar sem eru enn villtari en Freyjukettirnir áður.

 

 

Eftir mörg góð ár upp úr miðri síðustu öld og þegar kynsjúkdómalæknar höfðu minna að gera, brast HIV faraldurinn út. Nú tæpum þremur áratugum síðar og böndum komið á HIV faraldurinn með lyfjameðferð, hefur tíðnin lekanda verið á hraðri uppleið og greinast nú um 200 tilfelli árlega í Bandaríkjunum á hverja 100.000 íbúa og sem samsvarar um 600 tilfellum á Íslandi á ári, en sem voru sem betur fer aðeins 111, töluverð aukning þó milli ára. Og það sem verra er, fjölgar ört sýklalyfjaónæmum stofnum lekanda út um allan heim, stundum fjölónæmum!

 

 

Hin illvíga sárasótt hefur mikið sótt í sig veðrið víða um heim sl. áratug, t.d. 30 faldast í tíðni í Kína. Sambærilegar tíðnitölur hvert ár við Bandaríkin í dag eru um tuttugu einstaklingar per 100.000 íbúa, þar af nokkur í hópi nýfæddra barna. Á Íslandi voru sárasóttartilellin 36 árið 2019, en hraðrar aukningar í smiti hefur orðið vart í upphafi þessa árs og sjá má á myndinni frá Landlæknisembættinu hér til hliðar.

 

 

 

 

HPV (human papilloma virus) sýkingar eru þó algengasti kynsjúkdómurinn og sem yfir 80% kvenna smitast af að lokum og sem valdið geta frumubreytingum í allt að 3% tilvika og sem einnig valda svokölluðum kynfæravörtunum hjá báðum kynjum. Veldur hins vegar flestum krabbameinum í hálsi, munni og endaþarmi hjá karlmönnum. Eitt algengasta krabbameinið okkar er þannig kynsjúkdómur.

Sem betur fer eru grunnskólastúlkur bólusettar frá 2011 gegn algengust HPV-stofnunum sem helst geta valdið krabbameini, en því miður ekki drengirnir.

Allt að 20% ungs fólks á Íslandi smitast síðan til viðbótar í dag af Klamydíu og sem getur valdið ófrjósemi síðar hjá stúlkum og langvinnri blöðruhálskirtilsbólgu hjá mönnum.

Menn trúa ekki lengur á boðskap fornsagnanna eða gildi handbóka fyrir unga menn, heldur á vaxandi mátt læknavísindanna og sem bjarga á öllu. Þegar gildi forvarna, smitvarna og bólusetninga skiptir í raun, eins og áður, mestu máli.

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Fimmtudagur 23.4.2020 - 19:30 - FB ummæli ()

Hjarðónæmi eða ekki hjarðónæmi

Aðeins á neðstu myndinni er hægt að tala um hjarðónæmi

Hef tekið eftir töluverðum misskilningi með notkun hugtaksins, hjarðarónæmi (herd immunity). Hjarðarónæmi kallast það hins vegar þegar ónæmir eru svo margir í þjóðfélaginu að það hindri smit í þá næmu og sem hafa þá ekki sýkst áður og myndað mótefni eða með gilda/virka bólusetningu gegn samsvarandi veiru eða bakteríu. Vörnin sem aðeins hjörðin veitir og allir eru með, almenningur, sérfræðingar og fjölmiðlarnir!

Hér áður fyrr, fyrir meira en öld síðan og þekking í smitsjúkdóma- og ónæmisfræðinni minni, töluðu menn samt um annaðhvort næman eða ónæman jarðveg til samsvörunar á því í dag hvort hjarðónæmi væri til staðar eða ekki. Almennt talað næst hins vegar ekki hjarðónæmi og sem hægt er að treysta á, nema fjöldi ónæmra einstaklinga í þjóðfélögum fari vel yfir 60%. Hlutfall sem ekki er hægt að treysta vel á í raun, nema það hlutfall fari yfir 90%. Ónæmishlutfall sem stefnt er að að ná og halda t.d. varðandi mislinga til að hefta nýjum smitum út í þjóðfélagið.

Ef smitaður einstaklingur kemur hins vegar í slíka hjörð t.d erlendis frá, er ólíklegt að sá hinn sami komist í snertingu við þá örfáum og sem eru næmir. Getur samt hins vegar átt sér stað t.d. í sértrúarsöfnuðum sem eru á móti bólusetningum og dæmin sanna t.d. í Þýskalandi gagnvart MMR bólusetningum barna. Nokkur þúsund smit koma þannig upp þar árlega. Eins auðvitað áhyggjuefni hér á landi og ef ekki er líka haldið vel um bólusetningaskrár varðandi nauðsynlegar endurbólusetningar og Landlæknisembættið sinnir vel með sinni miðlægu rafrænu skráningu.

Að einstaklingar smitist og myndi ónæmi í innan við 10% tilvika eins og virðist vera í Covid19 faraldrinum nú, hefur mjög takmörkuð áhrif til að myndunar hjarðónæmis. Að einstaklingar sæki sér hjarðónæmi er því ekki til, þótt sá hinn sami smitist sennilega ekki aftur og ef hann á annað borð myndar mótefni og sem er ekki sannað að gerist í öllum tilvikum eða jafnvel bara að litlu leiti varðandi Covidsmit. Nokkuð sem blaðamenn ættu að hafa hugfast og einnig þeim blaðamönnum sem skipa nú Covid-falsfréttanefnd Þjóðaröryggisráðsins og sem aðeins er skipuð fjölmiðlafólki. Hjarðónæmi fyrir Covid19 á aðeins við ef varnarmúrinn gegn smiti heldur og því greinilega langt í land. Mema þá ef vera skildi að coronamótefni fyrri ára gefi einhverja vörn og sem við vitum ekki í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 13.4.2020 - 21:58 - FB ummæli ()

„Það má ekki láta oss standa uppi með ótendraða lampa eins og óforsjálu meyjarnar“ – Eir árið 1900

 

Sagan kennir okkur margt og farsóttir ekki nýjar af nálinni. Inflúensa, bólusótt, taugaveiki og barnaveiki, ásamt berklum og holdsveiki voru allt að því hversdagsleg vandamál hér áður fyrr. Fátækt, hungur og lélegur húsakostur ásamt náttúruhamförum, fylgdi auk þess þjóðinni fram á 19. öldina. Hef nokkrum sinnum áður vitnað og haft eftir texta úr greinum úr Alþýðutímaritinu Eir sem gefið var úr 1899 og 1900. Lestur þessara greina koma manni oft mikið á óvart, auk þess að geta verið skemmtilegar. Skilningur og grundvallaratriði sóttvarna var ekki ólíkur sem er í dag, rúmri öld síðar. Góður skilningur í ónæmisfræði, þótt menn vissu ekki um tilvist veira og bakterían nýuppgötvuð undir smásjá. Bólusetningar gagnvart stórubólu t.d. verið viðhafðar upp úr aldarmótunum 1800, sem ónæmisaðgerð með kúabóluvessa, flutt til landsins í innsigluðum lyfjaglösum. Prestar bólusettu og merktu við í kirkjubækurnar sínar. Allir hjálpuðust að á fyrstu öld læknisfræðinnar hér á landi og aldrei hafa verið gerð jafn stór lýðheilsuátök.

Fyrir aldarmótin 1900 var farið að beita blóðvatnslækningum, þótt menn vissu ekki nema þá staðreynd, að þeir sýktu skánuðu og veiktust síður strax aftur. Dýr notuð til að framleiða blóðvatn fyrir manninn með þá mótefnum sem þau mynduðu og sem nota mátti til lækningar á nýsmitaðnn sjúkling. T.d. vegna svartadauða eða barnaveiki. Slík lyfjaglös með blóðvatni gegn barnaveiki var þannig flutt til Ísland fyrir aldarmótin 1900, þótt ekki séu til staðfestar heimildir að blóðvatnið hafi síðan verið notað. Sömu grundvallaratriðin sem viðhafðar eru stundum í dag og engin bóluefni eða virk lyf eru til. Aðferð sem var síðast notuð í völdum tilfellum Ebolu-sjúklinga um árið og nú jafnvel gerðar gegn Covid19 smiti.

Menn skildu hjarðónæmi reyndar undir öðru orðalagi; sem „ósnortin eða snortin jarðvegur til að geta smitast í eða ekki“, og sem jafnvel bandaríkjaforseti hefur átt erfitt með að skilja. „Sweden did that, the herd, they call it the herd“. Aldrei hefur samt skilningur á hjarðónæmi verið mikilvægari á seinni tímum, og einmitt nú og þegar aðeins lítill hluti samfélagsins hefur tekið smit, jafnvel aðeins < 2% og 60-70% smithlutfall þarf til að skapa gott hjarðónæmi. Hugtak sem byggist mest á því að þeir sem tekið hafa smit eða eru bólusettir, myndi einskonar varnarmúr fyrir hina ósmituðu.

Hér fyrir neðan verður gripið niður í grein Guðmundar Magnússonar læknis um Svarta dauða (yersinia pestis) í Eir árið 1900. Sleppt er kaflanum um farlaldsfræðina fyrri alda, en sem engu að síður er merkileg heimildaskráning en lesa má nánar um líka á t.d. Vísindavefnum, uppfærður til nútímans. Ýmislegt hljómar samt kunnunglegt í greinnin í Eir, samanborið við fréttaumfjöllun dagsins um Covid19, ekki síst er varðar aðgerðir í sóttvarnamálum, sóttkvíamálum og að það sé eins gott „að hlýða þríeykinu“. Eins vöntun á nothæfum lyfjum sem barist er um erlendis og erfitt að fá til landsins, sem og kröfur um betri aðbúnaði í heilbrigðiskefinu fyrir þá sjúku. Orðalag íslenskunnar í þessum greinum í Eir er hins vegar oft skáldlegt, en lýsingar skrifaðar af næmni og nákvæmni, svo almenningur skilji.

Svarti dauði

Einhverjar hinar mestu raunir sem Ísland hefur ratað í fram að þessum tíma (árið 1900), eru plágur þær hinar miklu er gengu yfir landið á 14. öld.

Jón Espólín segir svo frá í árbókum sínum að fyrri plágan, „plágan mikla“ hafi komið út hingað sumarið 1402 með Hvala-Einari Herjólfssyni; barst sótt með skipi hans í klæði og færðist út óðfluga. Tók hún menn svo geyst í fyrstu að „þeir lágu dauðir innan þriggja nátta“ Síðar virðist sem veikin hafa orðið nokkru minna bráðdrepandi og var eignað bænahaldi og áheitum, en ekki minnkaði manndauðin að heldur því að „víða aleyddi bæi, en fólk var ekki sjálfbjarga eftir í mörgum stöðum, það er lifði, og þó 12 eða 15 færri með einn til grafar eða tvo í fyrstu, komu stundum ei nema 4 eða 5.“

Sóttin hélst næstu tvö árin tvö og varð hennar sóðast vart um páska 1404. Hyggur Epsolín að tveir þriðju hlutar landsmanna muni hafa dáið úr sóttinni, og má marka, hve manndauðinn hafi verið mikill að því, að „ekki lifðu eftir nema 3 prestar norðanlands, 2 djáknar og bróðir á Þingeyjum“ og lifðu varla 50 prestar í öllu Skálholtsbiskupsdæmi. Þetta nægir til að sýna hve feykilegur manndauðinn hafi verið, en hitt er erfiðara að gera sér rétta hugmynd um hve stórkostleg áhrif slík mannfækkun, tvisvar á sömu öldinni (15 öld) hafi haft á hagi manna andlega og líkamlega.

Eingin skrif hafa fundist , þau er lýstu einkennum þessarar drepsótta. Um það er ekkert talað nema það eitt, hve bráðdrepandi þær voru. Það virðist svo sem menn hafi eins kallað þær „plágurnar“ fyrst framan af, en síðan fóru menn að kalla þær svartadauða, að minnsta kosti fyrri pláguna og hafa menn líklega tekið það nafn eftir útlendingum, fremur en að nafnið bendi á nokkurt einkenni veikinnar.


„Plágan seinni“ kom hingað 90 vetrum síðar. Hún tók land í Hafnarfirði um sumarið 1493 og hafði fluttst þangað með enskum kaupmönnum. Færðist sóttin um landið allt, nema Vestfirði og hélzt við næstu tvö árin með ógurlegum manndauða. Espólín segir svo frá „að þá eyddust bæir nálega um allar sveitir vestur að Gilsfirði og var víða að ei lifðu eftir fleiri en tveir eða þrír, sumstaðar ungbörn, og sugu mæður sínar dauðar er til var komið. Frá Botnsá og að Hvammi í Kjós lifðu eftir sveinar tveir, ellefu vetra og var enginn jafnaldri þeirra í öllu Kjalarnesþingi…ei lifðu fleiri en tvö eða þrjú af átta systkynum eða níu…. Að mörgum kirkjum voru á hverjum degi grafnir 3 eða fjórir í senn, og þó sex eða sjö færi með þeim til grafar, komu ei aftur nema þrír eða fjórir; hinir dóu á leið til eða frá og fóru sjálfir í þær grafir, er þeir grófu öðrum. Konur sátu dauðar með skjólum sínum undir kúm á stöðlum, eða við keröld í búrum“. Á Norðurlandi aleyddi suma hreppa „og dóu prestar flestir og lærðir menn, svo ei voru eftir nema tuttugu prestar og varð hver að þjóna fimm, sex eða sjö kirkjum.


Það ræður að líkindum, að menn hafi reynt að renna grun í orsakir til svo mannskæðar drepsóttar sem pestin er, og töldu menn líklegt sem ólíklegt. Sumir töldu hana refsidóm guðs. Aðrir eignuðu hana óhreinu lofti og kendu um jarðskjálftum miklum, sem víða voru um svipað leiti og farsóttin mikla á 14. öld. Það vottar fyrir þeirri trú á Íslandi að svartidauði hafi komið af óhreinindum í loftinu í munnmælasögum um móðu, sem lá í sveitum niðri meðan sóttin geysaði , en hvarf um leið og sóttin þvarr. Auðvitað tóku menn snemma eftir því að sjúklingar gátu smitað heilbrigða, en þóttust ekki geta gert sér skiljanlegan allan gang veikinnar, á þann hátt einan. Nú loks í þessari síðustu farsótt, sem enn stendur yfir, hafa menn fengið fulla vissu um að pestinni veldur baktería, og að sóttin er því næm, en að loftið veldur engu um beinlínis, nema þessi baktería sé í því. Enn fremur hafa menn komist að raun um, að pestin tekur ekki aðeins menn, heldur og sum dýr, og eru rottur og mýs þar fremstar í flokki, og þykir mega fullyrða að þessi dýr geta áorkað miklu um ferðalag veikinnar, og að þau sýkist víða á undan mönnunum, en sóttin berst frá hræum þeirra. Á þennan hátt verður ýmislegt skiljanlegt um ferðir hennar og flutningi úr einum stað í annan, t.d. með skipum, enda þótt enginn veikist af skipshöfninni, og var það áður eignað spillingu loftsins eða öðru fráleitara. Auk þess getur hún borist með fötum og öðrum varningi.

Einkenni veikinnar eru mjög margvísleg; hún kemur fram í mörgum myndum og er því oft örðugt að þekkja hana í fyrstu, enda hefir það verið víða svo, til þessa, að læknar hafa ekki getað áttað sig á eðli veikinnar í fyrstu sjúklingunum.

Óræktækasti vottur um pest er pestarbakterían, en það er bæði seinlegt og vandamikið að búa svo í haginn, að bakterían náist og verði aðgreind frá öðrum, enda ekki hættulaust að fást við þess konar rannsóknir, því þær geta orðið til þess að sóttin berist víðar og verður því að gera þær með sérstökum varúðarreglum og tilfæringum í húsum, sem til þess eru ætluð, og er það ekki á allra meðfæri. Þegar veikin er farin að færast út, er hún jafnaðarlegast auðþekkt. Oftast líða 5 dagar frá því sjúklingurinn smitast þangað til veikin brýst út, stundum skemur, stundum lengur, líklega aldrei meira en 10 dagar. Það er langt tíðast að veikin byrjar með megnri hitasótt, eða hita og köldu á víxl, oft skjálfta og höfuðpínu, uppsölumm beinverkjum. Þorsti er mikill, æðin tíð og lin. Svefnleysi, ringl eða óráð. Allt þetta eru afleiðingar hitasóttarinnar og er því ekki einkennilegt fyrir pest, en á meiri hluta þeirra sem sýkjast bólgna eitlarnir, ýmist víðs vegar eða ekki nema einn eða tveir, og verða aumir viðkomu. Ef sjúklingarnir lifa nokkra daga, grefur oftast í einum eitli, og einna oftast í lærkrika, sjaldnar í handkrika eða á hálsi.

Á sumum sjúklingum ber ekkert á eitlabólgu, stundum vegna þess, veikin er svo svæsin, að hún banar áður en bólgan kemur, stundum af því hún er svo væg að hitasóttin og blóðeitrunin eru á lágu stigi. Stundum leggst hún mest á lungun og veldur lungnabólgu með blóðkorgi í hráka, og gætir þá eitlabólgu oftast lítið. Það er því hætt við að þeim mun bagalegra, sem þessi tegund er hættulegust að því er snertir smittun, því bakteríurnar geta komist í loftið þegar hrákinn þornar og anda þá aðrir þeim að sér og sýkjast á þann hátt. Það er augljóst að almenningi er ekki trúandi til að þekkja veiki sem hagar sér svona margvíslega. Læknarnir eiga fullt í fangi með það.

Farsóttin sú sem nú er á ferð (1900) virðist ekki vera mjög mannskæð, enda standa menn nú ekki varnarlausir upp gegn henni eins og kalla mátti að áður væri, þegar menn þekktu hvorki orsakir hennar né læknisdóma. Nú þekkja menn hvortveggja. Síðan bakterían fannst hafa nokkrir læknar starfað að því af alefli að finna ráð við henni, og hefir það tekist. Blóðvatn úr dýrum sem hafa orðið fyrir pestareitri og lifað það af, getur bæði gert menn ónæma fyrir pest og læknað þá sem hafa fengið hana, sé því spýtt inn í líkama þeirra nógu snemma. Þó eru margir annmarkar á þessu. Það er hinn fyrsti að blóðvatnið gerir menn ekki ónæma nema í fáa daga. Það er annað að ekki læknast allir sem fá það, ekki nærri allir. Það er hinn þriðji að blóðvatn þetta er ekki til nema af skronum skammti því það er mjög seinlegt að búa dýr svo undir að blóðvatn úr þeim hafi nægjanlega kraft, en tíminn er enn stuttur síðan menn fundu þessa aðferð. Fer því fjarri að til sé nægjanlegt pestarblóðvatn ef veikin dreifist að nokkrum mun um álfuna, því fremur sem hver sjúklingur þarf mikils með.

Aðalvörnin verður því einangrun sjúklinga og sótthreinsun, eins og við aðrar farsóttir, og verður það atriði gert að umtalsefni á öðrum stað í riti þessu og skal því ekki fjölyrt um það hér. Vér skulum vona að það takist í útlöndum að bæla niður pestina með þeim ráðum. Ekki skortir Englendinga fé til þess, og fullan vilja hafa þeir, ekki er það að efa. En ef það tekst ekki, ef hún dreifist út yfir löndin næstu, hvað þá? Þá er oss Íslendingum háski búinn. Að vísu hefir náttúran einangrað oss frá farsóttum í útlöndum að nokkru leyti. En þó er nú svo komið, að skip fara frá Englandi til Íslands á skemmri tíma en þeim, sem pestin er að búa um sig í sjúklingum. Skipshöfn getur tekið veikina þar, komið hingað heilbrigð, og veikst þegar hingað er komið. Þá er sóttvarnarhald, geta menn sagt. Það er satt, sóttvarnarhald verður auðvitað skipað fyrir. En hvaða hemil hafa menn á sjómönnunum ensku? Hvaða hemil hafa menn á landsmönnum, sem vitja þeirra? En gerum ráð fyrir að allt farai vel: útlendingar leggjast í sóttvarnarhald; innlendir forðast að fara á fund þeirra nema þeir séu sloppnir alheilir úr því haldi. Hverning fer þá, ef útlendingar sýkjast af pest í sóttvarnarhaldi? Hvað á að gera við þá. Sóttvarnarhús eru hér til – á pappírunum. Hvergi annars staðar.

Alþingi hefir lengi hliðrað sér frá því, að veita fé til þeirra. Nú er vágestur á næstu grösum, sem ætti að reka það til þess að fresta því ekki lengur. Þau verða ekki óþörf þótt aldrei pestin komist hingað. Og pestarblóðvatn þurfum vér líka að reyna að eignast, ef það er fáanlegt. Til brýnustu þarfanna, ef á þarf að halda. Það má ekki láta oss standa upp með ótendraða lampa eins og óforsjálu meyjarnar.

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=66333

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2019/02/13/blodvatn-og-laekningar-naemra-sjukdoma/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 10.4.2020 - 18:35 - FB ummæli ()

Hús læknanna

Hólmavík, páskar 2020

 

Ekkert er betra en eiga góða fjölskyldu, góðan samanstað og gott nábýli við nágrannana. Er nú læknir á Hólmavík tímabundið yfir páskana eins og svo oft áður sl. rúma tvo áratugi. Nú á tímum Covids-heimsfaraldurs, en þar sem allir þekkja alla svo vel. Líka þann sem hefur barist fyrir lífi sínu vegna covidsýkingar og bjó hér ekki fyrir svo löngu síðan og börnin léku sér saman í görðunum. Ekkert smit hefur samt sem betur fer komið upp á Ströndum, á sama tíma og stormurinn hefur leikið illa íbúa og heilbrigðiskerfið aðeins norðar á fjörðunum.

Norðan hríðarbylur var samt um síðustu helgi, svona einn venjulegur, og veturinn virðist ekki vilja sleppa takinu. Aldrei í raun verið minna um útköll vegna slysa og ferðamennsku og allt eins og hálf frosið, nema það sem sólin nær að bræða yfir hádaginn. Hjartahlýja og birta samt frá íbúunum, sem maður skynjar meira en í sögðum orðum. Tilfinningar margra tengdar yfirvofandi hamförum. Ótímabærum dauðsföllum jafnvel af völdum veiru og sem áður fyrr var aðallega tengd sjónum, veðuröflunum og slysum. Í dag stórhættulegri veirusýkingu sem flæðir um alla heimsbyggðina með mannfólkinu sjálfu og nánum samskiptum. Skrýtnir tímar og fólk sjaldan eins berskjaldað fyrir ógnum lífsins, einkum gamla fólkið. Í rótgrónu sveitasamfélagi á Ströndum þar sem meðalaldur íbúa er hvað hæstur á landinu og fólk vant að standa saman þegar mest liggur við. Í dag sem fjærst frá hvort örðu og læknirinn jafnvel einn í sínu húsi líka.

Í rúma tvo ártugi hef ég fengið að kynnast allt annarri læknisfræði og nálgun í mannlegum samskipum en ég hef annars átt að venjast í mínum daglegum störfum í höfuðborginni. Á Bráðamóttöku Landspítalans nánar tiltekið hin síðari ár. Veruleiki sem er eins ólíkur og hugsast getur, en samt með sömu taug, læknisfræðina. Tveir veruleikar með sínum ólíku kostum og göllum. Álagið svo ólíkt, en jafn nærandi engu að síður og mannbætandi á sinn ólíka hátt. Stöðuleiki í fámenni, en þar sem alltaf má samt búast við því óvænta. Oft ævintýralega og fáa að treysta á nema sjálfan sig. Þegar tilefni og margar úrlausnir verða að sögum. Á hinum staðnum, höfuðborginni, oft óendanlegt flæði vandamála og mestu máli skiptir klínísk reynsla og að geta unnið hratt og örugglega og skrá allt í sjúkrasöguskránna. Vinnustaðir sem bæta hvorn annan upp fullkomlega og þar sem jafnvel hvíldin mælist mest í tilbreytingu og ólíkri reynslu. Kynni á ólíkum staðháttum og þegar maður fær svo tækifæri að taka púlsinn á nærsamfélaginu sjálfu, á Ströndum.

Við erum nokkrir læknar sem skiptumst reglulega á að leysa hvorn annan af á Hólmavík. Fámennt hérað en stórt og sem nær meira en hundrað kílómetra í norður, suður og jafnvel vestur. Aðeins hægt að treysta á samgöngur landveginn suður og þyrlusjúkraflug, nema í Áneshreppi á Gjögri þar sem er ágætis flugvöllur og þegar flugfært er. Í fámennasta og afskekktasta byggðarlagi landsins og ófært keyrandi stóran hluta vetrar. Ein sjúkralegudeild aldraða fyrir héraðið á Hólmavík, auk heilsugæslunnar. Einn sjúkrabíll og nú enginn hjúkrunarfræðingur! Þjóðleiðin norður til ísafjarðar liggur um Djúp og yfir Steingrímsfjarðarheiði. Oft mikið af ferðafólki, nema akkúrat núna.

Fyrst leysti ég af fyrir Sigfús Ólafsson heitinn sem þá var hér fastur læknir í héraðinu og síðar Guðmund Sigurðsson heitinn. Frábærir héraðslæknar á sinn ólíkan hátt og sem íbúar báru mikla virðingu fyrir og treystu. Andi þeirra svífur ennþá yfir og læknabústaðurinn sá sami, sem og vissir húsmunir. Gömlu landakortin líka sem eru orðin ansi snjáð. Sigfús var ötull íþróttamaður. Hvatti alla til hreyfingar og kom upp dagbók í Kaupfélagi Strandamanna þar sem íbúar kvittuðu fyrir sinn daglega göngutúr. Upp á sjónvarpshæð ofan við Skeljavík t.d. Stofnaði gönguskíðafélag Strandamanna og beitti sér fyrir lagningu golfvallar og stofnaði golfklúbb. Guðmundur tók við keflinu eftir hann og naut virðingar sem mikill mannvinur, góður læknir, fræðimaður og áður brautryðjandi í hönnun sjúkraskráskerfisins Sögu og sem enn er notað í öllu heilbrigðiskerfinu.

Nálgun þeirra á vandamálunum og virðing fyrir sjúklingum, er sá andi sem þeir báðir skildu eftir fyrir okkur hin. Æðruleysi fyrir því sem við getum ekki ráðið yfir og tímanum. Langar sjúkravitjanir vegna veikinda og slysa. Sinna öllu sem læknir þarf að sinna ásamt hjúkrunarfræðingi, sjúkraliðum og sjúkraflutningsmönnum sem og öðru starfsfólki. Sjúkrahúsinu og eftirfylgd langvinna og oft flókinna veikinda sjúklinga með stuðningi sjúkrastofnana fyrir sunnan. Fjórðungssjúkrahússins á Akranesi eða Landspítalans. Sérfræðingum og klíníkum í Reykjavík. Björgunarsveitinni þegar mest á reynir við erfiðustu aðstæðurnar. Tíminn virðist annars standa í stað og starfsumhverfið nánast það sama. Fólk bara eldist og við læknarnir líka með.

Aldrei kemur maður samt eins vel undirbúinn fyrir Bráðamóttökuna og eftir dvöl norður á Ströndum. Eftir dvöl í húsi læknanna og samtöl við samstarfsfólkið, sem er sérstaklega mikilvægt þegar ekki einu sinni fjölskylda læknisins kemst norður. Stundum vegna slæmra veðurskilyrða, en nú vegna ferðabanns og veirustormsins í samfélaginu. Þar sem þá samt góður tími gefst til að hugsa um lífið og tilveruna. Rafræn samskipti látin nægja, tímabundið. Bæta þolið í göngutúrum upp í Kálfanesborgirnar. Taka jafnvel ljósmyndir og njóta stórbrotinnar náttúru á Ströndum. Núvitund í sinni fullkomnustu mynd með alla söguna að baki. Þakklátt starf í sveitinni og þar sem málið snýst um að vera alltaf tilbúinn. Kannski svolítið eins og var í gamla daga. Sögur sem maður þarf helst að fá að lifa, en ekki bara lesa um, til að skilja.

Covid19 faraldurinn nú mun engu að síður væntanlega leggja áherslu á bakvarðarsveit fyrir sveitina. Eins bætt aðgengi í sjúkraflutningum og þar sem ekkert sjúkrahús er á staðnum til að leggja inn á og langan veg að fara. Áform eru þegar um hjálp með sjúkraflutninga frá Akranesi (HVE). Nýir óvissutímar næstu misserin, en vonandi að andinn í læknabústaðnum og meðal samstarfsfólksins á sjúkrastofnuninni, endist vel og lengi.

-Gleðilega páska-

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 6.4.2020 - 19:05 - FB ummæli ()

Smitvarnir okkar og frjáls innflutningur á ófrosnu kjöti til Íslands!

Ísland líka á heimskortinu

Vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingavalda mannsins skýrist í allt að 60% á fráflæði ákveðinna sýklalyfjaónæmra dýraflórusýkla í menn, svokallaðra súnu-baktería og sem eru í grunninn sameiginlegar stofnar flórubaktería dýra og manna og smitast geta á báða vegu. Sýklalyfjaónæmi í heiminum er skilgreind nú sem mesta heilbrigðisógn framtíðar af Alþjóða heilbrigðisstofnuninni, WHO.

Sýklalyfjaónæmar flórubakteríur geta þannig auðveldlega blandast í okkar flóru með smiti frá dýrum og hráum dýraafurðum. Í byrjun án þess að valda endilega sýkingum, eins og t.d. E.coli bakteríur (ESBL) og Klasakokkar (MÓSAR, MRSA), en sem síðan geta valdið hluta af okkar algengustu og alvarlegustu tilfallandi sýkingum og sem á þá uppsprettu úr okkar eigin flóru. Þvagfærasýkingar, iðrasýkingar hverskonar eða sárasýkingar t.d. og sýklalyfin duga þá illa á eða jafnvel ekkert á.

Við Íslendingar höfum búið við ótrúlegt heilbrigðisöryggi sl. áratugi hvað þetta smit varðar og sýklalyfjaónæmi súna í landbúnaði með því minnsta sem þekkist í heiminum en sem er algengt víða erlendis, jafnvel hjá nágranaþjóðum. Þrátt fyrir þá staðreynd að hér þrifust betur en víða annars staðar fjölónæmir pneumókokkar og sem ekki voru súnur í tímabundnum faraldri um og upp úr sl. aldarmótum og sem átti upptök erlendis frá í upphafi, en þrifust óvenju vel hér í nefkoki íslenskra barna, mest vegna ofnotkunar sýklalyfja, oft af litlu tilefni, ekki síst meðal barna. Smit sem náði til allt að 20% barna og olli hundruðum innlögnum á barnadeild Hringsins til sýklalyfjagjafar á sterkustu sýklalyfjum sem völ var á, í æð eða vöðva.

Sýklalyfjaónæmi helstu sameiginlegu sýkingarvalda manna og dýra er þannig orðin nú orðin ein mest heilbrigðisógn framtíðar. Skynsamleg sýklalyfjanotkun meðal manna og sem minnst í landbúnaði eru helstu markmið WHO og eins að hefta smitleiðir með öllum skynsamlegum ráðum, ekkert síður á milli landa til að sporna gegn þróuninni.

Ísland hefur staðið afar vel að vígi varðandi þessa sýklalyfjaónæmu flórustofna vegna lítillar sýklalyfjanotkunar í landbúnaði, en sem skýrir allt að 70% heildarsýklalyfjanotkunar annars staðar. Sýklalyfjaónæmar súnur hafa mælst í mjög litlu magni eldisdýra hér á landi eins og t.d. í lömbum. Ákveðnar og takmarkaðar rannsóknir hafa sýnt minna en 3% smits sýklalyfjaónæmra súna, á móts við oft yfir 30-50% smits í erlendu sláturkjöti eins og t.d. kjúklingi og svínakjöti. Full ástæða er því til að halda þessari góðu stöðu og sem er öfundsverð um allan heim. Að beinlínis stofna til aðgerða eins og gert var með nýjum lögum um áramótin og auka stórlega smithættu sýklalyfjaónæmra súna, er því glórulaus ákvörðun, lýðheilsunnar vegna. Eins til að forða íslenska heilbrigðiskerfinu frá stórfeldum kostnaði og tjóni og sem gert hefur verið vel grein fyrir í fyrri pistlum og ályktun stjórnar LÍ frá því sl. haust.

Líklegt er að sýklalyfjaónæmar flórubakteríur erlendis frá dreifist í vaxandi mæli nærflóru landsmanna og bíði þar tækifæris. Vakni til lífsins og blómstri jafnvel enn frekar tengt tilfallandi sýklalyfjagjöfum sem við þurfum á að halda vegna tilfallandi algengra sýkinga, eins og t.d. öndunarfærasýkingum eða þvagfærasýkinga. Með öðrum orðum ef gamla góða garnaflóran okkar heldur ekki þeim ónæmu þeim mun meira í skefjum. Ein af hverjum 5 sýkingum í Bandaríkjunum og víða í Evrópu í dag á þannig rætur að rekja til sýklalyfjaónæmra baktería sem koma beint frá landbúnaðarvörum. – Vandamálið hefur verið nær óþekkt hér á landi, þótt tíðni sérstaklega ESBL og Mósa bera hefur farið heldur vaxandi sl. áratug á Íslandi (<5%) og valdið heilbrigðiskerfinu íslenska þegar vaxandi þunga og sjúklingum jafnvel skertri þjónustu og bið eftir aðgerðum vegna smithættu á sjúkrahúsunum og skurðstofum. Miklu betra ástand samt en víða erlendis þar sem sýklalyfja-ónæmishlutfall meðal íbúa getur talist í tugprósentum og í allt að helmingi t.d. þvagfærasýkinga Góðri stöðu má fyrst og fremst þakka lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði hér á landi, einangrunar landsins og frystiákvæðanna sem giltu á erlendu innfluttu kjöti fram til síðustu áramóta.

Allir ættu að geta séð að ófrosið lekt og blautt kjöt smitar auðveldlega frá sér hugsanlegum bakteríum sem berast geta með kjötinu. Við slátrun, vinnslu og í flutningi. Óhjákvæmilegt smit þannig á sýklalyfjaónæmum bakteríurum úr görn og yfirborði dýranna og sem berst síðan með kjötinu og þá allt nærliggjandi í kring. Í kjötborðið að lokum og á aðrar nærliggjandi vörur, á hendur okkar viðskiptamannanna og barnanna. Eða bara smá saman í margnota innkaupapokann okkar góða. Sem frosið kjöt gerir þúsundfalt minna eðli málsins samkvæmt. Álíka viturleg ákvörðun að leyfa slíkan innflutning og að leggja til að handþvottur sé óþarfur gagnvart smiti og sem allir landsmenn ættu nú að vita hvað Covid19 faraldurinn hefur kennt okkur hingað til. Skýrt brot á almennum smitvörnum, nú líka gegn sýklalyfjaónæmu en samt „næmu“ sjúkdómunum okkar og sem nú verða væntanlega miklu sýklalyfjaónæmari en áður á Íslandi.

Já, og til hvers sprittum við heilbrigðisstarfsfólk hendur okkar milli sjúklinga á spítölunum nema vegna Covid19, ESBL og spítalamósa, ef við fáum svo síðan bara slæmu bakteríurnar í kjötborðinu hjá kaupmanninum, svona auðveldlega og síðan inn á heimilin okkar?

“ONE HEALTH” – er mál sem flestir fjölmiðlar Íslands eiga erfitt með að skilja m.a. RÚV ohf. Eða vilja sennilega ekki vegna hagsmunatengsla við Samtök verslunarinnar, tengt auglýsingatekjum sem hart er barist um þeirra á milli. Manna og dýraheilbrigði eru hins vegar nátengt hvoru öðru hvað allar almennar sýkingarvarnir varðar að mati WHO og sem telur vaxandi sýklalyfjaónæmi helstu sýkingarvalda mannsins meðal mestu heilbrigðisógna mannsins eins og áður sagði (sjá meðfylgjandi skýringarmyndir).

Áhyggjur eru þegar í dag að stór hluti sjúklinga sem fara verst út úr Covid19-lungnabólgunni, deyi vegna fylgisýkinga sem sýklalyfjaónæmar bakteríur valda. Gríðarleg notkun nú í dag á sýklalyfjum meðal manna, auðveldar síðan ekki frekari þróun/dreifingu sýklalyfjaónæmis og spáð er í dag að að verði helsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla eftir u.þ.b þrjá áratugi, eða allt 10 milljón manns á ári í raunhæfum spálíkönum. Miklu algengari orsök en spáð er t.d. vegna krabbameina og ekki útlit að ný góð sýklalyf komi á markað í bráð sem virki til lengri tíma, frekar en með sýklalyfjaþróunina hingað til.

Gott eftirlit með matareitrunar-sýkingarvöldum eins og Kamphýlóbakter og Salmonellu (jafnvel sýklalyfjaónæmra) sem mesta athygli fær í ráðgerðu eftirliti stjórnvalda nú með innfluttu kjöti og vottun erlendis frá að sé ekki smitað, er alls ekki nóg. Málið snýr ekkert síður að þætti sameiginlegu “eðlilegu” nærflóru dýra og manna (í görn, loftvegum og á húð) eða hinum svokölluðum súnu-bakteríum sem smitast miklu auðveldar frá ófrosnu kjöti en frystu, eðli málsins samkvæmt. Og vissulega ber ekkert síður að hafa áhyggjur og nánara eftirliti með innfluttu grænmeti og sem er annað stórmál. LÍ sendi alþingi ályktun sína um málið sl. haust. Auðvitað ráðum við síðan ekki við alla þætti eins og smit vegna ferðamanna, en fyrr má nú rota en dauðrota.

Landbúnaðarmálin í dag snúa a.m.k. að mikilvægustu heilbrigðis- og lýðheilsumálum þjóðarinnar og sem ekki er hægt að spila með af hentisemi markaðshyggjunnar. Við þurfum ný lög sem banna innflutning á ófrosnu kjöti í þeim tilgangi að minka hættu á smiti sýklalyfjaónæmra súnuflórubaktería í landsmenn. Á sama tíma og heimsfaraldur Covid19 hefur lagt heiminn á hliðina, hafa flestar ríkisstjórnir heims beitt fyrir sig neyðarlögum í smitvarnarskyni, lýðheilsusjónarmiða vegna. Sérákvæði í ESB, EFTA og EES samningum skipta þá engu máli.

 

 

https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-5611.pdf

https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2019/03/17/mikilvaegi-frystingar-til-ad-takmarka-sem-mest-smithaettu-syklalyfjaonaemra-bakteria-med-erlendu-kjoti-til-landsins/

https://www.bbl.is/frettir/frettir/fjolonaemar-bakteriur-i-innfluttu-graenmeti/20504/

https://www.cdc.gov/drugresistance/pdf/threats-report/2019-ar-threats-report-508.pdfr

http://www.euro.who.int/en/health-topics/disease-prevention/antimicrobial-resistance/news/news/2018/11/of-all-human-diseases,-60-originate-in-animals-one-health-is-the-only-way-to-keep-antibiotics-working?fbclid=IwAR00d8OJnxwL97E34pEt8A15kA1x06AI10VSglkyE5wOpERkjFSxDO_G51Q

https://www.bbl.is/frettir/frettir/erum-ad-taka-rosalega-ahaettu/15246/

https://www.laeknabladid.is/tolublod/2016/02/nr/5746

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 4.4.2020 - 17:11 - FB ummæli ()

Er kvef sóttnæmt?

Í tilefni af „kvefveirunni“ Covid19 og þegar heimurinn okkar fór á hliðina, 2020, köldum vetri á Íslandi í ár og nú slæmrar veðurspáar um helgina, endurrita ég hér grein Jónasar Jónassen landlæknis úr alþýðutímaritinu Eir, nánar tiltekið nóvemberheftinu 1899. Dreifbýlið og kaldar aðstæður hér á landi þurfa þannig alls ekki alltaf að vera ókostir. Jafnvel heldur miklu frekar kostir og ávinningur í heimfaraldri kvefveira!

Það er kunnug, að kvef er hér á landi gamall gestur og hann er oft á ferðinni víðsvegar um land og þykir heldur leiðinlegur gestur. Gesturinn fer alls ekki í manngreinaálit, hann kemur við bæði hjá ríkum og fátækum, ungum og gömlum, fullorðnum og börnum. Stundum er kvefið vægast sagt hálf illkynjað. Er óþarfi að lýsa því, því flestum er kunnugt hvernig það yfirleitt hagar sér.

Flestum er kunnugt að þegar einhver á heimilinu fær kvef, þá er það algengt að fleiri af heimilisfólkinu fái það. Jafnvel þeir sem alls ekki hafa farið út úr húsi. Heyra menn þá oft sagt: „Ég skil ekki í því, að ég skuli hafa fengið kvef, ég sem ekki hefi hreyft mig úr húsinu“. Þess skal getið, að hér er ekki átt við „Influenza“.

Í merku ensku tímariti (Spectator) er greinarkorn um kvef og segir svo: Líklegt er, að einhver smá ögn (baktería) sem veldur kvefinu, og að maður fái kvefið nema af því að þessi smáögn hafi borist inn í mann, en kvefið komi alls ekki af því að slegið hafi að manni eða manni orðið kalt. Heimskautafarinn norski Nansen og félagar hans fengu aldrei kvef, meðan þeir voru á ferð sinni í norðurhöfum og var þó kuldinn og vosbúðin meiri þar, en menn geta ímyndað sér. Þegar þeir félagar fóru langar leiðir fótgangandi og svitnuðu, frusu fötin utan á þeim, svo nærri lá að allt yrði seinn stokkur og þiðnaði ekki á þeim fyrr en þeir voru búnir að fara í svefnpokana sína og þíða utan af sér. En aldrei bar á því að þeir fengu kvef. En undir eins og þeir komu heim til Noregs, fengu þeir allir kvef. Þótti Nansen þetta undarlegt og taldi það óefað, að kvefið væri sóttnæmt. …..

Húsdýr vor verða oft kvefuð, og er vér veitum þeim athygli virðist og ástæða til að ætla að kvefið sé næmt. Það eru einkum kettirnir, sem mjög er hætt við því og bera þá veikina í heimilisfólkið. Það er og til gamalt orðtæki er segir: „Þegar kisa er kvefuð, fá allir á heimilinu kvef“. Sauðkindin kvefast og oft og sjáum vér oft að heil hjörð er kvefuð meðútbrotum um snoppuna líkt og á sér stað á kvefuðum mönnum.Hestar eru og mjög kvefsælir. Það er almenn trú þeirra sem hirða hesta, að ef hestur hefir gengið úti, og hann er svo látinn í hús, þar sem eru aðrir hestar fyrir, þá verði hann kvefaður.

Greinarhöfundur (Spectator) endar grein sína með þessum orðum: „Bein afleiðing af þeirri hugsun að kvefið orsakist af kulda, súg og vosbúð, er sú að menn af ótta fyrir þessu fara sér svo varlega og eru að dekra við sig.“ Þetta gerir menn lingerða og bleyðulega, svo þeir þola engan kulda eða óblítt veður og það sem verst er, þeir forðast gott loft og eru inni í húsum þar sem enginn eða lítil loftbreyting getur átt sér stað.“…..

Ætli við nokkrum sinni getum komist með öllu hjá kvefi? Það eru líkindi til að svo geti orðið. Bakteríufræðingar eru vissir að komast að, hver ögnin er og þeim er trúandi til að fræða oss um það, hvernig við eigum að varast hana.

Þetta, sem nú hefir verið sagt, er aðalefnið í grein þeirri sem ég gat um. Sé svo, að telja megi kvefið til sóttnæmiskvilla, þá má vel vera að greinarhöfundurinn sé á réttri leið. Enn sem komið er, þekkja menn eigi þá ögn eða bakteríu, sem hér ætti að eiga hlut að máli. En Influenza-bakteriunna þekkja menn. (J.Jonassen)

Hólmavík 4.apríl 2020

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · útivist

Miðvikudagur 5.2.2020 - 18:13 - FB ummæli ()

Mikilvægi fræðslu til foreldra um skynsamlega notkun sýklalyfja – flensur og miðeyrnabólgur

Hólmavík 5.2.2020

Í flensufaröldrum eins og nú stefnir í, eykst notkun sýklalyfja mikið, eða yfir 50%. Oftast er um að ræða notkun vegna hræðslu um bakteríusýkingar eins og miðeyrnabólgu barna, kinnholusýkingar og jafnvel lungnabólgur. Bakteríusýkingar eru vissulega auknar líkur að fá eftir flensur, en þar sem sýklalyf gagnast ekkert ef aðeins er um veirusýkingu að ræða. Margar vægar bakteríusýkingar í efri loftvegum læknast auk þess að sjálfu sér. Almennt er talið að um að 70% sýklalyfjanotkunar meðal manna sé óþörf.

Nú í öllu þessu tali fjölmiðla um pestir, rifjast upp 9 ára gamall pistill hér á Eyjunni, Sjón er sögu ríkari. Um stórbætta greiningaraðferð og hjálp í ákvörðun um meðferð á algengasta “náttúrulega” heilsuvanda íslenskra barna og sem foreldrar ættu að þekkja betur til. Miðeyrnabólgunnar. Við viljum verjast smitsjúkdómunum með skynsamlegum ráðum, en ekki með offörum og ofmeðhöndlunum sem skapar framtíðinni miklu meiri vanda en efni standa til.

Aldrei hafa áhyggjur heilbrigðisyfirvalda flestra þjóða verið jafn miklar og sem varðar vaxandi sýklalyfjaónæmi sýkingavalda mannkyns vegna ofnotkunar sýklalyfja meðal manna og í landbúnaði. Einms síðan útbreiðslumöguleikum þeirra, jafnvel milli landa. Sérstaklega meðal sýkingarvalda sem teljast til sameiginlegrar flóru manna og dýra. Vandamál sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO skilgreinir sem mestu heilbrigðisógn framtíðarinnar og þegar sífellt færri sýklalyf duga á algengar, en oft alvarlegar sýkingarnar eins og t.d. lungnabólgur. Því þarf að vanda til verka og nota nú sterkustu vopn læknisfræðinnar, sýklalyfin, af meiri skynsemi svo þau hætta ekki að bíta. Alls ekki sem skyndilausn og að læknar og sjúklingar kaupi sér ekki tryggingu af tilefnislausu, eða a.m.k í miklu meira mæli en efni standa upphaflega til.

Allar alþjóðlegar klínískar leiðbeiningar um meðferð miðeyrnabólgu barna í dag gera ráð fyrir að beðið sé með sýklalyfjameðferð, nema einkennin séu slæm. Hvatt er til verkjastillingar eftir þörfum, fræðslu og eftirliti með einkennum. Skilningur foreldra á er aðal málið. Vandamálið hér á landi hefur einmitt verið vöntun á fræðslu í upphafi og boð um eftirlit í heilsugæslunni. Flest veik börn á höfuðborgarsvæðinu eru skoðuð á skyndivöktum, á kvöldin og um helgar. Klínískar leiðbeiningar mælst hins vegar til að börnin séu frekar skoðuð á daginn í heilsugæslunni og þar sem hjúkrunarfræðingar geta jafnframt verið með í ráðum og gefið upplýsingar. Á vöktum úti í bæ getur oft verið fljótlegasta og auðveldasta leiðin að grípa til sýklalyfja, svona til öryggis! Afleiðingarnar með tímanum eru hins vegar alvarlegar. Mikil og óþarfa sýklalyfjanotkun leiðir til aukins sýklalyfjaónæmis helstu sýkingavalda eins og áður segir og sem íslendingar hafa svo sannarlega reynslu af. Breytir þar engu um þótt við bólusetjum nú börnin okkar gegn nokkrum þeirra (frá 2012 t.d. með bóluefni gegn nokkrum algengum stofnum pneumókokka).

Heildarsýklalyfjanotkun barna undir 4 ára aldri hefur aðeins minnkað um 10-15% sl. áratug, þrátt fyrir töluverða umræðu og nýjar bólusetningar. Enn í dag er hún helmingi meiri hér á landi en t.d í Svíþjóð og þótt við séum aðeins farin að þrengja sýklalyfjavalið. Í 70% tilefna er sýklalyfjanotkunin vegna miðeyrnabólgu, en sem samt lagast oftast af sjálfu sér!! Meðferð sem um leið eykur líklega hættu á endurteknum eyrnabólgum síðar og margfaldar hættu á að börn smitist af sýklalyfjaónæmum bakteríustofnum úr nærumhverfinu og sem smita síðan önnur börn t.d. í leikskólunum.

Sú tækni sem auðveldar skilning foreldra í sjúkdómsgreiningu miðeyrnabólgunnar og eins í eftirliti, er rafræn myndataka af miðeyrnabólgubreytingunum (breytingum á hljóðhimnunni) og sem bera má saman frá einum tíma til annars og milli lækna. Eins er varðar vökva og aðrar bólgubreytungar í miðeyrum yngra barna og sem er aðal ástæða röraísetningar í hljóðhimnur hjá allt að þriðjungi barna á Íslandi í dag og sem sennilega er heimsmet. Myndirnar mætti senda á milli staða, eins og t.d. frá Læknavaktinni og Barnalæknavaktinni til heilsugæslunnar eða að þær séu vistaðar beint inn í tölvusjúkraskrá sjúklings.

Sjálfur hef ég haft slíkt tæki til umráða sl. áratug, m.a. til að kynna á heilsugæslustöðvum. Málið var einnig til kynningar fræðadögum heilsugæslunnar fyrir áratug síðan. Takmarkaður áhugi hefur hins vegar verið á tækninni (tekur smá tíma frá lækninum með foreldrum til að útskýra í byrjun) og heilbrigðisyfirvöld hafa ekki sýnt málinu neinn áhuga. Tækið sjálft kostar samt ekki nema eins og ein góð myndavél. Myndin hér að ofan er tekin af skrifborðinu mínu á Hólmavík í dag!  Myndavélina geta allir á fjölmennari stöðvum notað og hægt er að tengja hana við hvaða fartölvu sem er og jafnvel snjallsíma. Ódýrt tæki sem gagnast vel í greiningu og ákvörðunum um meðferð á algengasta heilsuvanda barna.

Og hvaða foreldri vill ekki fá að sjá hvernig eyrnabólga barns síns lítur út á rafrænni mynd, sérstakalega þegar til greina kemur að bíða með sýklalyfjameðferð (vægar breytingar) og sjá hvernig hún þróast á næstum dögum. Þessi tækni gefur einstakan kost á sameiginlegri þátttöku sjúkling (foreldris) og læknis í ákvörðunarferli hvort meðferð sé nauðsynleg. Eins útskýringum á ástandi sem fylgir þroskastigi barna og pestagangi. Sterkt nútímavopn til að koma í veg fyrir ofmeðhöndlun á miðeyrnabólgum með sýklalyfjum í dag.

Sjá má kynningu um tækið (myndavélina) frá framleiðenda hér.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 25.1.2020 - 12:16 - FB ummæli ()

Er lausnin að fórna kjarnastarfsemi gömlu góðu “Slysó” vegna fráflæðistíflu BMT í Fossvogi?!

Þróun í starfsemi BMT LSH eða eins og við þekkjum hana á SLYSÓ hefur verið að breytast mikið sl. ár. Mikill og stöðugt aukinn fráflæðisvandi frá deildinni og aukin áhersla bráðalækna á frumgreiningu þeirra sem eru í innlagnaferli á aðrar deildir og fyrstu meðferðarúrræðum, en á kostnað almennrar móttöku og þjónustu veikra og slasaðra sem þangað leita í síauknum mæli. Fjöldi útlendinga, erlends vinnuafls og ferðamanna heldur aldrei meiri. Eins í hverskonar aðlögun að húsnæðisvandanaum á deildinni og  þegar gangar á neðri hæð deildarinnar eru jafnvel yfirfullir af sjúklingum sem bíða innlagnar á aðrar deildir spítalans. Þar að auki hefur verið mikill metnaður fyrir að þróa starsemi deildarinnar að væntanlegu starfsfyrirkomulagi nýrrar BMT á einni hæð í væntanlegum nýjum meðferðarkjarna á Hringbraut eftir 5-7 ár. Í dag er vandi BMT samt bráðavandamál og sem margir kalla neyðarástand og álag á starfsfólk langt út fyrir öll velsæmismörk. Þar sem þegar er farið að bera á brottfalli og kulnun sérnámslækna, bráðalækna og hjúkrunarfólks. Mál sem verður að leysa strax á skynsamlegan máta. Mál sem nýskipaðu vinnuhópur heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknis var fenginn til að skoða næstu vikurnar og koma með skynsamlegar tillögur til úrbóta.

Gamla slysó á rætur að rekja til bráðamóttökunnar á Heilsuverndarstöðinni á Barónsstíg (áður á Hvítabandinu á Skólavörðustíg) og síðar á Borgarspítalanum í Fossvogi frá 1968. Deild sem fyrst og fremst þjónaði sem slysadeild og sem var á forræði bæklunarlækna. Einnig þegar deildin flutti í nýja viðbyggingu, G álmuna 1980. Frá þeim tíma og ég tók fyrstu vaktirnar mínar þar sem læknanemi og síðar sem aðstoðarlæknir, deildarlæknir og sérfræðingur. Bráðaherbergin á neðri hæðinni í G álmunni voru notað við allar bráðar uppákomur, lífshættuleg slys, hjartaáföll, heilablóðföll, blóðeitranir, druknanir og áfengis – og lyfjaeitranir eins og í dag.  Í flestum alvarlegum tilfellum með aðkomu svæfingalækna, lyf- og skurðlækna, allt eftir aðstæðum hverju sinni.

Um 1990 tóku sérmenntaðir bráðalæknar við stjórnun deildarinnar. Deildin um leið og í vaxandi mæli og nú jafnvel aðallega, sameiginleg móttökustöð innlagna á allar deildir spítalans (nema e.t.v. geðdeildar). Frumgreiningardeild þannig, og þá til fyrstu meðferðar, ásamt bráðahjúkrun. Sl. ár hins vegar jafnvel dögum saman og þar sem innlagnapláss vantar á spítalanum. Slysaþjónusta hverskonar var samt alltaf aðal starfsvettvangurinn framan af og sem telur enn um 50% allra nýkoma á BMT, eða að meðaltali um 100 komur á sólarhring. Þjónusta og læknismeðferð sem nú hafa komið hugmyndir um að mætti koma fyrir strax á heilsugæslustöðvunum, á Læknavaktina eða aðrar læknamóttökur út í bæ, en án þess að sérstakur undirbúningur hafi átt sér stað í baklandinu. Aðstaða til bráðarannsókna og meðferðar (réttingar á brotum og liðhlaupum og sárameðferð hverskonar) vantar  á þessum stöðum og í raun fagleg geta oft ekki til staðar. Álag á Læknavaktina t.d. er þegar mikið og fjöldi sem þangað leita allt að áttfaldur miðað við þar sem best þekkist síðdegismóttökum á hinum Norðurlöndunum og þar sem aðgengi að dagþjónustu heilsugæslunnar er mikið meira.

Þanning má segja að hugmyndir eru nú um að frumkjarnastarfsemi deildarinnar verði úthýst fyrir vöntun langtímaúrræða langveikra og aldraða og sem er auðvitað mikið betur sinnt á sérhæfðum deildum spítalans eða bráðaöldrunardeild. Samt hefur verið bætt við nýtt þjónustuhlutverk BMT á kvöldin- og um helgar sem er Hjartagáttin fyrir hjartadeildina á Hringbraut vegna mönnunarvanda þar og í sparnarsjónarmiði. Afsprengi reyndar BMT á Hringbraut sem opnaði um 1985 og þar sem ég vann sem fyrsti deildarlæknirinn. Deild sem var lokað með sameiningu spítalanna og henni síðan breytt í Hjartagáttina, en þar sem gott húsnæði stendur nú meira eða minna autt á kvöldin og um helgar.

Iðulega eru 30-50 sjúklingar að bíða innlagnar á BMT í Fossvogi á jafnvel fjölmargir á göngum deildarinnar niðri og nú líka í húsnæði á efri hæðinni sem hingað til hefur verið ætlað fyrir endurkomur bæklunarskurðlækna og lækna BMT. Mikilvægt húsnæði fyrir klíníska starfsemi þannig tekið undir legupláss fráflæðisvandasjúklinga, og jafnvel þótt sjúkrarúm á mörgum öðrum deildum spítalans standa tóm vegna mannekluvanda hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða!!

Starfsfólk, læknar og hjúkrunarfræðingar sem fyrst og fremst hafa sinnt almennum komum slasaðra og veikra á efri hæð BMT, G3 vita nú ekki lengur í hvorn fótinn þeir eiga að stíga. 1. febrúar nk. verður G3 formlega sameinuð með G2 á neðri hæðinni og þannig undir sameiginlegri hjúkrunarstjórnum. Ákvörðun sem var í mikill óþökk þeirra sem tileinkað sér starfsumhverfi og þjónustu á efri hæðinni G3 og sem margir hafa hverjir lengstu starfsreynslu á BMT LSH. Þannig deildin ekki lengur í raun G3 heldur aðeins “efri hæðin” og þar sem biðsjúklingum á aðrar deildir taka yfir meira og meira yfir pláss og þrengja stöðugt að starfseminni sem þar er veitt. Bæklunarlæknar sem hafa unnið náið með bráðalæknum alla tíð og sem frekar þarf að auka samvinnu við, en sem skynja nú þann þrýsting að þeir séu ekki lengur jafn velkomnir og tillögur jafnvel komnar fram að þeir hafi sig á brott með sína göngudeild. Úr húsnæði G álmunnar ” og sem þeir upphaflega börðust fyrir að fá undir bráðastarfsemi spítalans og endurkomur fyrir 40 árum!!

Kennsluhlutverk deildarinnar fyrir læknanema, kandídata og heimilislækna í sérnámi hefur alltaf verið mjög mikilvægt og sem þurfa nauðsynlega reynslu í almennri bráða- og slysaþjónustu í væntanlegum störfum síðar úti á landi, „í héraði“. Svipað má segja með starfsnám hjúkrunarfræðinga og deildin mög vinsæl hjá nemum. Sannast nú ef til vill enn og aftur hið fornkveðna, “enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur”. Varðandi öryggis- og heilbrigðisþjónustu í höfuðborginni og sem hefur átt stóran part í hjörtum landsmanna og þangað sem allir hafa getað leitað til þegar mest á brennur í lífinu og hjá fjölskyldumeðlimum. Deild sem hefur verið minn vinnustaður í meira eða minna fjóra áratugi og sem mér þykir afskaplega vænt um, og þar sem vinnuframlag mitt hefur ávalt verið vel metið. En kannski er einkarekstur á slysó framtíðin, á forræði bæklunarlækna, svipaða og rekstur Orkuhússins nú og sem nýlega flutti í stórt og stórglæsilegt húsnæði í Kópavogi? Varla þó þóknanleg heilbrigðisstefnu heilbrigðisráðherra í dag, eða hvað?

Að þessu öllu sögðu, er samt alveg ljóst að langtímaafleiðingar yfirflæðis og fráflæðisvanda BMT á rætur að rekja til allt annarra þátta í heilbrigðiskerfinu og sem hefur oft verið nefnt sl. áratug og sem ég hef sjálfur hef skrifað marga pistla um hér á blogginu mínu. Einnig um vanda heilsugæslunnar og undirmönnun sl. áratugi og þar sem jafnvel var gerður Kastljósþáttur um fyrir 7 árum, en sem fékkst samt aldrei sýndur. Heilbrigðisáætlun til 2030 er ætlað að bæta þetta ástand, sem betur fer, en er í raun áratug of sein á ferðinni. Bráð vöntun á hjúkrunarrýmum aldraða og endurhæfingarplássum á öldrunardeildum eins og á Landakoti og þar sem húsnæði í dag er ekki einu sinni að fullu nýtt vegna lokana. Dagleg verkefni heilsugæslunnar hefði fyrir löngu átt að stýra inn á meiri bráðaþjónustu á daginn , en ekki fyrst og fremst á hraðmóttökur út í bæ á kvöldin og um helgar. Þar sem aðeins er tekið á móti slysum í mjög takmörkuðu mæli. Þessu breytum við ekki í hvelli í dag og sem aðgerðir og tillögur vinnuhóps ráðherra heilbrigðismála og Landlæknis um bráðaðgerðir vegna neyðarástands bráðamóttökunnar (BMT-LSH) þurfa að taka mið af. Verja þar a.m.k kjarnastarfsemina BMT, útvega strax fleiri legupláss á lokuðum rýmum heilbrigðisstofnana og sem er vegna mannekluvandamála heilbrigðisstarfsfólks og sem snýr fyrst og fremst að mannsæmandi kjarasamningum sem taka mið af menntun, álagi og ábirgð í starfi.

Eins hefði fyrir löngu verið hægt að byggja greiningar- og biðlegudeild fyrir aðrar deildir spítalans á einu ári, svipað og þegar G álman var byggð sem stálgrindarhús fyrir tæpri hálfri öld og sem stendur enn vel byggingalega séð. Deild sem nú hefur samt nánast 1000 faldast að umfangi miðað við lesta húsnæði BMT fyrir tæpri hálfri öld. Kínverjar eru nú að byggja einingabráðabirgðasjúkrahús vegna Wuhan veirunnar á 10 dögum fyrir allt að 1000 sjúklinga. Við hljótum að geta byggt 60-80 manna álmu úr einingum eða á stálgrind á innan við ári og ef vandinn er í raun skilgreindur rétt sem neyðarástand í íslensku heilbrigðiskerfi. Eða hvað?? A.m.k. eiga neyðarráðstafafanir nú vegna fráflæðisteppunnar/stíflunnar ekki að leiða til afnáms kjarnastarfsemi deildarinnar frá upphafi og sem í dag er ekki hægt að veita með sömu gæðum annars staðar í kerfinu. Byggjum upp bráðastarfsemina en gröfum hana ekki meira niður en orðið er.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Miðvikudagur 8.1.2020 - 14:16 - FB ummæli ()

Svikin loforð í spítalamálum aldraðra og bráðaþjónustumálum LSH

Þjóðviljinn 22.10.1982

 

Svona átti að stækka bráðamóttökuna eftir að fyrsta áfanga lauk á G álmunni 1980 – núverandi húsnæði BMT LSH og sem tók aðeins 2 ára að byggja (Stálgrindarhús).
Álagið samt tugfaldast síðan, ekkert af framkvæmdum og ríkið tók við rekstri Borgarspítala stuttu síðar (1986) og stóraukning vaxandi fráflæðisvandi, aðallega aldraða sem þurfa að komast á aðrar deildir spítalans og sem jafnvel eru hálf lokaðar vegna manneklu starfsfólks. Einkum hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða vegna lélegra launakjara.

Eins var B álman reist 1982 og sem var LOFAÐ sem öldrunarspítali eingöngu í upphafi (sjá meðfylgjandi frétt á mynd í Þjóðviljanum 1982), en sem síðar var ákveðið að taka undir allt aðra starfsemi að meginhluta.

Í dag er mest aðkallandi að byggja greiningardeild, 60-80 skammtíma-sjúkradeild fyrir sjúklinga sem bíða innlagnar á aðrar deildir eða sem stutttíma legu/meðferðardeild svipað og A2 gerir í dag (10 rúma deild og sem er alltaf yfirfull). Deild sem öldruðum myndi gagnast vel í bráðameðferð og meðan unnið er að frekari úrræðum, á aðrar sjúkra- og meðferðardeildir spítalans, heim eða á öldrunarstofnanir/endurhæfingu/varanlega vistunarrými í framhaldinu. Slíka greininga/biðdeild hefði fyrir löngu átt að vera búið að byggja og margoft verið bent á sl. ár, tengt miklum almennum skorti á öldrunarvistunarrýmum almennt á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega og miklum fráflæðisvanda bráðamóttöku sem iðulega eru með 30-50 manns á göngunum og sem bíða innlegnar eftir að fyrsta greining og bráðmeðferð er lokið.

Framhald af G álmu t.d. eins og alltaf stóð til fyrir 40 árum, stálgrindarhús- ódýrt hús- og sem þyrfti ekki að taka nema árið að klára og ef vilji væri fyrir hendi. Nýi spítalinn á Hringbraut “nú” kemst heldur ekki í gagnið fyrr en í fyrsta lagi eftir hálfan áratug og neyðarástand ríkir í dag. Reyndar sl. ár og sem stjórnvöld hafa neitað að horfast í augu við!! Auk þess auðvitað að tryggja launakjör starfsfólks svo það fáist til starfa eins og Landlæknir hefur m.a. bent á sem meginástæðu vandans í sinnu rótargreiningu og skýringu á hlutalokunum á almennum deildum spítalans sl. ár. Nauðsynlegt húsnæði þar sem það vantar og viðunandi launakjör.

Eins löngu ljóst að gamli góði Borgarspítalinn verður áfram rekinn í Fossvogi eftir að meðferðakjarni rís á Hringbraut enda allt of lítill miðað við þarfir og þótt upphafleg forsenda framkvæmda þar hafi alltaf verið einn stór spítali á einum stað!!!!!

Eins ríkir mikil óvissa um bráðaaðgengi að nýjum meðferðarkjarna á Hringbraut og eins víst að sjúkraþyrluflugi t.d. verði áfram um langa framtíð best tryggður aðgangur í Fossvogi og þá bráðasjúkrahúsin hvort sem áfram tvö!!!
Segja má a.m.k. að ríkið hafi svikið flest loforð um hlutverk Borgarspítalans eftir yfirtöku frá borginni 1986 og sem byrjaði sína starfsemi svo myndarlega 1967. Mikil skömm af þessu öllu saman í dag.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn