Miðvikudagur 16.6.2010 - 09:01 - FB ummæli ()

Óábyrg heilbrigðisstjórnun

redcrossÞað er með ólíkindum að í dag skuli vera auðveldara að fá þjónustu fyrir bílinn sinn en líkamann sinn. Eins er með ólíkindum að það skuli verða auðveldara að fá grunn heilbrigðisþjónustu á afskktustu stöðum landsins en í sjálfri höfuðborginni. Eins er með ólíkindum að almenningur skuli ekki vera farinn að gera kröfu um eðlilega grunnþjónustu fyrir börnin sín og í raun lágmarks heilsugæsluþjónustu fyrir alla. Eða eru boðleiðirnar upp til pólitíkusanna orðnar allt of langar. Forystumenn stjórnmálaflokkanna láta sig málið í léttu rúmi liggja, ekki síst þeir sem sitja í ríkisstjórninni. Þeir réttlæta allt með frösum um nauðsynlegan niðurskurð, horfa skammt fram á veginn og vísa ábyrgðinni til heilbrigðisráðherra. Jafnvel fagmenn innan stjórnmálahreyfinganna passa sig að láta ekkert í sér heyra. Formaður borgarráðs í Reykjavík og forseti bæjarráðs Kópavogs eru báðir læknar og vita samt vel um vandann. Þeir eru annars vegar í forustusveit Samfylkingarinnar og hins vegar í forustusveit Vinstri  grænna. Og ríkisfjölmiðlarnir þegja þunnu hljóði. Eins og ég hef bent á áður, að þá er það skylda heilbrigðisstarfsfólks, ekki síst lækna að fyrirbyggja fyrirsjáanleg slys og á það ekkert síður við um skipulag heilbrigðismála en slys á fólki, enda er heilsa og líf fólksins í veði.

Frá deginum í dag loka síðdegisvaktir heilsugæslustöðvanna í sumar. Fyrir er búið að skerða þjónustu heilsugæslunnar frá sl. vori. Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verður nú rekin á lágmarks mannafla á daginn enda ekki ráðið í sumarafleysingar. Aðeins bráðari erindum verður sinnt á daginn og öðrum vísað á Slysa- og bráðmóttöku LSH. Þannig sker ríkið nú niður þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu enn frekar en hafði áður sparað með því að skera niður kjör heimilislækna um 30%.

Í sumar verður heilbrigðisþjónustan á höfuðborgarsvæðinu þannig lömuð. Á síðustu stundu ákvað Læknavaktin ehf. að bjarga því sem bjargað varð með því að framlengja samning sinn við ríkið fram til áramóta eftir að hafa fengið langt nef frá heilbrigðisráðuneytinu. Fyrirvaralaust var nefnilega gefið í skyn fyrir nokkrum vikum að ekki yrði samið við Læknavaktina og enn síður til lengri tíma. Leitað yrði annarra leiða til að sinna bráðaþjónustu fyrir heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu á kvöldin og um helgar. Samt eru allir sammála sem kunnugir eru málum, að samningur við Læknavaktina var afar hagstæður fyrir ríkið og Læknavaktin vel rekið heilbrigðis- og þjónustufyrirtæki. Hvar og hvernig ríkið ætlar að koma þessari þjónustu fyrir annars staðar er með öllu óljóst og spurningar vakna hvort ráðuneytið hugsi í raun að leita leiða til að fá starfskrafta erlendis frá til að sinna verkefninu.

Að minnsta kosti eru fagleg sjónarmið heilsusgæslunnar látinn lönd og leið og eftirfylgni með krónískum sjúkdómum gefið langt nef í sumar sem og annarri grunnþjónustu á daginn. Eins möguleikum að farið verði eftir alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum um meðferð sjúkdóma sem gegna ekkert síður mikilvægu hlutverki í heilsugæslunni og leiðbeiningar um góða og eðlilega starfshætti hjá því opinbera. Leiðbeiningar sem ráðamenn ættu að kannast vel við. Atgerfisflótti er engu að síður nú skollin á meðal lækna enda eru skilaboðin til lækna að starfskrafta þeirra sé ekki óskað að óbreyttu. Heilbrigðisráðherra kom síðan fram í fjölmiðlum í fyrradag og hótaði að skerða kjör heimilislækna enn frekar. Hvað á að brjóta og bramla mikið í heilsugæslunni og hvað mun tiltektin og uppbyggingin síðan að lokum kosta? Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er að blæða út, hún er auk þess lömuð og þarfnast bráðahjápar góðra manna strax.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 15.6.2010 - 13:32 - FB ummæli ()

Íslenski fáninn

islenski-faninnÞessa daganna er til umræðu hjá allsherjarnefnd alþingis að breyta íslensku fánalögunum og leyfa fánanum að blakta við hún allan sólarhringinn á sumrin, jafnvel alla daga og síðar jafnvel árið um kring. Flutningsmaður tillögunnar er Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður. En svo segir m.a. í tillögu til þingsályktunarinnar: „Flutningsmaður leggur til það svigrúm að hafa megi fánann uppi allan sólarhringinn yfir bjartasta tímann á sumrin, frá 15. maí til 15. ágúst. Hluta þessa tímabils er sólsetur eftir miðnætti og sólarupprás skömmu síðar. Vera má að í framtíðinni verði grundvöllur fyrir því að afnema með öllu hömlur á því hvenær fáninn megi vera uppi, þ.e. að hann megi þá vera á stöng allan sólarhringinn allan ársins hring“. Og síðar í sömu tillögu: „Á síðustu árum hefur farið fram umræða í samfélaginu um hvort ekki mætti breyta lögunum þannig að unnt yrði að auka frjálsræði um notkun fánans með tilliti til markaðssetningar á íslenskri framleiðslu“.

Alls staðar er þjóðfáni tákn sameiningar. Fáninn sem slíkur varð samt til í upphafi sem stríðsmerki og gaf ákveðin skilaboð og hvatti til samstöðu. Allir á Íslandi þekkja merkingu hvíta fánans og það að fá gula eða rauða spjaldið. Erlendir aðilar hafa notað þessi spjöld mikið á okkur að undanförnu. Merking litanna í íslenska þjóðfánanum eru augljósir eða svo finnst okkur sem erum frekar jarðbundin. Samstaða og standa vörð um landið okkar og þjóð, í blíðu og stríðu. Það er okkar hjartans mál.

Fáni er líka merki um ákveðið vald. Og allir verða að verja fánann sinn. Við Íslendingar erum í raun allir í sama liði en í dægurþrasinu veljum við okkur flokka. Sama á sér stað í íþróttum nema þar sem þjóðernishyggjan nær hámarki í landsleikjum að þá flöggum íslenska fánanum og stöndum saman sem einn maður. Merki er annað en fáni en gefur samt alltaf ákveðinn tón. Flokksmerki, íþróttamerki eða félagsmerki. Allt tengist þetta tilfinningum til hluta og hugsjóna. Gæði og traust. Alvarleikinn er samt aldrei langt undan um stundum er flaggað í hálfa stöng.

Dagurinn er lífið og birtan, nóttin boðar hvíld og ró, líka fyrir þjóðfánann okkar. Eins finnst mér ekki við hæfi að flagga nema á fánadögum og þegar við höfum eitthvert sérstakt tilefni eins og fánalögin segja til um sem sett voru við stofnun Lýðveldisins Íslands, 17. júní 1944. Það eru ekki allir dagar hversdags-dagar. Að flagga á að merkja eitthvað og vekja mann til umhugsunar, ekki síst þegar þjóðfáninn á í hlut. Þjóðfáninn íslenski var ekki hugsaður til hversdagsnotkunar. Það gera hins vegar merki og veifur.

Á sjálfan þjóðhátíðardaginn eru blikur á lofti varðandi EBS aðildarviðræður fullveldisins Íslands í náinni framtíð. Þau sjónarmið verða ekki rædd hér en ef til vill sjáum við fram á breytta tíma í sameinaðri Evrópu enda höfum við takmarkað bolmagn að standa utan við alþjóðasamfélagið í lagarlegum og menningarlegu samhengi. Við höfum heldur ekki staðið okkur of vel í alþjóðlegum viðskiptum og fengið mörg rauð flögg upp að undanförnu. Á þjóðhátíðardaginn flöggum við samt í heila stöng, íslenska þjóðfánanum, og samgleðjumst yfir sameiginlegum markmiðum og hvað íslenska þjóðin stendur fyrir, ekki síst á erfiðum tímum. Það hriktir í lýðveldinu og margir spyrja sig ótal spurninga.

Ég vona að þjóðfáninn okkar verði ekki vanvirtur og verði ekki látinn hanga við hún allt sumarið, dag og nótt, til að þóknast auglýsingamenskunni og gróðrasjónarmiðunum. Það er nóg komið af þeim hugsjónum og við þurfum að efla aðrar. Veifur sóma sér hins vel við heimahús og sumarbústaði, svona til að minna okkur betur á landið góða, alla daga og nætur. En þjóðfáninn sjálfur heilagur og njótum að fá að eiga hann eins lengi og við getum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Laugardagur 12.6.2010 - 10:18 - FB ummæli ()

Sagan endalausa

the_storytellerTjáningarfrelsið og er sennilega eitt það dýrmætasta sem við eigum. Það frelsi er hornsteinn lýðræðisins, en vandmeðfarið. Aðgát skal í nærveru sálar og orð geta sært. Frásögnin er líka  hluti af tjáningunni og það geta orðið til sögur. Börnin eru sérstaklega góðir hlustendur og ævintýr er þeirra uppáhald. Með sögum er lagður grunnur í  þroska þeirra og tjáningu síðar. Þetta köllum við nauðsynleg samskipti og þörf fyrir að miðla reynslu okkar á milli, mann frá manni og frá kynslóð til kynslóðar. Eins til að hjálpa okkur að túlka hugmyndir með orðum sem kvikna innra með okkur. En við segjum ekki allan sannleikann og eigum ekki endilega að gera það. Síðar meir þóknumst viðmælandanum meir og meir, skynjum betur viðbrögðin og metum væntingarnar. Að  því leiti er er frásögn og samræða gagnvirk aðgerð okkar á milli þar sem við tökum tilliti til hvors annars en sagan því sjaldan að full sögð.

Stjórnmálamennirnir eru flinkir að segja sögur og ekki allar sannar. Skáld eru listamenn og geta sagt ósannar sögur á trúverðugan hátt. Skáldverkin eru prjónuð saman úr orðum og hugmyndum. Að lokum verður til ímyndaður heimur lesenda emeð lifandi persónum sem við sjálf sköpum, með túlkun okkar en frumkvæði skáldsins.

Margar furðusögur hafa verið sagðar undanfarin misseri á opinberum vettvangi. Aldrei hefur maður upplifað neitt annað eins og fátt  hefur í raun komið manni meira á óvart. Sumt verulega óþægilega á óvart, næstum eins og að maður hefði ekki viljað heyra tíðindin. Martröð er saga sem maður vildi aldrei heyra en heyrði samt. Hún verður sem betur fer ósönn um leið og maður vaknar. Frásagnirnar í fréttunum urðu líka stöðugt meira íþyngjandi og ætluðu engan endi að taka. Rannsóknaskýrsla Alþingis sagði síðan allt aðra Íslandssögu en okkur hafði verið talin trú um áður, jafnvel þótt við ættum að hafa vitað betur og hlustað á innri rödd. Og enn er ekki búið að segja söguna alla og allir hafa sína sögu að segja í þessu samhengi. Álitamálin virðast óendanleg og skoðanir manna misjafnar. Hvað er efni í sögur, skáldverk eða bara blogg ef ekki þessi efniviður. Við lifum alveg á sérstökum tíma sem Íslandssagan mun aldrei gleyma.

Iðulega reyni ég að fá sjúklingana mína til að tjá sig um það sem þeim býr í brjósti. Stundum er það erfitt og oftast koma frásagnirnar í myndbreyttu formi, en stundum með gráti og eru þá ofast sannar. Aðal málið er að finna rauða þráðinn eða sannleikskornið sem býr að baki frásögninni. Eitthvað sem veldur til dæmis depurð eða kvíða. Ekki leita strax lausna, þær koma síðar og oft af sjálfu sér. Bara frásögnin léttir og raðar hugsunum saman á sinn stað. Svo er manni þakkað kærlega fyrir. Og maður sagði ekker sérstakkt bara hlustaði á söguna. Oft hef ég hvatt skjólstæðinginn að ræða á svipuðum nótum við sína nánustu. Enn það þarf hvatningu. Ýmist gefa menn sér að aðrir hafi ekki tíma til að hlusta eða að þeir vilja ekki ónáða fólk með sínum áhyggjum, þeir hafi nóg með sínar. Frásögnin er samt alltaf saga, túlkun á sannleikanum og lituð af tilfinningum. Blæbrigðin eru þannig mismunandi og hughrif hjá hlutandanum sömuleiðis. En með samræðunni er hægt að komast að einhverju sameiginlegu og þá er takmarkinu náð.

Það er því mikill misskilningur að halda að það sé bögg fyrir góðan hlutanda að hlusta á sögu náungans þótt hún kunni að vera í þyngri kantinum, jafnvel sorgleg og óteljandi óleyst vandamál bíði úrlausna. Þvert á móti, góður hlustandi þrífst af frásögninni og hann fær tækifæri um leið að endurupplifa sína reynslu og miðla henni eða gefi henni nýtt líf. Góður hjúkrunarfræðingur kenndi mér spakmæli sem ég hef oft hugsað um. Mikill þroski og sóknarfæri fellst í að geta heimfært neikvæða reynslu á jákvæðan hátt. Snúa vörn í sókn. Eins og ég hef sagt áður, lífið á ekki að vera létt. Og það á ekki alltaf að vera gaman. Lífið er ólgusjór. En maður á að geta lagt saman góða reynslu og slæma svo út komi eitthvað sem heitir góð lífsreynsla sem fleytir manni langt. Hver dagur er glíma og við eigum að njóta. Sagan verður þannig til og söguna þarf að segja. Ekki endilega um ákveðna menn eða málefni. Lesa í landslagið og túlka. Þess vegna er svo gaman að blogga, frjáls og óháður og helst að meiða engan. Jafnvel þótt samræðan sé aðeins við mann sjálfan, sem er líka hlustandi og við þig lesandi góður. Sagan er endalaus.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

Mánudagur 7.6.2010 - 15:35 - FB ummæli ()

Maðkar

anamadkurNýlega hefur verið fjallað um ræktun ánamaðka hér á landi fyrir bændur, garðáhugafólk og veiðimenn. Ljóst er að þeir auka verulega á frjósemi  fósturmoldarinnar auk þess að vera besta beita sem völ er á. Agn á öngul veiðimannsins. Eins manns dauði annars brauð. Jafnframt getur ræktun þeirra verið atvinnuskapandi og er mjög í anda nýsköpunar á nýja Íslandi. 

Ein af stærri upplifunum mínum í sumar var þegar ég fór í göngutúr einn góðviðrisdaginn í vægri rigningarsúld. Sá ég þá að bæjartúnið var í bókstaflega krökt af ánamöðkum. Ég gat varla stigið niður fæti án þess að kremja aumingjana og varð að stikla á milli þeirra á tánum. Þvílíka mergð af möðkum hef ég aldrei séð og var ekki að dreyma. Tugir ef ekki hundruð við hvet fótmál. Og bara þennan eina dag, ekki daginn áður eða daginn eftir, þótt veðrið hafi verið með svipuðum hætti þá daga einnig. Sennilega hitti ég á sérstakan tíma hjá þeim blessuðum því eitthvert erindi hljóta þeir að hafa haft að koma upp á yfirborðið akkúrat á þessum eina degi og mæla sér mót. Sem betur fer var ég með plastpoka í vasanum og gat á svipstundu tínt upp hundruð til að jarðsetja í nýju garðbeðin heima og sem konan mín hafði beðið lengi að fá orma í. Eins gott að þessum degi verði haldið leyndum svo þeir í túninu verði ekki allir tíndir upp að ári. Þeir fara þá að minnsta kosti ekki á öngulinn á meðan, ormarnir mínir í túninu heima. Svona kemur náttúran manni sífellt á óvart. En allir þurfa að koma fram í dagsljósið fyrr eða síðar og gera hreint fyrir sínum dyrum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál

Sunnudagur 6.6.2010 - 09:45 - FB ummæli ()

Hrun og heilsa þjóðar, fyrr og nú

fánastöngNú nálgast 17. júní, þjóðhátíðardags okkar Íslendinga og visst stjórnleysi ríkir í höfuðborginni. Því verður manni hugsað til sögunnar. Eins hef ég alltaf haft dálæti á íslenska fánanum og ungur lærði ég að umgangast hann af mikilli virðingu hjá skátunum. Síðar fékk ég stundum af flagga á hátíðisdögum hjá afa mínum. Mig hefur reyndar alltaf langað til að eiga fánastöng til að geta flaggað íslenska fánanum þegar það á við. Tvisvar hefur verið flaggað fyrir mér, einu sinni á fermingardaginn minn og einu sinni fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þessar stundir eru mér hjartfólgnar og segja mér að ég tilheyri íslensku þjóðinni. En maður þarf að hafa tilefni til að flagga.

Sagan endurtekur sig oft á mismunandi hátt. Nú eru rétt 300 ár frá mestu hörmungunum í Íslandssögunni. Stórabóla (smallpox) sem oft var kölluð bólusótt, gekk þá yfir íslenska þjóð sem faraldur og felldi þriðjung landsmanna á aðeins tveimur árum. Hrun meðal þjóðar getur vart orðið meira. Flestir á besta aldri. Þá var læknisfræðin ekki komin til landsins í nútímalegum skilningi. Um miðja 18. öld (1760) var landlæknisembættið síðan stofnað með fyrsta læknislærða lækninum, Bjarna Pálssyni og fljótlega fóru undur og stórmerki að gerast og Læknaskólinn í Nesi var stofnaður. Þá gerðu menn mikið gagn úr litlu. Bólusetning sem ónæmisaðgerð var innleidd og sem er enn í dag ein merkilegasta aðgerð læknavísindanna. Í dag óskum við hins vegar eftir eilífðaræsku og erum  meira og meira háð ofvirk þjóðgerviþörfum. Jafnvel tímamótalyf sem voru talin kraftaverkalyf þegar þau komu fyrst fram á sjónarsviðið og lengdu meðalævi manna um 10 ár að meðaltali í hinum vestræna heimi, eru ofnotuð svo þau eru að missa virkni sína. Við treystum sífellt meira á tæknina og vísindin á kostnað mannlegra gilda. Margir telja líka þjóðina ofvirka og skjótráða. Þar sé skýringuna m.a. að finna á óláni þjóðarinnar nú. Sennilega voru það einmitt ólátaseggirnir sem flúðu frá Noreg á sínum tíma frekar en rólyndisfólkið. Nýtt kynningarmyndband ber þessu glöggt merki þar sem mætti ætla að allir sem fram koma séu bullandi ofvirkir eða þá á örvandi efnum eða undir áhrifum íslenskra orkudrykkja sem nú eru mikið auglýstir. Miklum fjármunum er nú varið í kynningarverkefnið fyrir útlendinga af hálfu ríkisstjórnarinnar í þeirri von að það bjargi landinu frá glötun.

Fyrir nokkrum árum töldum við okkur fremst meðal þjóða á flestum sviðum. Sagan segir okkur, engu að síður, að stundum höfum við þurft á hjálp að halda. Áður höfum við jafnvel þurft að gangast undir vald annarra þjóða meðan birti til. Ekki einu sinni ákveðnir heimsfaraldrar gátu tekið hér fasta bólfestu vegna fámennis og dreifðar byggðar eins og hjá öðrum þjóðum, en skullu á okkur með ofurþunga þegar síst skyldi. Bólusótt, svartidauði og berklar sem þrifust best í fátækt og lélegum húsakynnum.

FlorentinoviruelaTalið er að bólusótt hafi borist fyrst til Íslands snemma á 13 öld og síðan gengið yfir sem faraldrar tvisvar til þrisvar á öld. Veikin var alvarlegust hjá fullorðna fólkinu. Af þessu leiti minnir þetta á hlaupabóluna sem getur verið alvarlegur sjúkdómur hjá fullorðnum en yfirleitt vægur hjá börnum, þótt auðvitað bólusótt hafi verið miklu alvarlegri smitsjúkdómur. Vegna fámennis þjóðarinnar náði bólusótt ekki að vera landlægur sjúkdómur hér á landi eins og í öðrum löndum eins og áður sagði. Þá hefði þjóðin sennilega þurft að vera að minnsta kosti helmingi fjölmennari en hún var. Þess í stað gekk hún yfir í faröldrum með löngum millibilum. Ef langt var á milli faraldra veiktust hlutfallslega fleiri og faraldurinn varð skæðari.

1707 – 1709  er talið að allt að þriðjungur þjóðarinnar, 18.000 manns, hafi  hafi dáið úr faraldri af bólusótt sem barst með fötum manns sem dó á leið til landsins. Var faraldurinn einn sá versti í heiminum á þeim tíma. „Svo einkennilega sem það hljómar að þá mátti bæta barnamissirinn með að eignast fleiri börn en fullorðna var ekki hægt að bæta og afleiðingarnar urðu skelfilegar fyrir þjóðina. Mannfallið var einna mest hjá ungu og fullfrísku fólki og því varð mikill skortur á vinnuafli, auk þess sem fólki á barneignaraldri fækkaði mikið og fjölgunin varð því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust víða í eyði. Á árunum fyrir bólusóttina í upphafi 17 aldar höfðu sprottið upp hjáleigur og þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína að miklu leyti á sjósókn en mikill afturkippur kom í þessa þróun með bólusóttinni. Jafnframt urðu breytingar á landbúnaði, nautgripum fækkaði þar sem kúabúskapur var vinnuaflsfrekari en sauðfjárbúskapur og mikilvægi sauðfjárafurða í útflutningi jókst“ (wikipedia-saga Íslands 17 öldin).

Bólusótt hafði þannig gríðarlega mikil áhrif á þróun íslensku þjóðarinnar og áhrif hennar á 18 öldina ásamt móðuharðindunum er sennilega vanmetin í Íslandssögunni. Leitt hefur verið að því líkum að bólusóttin hafi einnig átt ríkan þátt í endalokum þjóðveldisins á þrettándu öld með því að draga svo úr viðnámsþrótti þjóðarinnar að henni var nauðsynlegt að ganga erlendu valdi á hönd. Þannig var hrunið með örðum hætti á Þjóðveldisöld og ekki hægt að jafna við hrunið í dag sem er tilbúið efnahagshrun af okkar eigin völdum, en sem getur engu að síður stofnað fullveldi þjóðarinnar í mikla hættu. Nýir farladrar offitu og krabbameina á okkar öld, ásamt vímuefnavanda og geðsjúkdómum í þjóðfélaginu er mikil áskorun á heilbrigðiskerfið með nýjum og allt öðrum áskorunum.

Árið 1802, aðeins 6 árum eftir að bretinn Edward Jenner sýndi fram á að nota mætti kúabólusmitefni til bólusetningar gegn bólusótt 1796, var tekin upp kúabólusetning á Íslandi. Af tilstuðlan danakonungs sem sá aumur með þjóðinni og hve illa hún hafði farið út úr bólusótt í upphafi aldarinnar og miklu verr en aðrar Evrópuþjóðir, var kúabóluefni útvegað til landsins fyrst þjóða. Á svipuðum tíma eða 1803 var farin fyrsta heimsreisa sögunar í þeim tilgangi að bæta heilsu annarra þjáðra þjóða og sem tók 3 ár en það gerðu Spánverjar til að vernda nýlenduherrana og þræla sína gegn bólusóttinni í Suður- og  Mið-Ameríku  (Balmis leiðangurinn). Vert er að benda á söguna um litlu stúlkuna frá Haítí í þessu samhengi og áþján innfæddra í nýlendunum. Þá var Landlæknisembættið eins og áður segir nýstofnað hér á landi og eitt af fyrstu verkum læknanna sem útskrifuðust úr Læknaskólanum á Nesi var að sjá um bólusetningar hér á landi. Menn geta rétt ímyndað sér hvað sveitasamfélaginu var mikill akkur í því að fá þessa bólusetningu innleidda og sem á næstu öldum smá dró úr möguleikum á nýjum faröldrum (síðasti 1839). Um 1970 var bólusetningunum síðan hætt og 1977 var talið að búið væri að útrýma sjúkdómnum í öllum heiminum, eða svo var talið.

Eftir hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í Bandaríkjunum 2001 fóru af stað sögusagnir um að bólusóttarvírusinn Stórabóla væri enn til á rannsóknastofum stórveldanna og mögulega gætu þessir stofnar komist undir hendur hryðjuverkamanna, sérstaklega í gömlu Sovétríkjunum sem þá voru að liðast í sundur. Aðgerðir ríkisstjórna um heim allan miðuð þá að því fá bóluefni til taks ef á þyrfti að halda m.a. hér á landi þar sem 10.000 skammtar voru fluttir til landsins frá Danmörku.

kranarEfnahagshrunið nú er mjög alvarlegt og kemur a.m.k. fjórðungi þjóðarinnar á vergang í fjárhagslegum skilningi. Angistin í dag er ekki vegna dauðsfalla vina og ættingja vegna smitsjúkdóma heldur óvissu fólks um afkomu sína í framtíðinni og barnanna sinna. Þjóðin hefur aldrei skuldað annað eins og ekkert alvarlegt má upp á í þjóðarbúskapnum til að illa geti farið. Hjákot bankanna eru að tæmast og aftur þurfum við treysta meira og meira á þá ríku, á fiskinn okkar, sauðfjárrækt og nágranalöndin, vinina okkar. Þjóðin er aftur lítil og brothætt.

Samtenging við nútímann er ekkert síður athyglisverð ef við skoðum þann vanda sem maðurinn stendur frammi fyrir í dag. Flestum alvarlegum farsóttum hefur verið rutt úr veigi með bóluefnum um stundar sakir a.m.k. Í vaxandi mæli er farið a bólusetja gegn öðrum algengum sýkingarvöldum sem í flestum tilfellum veldur ekki lífhættulegum sýkingum. Kraftaverkalyfið penicillín, sem kom fram á sjónarsviðið rétt fyrir miðja síðustu öld, gjörbreytti stöðu mannsins gegn algengustu bakteríusýkingunum eins og áður sagði. En Adam var ekki lengi í paradís því að um leið og hægt var að verksmiðjuframleiða penicillínið var farið að ofnota það, jafnvel við kvefsýkingum sem það virkaði ekkert á. Og smá saman urðu bakteríurnar ónæmar fyrir lyfjunum. Ísland er hvað verst statt meðal nágranaþjóðanna í þessu tilliti en allt að 40% algengustu sýkla er með ónæmi fyrir penicillín og helstu varalyfjum. Líklegasta skýringin eru ofnotkun lyfjanna. Og sýklalyfjaónæmið er að verða að helstu heilbrigðisógnum framtíðar að mati Alþjóðlegu heilbrigðisstofnunarinnar WHO. Nú eru að vísu að koma bóluefni gegn sumum af þessum bakteríum sem valda flestum alvarlegum öndunarfærasýkingum og eyrnabólgum og sem geta hjálpað okkur, að minnsta kosti tímabundið. Vandamálið er samt að hluta okkur sjálfum að kenna og í upphafi skyldi endinn skoða.

En nú er öldin önnur og enginn danakonungur til að hjálpa íslenskri þjóð. Við höfum ekki einu sinni efni á að bólusetja börnin okkar gegn þeim sýkingum sem oftast herjar á þau. Nú erum við ekki fyrst þjóða með tímamótabólusetningu, heldur verðum síðust norræna þjóða. En sem betur fer er ungbarnadauði meðal þess sem lægst gerist í heiminum. Þökk sé víkingablóðinu, landinu góða og mæðra- og ungbarnaheilsuverndinni. En botninum er því miður ekki náð.

Ekki hefur verið minnst á aðrar hörmunagar sem gengið hafa yfir þjóðina á undanförnum öldum svo sem móðuharðindin 1783-1785 með Skaftáreldum, einu mesta eldgosi íslandsögunnar. Þá dó fimmti hver Íslendingur úr vesöld og áhrifa harðindanna gætti langt framm á 19 öld. Nú verður okkur hugsað til þeirra tíma í öllu öskufallinu. Hrunið er rétt að byrja og gosið ekki búið!

Fyrstu læknarnir önnuðust starfið sitt vel fyrir rúmum tveimur öldum. Forgangsatriðið var að ná niður ungbarnadauða og bólusetja gegn bólusóttinni sem tókst vel. Lögð var áhersla á að mennta aðrar heilbrigðisstéttir svo sem ljósmæður. Prestarnir hjálpuðu einnig til. Í dag er heilbrigðiskerfið öflugt miðað við í þá daga. En blikur er á lofti og atgerfisflótti er brostin á í stétt lækna. Hætt er að svipað verði upp á teningnum hjá öðru vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólki. Og margir kvarta í dag að geta ekki talað við lækninn sinn.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 1.6.2010 - 16:53 - FB ummæli ()

Borgin mín fríða

800px-Snow_White_and_the_Seven_Dwarfs_1

 Fá hugtök hafa jafn jákvæða merkingu og „fyrramálið“ enda vísar það til nýs dags með öllum þeim möguleikum og væntingum sem nýr dagur hefur upp á að bjóða. Í fyrramálið er maður væntanlega upplagður og úthvíldur. Fullur orku til að takast á við vandamál dagsins. Góðar ákvarðanir ru best teknar að morgni. En fyrst þarf dagurinn í dag að líða. Og svo nóttin. Svo kemur nýr dagur.

Í dag einkennist þjóðfélagsumræðan af vonleysi, skipulagsleysi, iðrun, ásökunum, kæruleysi, þekkingarleysi, stefnuleysi og svartsýni í bland við djók. Hvað er satt og hvað er logið. Orð skulu standa, eða svo var manni kennt, en nú má snúa meiningunni við eftir hentisemi hvers og eins. Ýmist meinar maður eða meinar ekki. Svört kómedía í bland við tregablandinn krimma. Sagan endalausa, enginn dagur og engin nótt. Sagan af Mjallhvíti sem svaf í heila

öld eftir að valdagráðuga stjúpan beitti öllum brögðum til að koma henni fyrir kattarnef, er þó mun sakleysislegri og hægt að segja barnabörnunum dag eftir dag. Það sama verður ekki sagt af raunveruleikanum í dag og sú saga endar ef til vill ekki eins vel. Og sú saga er ekki ævintýri. Hvers eiga börnin okkar að gjalda?

Við viljum nýjan dag, en fáum hann því miður ekki í bráð. Á meðan sefur þjóðin, ekki síst höfuðborgin. Mjallhvít svaf svefninum langa með veika von í brjósti að einhver gæti vakið hana að lokum. Hún var undir álögum og það var eins og tíminn stæði í stað. Það dugði lítið að hafa dvergana, sem reyndar voru sjö en ekki sex, og sem önnuðust hana eins vel og þeir gátu.

Það þurfti alvöru manneskju sem þótt vænt um hana, alvöru prins með alvöru hjarta til að hún vaknaði. Og sá Dagur kom. En ævintýrið heldur áfram hjá okkur í mannheimum.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 25.5.2010 - 09:02 - FB ummæli ()

Að búa í borg en lifa í sveit

Iceland_World_EXPO_2010_ShanghaiÍ gærkveldi fór ég í minn venjulega göngutúr með hundana mína. Það sem var e.t.v frábrugðið því venjulega var að veðrið var einstaklega gott. Kvöldsólin í vestri yfir Snæfellsnesinu og það grillti í tunglið yfir Úlfarsfellinu. Blankalogn og sól á heiði en klukkan samt tveimur tímum fyrir miðnætti.

Mikil óveðursblika hefur verið í lofti í mannheimum sl mánuði. Gosinu er þó sem betur fer lokið, í bili að minnsta kosti. Bæjarstjórnarkosningar framundan en samt veit enginn sitt rjúkandi ráð varðandi málefni okkar mannanna og hvað þeir ætla að kjósa. Hundarnir eru alltaf tryggir vinir og láta sér slíkar áhyggjur í léttu rúmi liggja.

Mér varð hugsi um þau forréttindi, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, að fá að búa á þessu landi, elds og ísa. Í vetur, hvað sem öðru leið, var alltaf gott veður og í fyrsta skipti á ævinni gat ég talið daganna og mánuðina eftir tunglstöðunni hverju sinni. Áramótatunglið var það glæsilegasta og gaf strax fyrirheit um gott ár, en undir vorið hvarf það mér sjónum. Myrkrið er líkla afstætt eins og veðrið og aðeins örsjaldan þurfti ég að grípa í gemsann minn til að gefa mér smá ljósglætu til að geta gengið stíginn minn upp á heiðina góðu. Það er samt hundunum einum að þakka að ég fer þessa göngutúra kvölds og morgna. Örlög frekar en val. Og þvílík örlög. Þvílíkt hundalíf.

Stundum velti ég því fyrir mér hvort það hafa verið örlögin sem réðu því að við fjölskyldan fluttum út í sveit rétt fyrir hrun. Aðrar skýringar eru auðvitað auðfundnar en aldrei hafði ég ímyndað mér fyrirfram, að geta verið kominn upp í sveit rétt norðan við Korpúlfsstaði. Nálægðin við Úlfarsfellið og Hamrahlíðarbjörgin hafa meðal annars þessi áhrif og manni finnst maður jafnvel geta verið kominn í einhvern fjörðinn á Vestfjörðum. Fuglalíf í móum og sjávarfugl í björgum.

Göngustígarnir sem gætu þess vegna verið rollustígar leiða mann um náttúruna og hver kafli hefur sín sérkenni. Þannig er það líka í lífinu. Sumir kaflar taka meira á fótinn en aðrir. Sumir eru um rennislétt tún og mjúkir. Svo koma skurðir og brekkur. Smá grjót og klettar, móar og mýrar. Uppi á heiðinni er víðsýnt og maður horfir yfir sveitina, sundin blá og höfuðborgina samtímis.

Stundum veltir maður líka fyrir sér um gildismatið á búsetunni. Að búa í dýru húsnæði í þröngum miðbænum og njóta þess sem þar býðst í skarkalanum eða búa í sveitasælu í útjaðri höfuðborgarinnar. Gjörólíkir staðir sem báðir bjóða upp sitt, allt eftir því hverju maður sækist eftir. Ósjaldan horfi ég út á Vesturlandsveg og sé þá alla fínu jeppana, sumir með húsvagna, aðrir með kerrur með snjósleða og allt tilheyrandi á leið út úr bænum, eitthvað langt út í sveit þangað sem ég hef aldrei komið.  Sumir hafa allan þann tíma sem þeir vilja en aðrir hafa aldrei þann tíma og flýta sér út úr bænum um leið og þeir geta.

Flestir reyna að sníða sér stakk eftir vexti. Bæjarstjórnir reyna að hlúa á mannlífinu, hver á sinn hátt. Góð bæjarstjórn í þéttbýli reynir að sjá til þess að útivistarmöguleikar séu margir og góðir. Græn svæði og barnvænlegt umhverfi. Samgöngur tryggar og umferðaröryggi í öndvegi. Á annan hátt þurfa sveitafélög í dreifðari byggðum að huga vel að sínum. Tryggja nærþjónustuna og skólastarfið fyrir börnin sem erfa munu landið.  Að sameina andann, hugann, menninguna og náttúruna er alltaf aðal takmarkið og þar höfum við Íslendingar svo sannarlega mikið upp á að bjóða. En skyldum við koma þessu til skila þegar við kynnum landið okkar nú í landkynningunni miklu á vegum ferðamálaráðs og á heimssýningunni EXPO 2010?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist · Vinir og fjölskylda

Miðvikudagur 19.5.2010 - 22:40 - FB ummæli ()

Hvers eiga höfuðborgarbúar að gjalda?

spri_27_1_cover.inddHingað til hefur maður staðið í þeirri trú að heilbrigðisyfirvöld teldu að heilsugæsluþjónustan væri nauðsynlegur hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar, ekki bara úti á landi heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu. Þannig er það að minnsta kosti í nágrannalöndunum. Heilbrigðisráðherra hefur einnig tjáð sig um málið að undanförnu og telur að tryggja þurfi mönnun í heilsugæsluþjónustunni í náinni framtíð, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. En það er ekki allt sem sýnist og oft virðist sem vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir. Geðþóttaákvarðanir virðast þannig ráða oft miklu þegar niðurskurðarhnífnum er brugðið á loft og oft er ekki horft til langtímaafleiðinga og þess kostnaðar sem ótímabærar lokanir og skerðing á þjónustu getur valdið. Skammtímasjónarmið og skammtímasparnaður geta þannig verið dýrkeypt úrræði. Stundum þarf að birgja brunninn á fleiri vígstöðum en í slysavörnum og í sjúkdómavörnum meðal almennings. Heilbrigðiskerfisslys eiga sér líka stað. Það er skylda hvers heilbrigðisstarfsmanns að benda eining á þær slysagildrur sem sjá má fyrir og reyna þannig að birgja brunninn eins og kostur er.

Sl. daga hafa verið kynntar lokanir á ýmsum heilbrigðisstofnunum í sumar. Aðallega er um að ræða stofnanir á höfuðborgarsvæðinu. Geðdeild LSH lokar einni deild í sumar og lokanir verða á Barna- og unglingageðdeild LSH (BUGL). Í gær var kynnt á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að hún ætlar að loka öllum síðdegisþjónustum heilsugæslustöðvanna í sumar. Aðeins bráðustu erindum verður sinnt en öðrum vísað á kvöld- og helgarvaktir Læknavaktarinnar, Barnalæknavaktarinnar og á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Fyrir ári síðan var skorið niður um 20% í móttöku heilsugæslustöðvanna og nú á að skera aftur niður um annað eins. Hvers eiga höfuðborgarbúar að gjalda? Fyrir er veruleg undirmönnun í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu hvað lækna varðar og atgerfisflótti er brostinn á í þeirra röðum vegna kjaraskerðingar og álags. Nýir sjúklingar fá sig ekki skráða á heilsugæslulækni og stór hluti sjúklinga er óskráður á lækni á heilsugæslustöðvunum. Gamla heimilislæknaskráningin á höfuðborgarsvæðinu er við það að springa.

Í sumar verður því engin sjúklingamóttaka á stöðvunum eftir kl. 15. Mönnun verður minni á stöðvunum í sumar enda takmarkað ráðið i sumarafleysingar. Til að bæta gráu ofan á svart er Læknavaktin auk þess samningslaus frá sumri og óvíst er með áframhaldandi rekstur. Allir geta því séð í hvaða óefni stefnir hér á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Fyrir er álagið á Slysa- og bráðamóttöku mjög mikið eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að undanförnu og hjá formanni Læknafélags Ísands og ekki er séð hvernig anna á álaginu. Meirihluti heilbrigðisþjónustunnar á höfuðborgarsvæðinu stefnir því í að verða neyðarþjónusta og skyndiþjónusta á kvöldin og um helgar. Eftirfylgni með krónískum sjúkdómum og langveikum verður í lágmarki. Geðsjúklingar verða látnir sitja á hakanum og gamla fólkið og fatlaðir sem geta beðið, verður boðið að koma til eftirlits með haustinu. Klínískar leiðbeiningar um góðar ávísanavenjur í heilsugæslunni m.a. á sýklalyf sem skrifað er um í ritstjórnargrein í júníhefti Norræna heimilislæknablaðsins SJPHC verða væntanlega látnar sitja á hakanum. Á skyndivöktunum er hins vegar hver mínúta dýr, öllum sem þangað leita og starfa. Sjúkdómarnir láta ekki bíða eftir sér og sjúklingar munu leita ráða í löngum biðröðum eða þeir einfaldlega bíða heima í þeirri von um að þeim muni batna sem þeir eflaust gera í mörgum tilvikum, en ekki öllum. Maður lokar ekki á nauðsynlega heilsugæsluþjónustu langtímum saman á annan hátt en það hafi alvarlegar afleiðingar í för með sér. Og skilaboðin eru misvísandi, hvenær er þjónustan nauðsynleg og hvenær er hún ekki nauðsynleg? Hvar á fyrsti viðkomustaður sjúklings helst að vera? Sennilega verður hægt að fá betri þjónustu víða út á landi. Höfuðborgin stendur ekki undir nafni hvað heilbrigðisþjónustna varðar í sumar, svo mikið er víst.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 18.5.2010 - 22:47 - FB ummæli ()

1+1=2

nýju lyfinMikill skjálfti virðist kominn í lyfjaframleiðendur erlendis ef marka má fréttir síðustu daga. Haft er eftir framkvæmdastjóra lyfjarisans Roche að íslenski örmarkaðurinn sé það lítill að hann skipti fyrirtækið ekki máli og það íhugi að hætta sölu lyfja til landsins vegna óstöðugs lyfjaverð á algengustu lyfjum. Eins er farið er að bera á því að lyfjafyrirtæki hætti við að skrá ný lyf á markað hér á landi þar sem stjórnvöld voru ekki tilbúin til að borga sambærilegt verð og fæst fyrir lyfin á hinum Norðurlöndunum, segir Jakob Falur Garðarsson, framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka framleiðenda frumlyfja og fram kom í Fréttablaðinu í morgun. Fulltrúi íslensku lyfjaframleiðendanna tekur þannig í sama streng og fulltrúi lyfjarisans og kvartar undan að lyfjaverð hér sé að meðaltali um 6.5% lægra en á hinum Norðurlöndunum og sé þannig orðið óeðlilega lágt. Það sem ekki er sagt er, að lyfjaverð hefur náðst niður með bestukaupalistum Sjúkratrygginga Íslands þar sem lyfjafyrirtækin eru látin bjóða í markaðinn hverju sinni. Hver getur kvartað yfir nokkra milljarða króna sparnaði  fyrir ríkið í lyfjum þegar flestir fá sín nauðsynlegustu lyf. Markaðurinn þarf auðvitað að aðlaga sig af aðstæðum hvrju sinni. Vandamálið hefur hins vegar verið meira að innflytjendur og framleiðnedur hafa oft ekki tryggt að lyfin séu til á markaði hverju sinni og því síður sem þau eru ódýrari til að geta grætt sem mest. Jafnvel nauðsynleg lyf hefur s+árlega vantað og engin sambærileg lyf til, vikum og mánuðum saman. Á þetta hefur margsinnis verið bent hér á blogginu mínu um lyfjamál. Stungið hefur því verið upp á að ríkið sjálft annist innflutning lyfja beint og milliliðalaust og endurveki jafnvel upp Lyfjaverslun Ríkisins. Um atvinnuskapandi atvinnurekstur gæti verið að ræða auk íslenskrar framleiðslu eins og tíðkaðist áður t.d. með vökva og næringu í æð, í stað þess að flytja vatnið í pokum til Íslands eins og Ólafur Þór Gunnarsson benti nýlega á í bloggfærslu sinni.

Vandamálið er auðvitað mikil samkeppni um lyfjamarkaðinn og það er ekki gáfulegt að við á litla Íslandi séum að blanda okkur um of í þann leik við ríkjandi aðstæður. Betra væri því að við værum í samfloti með nágranaríkjunum og leituðum tilboða hverju sinn til lengri tíma. Annað vandamál sem snýr að umræðunni í dag og tengist ekki samheitalyfjunum, er að oft getum við notað aðeins eldri lyf sem koma að sama gagni og í sumum tilvikum að meira gagni. Sterk lyf hafa oft óþarflega kröftuga verkun sem getur komið fram með aukaverkunum síðar. Þekktast er dæmið um vinsælasta en um leið lang dýrasta magalyfið sem nú þarf lyfjakort á til að fá. Flestir fá fráhvarfseinkenni ef þeir hætta snögglega á því lyfi og önnur mildari koma þannig oft að betra gagni gagnvart einkennum en valda síður fráhvarfseinkennum. Sjónarspil getur verið með mismunandi verkun á geðlyfjum þar sem verðmismunur er margfaldur. Astmalyfin eru mikið til umræðu nú og margir finna að því að nú þurfi lyfjaskírteini á samsettu lyfin sem eru margfalt dýrari. Um 50.000 kr mun getur verið að ræða fyrir ríkið í hverri ávísun hvort þessi lyf eru notuð eða nánast sömu lyf sem eru gefin í sitt hvoru lagi og sem koma flestum að sama gagni. Auk þess er lyfjaheldni og skilningur sjúklings oft meiri á verkun lyfjanna ef ekki er verið að blanda saman ólíkum lyfjum í eitt lyfjaform. Lyfjaframleiðendur eru hins vegar súrir og því miður sumir læknanna sem eru að því er virðist ekki tilbúnir til að spara þessar upphæðir fyrir ríkið. En einn plús einn eru alltaf tveir hvernig sem litið er á málin og hvað sem hver reiknar.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Föstudagur 14.5.2010 - 14:01 - FB ummæli ()

Tómu húsin

gamalt húsÞað er ekki laust við að maður fyllist ákveðinni svartsýni og kvíða á þessum svarta föstudegi þegar yfir okkur rignir eldi og brennisteini og sem nú nálgast sjálft höfuðborgarsvæðið. Sumir hafa þurft að yfirgefa húsin sín á suðurlandi sl. vikur, ekki síst undir Eyjafjöllum. Mikill fjöldi húsa og íbúða standa hins vegar yfirgefin og tóm þessa daganna af allt annarri ástæðu og bíða nýrra eigenda. Þar er ekki um að kenna náttúruhamförum, heldur hörmum okkar sjálfra.

Gömul hús hafa staðið auð víða á landsbyggðinni lengi, ein og yfirgefin en sem fá menn til að staldra við á ferðalaginu. Þau segja mikla sögu. Sögu um fyrri eigendur og meira um líf þeirra en legsteinninn eða krossinn á leiðinu í sveitakirkjugarðinum Bygging jafnvel steinhús í svita síns erfiðis, til að búa fjölskyldunni betra líf. Tilfinningar sem vakna þegar hugsað er um uppeldi barnanna, gleði og sorgir í lífinu.

Nú standa hins vegar önnur og glæsilegri hús tóm. Jafnvel heilu blokkirnar víða um land, nýbyggðar og nýtískulegar og sem eiga sér jafnvel enga sögu um einstaklinga, en samt allt aðra sögu. Eigendurnir, sem í flestum tilvikum eru nýju bankarnir, bíða nú aðeins eftir því að fjársterkir aðilar kaupi þau. Hvaðan þeir fjársterku aðilar eiga að koma er svo annað mál. Og ástandið er rétt að byrja. Hljómar heldur ópersónulega þegar um er að ræða sjálf híbýli manna sem geta ekki frekar en skepnurnar verið án húsaskjóls sem oft sárlega vantar. Við höfum jú ákveðnar lágmarks grunnþarfir og á þeim byggist framtíð okkar og til að hægt sé að tryggja velferð barnanna sem eiga að erfa landið.

Heilu fjölskyldurnar eru nú líka reknar úr húsunum sínum, enda fjórðungur fjölskyldna í landinu gjaldþrota. Þeirra bíður þrautarganga og ölmusuleið um ókomin ár. Heilu bújarðirnar úti á landi eru að flosna upp af kröfu bankanna. Ábúendur flæmdir af jörðum sem þeir eiga ekki lengur en sem gengu jafnvel í arf, mann fram að manni, allt frá því á landnámsöld. Stórhöfðingjar og stóreignamenn sem jafnvel áttu heilu sveitirnar tryggðu þó ábúendum búseturétt í sveitinn hér áður fyrr. Fjársterku aðilarnir í þá daga.  

Og svo er það gamla fólkið sem man tímanna tvenna og nú reyndar þrenna. Það tapaði líklega mest í hruninu, oft öllum ævisparnaðinum. Sumir höfðu náð að spara vel til ellinnar með kaupum í bankabréfum, en sem síðan var rænt frá þeim og gott betur með svikum og prettum. Stórum hluta af skyldulífeyrissparnaðinum var líka rænt frá þeim á sama hátt. Margir hjálpuðu sínum nánustu og gáfu veð í eignum sínum, en standa nú uppi allslaus í staðinn. Það fólk er jafnvel komið á vergang í dag og búið að missa húsin sín. Fólk sem nær sennilega ekki að lífa nógu lengi til að endurheimta traustið, jafnvel til náungans, sem þeim var samt í blóð borið í æsku. Sumir kvíða þannig aðeins aðstæðum í ellinni, að fá ekki húsaskjól, bað og kaffi síðustu aldursárin.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn